# 488 - 2010 - vika 16 - til 24. apríl 2010


VIKA 16  2010


Föstudagur 23. apríl 2010

Grikkland leitar til Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins

Fréttatilkynning frá AGS Press Release
Statement by IMF Managing Director Dominique Strauss-Kahn on Greece
Press Release No. 10/168 April 23, 2010.
Mr. Dominique Strauss-Kahn, Managing Director of the International Monetary Fund (IMF), issued the following statement today on Greece:

“We have received Greece’s request for a
Stand-By Arrangement. We have been working closely with the Greek authorities for some weeks on technical assistance, and have had a mission on the ground in Athens for a few days working with the authorities and the European Union. We are prepared to move expeditiously on this request.”
Skipan þingsæta í þýska Bundestag

Grikkland ætti að yfirgefa myntbandalagið

Öndverðar skoðanir á aðkallandi fjárhagsvanda gríska lýðveldisins geisa meðal þýskra ráðamanna. Skipan þingsæta í þýska þinginu í kosningunum í október síðastliðinn varð þannig að 93 sæti af 622 sætum þingsins komu í hlut Frjálsra demókrata (FDP). Samsteypuframboð Kristilegra demókrata CDU og CSU sem Angela Merkel stendur fyrir fékk 239 sæti. Þessir tveir flokkar mynda nú þá ríkisstjórn sem er við völd í Þýskalandi. Þetta er því ríkisstjórn sem situr á 332 af 622 sætum þingsins.

Frank Schäffler sem er í forsæti fyrir FDP í fjárlaganefnd þýska þingsins segir að ef Grikkland geti ekki komið fjármálum ríkisins á réttan kjöl með yfirlýstum sparnaðaraðgerðum, þá ætti Grikkland að yfirgefa myntbandalag Evrópusambandsins af fúsum og frjálsum vilja. Það myndi gefa landinu tækifæri á að laga samkeppnishæfni sína með gengisfellingu. Sagt er að skoðun Frank Schäffler á málinu endurspegli skoðun þorra almennings í Þýskalandi.

Óhug hefur á ný slegið niður meðal ráðamanna eftir að Axel Weber seðlabankastjóri Þýskalands sagði þingheimi frá því að þeir fjármunir sem nú þegar er verið að ræða um í sambandi við hugsanlegan hjálparpakka til Grikklands, séu einungis brot af því sem myndi þurfa ef bjarga á landinu frá ríkisgjaldþroti. Aðstoða þyrfti Grikkland í nokkur ár.

Tveir þingmenn í stjórnarliði sögðu að það yrði að bjarga Grikklandi frá ríkisgjaldþroti því að öðrum kosti myndi ríkisgjaldþrotið brjóta upp myntvafninginn evru og koma af stað bankakreppu á öllu evrusvæðinu.

Tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu að ríkisgjaldþrot Grikklands myndi eyðileggja trúverðugleika myntvafningsins og skapa fjármálakreppu. Evrusvæðið myndi brotna upp og skuldug ríki þess myndu eiga erfitt með að fjármagna sig þar á eftir. "En þetta má ekki verða ókeypis aðstoð og svo þarf Grikkland að fara undir alþjóðlegt fjármálaeftirlit."

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, sem gengur ekki heill heilsu um þessar mundir, sagði þingheimi í fyrradag að ríkisgjaldþrot Grikklands myndi skaða "stöðugleika myntbandalagsins" og líma spurningamerki fast á myntina þeirra. Kanslarinn, Angela Merkel, er ekki samsinna fjármálaráðherranum í þessu máli: BW/BB

AGS: Ekki hægt að yfirgefa myntbandalagið

Valdamaður númer tvö innan AGS, John Lipsky, segir að Grikkland geti ekki yfirgefið myntbandalagið. "Það eru engar heimildir til fyrir slíku í neinum sáttmálum myntbandalagsins" sagði hann í viðtali við Bloomberg. "Ekkert slíkt er á borðinu" bætti hann við; Bloomberg

