Gunnar Rögnvaldsson

Seðlabankinn og þjóðfélagið

Hugleiðingar í tilefni af linnulausum árásum á Seðlabanka Íslands og íslensku krónuna

Þokan í Frankfurt er mér minnisstæð því þar fór grátt í grátt svo oft saman og hljóp síðan yfir í blýgrátt við enda dagsins. Ég er að tala um gráu þokuna og gráu steinsteypuna við innkeyrsluna í þýska seðlabankann, Deutsche Bundesbank. Gráar Mercedes Benz bifreiðar komu brunandi upp að varðskýlinu sem ennþá er þarna fyrir framan þennan gráa seðlabanka Þýskalands. Enginn vissi hvort nokkur væri inni í þessum gráu bifreiðum því rúðurnar voru svo dökkar. En stuttu seinna komu nokkrir gráir menn í gráum jakkafötum fram í sjónvarpinu og sögðu aftur nei. Þetta endurtók sig mörgum sinnum í nokkur ár. Nei, nei, engin stýrivaxtalækkun núna. Þetta var bankinn sem gárungarnir kölluðu Bunkersbankann, með tilvísun í sprengjuheld þýsk steinsteypubyrgi úr fyrri styrjöldum sem hafa verið ekki svo fátíðar á þessum slóðum hin síðustu hundrað ár. Nei og aftur nei. Allir biðu í eftirvæntingu, en enginn vissi neitt eða gat gert neitt. Hvað munu þessir gráu menn í þýska seðlabankanum gera núna? Munu þeir lækka vextina?

Núna eru engar fréttamyndavélar sem taka mynd af einu né neinu við þennan seðlabanka Þýskalands. Það er vegna þess að hann er búinn að missa það sem honum var svo kært og sem hann varðveitti ef til vill betur en nokkur annar seðlabanki hefur gert, og oft undir erfiðum aðstæðum. Hann missti myntina sína.

Elsti starfandi seðlabanki heimsins er sænski seðlabankinn, Sveriges Riksbank, sem tók til starfa árið 1668. Völd og áhrifamáttur seðlabanka heimsins eru oft stórlega ofmetin. Þá er ekki hægt að segja með vissu að árangur í baráttunni gegn verðbólgu sé meiri eftir að það komst í tísku að seðlabankar yrðu sjálfstæðar og óháðar stofnanir. En þegar illa tekst til við stjórn efnahagsmála er það yfirleitt lenska alls staðar að kenna seðlabönkunum um ófarirnar. Þegar vel tekst til eru það hins vegar ríkisstjórn, atvinnulífið og fyrirtækin sem fá þakkirnar

Seðlabankar gegna mjög mikilvægu hlutverki. Tilvist þeirra er jafnan til vitnis um að viðkomandi ríki sé með sjálfstæða mynt í notkun. Hlutverk seðlabankans er að gæta myntarinnar. Þess vegna þarf að hlúa vel að seðlabankanum því það þýðir að hlúð er vel að mynt landsins. Hlutverk seðlabanka getur því aldrei verið ofmetið. En völd hans eru iðulega ofmetin.

Bókavinur minn André Kostolany

Ég hef lesið margar góðar bækur um ævina. Sumar hafa verið góðar en leiðinlegar. En aðrar hafa verið það skemmtilegar og jafnvel það góðar að ég hef lesið þær aftur og aftur. Þegar ég rekst á bækur sem reynast mér svona vel fer ég smám saman að kalla höfundinn bókavin minn. Einn slíkur er Ungverjinn André Kostolany. Hann fæddist í Búdapest í Ungverjalandi árið 1906 og lést í París árið 1999, 93 ára að aldri.


Upphaflega ætlaði André að verða listfræðingur og heimspekingur. En föður hans leist ekki á það og sendi því soninn í læri í kornkauphöllina í París í Frakklandi. Um þær mundir var kornkauphöllin í Ungverjalandi sú stærsta í heiminum. Engu að síður var André komið fyrir í læri hjá fjölskylduvini í kornkauphöllinni í París. Þetta varð upphafið á 70 ára ferli André sem miðlari, verðbréfasali og fyrst og fremst sem spekúlant af Guðs náð.

Á fyrsta vinnudegi kom gamall og reyndur maður til André til að segja honum að það væri aðeins eitt sem hann þyrfti að vita til að ná árangri í kauphöllinni: Í hverra höndum eru bréfin? Eru þau í höndum kjána eða hinna harðsoðnu? André gerði mikið úr því að vera fyrst og fremst spekúlant og ekki fjármálamaður eða hagspekingur. Spekúlant var heiðursnafnbót, sagði André, því fjármál, hagspeki og fjármálagerningar eru fyrst og fremst handverk og list en ekki vísindi. André átti árum saman fast pláss í þýska tímaritinu Capital. Þar skrifaði hann um 400 greinar, auk þess sem hann gaf út 13 bækur. Hann var mikill bókamaður og átti stórt bókasafn.

Þegar ráðstefna ríkustu þjóða heimsins (G5 eða 7) var eitt sinn haldin í Frankfurt, fjármálahöfuðborg Þýskalands, fór hún fram í hátíðarsal vísindaakademíunnar. En þetta fannst André gersamlega óviðeigandi, ráðstefnur um efnahags og fjármál þjóða ætti að halda í húsakynnum listaakademíunnar, þar ættu svona ráðstefnur heima! Þetta hefur ekkert með vísindi að gera, sagði André. Að sumu leyti er hægt að samsinna þessu sjónarmiði Andrés. Hagfræðin hefur ekki ennþá getað útskýrt, með hjálp vísindaaðferða, hvað gerði það að verkum að við urðum jafn rík og raun ber vitni. Hvað kom hagvexti af stað eftir 15.000 ára jafnvægi steinaldarsamfélagsins? Og hvað fékk hagvöxt og alþjóðaviðskipti síðar meir til að stöðvast öldum saman?

