Ísland‎ > ‎

Ágrip sögu Íslands

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Ísland varð sjálfstætt lýðveldi þann 17. júní árið 1944 Þar með höfðu Íslendingar öðlast full yfirráð yfir eigin málum og slitu öll pólitísk tengsl við danska konungsríkið sem Ísland hafði þá verið hluti af síðan 1397 en þar áður norska konungsríkinu frá 1262. Áður en Íslendingar komust undir erlend yfirráð höfðu þeir verið sjálfstætt ríki frá landnámi um 870. Áður en Íslendingar glötuðu sjálfstæði sínu höfðu ýmsir valdahafar í Noregi gert sér vonir um að leggja landið undir sig og jafnvel ráðgert innrásir með hervaldi en ekki látið verða af því. Svo fór þó að lokum að íslenzkir höfðingjar samþykktu að ganga Hákoni Hákonarsyni Noregskonungi á hönd eftir áralangan innanlandsófrið. Margir þeirra vonuðust vafalaust einnig eftir persónulegum frama sem hirðmenn konungs og a.m.k. í tilfelli helzta hvatamanns þess að Ísland yrði hluti norska konungríkisins, Gissurar Þorvaldssonar, varð sú raunin. Hann var útnefndur jarl yfir Íslandi.

700 ára leið til fullveldis aftur

Það tók Íslendinga næstum sjö aldir, eða 682 ár, að komast undan erlendum yfirráðum. Þann tíma varð þjóðin fátæk, afskipt og einangruð. Hinir erlendu herrar höfðu almennt séð lítinn áhuga á að bæta hag Íslendinga og hugsuðu um það eitt hversu mikið þeir gætu hagnast á þessu úrskeri. Þjóðin var ofurseld einokunarkaupmönnum sem okruðu á landsmönnum og seldu þeim lélegar og jafnvel ónýtar vörur. Rétt er þó að halda því til haga að framkoma danskra stjórnvalda í garð Íslendinga var yfirleitt miklu skárri en flestra annarra nýlenduþjóða í garð íbúa nýlenda þeirra. Framganga þeirra var heldur yfirleitt ekki vegna einhvers níðingsskapar. Ástæðan var fyrst og fremst sú að hagsmunir Íslendinga og velferð var þeim einfaldlega ekki ofarlega í huga auk þess sem danskir ráðamenn vissu yfirleitt lítið sem ekkert um hagsmunamál Íslendinga né þekktu til aðstæðna á Íslandi. Flestir aðrir hagsmunir innan danska ríkisins skiptu þá mun meira máli.Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar sem loksins fór að rofa til þegar ungir Íslendingar menntaðir í Kaupmannahöfn fóru að tala fyrir auknu frelsi íslenzku þjóðarinnar til þess að ráða sínum málum sjálf eftir að hafa kynnst hugmyndum um lýðræði, frjálslyndi og þjóðfrelsi. Menn eins og Jón Sigurðsson, forseti, og hægri hönd hans Jón Guðmundsson, ritstjóri, og Fjölnismennirnir Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason, Tómas Sæmundsson og Brynjólfur Pétursson. Þar með hófst sjálfstæðisbarátta Íslendinga fyrir alvöru. Sjálfstæðishetjur Íslendinga gerðu sér grein fyrir þeirri grundvallarstaðreynd að veraldarsaga bæri því ljóst vitni að hverri þjóð hefði vegnað best þegar hún hefði sjálf hugsað um stjórn sína eins og Jón Sigurðsson komst að orði í ritgerðinni "Um Alþíng á Íslandi" árið 1841. Saga þjóðarinnar fram til þess tíma hafði ennfremur sýnt þeim svo um munar afleiðinga þess að lúta erlendri stjórn.

Alþingi loks endurreist og sigur vinnst

Næstu áratugina voru stigin mörg mikilvæg skref í áttina að sjálfstjórn Íslendinga. Alþingi var endurreist árið 1843 sem ráðgjafaþing fyrir konunginn um íslenzk málefni og með löggjafarvald árið 1871. Íslendingar fengu stjórnarskrá þremur árum síðar í tilefni af 1000 ára Íslandsbyggð. Árið 1904 var fyrsti íslenzki ráðherrann, Hannes Hafstein, skipaður í embætti með aðsetur á Íslandi. Þann 1. desember árið 1918 fékk Ísland fullveldi. Danir sáu þó áfram um utanríkismál Íslendinga og danski konungurinn var þjóðhöfðingi Íslendinga en að öðru leyti höfu Íslendinga öðlast fulla stjórn eigin mála. Endanlegt sjálfstæði Íslendinga var síðan í höfn sem fyrr segir 17. júní árið 1944. Eftir að þeim áfanga var náð urðu þjóðfélagslegar framfarir meiri en nokkurn tímann áður og velmegun íslenzku þjóðarinnar jókst hröðum skrefum. Íslendingar byggðu upp öflugt velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd og öflugt atvinnulíf. Fiskveiðilögsagan varfærð út fjórum sinnum, síðast í 200 mílur árið 1976, og háð til þess þrjú þorskastríð við Breta þar sem Íslendingar höfðu fullan sigur.Er sagan að endurtaka sig?

Sagt er að sagan hafi tilhneigingu til þess að endurtaka sig. Margt er til í því og aðallega vegna þess að mannlegt eðli hefur ólíklega breytzt mikið í gegnum aldirnar. Íslenzka lýðveldið er ekki orðið nema nokkurra áratuga gamalt en engu að síður er enginn skortur á aðilum á Íslandi i dag sem ganga sömu erinda og Gissur Þorvaldsson og fleiri fyrir meira en sjö öldum. Að koma Íslandi undir erlend yfirráð. Í dag er ekki um að ræða yfirráð Noregskonungs eða Danakonungs heldur evrópska stórríkisins sem leynt og ljóst er verið að þróa Evrópusambandið yfir í að verða. Þar vantar orðið lítið upp á. Litlar líkur eru á öðru en að Íslands biðu hliðstæð örlög áhugaleysis og skeytingaleysi innan þess ríkis og í aldirnar sem Íslendingar lutu yfirráðum Noregs og Danmerkur. Rétt eins og þá myndu Íslendingar hafa minnst með stjórn eigin mála að gera og rétt eins og þá myndu flestir eða allir hagsmunir þykja þyngri á metunum en íslenzkir innan sambandsins. Og ef Íslandi yrði einu sinni komið inn í Evrópusambandið er ljóst að ekki yrði hlaupið undan þeim yfirráðum.

Ekki aftur

Við skulum ekki draga gardínurnar fyrir aftur


Mikilvægi sjávarútvegs Íslands


Í mynd og tölum: Mikilvægi sjávarútvegs
Tengt efni:

Þrífst frelsið í faðmi

ESB og evru? Lestu mig


Comments