Mín skoðun: Að sjálfsögðu getur AGS ekki sagt neitt annað. Það væri í hæsta máta óábyrgt því það kæmi af stað áhlaupi á bankakerfi Grikklands og myndi leysa úr læðingi fjármálaleg ragnarök af hingað til óþekktri stærð. Ef Grikkland yfirgefur myntbandalagið þá mun það verða gert yfir helgi eða á hátíðisdögum og engum tilkynnt um neitt fyrirfram. Þetta yrði gert með aðstoð AGS og annarra evrulanda.
Útgöngudyr yrðu smíðaðar sem hægt væri að nota af fleiri löndum. Þetta yrði pólitísk lausn því myntbandalagið er fyrst og fremst pólitískt. Það er ekki efnahagslegt. Það hljóta menn að sjá núna. Efnahaglega er það meira en 100% gagnslaust. Það versta er þó að myntbandalagið er pólitískt misfóstur (Hagfræðiprófessor Jayati Ghosh útskýrir ágætlega þessa galla EMU hér á myndbandi).

Nýjar tölur yfir taprekstur ríkissjóða evrulanda

Hagstofa Evrópusambandsins, sú sem aðstoðaði fjármálastofnanir við að fela taprekstur ríkissjóðs Grikklands og fleiri evrulanda, kom í gær með nýjar tölur yfir rekstrarárangur stjórnmálamanna evrulanda á síðasta ári (2009), þ.e.a.s tölur yfir rekstur ríkissjóða. En það eru kjósendur landanna sem hafa falið stjórnmálamönnum að reka ríkissjóð landa sinna.

Ríkissjóður Írlands setti þarna met með 14,3% taprekstri. Tekjurnar eru fallandi og skuldir aukast hratt. Grikkland kom með 13,6% taprekstur og eru tekjur þess mjög hratt fallandi og skuldir mjög hratt vaxandi. Grikkland skuldaði 115% af öllu sem landið framleiddi. Óhug sló niður í hlutabréfamarkaði ESB. Þeir féllu og myntin evra heldur áfram að falla. Svíþjóð virðist hafa komið einna best út úr þessum ársreikningum ríkissjóða. Tekjur sænska ríkisins jukust. Mynt Svíþjóðar er sænsk króna og er hún á engan hátt bundin myntvafningnum evru. Vaxtakostnaður sænska ríkisins lækkaði á skuldabréfamörkuðum í gær. 

Allt evrusvæðið var rekið með 6,3% ríkistapi og er þetta meira en þreföldun á tapinu frá árinu 2008 sem var 2,0% af landsframleiðslu þessara 16 landa. Evrusvæðið skuldaði tæplega 80% af landsframleiðslu landa þess; Eurostat

Betri hagspá fyrir allan heiminn nema evrulönd

AGS kom með endurskoðaða hagspá fyrir heiminn. Þar er spáð betri hagvexti fyrir alla nema hjá þeim sem eru svo óheppnir að búa á evrusvæðinu. Hagspáin fyrir Þýskaland og Ítalíu var lækkuð fyrir bæði árin 2010 og 2011. Þessu sagði Wolfgang Münchau frá á vefsetri sínu. Hann sagði einnig frá því að nú væru vandamál Grikklands að smitast yfir til portúgalska ríkisins. En þar taka menn áhyggjum fjármálamarkaða á sama hátt og Grikkir gerðu þegar kreppan hófst þar. Hér í Portúgal er ekkert að. Allt í góðu lagi hjá okkur; Eurointelligence

Við lokun markaða á Wall Street í gærkvöldi sagði einn viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar að menn þar í götu byggjust við því að Grikkland færi í þrot nú þegar um helgina. Að helgin yrði notuð til að hefja kraftaverk AGS í Grikkandi.