Ein frægasta spekúlasjón André átti sér stað þegar Ronald Reagan og Michail Gorbatjov hittust í Höfða í Reykjavík árið 1986. Þá sat André eins og venjulega í hægindastólnum í bókaherberginu sínu, las blöðin og hlustaði á útvarp. Hvaða þýðingu hafði þessi fundur risaveldanna í Reykjavík? André velti vöngum alllengi. Loks tók hann upp símann og hringdi í kunningja sinn sem starfaði við kauphöll eina í Evrópu. „Áttu eitthvað til sölu af skuldabréfum rússneska keisarans frá árunum 1822 til 1910?“ spurði hann. Kunninginn efaðist stórlega um geðheilsu André. Eftir rússnesku byltinguna hafði Vladimir Lenín nefnilega tilkynnt umheiminum að hin nýju Sovétríki myndu ekki taka á sig ábyrgðir hins fallna rússneska keisaradæmis. Ríkisskuldabréf þessa fyrrverandi ríkis voru því fallin svo mikið í verði að þau gengu á 0,25% af nafnverði. Þessi skuldabréf keypti André Kostolany í stórum stíl stuttu eftir fundinn í Höfða. Af hverju? Jú, ég þekki mína menn, sagði André. Ég spái því að samskipti Sovétríkjanna og Bandaríkjanna fari batnandi og Rússa vanti peninga þegar að enduruppbyggingu kemur. Þá munu mínir menn í Frakklandi og Evrópu segja: Það er sjálfsagt að hjálpa, en kæru vinir, hvað með gömlu skuldirnar? Fyrst verðið þið að hreinsa upp gömlu skuldirnar, áður en þið getið vænst hjálpar frá okkur. Þetta varð raunin og André fékk 12% af nafnverði fyrir bréfin sem hann keypti á 0,25%. Miklu meira en hann hafði gert ráð fyrir að Sovétstjórnin myndi samþykkja.

Svona fæddust spekúlasjónirnar í huga Andrés Kostolanys. Mikilvægustu verkfæri hans voru heilinn og reynslan. André hafði ekki mikið álit á gulldrengjum hlutabréfamarkaðarins. Þeir eru spilafíklar, sagði hann. Árangur þeirra er enginn til lengri tíma litið.

Seðlabankinn og gjaldþrot ríkja

Þegar André Kostolany vann sem verðbréfasali hjá þekktu bandarísku fjármálafyrirtæki í París sinnti hann mörgum frægum og sérvitrum viðskiptavinum. Einn þessara erfiðu viðskiptavina keypti oft frönsk ríkisskuldabréf. Hann krafðist þess alltaf að André sæi um þau kaup. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hann treysti ekki franska ríkinu. Hann vildi að André skrifaði undir sem ábyrgðarmaður ef svo færi að franska ríkið yrði gjaldþrota og ófært um að greiða skuldabréfin. Þetta gerði André Kostolany með glöðu geði. Af hverju gerði hann það? Jú, sagði André, ríki fara ekki á hausinn, þau fella bara gengið!

André Kostolany var viss í sinni sök. Engin ríki munu gera sig gjaldþrota. Þau munu fella gengið, sama hvað hver segir. Fella gengið og þannig vinna sig út úr vandræðum. En hvað skyldi André Kostolany hafa gert í dag? Hefði hann þorað að skrifa uppá fyrir franska ríkið? Núna getur franska ríkið nefnilega ekki fellt gengið. Það er horfið. Það fór með seðlabankanum. Seðlabanki Frakklands er ekki lengur við lýði. Hann er farinn úr landi – og þar með erum við komin að kjarna þessarar greinar. Hvað gerist þegar virkur seðlabanki þjóðfélagsins deyr?

Þegar seðlabankinn í Danmörku fór til Þýskalands

Hvernig þætti þér lesandi góður að búa við vaxtastig og lánskjör sem eru ekki í neinu samhengi við hinn efnahagslega raunveruleika í því þjóðfélagi sem þú býrð í, starfar eða rekur fyrirtæki? Hvorki í samhengi við verðbólgustig, atvinnustig, eftirspurn, framboð né gengi gjaldmiðils þíns? Eina samhengið sem þú gætir fundið við raunveruleikann væri eitt orð á blaði – „fastgengi“. Þetta gerðist í Danmörku árið 1982. Þá var ákveðið með einu pennastriki að afnema hinn efnahagslega raunveruleika, ef svo má segja, og taka upp efnahagsstjórn sem mætti líkja við það að aka bifreið án útsýnisglugga. Þeir gangandi vegfarendur sem yrðu á vegi manns yrðu keyrðir miskunarlaust niður. Öðru hverju myndi maður stoppa til að athuga hvort maður væri á réttri leið samkvæmt stöðu á staðsetningartæki í bifreiðinni.

Það var svona sem hagstjórnin var í Danmörku á upphafsárum hinnar svokölluðu fastgengisstefnu og á þeim næstu 15 árum sem fylgdu. Með einni pólitískri ákvörðun var mælt svo fyrir, að gengi dönsku krónunnar ætti að fylgja gengi þýska marksins. Til þess að svo gæti orðið þurftu stýrivextir að vera svo miklu hærri en þeir annars hefðu þurft að vera, því það var hátt stýrivaxtastig sem átti að verja þessa einhliða bindingu við gjaldmiðilinn í Þýskalandi og átti að sjá til þess að það kæmi sem mestur erlendur gjaldeyrir í gjaldeyrisforðann í Danmörku, sem svo var notaður til þess að kaupa og selja krónur og erlendan gjaldeyri til varnar „föstu gengi“ við Þýskaland. Seinna meir varð þessi binding gagnkvæm.


