Pistlar‎ > ‎

Hugleiðing um raun-stýrivexti


Raun-stýrivextir = verðbólga mínus stýrivextir
uppfært 14. nóvember 2009

Það er mikið  í húfi

Mér datt í hug að það væri gaman að sjá hvernig verðbólga (CPI eða vísitala verðlags) í þeim löndum sem núna eru hvað verst sett í kreppunni, hefur verið undanfarin ár miðað við raun-stýrivexti í þessum löndum. Til dæmis í evrulöndunum Spáni og Írlandi. 

Ég þekki þetta málefni af eigin persónulegri reynslu því ég bý í landi sem býr við þá furðulegu stöðu mála að stýrivextir þess eru næstum alfarið ákveðnir í útlöndum. Þegar verðbólgan var um 1,3% í Danmörku árið 1992 þá voru stýrivextir hér um og yfir 10%. Þetta var svona vegna þess að Þýskaland var í verðbólgu-hræðslukasti og þeir stýrðu vöxtum í Danmörku og gera það enn. Danmörk tók nefnilega upp fastgengi árið 1985 (sjá grein: Seðlabankinn og Þjóðfélagið). 


Feginn varð ég því þegar breska pundið var sprengt út úr EMS gjaldmiðlasamstarfinu í september 1992, því þá hrundi EMS eins og spilaborg. Ef það hefi ekki gerst þá hefði ég orðið að hætta viðskiptum við Bretland. Þeir voru nefnilega búnir að verðleggja sig útaf landakortinu með alltof háu gengi pundsins. Allt var þá líka í hers höndum hér í Danmörku, því stýrivextir voru þá um 9% en verðbólgan bara 2%. Atvinnuleysið var 12% og eftirspurn markaðarins var non existing. Þá fóru fatakaup danskra karlmanna niður í 400 kr ári og kvenfólk varð að spara mikið við sig enda atvinnuleysi svimandi hátt og fáir fengu lán því svo fáum var treyst til að geta greitt þau til baka. Svo voru líka afar fáar fjárfestingar sem voru það arðsamar að þær gætu borið svona hrikalega háa vexti í engri verðbólgu. Húnsæðis eigendur fóru í unnvörpum nedenom og hjem, þ.e. á hausinn. 

Við hófum rekstur á reiðhjólunum okkar árið 1989 með 25.000 DKK í vasanum og með faxtæki, notuðum 8086 og 286 Wang tölvum sem m.a. Alþingi var að skipta út hjá sér, þ.e. við keyptum þær notaðar. Þær voru úr stáli. Fyrsta 8086 vélin okkar með 10 Mb disk velti 5 milljónum dönskum krónum og hélt utanum 7.000 viðskiptavini, hún var jálkur, hét Helga og kom líka frá Íslandi. Árið 1989 og öll næstu árin voru mjög erfið. En sem betur fór hrundi EMS loksins og vorsalan árið 1993 varð strax betri hjá okkur. 

Um 100.000 Danir urðu viðskiptavinir okkur á næstu árum. Við gátum nefnilega lækkað verð til neytandans vegna þess að pundið var fallið stórt. Annars hefðum við þurft að loka. Utan um öll viðskipti okkar þegar hér var komið hélt íslenskt smíðað tölvukerfi framleitt af Almennu Kerfisfræðistofunni H/F. Keypt frá Íslandi og smíðað á Íslandi. Ekki var hægt að fá svona góðan hugbúnað hér í Danmörku. Við seldum tískufatnað frá Bretlandi í póstverslun en fórum svo seinna út í að hanna og láta framleiða fyrir okkur eigin fatnað og vörur. Metið okkar var að senda 300 tonn af póstlistum út á einni söluönn og fá 2000 símtöl og 1000 pantanir á dag. Þökk sé gengisfalli pundsins. 

Þetta gerðist allt löngu áður en orðið útrás var fundið upp yfir lausa lofttegund uppi á Íslandi. En þessum bransa erum við ekki í lengur. Núna rek ég ráðgjafafyrirtæki. Ég mun flytja það til Íslands eftir áramótin. Það er mjög lítið og kemst vel fyrir í ferðatöskunni. 

Mikið varð ég þeim George Soros og Norman Lamont þakklátur. Þetta einstaklega heimskulega fyrirbæri, EMS, eyðilagði mikið hér í Evrópu, enda kölluðu gárungarnir í Bretlandi þetta fyrirkomulag fyrir “hið framlengjandi kreppufyrirkomulag” (e. the Extended Recession Mechanism). 

Þetta fyrirkomulag hét í raun “European Monetary System”. Arftaki þess heitir ERM II og er ennþá verra fyrirkomulag að vera í ef maður er hagkerfi. Eins konar pyntingarklefi. Eystrasaltsríkin eru í ERM II núna og einnig Danmörk, frá og með árinu 1999.  
En svo kom myntbandalagið og bjó til "boom-bust-dead" ástand í mörgum ríkjum þess ásamt brenndum holum í botni ríkissjóða margra landa. Nú er flest frosið fast í þessum löndum og lánafyrirgreiðsla virkar ekki. Fjármagnsleg fjara þurrkvíar ríkir eftir allt innflóðið. Já, þetta gerist þrátt fyrir að löndin séu í myntbandalagi Evrópusambandsins. 