Pimco (Pacific Investment Management Co) sem er stærsti fjárfestingasjóður heimsins segir í dag að vandamálin í Grikklandi séu þegar farin að hafa áhrif á önnur ríki á evrusvæði. Fjárfestar í ríkisskuldabréfum evrulandana séu að losa sig við þau; Bloomberg  

Til að bæta gráu ofan á svart kom Moody’s Investors Service í gær og lækkaði lánshæfnismat Grikklands, eina ferðina enn; WSJ


Fimmtudagur 22. apríl 2010

- run Forrest, run -

Úr kennslustund Litlu gulu hænunnar

Þeir sem halda ennþá að Evrópusambandið sé "tolla- og efnahagsbandalag" rétti upp hönd. Þetta gæti orðið spurning í kennslustund í sjö ára bekk í barnaskólum Evrópu eftir aðeins nokkur ár. Þeir sem réttu upp hönd fengju annað hvort rétt eða væru reknir út.

Ég get ekki séð neitt tollabandalag í dag. Og ég sé heldur ekki neitt efnahagsbandalag. Það sem ég sé er stórslys. Eitt stykki Evrópusamband sem hriktir í eins og gömlum Sovétríkjum. Evrópusamband sem varð einni myntinni of ákaft og sem gleymdi að ráðfæra sig við fólkið. Alveg eins og gerðist í Sovétríkjunum. Við völtum yfir fólkið.

Þegar Göran Persson fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar kom til Íslands til að predika, sagði hann Íslendingum frá því að "sænska fólkið" hefði ekki skriðið gengið í nein "sambandsríki Evrópu" þegar það ákvað í hræðslukasti og með 2,8% meirihluta kjósenda að ganga í ESB árið 1994. Verður Göran Persson rekinn úr sjö ára bekknum?

Það er nú þegar búið að reka Poul Schlüter fyrrum forsætisráðherra Danmerkur úr skólanum og senda hann til Síberíu. Hann sagði nefnilega að Evrópusambandið myndi aldrei verða til. Það sagði hann árið 1986. "Evrópusambandshugmyndin er steindauð", sagði hann. "Kjósið já. Ekkert að óttast. ESB verður aldrei til." Evrópusambandið var því stofnað sjö árum seinna með einum Maastrichtsáttmála. Tveir litlir menn í tveim litlum löndum sem þá héldu að þeir vissu hvað þeir voru að gera.

Grikkland á leið í ríkisgjaldþrot. Portúgal fylgir í humátt á eftir. Írland er í tætlum. Spánn riðar, Eystrasaltsríkin í djúpri neyð og Ítalía lifandi grafin í skuldum. Á meðan myntbandalag Evrópusambandsins sprengir lönd þess í loft upp, sitja evrufíklar Brussels niðri í kjallara og sjúga þumalputta með lokuð augu. Skjálfandi af hræðslu eins og óvitar sem kveikt hafa í húsi nágrannans um miðja nótt. Þeir vona að pabbi og mamma vakni ekki. Vona að þau taki ekki eftir að hús nágrannans verður horfið á morgun.

Seðlabankastjórinn sem stjórnaði sprengjuhleðslunum á evrusvæði þorir varla að láta sjá sig opinberlega lengur. Hann er skjálfandi af hræðslu. Seðlabanki Evrópusambandsins er orðinn seðlabanki þar sem öll bankastjórnin mætir með magapínu í vinnuna á hverjum morgni af ótta við að myntin sem þeir eiga að passa muni hrynja við hvert einasta fótatak þeirra á peningagólfi heimsins. Það sem stýrir ECB núna er óttinn einn.

Spurningin er sem sagt þessi: hverjir verða reknir úr skólanum fyrir að koma með rangt svar? Hvert verður rétta svarið? Í tilfelli Sovétríkjanna vitum við nú hvert varð hið rétta svar. En lengi vel vissi enginn hvert hið rétta sovéska svar yrði. En það kom þó að því.

Hér eru nokkrar fréttaslóðir stór-gærdagsins

Evran er dauðadæmd segja bankamenn (þ.e. án stórríkis) á vef Heimssýnar

Grikkland í dauðadans segir Geroge Soros (þ.e. án stórríkis) í CNBC

Grikkland á enga von segir Soros í grísku viðtali (þ.e. án stórríkis) í Kathimerini

Aðeins efnahagslegur fáráðlingar eða stórríkissinni segir að Bretland eigi að taka upp evru segir Anatole Kaletsky í TimesAbsúrd að Þýskaland eigi að bjarga 16. launamánuði Grikkja sem hætta að vinna 57 ára gamlir. Brussel gerir ekkert. Engin neyðaráætlun hefur verið gerð, engar ráðstafanir gerðar til að Grikkland komist lifandi út úr evru-fangelsinu. En það má ekki tala um þetta, þetta heitir nefnilega evrópsk samstaða, segir tékkneska blaðið Lidové noviny.