Fyrstu 7 árin, frá október 1983 fram til mars 1990, voru stýrivextir fastir 7,5%. Það var sem sagt engin stýrivaxtabreyting í heil 7 ár. Afleiðingarnar voru hörmulegar. Árið 1982 var ekki gott efnahagsástand í Danmörku. Olíukreppa hafði leitt til verðbólgu og stöðnunar og mikils halla á greiðslujöfnuði. Gegndarlaus skuldasöfnun og eyðslusemi ríkisstjórnar Ankers Jørgensens gerði illt verra. Við upphaf fastgengisstefnunnar voru um 250.000 Danir atvinnulausir. En 12 árum seinna voru þeir orðnir 350.000 talsins. Þær skatttekjur sem hefðu getað komið frá þessum 250–350 þúsund einstaklingum hefðu nægt til þess að greiða vexti af öllum erlendum skuldum danska ríkisins. Mest varð atvinnuleysið árið 1994 þegar 12% vinnufærra manna þáðu atvinnuleysisbætur frá ríkinu. Verðbólgan á þessum tíma var aðeins um 1,5%. Enginn hafði efni á því að kaupa vörur og þjónustu og fyrirtæki í þeim geira lögðu unnvörpum upp laupana. Samkeppnin varð svo hörð að eftir stóðu aðeins tvær keðjur í matvöruverslun. Síðan hefur fákeppni verið ríkjandi á flestum sviðum verslunar og þjónustu. Þótt verðbólga væri aðeins 1,5% voru stýrivextir árum saman á bilinu 9–11%. Allt tímabilið 1982–1996 voru stýrivextir í Danmörku nánast í engu samræmi við verðbólgu í landinu. Engu var hægt að stýra nema með aðgerðum í ríkisfjármálum og höftum frá yfirvöldum. Lánafyrirgreiðsla var mjög erfið því vextir voru svo háir að arðsemi fjárfestinga gat ekki borið þessa vaxtabyrði. Fjárfestingar drógust saman og neysla minnkaði, því laun voru frosin föst vegna offramboðs á vinnuafli. Öllu var stýrt með álögum, refsingum og afskiptasemi ríksins sem þandist út eins og stór blaðra. Í þessu ferli urðu til svo mörg „léleg“ störf og „léleg“ afleidd störf að það hefur heft stórkostlega allan hagvöxt allar götur síðan.

Það er mín skoðun og persónuleg reynsla sem atvinnurekandi í Danmörku að á þessum árum hafi danskt þjóðfélag verið stórskaðað til langframa. Enda hefur Danmörk hrapað neðar og neðar á skala OECD yfir ríkustu þjóðir heims. Hagvöxtur Danmerkur síðustu 14 árin er sá sjötti lélegasti í OECD.

Eyðileggingin er núna komin vel í ljós, varanleg framfærslubyrði hins opinbera er mörgum sinnum þyngri en ella hefði verið, því atvinnuleysið hafði þau áhrif að ýta þurfti miklum fjölda fólks út af vinnumarkaðnum og yfir í allskonar kassageymslur hins opinbera. Fólki var „kennt“ að vera atvinnulaust og það var farið að líta á atvinnuleysi nánast eins og nýjan lífsstíl. Fyrir vikið hefur vinnuafl Danmerkur minnkað varanlega. Það lítur að sjálfsögðu vel út á pappírnum, því opinbert atvinnuleysi er minna í prósentum. En afleiðingin er sú að þjóðarframleiðslan getur varla aukist þegar atvinnuástand batnar og eftirspurn eykst eftir þeim vörum og þjónustu sem þjóðfélagið framleiðir. Jafnframt er erfitt um vik að lækka tekjuskatt á einstaklinga sem er ennþá sá hæsti í heimi. Vélin í samfélaginu var minnkuð, þ.e.a.s. vöðvaafl samfélagsins var minnkað varanlega með fastgengisstefnunni. Visnari samfélagsvöðvar þurfa að draga stærra hlass sem er hinn stóri opinberi geiri og risaútgjöld hans. Fyrir vikið getur þjóðfélagsvélin heldur ekki nýtt sér uppsveiflur eins og kostur er því þá ofhitna þessir visnu vöðvar of mikið og skapa meiri verðbólgu og nýtt launaskrið. Það sitja núna of margir í aflvana rútunni. Vélin hikstar og ofhitnar of fljótt þegar gefið er í meðan það ríkir meðbyr. Þetta er ekki ósvipað því að sitja í skipi á strandstað og ætla að koma sér á flot með því að henda vélinni fyrir borð.

. . . og Færeyjar einnig – nálægðin við samfélagið


Svo sannarlega eru seðlabankar mikilvægir. En þeir eru það þó einungis ef þeir hafa eigin mynt til að drottna yfir. Án eigin myntar og án eigin stýrivaxta eru seðlabankar ekki mikils virði. Þetta kom glöggt fram í frásögn færeyska hagstofustjórans Hermanns Oskarssonar, en fyrir stuttu hélt Hermann fyrirlestur á Íslandi um kreppuna í Færeyjum sem hófst í byrjun tíunda áratugarins og lauk ekki fyrr en tuttugu árum síðar. Eitt aðalvandamál Færeyinga í þessari kreppu var að ekkert höfðu þeir gengið, ekkert var stýrivaxtavopnið og ekkert var hægt að gera annað en að borga reikninginn við búðarkassa númer eitt. Færeyingar voru ofurseldir dyntum danska seðlabankans sem einnig átti í stórkostlegum vandræðum með danskan efnahag á þessum árum. Fyrir Færeyinga voru stýrivextir og gengi úr sambandi við efnahagslegan veruleika og þarfir þeirra næstu sjö árin. Seðlabanki Færeyja gat ekkert aðhafst. Þess vegna varð kreppan Færeyingum svo langvinn sem raun bar vitni og dýrkeypt reynsla. Hermann Oskarsson segir að staða Íslands sé mun betri en Færeyja því styrkur Íslands felst í því að hafa eigin gjaldmiðil, eigin stýrivexti og gengi eigin gjaldmiðils. Krónan er ykkar styrkur, segir hann.