Þetta með raun-stýrivexti á Spáni hefur hagræðingurinn Edward Hugh, sem býr á Spáni, tekið saman og sett upp í mynd sem sést hér að ofan. Þarna á myndinni sést vel hvað það var sem bjó til þá hrikalegu bólu sem núna er sprungin á Spáni. Það var röng raunstýrivaxta-stefna seðlabanka Evrópusambandsins (ECB) og á röngum tíma fyrir spænska hagkerfið sem bjó til bóluna þar í landi. 

Núna er Spánn með virkt gengi sem er svo hátt að landið getur ekki keppt við önnur lönd myntbandalagsins. Raungengið er svona hátt því hagkerfi Spánar varð bólugrafið á vakt ECB og vegna þess að Spánn er ekki eins land og Þýskaland. Spænska þjóðin er heldur ekki þýsk, hún er ennþá spænsk og verður áfram spænsk.
 
Sjá einnig þessa mynd eftir Edward Hugh sem sýnir virkt raungangi á Spáni hér fyrir ofan. Spánn er búið að verðleggja sig út af landakorti samkeppnishæfni innan sem utan myntbandalagsins. Spánn er í ómögulegri aðstöðu. Mikil - og sennilega stærsta byggingabóla sögunnar - myndaðist á Spáni í miklu innstreymi fjármagns sem kom eins og flóð vegna þess að það var of lágt verðlagt af seðlabanka landsins sem er í Þýskalandi. Þessi bóla er því að mestu verk seðlabanka Evrópusambandsins í Frankfürt. 

En okkur vantar svipaða mynd frá Írlandi. Eina myndin sem ég á yfir Írland núna, er þessi hér og hún er úr greininni sannleikurinn um efnahagsmál Írlands


Þessu þarf ég að bæta úr. Ég þarf að bæta stýrivöxtum ECB inn á Írsku myndina eins og ég gerði á dönsku myndinni. En myndin sýnir þó hvað það var sem áður fyrr bjargaði efnahagsmálum á Írlandi og kom hagvexti í gang á ný. Þennan björgunarhring hafa Írar ekki lengur. Hann heitir gengisfelling. Írar hafa ekkert gengi lengur. Það er farið. 

Uppfært 14. nóvember 2009. Ný mynd sem sýnir stýrivexti og verðbólgu á Írlandi frá því að seðlabanki evrópusambandsins tók yfir stjórn peningamála á Írlandi.


Á myndini sést að stýrivextir á Írlandi hafa verið neikvæðir eða óvirkir stóran hluta þess tíma sem seðlabanka ESB hefur verið trúað fyrir vaxtaákvörðunum og peningapólitík þar í landi. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. 

Það er engin algild eina-heilaga-sannleiks-ástæða til að ætla að verðbólga yrði svo miklu lægri á Íslandi ef við værum með evru undir stjórn vel þýskra hljómsveitarstjóra ECB í Frankfürt. Það er veðmál sem enginn ætti að taka. Ég handviss um að verðbólgan yðri ekki svo mikið lægri, því Ísland er svo ólíkt flestum löndum ESB og sérstaklega löndum evrusvæðis. 


En ef Ísland væri með evru sem gjaldmiðil þá er ég 100% viss um að Ísland myndi mjög hratt verðleggja sig út úr myntbandalaginu og reyndar heiminum öllum - og hætta að geta selt svo mikið sem einn sporð af fisk til útlanda sökum innri verðbólgu sem ekki væri lengur hægt að lagfæra í gegnum gengið. 


Hér er ekki um að ræða 77 sardínur í $28 dós á mann eða 2000 tonn á ári. Hér er um að ræða 1,3 milljón tonn á hverju ári. Þetta eru þeir fjármunir sem notaðir eru til að byggja restina af íslenska hagkerfinu með. Grunnur efnahagslegrar tilveru Íslendinga.  

Eina leiðin til að nýta landhelgi og auðæfi sjávar Íslands væri þá að láta útlendinga um að veiða fiskinn okkar. Þeir einir gætu keppt á mörkuðunum með því að borga lág laun, lítinn kostnað, miklu lægri skatta og með því að sigla um í ryðhrúgudöllum. Öðru nafni: þrælakistum. Þetta yrði ekki skínandi falleg útgerð, heldur þrælakista. 

Þá myndu Íslendingar þurfa að flytja inn fisk sér til matar. Einungis vegna ógæfulegrar útópíu vissra kjána stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka sem myndi banna Íslendingum að fella gengið, því þá væri ekki lengur til neitt gengi sem hægt væri að fella. Það væri nefnilega horfið. Horfið um alla eilífð til Þýskalands og kæmi aldrei þaðan aftur. 

Það er því virkilega mikið í húfi hér fyrir okkar góða land og okkur þjóðina. Mjög mikið í húfi. Sjálf tilvera þjóðarinnar er hér í húfi. Var það þetta sem árið 1944 snérist um? Snérist það um afsal á framtíð fyrir Ísland? Afsal á nýfengnu fullveldi Íslands? Það er ekki svo langt síðan 1944 var dagurinn í dag. Margir muna þann dag mjög vel ennþá. 


Takk til Edward Hugh fyrir myndirnar sem ég hef lánað í leyfisleysi. 

English: Many sincere thank to Mr. Edward Hugh for all his good writings which I frequently read, and many apologises for the two graphs I have borrowed from his two articles, without permission. Links to the original articles are on this page, below the graphs.


Danmörku þann 13. nóvember 2009
Gunnar Rögnvaldsson


Tengt efni:
Comments