AGS kom með skýrslu sem segir að evrusvæðið sé vænleg og líkleg útungunarvél fyrir nýja heimskreppu vegna ríkisgjaldþrotaáhættu landa þess. 

Forrest Gump er ennþá ánægður með að hafa fjárfest í eplaverksmiðju en ekki í Brussel. Hann þarf ekki að vinna meira.

Gleðilegt sumar


Miðvikudagur 21. apríl 2010

AE; fjöldi auglýstra starfa í Danmörku

Atvinnuástand nýútskrifaðra í Danmörku

Nú er atvinnuleysi meðal nýútskrifaðra hagfræðinga, lögfræðinga, sálfræðinga, verkfræðinga og álíka starfsheita í Danmörku komið í 26,9 prósent. Örvænting er að grípa um sig meðal þessa unga fólks. Dagblaðið Børsen segir að þetta fólk komi nú út úr háskólum til að vinna við símavörslu og leigubílaakstur. Um daginn talaði sjónvarpið við mann með tvöfalda doktorsgráðu sem ók leigubíl í Kaupmannahöfn. Það er óttinn við að gróa fastur við atvinnuleysiskerfið sem knýr fólk til aðgerða. Sögulega fá störf sem krefjast menntunar eru nú í boði segja launþegasamtök.

"Þetta er það sama og gerðist á tíunda áratug síðustu aldar. Við misstum þá nokkur þúsund nýútskrifaða verkfræðinga sem gerðu hið sama, fóru að aka leigubíl eða álíka, þeir komu aldrei til starfa í sínu fagi eftir það," segir Morten Thiessen hjá samtökum verkfræðinga. 

Louise Margrethe Pedersen sem er nýútskrifaður sálfræðingur segist hafa sótt um starf sem aðstoðarmaður á barnaheimili, "en ég fékk ekki starfið því þeim þótti ég "of hæf" í það. Ég er yngri en 30 ára og verð því strax send inn í "virkjunarkerfi hins opinbera" Børsen | AE

Louise verður send í hitt og þetta á milli Pontíus og Pílatusar, engum til gagns en öllum viðkomandi til ógagns. Hún endar sem niðurgreiddur starfskraftur með miða frá hinu opinbera í rassvasanum til atvinnurekenda sem hafa ekki efni á neinu og taka inn niðurgreitt starfsfólk. Hún má þakka fyrir að fá full launaða raunverulega vinnu fyrir fertugt, eins og svo ótal margt ungt fólk í mörgum löndum ESB. 

Stór hluti dönsku þjóðarinnar vinnur við að koma restinni af þjóðinni til starfa og við að hafa eftirlit með henni. Ekki er því undarlegt að hagvöxtur í Danmörku hafi verið sá fimmti lélegasti í OECD hin síðustu 10 ár og verður sá lélegasti í OECD frá 2011 til 2017. Hér vinna of fáir og þeir sem vinna starfa of oft við að klippa hárið á þeim sem starfa við ekki neitt (800.000 manns á vinnualdri). 

Mannrán hjá seðlabanka Danmerkur

Í fyrsta sinn hin síðastliðin 25 ár hefur háttsettum starfsmanni verið rænt úr starfi hjá  seðlabanka Danmerkur. Bankanum Nykredit tókst að tæla Jesper Berg frá stöfum sem stjórnanda "fjármálastöðugleika" í seðlabankanum. Hann fer yfir til Nykredit og á að taka sig af glímukeppni fjármálageira Danmerkur við Evrópusambandið. En ESB vegur nú hart að danska húsnæðislánakerfinu og einnig er von á stóru nýju og heftandi regluverki fyrir alla banka og fjármálastarfsemi í landinu. Það hefur sem sagt ekki gerst hér í minnst 25 ár að manni í hárri stöðu hafi verið rænt frá seðlabankanum. Eitthvað mikið hlýtur að liggja við; Børsen