Til varnar stefnu seðlabanka á opinberum vettvangi

Það er hlutverk flestra seðlabanka að verja peningastefnu bankans með kjafti og klóm, þ.e. í orði og með þeim verkfærum sem eru í verkfærakassa bankns og sem rúmast innan peningastefnunnar. Þessi vörn felst ekki einungis í því að sitja inni á skrifstofu bankans á fundum með hagfræðingum hans og á fundum í stjórn og ráðum bankans. Nei, sterk vörn peningastefnunnar krefst þess að seðlabankastjóri tali til stjórnmálamanna og til samfélagsins og fjölmiðla þess. Hann á að tala skýrt og ákveðið sé tilefni til þess og til allra þeirra sem eru að reyna að grafa undan stefnu seðlabankans, sér meðvitandi eða ómeðvitandi. Þetta þýðir óhjákvæmilega að oft stendur styrr um seðlabanka og stefnu þeirra. Oftar en ekki vekja ummæli seðlabankastjóra mikla athygli og gagnrýni. Stundum kemur til harðra átaka milli seðlabankastjóra og ráðandi afla í stjórnmálum og atvinnulífi. Hér á eftir verða rakin nokkur dæmi um það.

Einar frægustu skylmingar seðlabanka við stjórnmálamenn í seinni tíð eru slagsmál þýska seðlabankans við ríkisstjórn Þýskalands. Þessi slagsmál áttu sér stað þegar efnahagur Austur og Vestur Þýskalands var sameinaður. Þá kom upp mikill ágreiningur milli þýska kanslarans og stjórnar seðlabankans. Hinn 30. mars 1990 mælti seðlabanki Þýskalands með því að gengi austurþýska marksins (GDRmark) yrði metið þannig að það fengist eitt Dmark fyrir hver tvö GDRmörk. Þessu var hafnað 1. apríl og hinn 2. maí var gengið sett fast á 1:1 fyrir fjármuni allt að 6.000 GDRmark og 1:2 fyrir hærri upphæðir. Seðlankinn beið lægri hlut. Þýski seðlabankinn hafði lagt mikla áherslu á að það yrði að auka samkeppnishæfni AusturÞýskalands og hindra verðbólgu. Með því að meta virði austurþýska marksins einungis til helmings á við vesturþýska markið myndu skapast tækifæri fyrir fyrirtæki, framleiðslu og þjónustu í AusturÞýskalandi og komið yrði í veg fyrir verðbólguþrýsting.

Yfirleitt hefur almenningur í Þýskalandi alltaf tekið undir og stutt málstað þýska seðlabankans gegn stjórnmálamönnum, þ.e. almenningsálitið hefur verið bankanum mjög hagstætt. En svo varð ekki í þessu mikilvæga tilfelli. Hér unnu sjónarmið Helmuts Kohls kanslara og ríkisstjórnar hans sér miklu meiri hljómgrunn en varfærin stefna seðlabankans. Deutsche Bundesbank tapaði slagnum og allir þekkja hinar hörmulegu afleiðingar þessa. Atvinnuleysi og eymd varð allsráðandi í AusturÞýskalandi og er það ennþá 18 árum seinna. Öll Evrópa leið undir gerræðislega háum stýrivöxtum þýska seðlabankans sem þurfti einmitt að kljást við þann verðbólguþrýsting sem hann varaði svo mjög við. Öll Evrópa saup seyðið af þessu því stjórnmálamenn þröngvuðu þýska seðlabankanum til að grípa til örþrifaráða.

Hinn 20. mars 1991 lýsti bankastjóri Deutsche Bundesbank, Karl Otto Pöhl, yfir því að hugmyndir og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um myntbandalag væru vitfirring og til vitnis um endalausa röð af mistökum Evrópusambandsins og sjónhverfingar einar. Hann kvað ríkisstjórn Þýskalands bera ábyrgð á því að hagkerfi fyrrverandi AusturÞýskalands lægi í rúst. Allar hugmyndir um myntbandalag væru ótímabærar og óraunhæfar.

Nokkrum árum seinna, eða í maí 1997, voru átök Kohls kanslara og þýska seðlabankans enn í brennidepli. Fjölmiðlar sögðu að seðlabankinn hefði „kastað kjarnorkusprengju“, svo alvarleg voru slagsmálin, enda hélt seðlabankinn því fram að vegið væri að sjálfstæði hans. Hér var það gullforði Þýskalands og væntanlegt myntbandalag og evran sem voru þrætueplið. Kanslarinn hafði krafist þess að seðlabankinn endurmæti bókfært verðmæti gullforða seðlabankans.
Kanslarinn hélt því fram að gullforðinn væri meira virði en seðlabankinn taldi. Tilgangurinn var að láta ríkisfjármál Þýskalands líta betur út á pappírnum en bókhald seðlabankans sýndi. Það var nefnilega hætta á að Þýskaland kæmist ekki með í myntbandalagið vegna þess hve illa stödd ríkisfjármálin voru, þ.e.a.s að Þýskaland sjálft myndi ekki uppfylla inngönguskilyrðin inn í myntbandalagið. Ef svo yrði, þá myndi myntbandalagið sennilega hrynja áður en evran kæmist í umferð. En í sjálfu Þýskalandi voru kjósendur farnir að kenna áætlunum um sameiginlega mynt um hið háa atvinnuleysi í landinu. Í þessu efni treysti almenningur seðlabankanum betur en stjórnmálamönnum og studdi því bankann. „Þetta eru meiri og verri sjónhverfingar en átt hafa sér stað í hinum löndunum sem ætla að taka upp evru,“ sagði í yfirlýsingu seðlabankans.

Í danska þinginu 22. mars 2000 var til umræðu fyrirspurn til efnahagsmálaráðherra Danmerkur, Marianne Jelved, frá þingmanninum og þjóðhagfræðingnum Frank Dahlgaard:

„Getur ráðherrann staðfest að mynt Evrópusambandsins, euro, sé fyrst og fremst pólitískur gjaldmiðill og pólitískt verkefni? Ég spyr vegna þess að fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, Uffe Ellemann Jensen, skrifar í grein sinni í Berlingske Tidende hinn 15. mars 2000 að sameiginleg mynt Evrópusambandsins sér fyrst og fremst pólitískt verk og verkefni. Sama dag slær ESBkommissarinn Pedro Solbes, sem er ábyrgur fyrir myntbandalaginu og evru, því föstu í Politiken að evran sé fyrst og fremst pólitískt verkefni. Að sögn Politiken segir kommissarinn að ef Danir kjósi að taka upp evru þá verði Danir og Danmörk að samhæfa hluta af efnahagslegri pólitík landsins, þar á meðal í skattamálum, með hinum löndum myntbandalagsins – vegna þess að evran sé nefnilega djúpt pólitískt verkefni. 

Fráfarandi seðlabankastjóri Danmerkur, Erik Hoffmeyer, [gegndi embættinu í 30 ár] sagði fyrir nokkrum árum það sama, og einnig að evran myndi ekki færa okkur neina efnahagslega kosti sem tæki að nefna á nafn, því evran væri fyrst og fremst pólitískt verkefni. Uffe Ellemann og Solbes segja ennfremur að ef við segjum já við evru séum við komin inn í samband sem sé að verða meira og meira pólitískt fremur en efnahagslegt. Hoffmeyer seðlabankastjóri hefur einnig, fyrir minna en tveim árum, sagt opinberlega að það séu engir sérstakir efnahagslegir kostir við að taka upp evru og að leggja niður okkar eigin gjaldmiðil, því það séu fyrst og fremst pólitísku atriðin sem séu mikilvæg. Getur ráðherrann staðfest að þetta sé svona?“

Hoffmeyer sagði einnig í umræddu viðtali að efnahagslegri sameiningu ESB væri lokið með tilkomu hins innri markaðar og það sem á eftir kæmi væri pólitískur samruni Evrópu. Svarið frá efnahagsmálaráðherranum var á þá leið að hún vildi óska að menn litu ekki svona ferkantað og svart/hvítt á hlutina, því það væru fleiri fletir á myntmálunum. Vissulega væri sameiginleg mynt pólitískt verkefni en það væri fyrst og fremst efnahagslegt verkefni.

Hinn 25. febrúar 2003 varaði Bodil Nyboe Andersen, seðlabankastjóri Danmerkur, við húsnæðislánum lánastofnana sem báru breytilega vexti. Um var að ræða svokölluð „flexlán“ þar sem samið er um vexti til 1–5 ára í senn. „Á nýrri tímum hafa vextir til styttri tíma verið verulega lægri en vextir til lengri tíma. Það er því mikilvægt að lántakendur geri sér ljóst þegar þeir taka á sig svona lán að vextir til lengri tíma litið munu hækka“.

Snemma árs 2003 gagnrýndi danski seðlabankinn ríkisstjórnina harðlega í fyrstu ársfjórðungsskýrslu ársins. Efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar væri of slöpp og ríkisstjórnin hefði ekki stjórn á útgjöldum ríkisins. Laun hækkuðu of mikið. Launakostnaður í framleiðslugeiranum væri 166 kr. á tímann en á evrusvæðinu væri hann einungis 155 kr. á tímann að meðaltali.

Hinn 1. desember 2004 gagnrýndi Bodil Nyboe Andersen, seðlabankastjóri Danmerkur, viðskiptabankana fyrir að blanda saman sölustarfsemi og ráðgjöf. Slík blanda af sölu og ráðgjöf væri ekki í þágu viðskiptavina bankanna. „Það er ekki endilega mín skoðun að fjármálageirinn eigi við vandamál að glíma hér og nú, en það er ekki hægt að skapa vöxt í atvinnugreininni til lengri tíma ef maður hagar sér ekki vel og sýnir ábyrgð,“ sagði hún í ræðu á ársfundi samtaka fjármálastofnana í Danmörku.

Sumarið 2008 sagði Nils Bernstein, seðlabankastjóri, í viðtali í danska ríkisútvarpinu að Danmörk þyrfti á fleiri atvinnuleysingjum að halda ef bjarga ætti landinu frá efnahagslegri niðursveiflu. Í Danmörku eru skráðir atvinnuleysingjar aðeins um 50.000 eða um 1,8% af vinnuaflinu. Seðlabankastjórinn sagði að ef atvinnuleysi ykist ekki í landinu myndi það koma til landsins frá útlandinu á hinn harða máta í formi tapaðrar samkeppnishæfni miðað við umheiminn.