ESB-aðför að danska húsnæðislánakerfinu

Nýjar ESB-reglur (CRD directive) um aukið eigið fé lánastofnana sem gefa út skuldabréf sem eru veðhæf (covered bonds) verða þess sennilega valdandi að hin svo nefndu dönsku "flexlán" til húsnæðiskaupa verða að láta lifið, eða þarf að breyta verulega. "Flexlán" eru lán þar sem samið er um vexti til eins til fimm ára í senn. Menn eru ennþá ósammála um hverjar afleiðingarnar verða, en talið er víst að húsnæðislán munu þurfa að verða mun dýrari en þau eru núna, svo þau eigi séns sem söluhæf vara á skuldabréfamarkaði. PA Consulting hefur gert þá útreikninga fyrir dagblaðið Børsen að til dæmis eins árs flexlán yrðu tveimur prósentustigum dýrari í vöxtum en þau eru núna. Þessi breyting á regluverkinu mun þýða að húsnæðisverð í Danmörku verður sprengt til baka í tíma um 18 ár, segir PA Consulting. Það yrði það mikið dýrara að taka lán eftir að reglum ESB verður breytt. Børsen segir að danska ríkið sé nú þegar búið að tapa málinu. Að útför "flexlána" hafi þegar farið fram; Børsen

Nýjar ESB reglur munu kosta 40.000 manns vinnuna í DK

Samtök fjármálastofnana í Danmörku (Finansrådet) segja að nýjar og hertar kröfur ESB til fjármálastofnana muni kosta Danmörku 40.000 atvinnutækifæri og því til viðbótar munu reglurnar kosta hvern Dana um 4.000 DKK á ári. Lánveitingar til einstaklinga og fyrirtækja munu minnka, hagvöxtur verður lélegri fyrir vikið og samfélagshagkerfið mun því rýrna um 20 miljarða danskar krónur á hverju ári. Kaupmáttur mun einnig lækka vegna nýju reglna ESB um húsnæðislán og eignir fólks munu lækka að verðmætum. Þetta verður samtals um það bil 16.000 danskra krónu tekjutap á fjögurra manna fjölskyldu á ári. Einkaneysla mun dragast saman; Berlingske | Folkebevægelsen mod EU


Þriðjudagur 20. apríl 2010


Borgarísjaki evrusvæðis

Bloomberg var með langa grein og samtöl við marga stjórnendur fjármálafyrirtækja í gær um skuldavandamálin í evrulandi. Úrdráttur: Gríska björgunarákvörðun kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, mun reynast Þýskalandi örlagarík. Lánshæfni Þýskalands mun rýrna á næstunni vegna annarra evrulanda sem eru að þrotum komin. Og þýsk ríkisskuldabréf munu glata forskoti sínu sem valkostur við hliðina á bandarískum ríkisskuldabréfum.

Það sem við sjáum núna er aðeins toppurinn á borgarísjakanum, segir fréttin. Bestu dagar þýskra ríkisskuldabréfa eru búnir. Verið er að flytja áhættu og fjárskuldbindingar annarra ríkja yfir á herðar Þjóðverja. Auðæfi Þýskalands eru ekki ótæmandi. Þetta getur kostað þýska ríkissjóðinn svipað og sameining Þýskalands, segir Louis Gargour hjá LNG Capital LLP (heil 20 ár og tæpa tvo billjón Bandaríkjadala eða 1,3 billjón evrur = 1300 miljarðar, og nánast engan árangur sjá; Twenty Years of Stimulus for East Germany).
“We have been very long duration in Europe based on our inflation and rate expectations and we have reduced that now,” Michael Krautzberger, co-head of European fixed-income who helps oversee New York-based BlackRock’s $3.35 trillion of assets from London, said in an interview on April 16.
Lánsfjárkostnaður þýska ríkisins gæti farið mjög hátt, eða í 9,3% á 10 ára ríkisskuldabréfum, eins og gerðist í september 1990. Stefnustjóri Morgan Stanley bankans, Joachim Fels, segir að ESB sé að biðja um að framkvæmd séu eins konar fjárhagsleg sifjaspell (moral hazard) á evrusvæði. Langtíma fjárfestar eru að pakka saman. Væntingar þeirra til lágrar verðbólgu og vaxta dvína. Sáttmálar ESB eru sniðgegnir og brotnir; Bloomberg