Hér ber að hafa í huga að það er mikið dulið atvinnuleysi í Danmörku, eins og fyrr er vikið að. Ef atvinnuþátttaka væri jafnmikil í Danmörku og á Íslandi væru 350–450 þús. fleiri Danir við störf. Jafnframt hefði allt vinnandi fólk í Danmörku þurft að vinna um 300 fleiri klukkustundir á ári. Engu að síður er atvinnuþátttaka í Danmörku núna mjög mikil í sögulegu ljósi í því landi. Þetta var óvenjuleg staða fyrir danska atvinnurekendur því þeir eru vanir miklu offramboði af vinnuafli og því mjög ofdekraðir. Þetta hefur leitt til þess að ráðningarferli nýrra starfsmanna er alltaf að líkjast meira og meira því ferli sem bandaríska geimferðastofnunin NASA hafði við val geimfara til tunglferða á árum áður. Því má halda fram að síðustu tvö árin hafi atvinnurekendur hamstrað fólk til starfa, þeir urðu gripnir sömu hvöt og neytendur sem hamstra vörur í yfirvofandi vöruskorti, þ.e. ótta. Þennan ótta um yfirvofandi skort á vinnuafli hefur mátt lesa út úr tölum um hríðfallandi framleiðni hins starfandi vinnuafls síðustu tveggja ára. En þrátt fyrir versnandi framleiðni hafa atvinnurekendur, hagsmunasamtök þeirra og fjölmiðlar rekið stanslausan áróður fyrir því síðastliðin ár, að fá leyfi til þess að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl. Það má því búast við að atvinnuleysi muni þjóta upp á flugeldahraða núna þegar kreppan skellur á með fullum krafti, því það fólk sem var hamstrað inn í fyrirtækin mun fara þaðan út jafn hratt aftur þar sem ráðning þess byggðist á bólueftirspurn eftir vinnuafli. (Kreppan megnaði að koma öllum heiminum í opna skjöldu þrátt fyrir ótrúlegan fjölda sérfræðinga á öllum sviðum fjármála, efnahagsmála og vandamála. Vandamála og efnahagsfræðingarnir voru teknir allsberir og sofandi í rúmum sínum, en þó flestir í merkjavörunærbuxum!)

Viðbrögð við hinni óvanalegu ósk seðlabankastjórans um aukið atvinnuleysi létu ekki á sér standa. Claus Hjort Frederiksen, atvinnumálaráðherra, undraðist mjög ummæli seðlabankastjórans og sagði að það ætti að fækka atvinnuleysingjum frekar en hitt, það væri markmiðið. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar voru háværari. Talsmaður jafnaðarmanna sagði að ummæli seðlabankastjórans væru „grótesk og súrrealistísk“ og ætti seðlabankastjórinn sjálfur að fara fremst í röð atvinnuleysingja. „Hann ætti að prófa að þurfa að lifa af atvinnuleysisbótum,“ sagði talsmaðurinn og benti á að laun seðlabankastjórans væru um 2,3 milljónir danskra króna á ári.

Hinn 18. september 2008 veldur Nils Bernstein, seðlabankastjóri, enn uppnámi í dönskum stjórnmálum með áframhaldandi gagnrýni sinni á ríkisstjórn landsins. Seðlabankastjórinn segir: „Danska ríkisstjórnin hefur ekki stjórn á efnahag landsins því núverandi stefna í efnahagsmálum sem hefur það markmið að halda atvinnuleysi jafn lágu og það er núna, mun mistakast með slæmum samfélagslegum og persónulegum afleiðingum.“ Seðlabankastjórinn bætti því við að veik hagstjórn ríkisstjórnarinnar myndi auka líkurnar á vítahring víxlverkunar launaskriðs og verðhækkana.

Gagnrýni úr fjarlægð 

17. júlí 2008: Seðlabankastjóri evrópska seðlabankans, fransmaðurinn JeanClaude Trichet frá Lyon, gagnrýnir og ávítar „sumar“ ríkisstjórnir evrusvæðis í sameiginlegu viðtali við fjögur evrópsk dagblöð. Launaskrið sé of mikið og nú þegar sjáist merki um vítahring víxlverkunar launahækkana og hækkunar verðlags á myntsvæðinu. „Við sjáum meira að segja dæmi þess að menn hafi sums staðar á myntsvæðinu í gangi verðtryggingu ýmissa ríkisútgjalda og bótagreiðslna frá hinu opinbera og einnig sjálfvirkar launahækkanir hjá starfsmönnum fyrirtækja í takt við verðbólgu.“ Hér kemur Trichet inná þá staðreynd að evrusvæðið þolir nánast enga verðbólgu án skelfilegra afleiðinga fyrir ríkisútgjöld margra ríkja evrusvæðisins, því mörg útgjöld hækka í takt við verðbólgu og einnig er stór hluti kjarasamninga tengdur við þróun dýrtíðar. Það eru fá ríki í eins góðri stöðu og Ísland með sína góðu sjálfbæru lífeyrissjóði. Þarna er stór munur á Íslandi og evrusvæðinu. Ísland þolir mun meiri verðbólgu án þess að ríkisútgjöld fari úr böndum því framfærslubyrði íslenska ríkisins er mjög létt miðað við framfærslubyrði ríkissjóða evrusvæðisins, þar sem flestar lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar hvíla á herðum skattgreiðenda. En margir telja að Trichet hafi rangt fyrir sér því verðbólga hafi ekki verið og sé alls ekki vandamál sem evrópski seðlabankinn þurfi að taka á. Síðustu tvær vaxtahækkanir þessa seðlabanka mældust illa fyrir hjá mörgum á evrusvæðinu og í raun víðar í heiminum. Það eru því margar raddir sem halda því fram að hér hafi bankinn étið upp þó nokkurn hluta af þeirri pólitísku viðskiptavild sem hann á ennþá eftir inni hjá 27 ríkisstjórnum Evrópusambandsins. Gagnrýnendur segja að kjarnaverðbólga hafi alls ekki sýnt að þurft hafi að framkvæma tvær síðustu stýrivaxtahækkanir og þetta hafi haft ónauðsynlega neikvæð áhrif á efnahag evrusvæðisins, veikt hann að óþörfu andspænis áhrifum þess efnahagslega fárviðris sem síðan skall á fjármálamörkuðum myntsvæðisins. Hið stóra verkefni seðlabankans á næstu árum verði ekki verðbólga heldur vítahringur verðhjöðnunar.

Þessi gagnrýni kom ekki til umræðu í neinum þingsölum, mér vitandi. Áköfustu umræðurnar um ákúrur þessa fjarlæga seðlabanka evru fóru fram á blaðsíðum alþjóðlegra tímarita um efnahags og fjármál og svo einnig á bloggsíðum hagfræðinga sem enginn stjórnmálamaður les. En hvað ætti svo sem að ræða? Það þarf undirskriftir allt að 27 ríkisstjórna til að breyta einhverju um „gegnsæi ákvarðanatökuferlis“ seðlabanka evrunnar. Bankinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að vera einmitt lokaður og ógagnsær. Ekki er líklegt að neinn fjármálaráðherra ríkjanna 27 nenni að láta vekja sig um miðja nótt til að ræða áhyggjur fjármálaráðherra eins lands sem lendir í útistöðum við eða er ósáttur við ákvarðanir seðlabanka evrunnar. Langur og strangur er vegur breytinga í svona samsteypum. Þetta ætti varla vel við smáþjóðir á borð við Íslendinga. Á undanförnum árum hafa Íslendingar undirstrikað og margsannað að stuttur og skjótur ákvarðanatökuferill er lykillinn að góðu gengi í efnahagsmálum, því best er að taka á vandamálum strax og bregðast við áskorunum hratt.

Langhlaup en ekki spretthlaup


Völd og áhrifamáttur seðlabanka eru ekki mikil þó svo að flestir sem þekkja lítið til starfsemi seðlabanka haldi að sú sé raunin. Þessvegna eru væntingar leikmanna til seðlabanka stundum broslegar. Seðlabankar geta yfirleitt aldrei beitt öllum vopnum sínum í einu því þau útiloka oftast að mörgu leyti hvert annað. Í opnum hagkerfum er ekki hægt að stýra á sama tíma þáttum eins og vöxtum/verðbólgustigi, gengi og frjálsum fjármagnshreyfingum. Seðlabankar geta í mesta lagi unnið að tveimur af þessum þremur markmiðum í einu og jafnvel það getur reynst þeim afar erfitt. Þetta höfum við greinilega séð í þessari kreppu sem nú er hafin og einnig þegar gjaldmiðlasamstarf Efnahagsbandalagsins hrundi til grunna á árunum 1990–1993. Það er einnig alls óvíst að lækkun stýrivaxta nái tilætluðum árangri ef bankakerfið er almennt illa farið vegna áfalla. Við slíkar aðstæður mun lækkun stýrivaxta skila sér illa til fyrirtækja og þegna samfélagsins nema kannski á Íslandi, þar sem verðtrygging skapar bankakerfinu visst öryggisnet í langtímaskuldbindingum og eykur framboð á lánsfé.Það er því mikilvægt að ekki sé unnið á móti seðlabankanum. Einnig er nauðsynlegt að sköpuð sé velvild hjá almenningi til seðlabankans með því að þröngva honum ekki út í horn sem mun þvinga hann til óvinsælla aðgerða. Þetta hefur að mínu mati gerst á Íslandi. 

Nánast allir sem hafa haft til þess tækifæri hafa unnið á móti stefnu Seðlabanka Íslands: Bankar, fjármálastofnanir, ríkisstjórn, þingheimur, fjölmiðlar og hagsmunasamtök. Afleiðingarnar blasa við. Fólk verður að gera sér grein fyrir því, að það er hlutverk seðlabanka að verja stefnu sína með öllum tiltækum ráðum.

Hagfræðingar Seðlabanka Íslands hafa ítrekað bent á að fjármálastöðugleiki sé langhlaup en ekki spretthlaup. Það hefur tekið önnur ríki, stór sem smá, áratugi að ná sæmilegum fjármálastöðugleika. Þó er stöðugleikinn ekki meiri en svo að efnahagur alls heimsins hefur farið úr skorðum vegna lánsfjárkreppunnar og gengi stærri gjaldmiðla hefur sveiflast allt að 50–60% fram og til baka.

Saga íslensku myntarinnar frá því hún var sett á flot meðal annara mynta gjaldeyrismarkaða heimsins er í stuttu máli þessi:

1) Íslensku myntinni er gefið frelsi árið 2001. Hún flýtur þá frjálst. Alþjóðleg kynning á krónunni sem nýjum og frjálst fljótandi gjaldmiðli er sett í hendurnar á nýalþjóðavæddum fjármálageira Íslands alveg eins og gert er allstaðar annarsstaðar því það er jú fjármálageirinn sem fyrst og fremst notar krónuna á mörkuðum. En fjármálageirinn öðlaðist einnig frelsi við þessa aðgerð. Síðast þegar þetta gerðist í Evrópu þá var það evra sem var kynnt fyrir umheiminum. Hún féll mikið eða yfir 30% stuttu eftir að henni var ýtt úr vör. En fallið var ekki tengt sýnilegum efnahagsframförum, ávinningi, auknum fjárfestingum eða framkvæmdagleði. Nei, evran féll bara. Evrópubúar voru ekki að byggja virkjanir eða fjárfesta stórt á evrusvæðinu. Áður en þessi kynning á krónunni fór af stað vissi næstum enginn hvað ISK þýddi undir hinum alþjóðlega ISO 4217 myntstaðli. 

2) Nýr atvinnuvegur Íslendinga leit dagsins ljós, alþjóðavæddur fjármálageiri, sem skilaði fyrsta íslenska fyrirtækinu innn á NASDAQOMX100 listann, þegar Kaupþing Banki komst á lista 100 stærstu fyrirtækja á Norðurlöndum. 

3) Stærsta fjárfesting Íslandssögunnar fór fram. 

4) Alþjóðlegt lánsfé var ódýrara en nokkurntíma áður frá því krónan var sett á frjálst flot. Fjármálageiri Íslands notaði tækifærið til að hamra járnið meðan það var heitt. Nú er það hinvegar frosið.