Hmm. Þetta, þegar allt er lagt saman og dregið frá, ætti hugsanlega að vekja suma af værum Þyrnirósarsvefni. Nýtt Weimar í uppsiglingu? Þetta er grátleg þróun fyrir Evrópu.

The Endgame? Þrotabú kaupir hlut í öðru þrotabúi

Írski hagfræðingurinn David McWilliams segir að Írland eigi að fara fram á að verða tekið til gjaldþrotameðferðar. Stuttur úrdráttur: Nú er svo komið að Írland hegðar sér eins og óábyrgt útrásar?fyrirtæki. Það safnar skuldum til að halda sér á floti. Salan (landsframleiðslan) hefur verið fallandi árum saman. Það ríkir verðhrun (verðhjöðnun). Fólkið er að fara á hausinn. Skuldastaðan miðað við framleiðslu er að springa. Hvar eigum við að fá peninga til að borga allar þessar skuldir?
Unfortunately, that buyer of Greek bonds is our government using borrowed money to buy Greek bonds when even the Greek public is selling. How mad is that?
Hvað kemur svo? Jú, rétt í þessu vorum við að tapa 480 miljón evrum sem við ætlum að gefa Grikklandi. Ríkisstjórn Írlands ætlar að kaupa grísk ríkisskuldabréf af þeim fjárfestum sem þora ekki lengur að eiga þessi bréf. Ríkisstjórn okkar ætlar að taka fleiri lán til að getað gefið ríkisstjórn Grikklands peningana? Jafnvel grískur almenningur vill ekki lengur eiga grísk ríkisskuldabréf. Hversu geðbilað er þetta?

Næst þarf að bjarga Spáni. Þetta er eins og á gullfótarárunum. Ríkin reyndu að bjarga gullforðanum sem tryggði myntina með því að skera niður útgjöld. Þar var það gullið sem átti að binda löndin saman á einu gengi. Það gekk ekki upp og löndin yfirgáfu gullfótinn til að bjarga sér. Nú er það pólitík sem á að binda gengi landanna saman á einum fæti (evru). Þessa pólitík þarf að leysa upp. Hvar ættum við að fá tvo miljarða af evrum til að bjarga Spáni? Við þurfum að undirbúa ríkisgjaldþrot Írlands; David McWilliams


Mánudagur 19. apríl 2010


Björgun seinkar aðeins evruríkisgjaldþroti Grikklands

Wolfgang Münchau skrifaði í Financial Times í gærkvöldi að Grikkland væri nú þegar gjaldþrota og allar björgunaraðgerðir evrulanda og AGS muni aðeins seinka ríkisgjaldþroti Grikklands um stund. Allir sem kunna að reikna sjá að það vantar 250 miljarða af evrum til að koma Grikklandi á réttan kjöl á ný. 

Skuldir Grikklands séu um 125 prósent af landsframleiðslu núna. Landið þurfi að ná sér í 50 miljarða evrur að láni á hverju einasta ári næstu fimm árin, einungis til þess að getað rúllað núverandi skuldum áfram á skuldagrillinu og til að greiða vexti af lánunum. Þetta eru um 250 miljarðar evrur, eða 100 prósent af landsframleiðslu Grikklands sem vantar á næstu fimm árum. Þ.e.a.s einungis til að geta velt skuldum Grikklands óbreytt áfram. Þessi upphæð er svo stór að hana er einungis hægt að lagfæra með því að fara í þrot og hefja einhvers konar nauðasamninga, þar sem lánadrottnar yrðu að veita verulegan skuldaafslátt. Þetta er svipuð upphæð og Simon Johnson nefndi þann 12/3 í viku 10 (eða 180 miljarðar evrur); FT

Engin evra handa Eistlandi?