5) Svæsin alþjóðleg olíu, hráefna og matvælaverðbólga hefur ríkt núna í tvö ár.

6) Versta alþjóðlega fjármálakreppa heimsins síðan 1914 er skollin á. Í því spretthlaupi sem lagt var á þann gjaldmiðil sem Seðlabanka Ísland var falið að gæta, er ekki hægt að segja annað en að það séu undur og stórmerki að ekki hafi farið enn verr en fór. Enginn annar gjaldmiðill hefði staðist slíkt spretthlaup. 

Eru seðlabankar mikilvægir?

Svo sannarlega eru seðlabankar mikilvægir. En þeir eru aðeins mikilvægir ef þeir hafa eigin mynt til að stjórna. Mín skoðun er sú að mjög fáar þjóðir þoli að missa seðlabanka sinn úr landi og í hendur erlendra aðila. Þetta gildir alveg sérstaklega fyrir litlar þjóðir. Ef sú verður raunin á Íslandi þýðir það uppgjöf þar sem Íslendingar gefa stóran hluta af sjálfstæði og fullveldi landsins upp á bátinn og gefa það þar með til baka til erlendra aðila.

Þá munu Íslands óhjákvæmilega bíða sömu örlög og biðu Nýfundnalands árið 1949, þar sem Nýfundnaland gaf sjálfstæði sitt til sambandsríkis Kanada og beið þess aldrei bætur. Völdin felast í myntinni sjálfri.


Danmörku 2008
Gunnar Rögnvaldsson
Þessi grein birtist áður í tímaritinu Þjóðmál 4. hefti 4. árgangi veturinn 2008/9

Magt fleira athyglisvert var í Þjóðmálum að þessu sinni. Meira og betur er fjallað um þessa haust-útgáfu Þjóðmála í Vef-þjóðviljanum

[ Ritið Þjóðmál fæst í öllum bókabúðum Pennans og Eymundsson, bensínstöðvum Olís og nokkrum fleiri stöðum. Einnig er hægt að kaupa einstök hefti og gerast áskrifandi íBóksölu Andríkis (Vef-Þjóðviljinn). Þá er hægt að gerast áskrifandi og kaupa einstök hefti í síma 698-9140. Þjómál kostar 1.300 krónur. Útgefandi Þjóðmála er Bókafélagið Ugla, Hraunteigi 7, 105 Reykjavík, sími 698-9140 ]


André Kostolany

"Ég gef engin góð ráð, 

nema kannski eitt: njóttu lífsins! 

- og svo er það álið" 


&

Í danska þinginu 22. mars 2000

„Getur ráðherrann staðfest að mynt Evrópusambandsins, euro, sé fyrst og fremst pólitískur gjaldmiðill og pólitískt verkefni? Ég spyr vegna þess að fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, Uffe Ellemann Jensen, skrifar í grein sinni í Berlingske Tidende hinn 15. mars 2000 að sameiginleg mynt Evrópusambandsins sér fyrst og fremst pólitískt verk og verkefni. Sama dag slær ESBkommissarinn Pedro Solbes, sem er ábyrgur fyrir myntbandalaginu og evru, því föstu í Politiken að evran sé fyrst og fremst pólitískt verkefni.

Erik Hoffmeyer gengdi embætti seðlabankastjóra í Danmörku í 30 ár

. . Hoffmeyer sagði einnig í umræddu viðtali að efnahagslegri sameiningu ESB væri lokið með tilkomu hins innri markaðar og það sem á eftir kæmi væri pólitískur samruni Evrópu
Wolfgang Hummel
Wall Street Journal 8. nóvember 2009nálægðin við samfélagiðSBI útgáfa 

Seðlabanki Íslands

Consolidation of the Icelandic banking system7 ára sameiningarferli sem endaði í október 2008 með hruni Kaupþings, Landsbanka og Glitnis

Hin ómögulega þrenna

Stöðugt gengi
Frjálsar hreyfingar fjármagns
Sjálfstæð peningapólitík


Brot úr sögu Seðlabanka Íslands
 • 1961 Seðlabanki Íslands formlega stofnaður 29. mars. Starfsemi hefst 7. apríl.
 • 1962 Bankinn fær skýra heimild til að taka erlend lán fyrir ríkið
 • 1967 Bankinn fær einkarétt til að slá og gefa út mynt (hafði áður rétt til seðlaútgáfu)
 • 1967 Gengi krónunnar fellt um 24,6%
 • 1968 Gengi krónunnar fellt um 35,2%
 • 1974 Hagtölur mánaðarins fyrst gefnar út
 • 1976 Vaxtaaukafyrirkomulagi komið á
 • 1977 Starfsmenn fá lögvarinn samningsrétt
 • 1979 Ólafslög sett og verðtrygging fjárskuldbindinga tekin upp með viðmiðun við lánskjaravísitölu
 • 1981 Gjaldmiðilsbreyting - verðgildi krónunnar hundraðfaldað
 • 1985 Verðbréfaþing Íslands stofnað að tilstuðlan S.Í.
 • 1986 Ný lög um Seðlabankann - vaxtafrelsi staðfest
 • 1989 Gengi krónunnar fest - þjóðarsátt
 • 1993 Gjaldeyrismarkaður stofnaður og vikmörk gengis leyfð ±2,25%
 • 1995 Vikmörk gengis víkkuð í ±6%
 • 1998 Umfangsmiklar breytingar á stjórntækjum bankans
 • 1999 Bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið mynda Fjármálaeftirlit
 • - Peningamál hefja göngu sína
 • 2000 Vikmörk gengis víkkuð í ±9%

 • 2001 Verðbólgumarkmið tekið upp og vikmörk gengis afnumin
 • 2001 Lög um Seðlabanka Íslands samþykkt
 • 2009 Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands samþykkt 


Fleiri


Olíulitir á striga
Þórdís Rögnvaldsdóttir