Hagfræðingurinn Edward Hugh segir frá stóru og frekar skyndilegu spurningarmerki við aðgengi Eistlands að myntbandalagi Evrópusambandsins. "Ekki svona hratt" hefur hann eftir eistlenska blaðamanninum Mikk Salu. Sá hefur hins vegar eftir "áreiðanlegum heimildum" að á síðasta lokaða-fundi málfundarfélags málefna myntbandalagsins í ESB þinginu (Economic and Monetary Affairs Committee of the European Parliament) hafi viss Stark-þýskur stjórnarmaður seðlabanka Evrópusambandsins verið viðstaddur og sagt að Eistland færi ekki inn í myntbandalagið. Punktur: EH

Rúmenía hættir líklega við evruupptöku í bili

Seðlabankastjóri Rúmeníu, Mugur Isarescu, sagði að Rúmenía muni líklega salta það að sækja um inngöngu í myntbandalag ESB. Það er m.a. verbólga sem dregur fyrir möguleika Rúmeníu á að fara inn í tveggja ára biðstofu ERM II klefa Evrópusambandsins. Seðlabankastjórinn segist ekki hafa getað farið á veitingahús síðastliðin tvö ár því hann fái engan frið fyrir fólki sem spyrji sífellt á hvaða gengi Rúmenía fari inn í evru. Í síðustu viku var það Búlgaría sem tilkynnti það sama; EA 

Efnahagslegt sjálfsmorð að stofna fjölskyldu í Ungverjalandi

Betti Varga skrifar í Komment.hu að það sé nær ógerningur að stofna fjölskyldu í Ungverjalandi án þess í leiðinni að fremja efnahagslegt sjálfsmorð. Konur, starfsferill og börn fara ekki saman. Betti segir að konur í Ungverjalandi verði að velja á milli þess að fá starfsferil eða börn og heimili. En starfsferill í Ungverjalandi þýði ekki endilega stjórnunarstarf í fyrirtæki eða viðskiptaferðir til Japans og þýska glæsibifreið til afnota. Nei í flestum tilfellum er aðeins um ósköp venjulegt starf að ræða. En ef konan eignast barn þá vill vinnumarkaðurinn hana ekki á eftir. Konan fellur í verði í augum atvinnurekenda. Hún getur ekki unnið yfirvinnu vegna lélegrar barnapössunar og svo þarf hún oftar að vera heima frá vinnu. Þetta gengur ekki upp því það tekur að meðaltali 18 mánuði fyrir konur að finna vinnu í Ungverjalandi. Á meðan þarf heimilið að lifa á helmingi þess sem til þarf; Komment

Frá og með árinu 1979 hefur frjósemishlutfall kvenna í Ungverjalandi verið undir tvö lifandi fædd börn á hverja konu. Frá og með árinu 1998 til og með ársins 2007 hefur frjósemishlutfallið verið undir 1,32 barn á hverja konu. Ungversku þjóðinni byrjaði að fækka árið 1980 og hefur henni fækkað um 700.000 manns fram til ársins 2008, eða niður í 10 milljón manns. Hætt er við að skattatekjur til samfélagsumbóta verði af skornum skammti það sem eftir er í því landi. Að lenda í gildru lágs frjósemishlutfalls (e. low fertility trap) er það kallað þegar þjóðir fara undir 1,5 lifandi fætt barn á hverja konu. Engin dæmi eru til um að þjóðir nái sér upp úr þessari gildru ef þær hafa lent í henni og setið þar fastar í meira en örfá ár.

Atvinnuleysi í Ungverjalandi í febrúar var 11 prósent og hefur það legið á bilinu 6-10% allar götur frá árinu 1995. Svona, svipað og enn verr er komið fyrir öllum löndum ESB í Austur- Mið- og Suður-Evrópu.


SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA


PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan

PDF 
snið vika 16  2010

PDF_utgafa_vika_16_2010.pdf


Skoða:
 smella beint á PDF-skrá til að skoða

Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín


Skráasafn stuttra en oft daglegra frétta

Comments