# 489 - 2010 - vika 15 - til 17. apríl 2010


VIKA 15  2010

Föstudagur 16. apríl 2010


IMF Statement on Greece Press Release April 15, 2010

Grikkland leitaði til AGS í gær

Svo virðist sem Grikkland hafi kastað handklæðinu í hringinn og gefist upp við reyna að fá rekstrartap ríkissjóðs fjármagnaðan á frjálsum markaði í hinu fræga evruskjóli myntbandalags Evrópusambandsins. Í gær leitaði Grikkland til Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins (AGS). Sérsveit sjóðsins mun lenda í Aþenu á mánudag til að hefja viðræður um aðstoð. Sennilega mun Grikkland einnig leita aðstoðar hjá 15 öðrum evrulöndum sem nota þessa sömu mynt og Grikkland notar: þ.e. evru. Ennþá er óvíst hvort aðstoð evrulanda verður samþykkt í þjóðþingum landanna; AGS

Næst, Portúgal?

Simon Johnson og Peter Boone á Baseline Scenario eru að venju með athyglisverða grein í New York Times um Portúgal. Simon Johnson var áður yfirhagfræðingur AGS og er nú prófessor við MIT og "senior fellow" við Peterson stofnunina og í stjórn fjárlaganefndar bandaríska þingsins. Peter Boone er við London School of Economics
Despite this eye-popping sum, the bailout does nothing to resolve the many problems that persist.  Indeed, it probably makes the euro zone a much more dangerous place for the next few years.
Greinin segir (stuttur úrdráttur) að nú sé í þann mund að hefjast einskisnýt björgunaraðgerð sem á að forða Grikklandi frá ríkisgjaldþroti. Um er að ræða sögulega stórar upphæðir þar sem Grikkland verður að líkindum látið brenna af upphæð sem svarar til 18% af landsframleiðslu landsins. En þrátt fyrir þessa sögulega stóru upphæð, þ.e. 4.000 evrur á hvert mannsbarn í Grikklandi, þá mun bruninn einungis skaffa landinu hita í næstu 11 mánuði. Þá eru peningarnir búnir. Þessir peningar eiga að koma frá AGS og öðrum evruríkjum.

Fyrir vikið verður allt evrusvæðið að sprengjusvæði næstu árin, því þessi aðgerð mun ekki leysa neinn þann vanda sem um er að ræða.

Næst á ratsjánni verður Portúgal. Flestum hafa yfirsést mikil og aðkallandi vandamál Portúgals vegna þess að þeir hafa verið of uppteknir við Grikkland. En bæði löndin eru engu að síður næstum jafn framarlega á hengibrún ríkisgjaldþrots. Hvor landið um sig er áhættusamara dæmi en greiðsluþrot Argentínu var árið 2001.

Vandamál Portúgals eru þau sömu og sem snúa að Grikklandi, Spáni og Írlandi, þ.e.a.s þau sitja föst föst með gengisfyrirkomulag og gengi sem er allt of hátt á meðan þau eru að reyna að leiðrétta hrikalegan hallarekstur ríkissjóðs.

Portúgalska ríkið eyddi of miklu undanfarin ár og byggði upp skuldafjall sem var 78 prósent af landsframleiðslu á síðasta ári (Grikkland var þá með 114% og Argentína var með 63% þegar hún fór í þrot).

Skuldasöfnunin hefur að mestu verið fjármögnuð af útlendingum (eins og Grikkland) og hefur landið ekki getað greitt vexti af þessum lánum en sækir sér bara meira og meira fjármagns hjá fjárfestum til þess að endurfjármagna vaxtagreiðslur með því að stofna til nýrra lána.

Árið 2012 vera ríkisskuldir Portúgals 108 prósent af landsframleiðslu þ.e.a.s ef landinu á annað borð tekst að leiðrétta þann fjárlagahalla sem kallar á sífellt meiri skuldasöfnun. Það mun koma að því að fjármálamarkaðir hætta að vilja fjármagna þessa svikamyllu portúgalska ríkisins.
While these nations delay, the EU with its bailout programs – assisted by Mr. Trichet’s European Central Bank – provides financing.  The governments issue bonds, European commercial banks buy them and then deposit these at the ECB as collateral for freshly printed money.  The ECB has become the silent facilitator of profligate spending in the euro zone.
Til að geta leiðrétt fjármálin og stöðvað snjóboltaveltu skuldasöfnunar þarf ríkið að skera niður fjárlög um 10 prósentustig á tveim árum. Þetta er vonlítið með allt of hátt og faststeypt gengi án massífs atvinnuleysis. En þá hrynja tekjur ríkissjóðs á sama tíma þannig að leiðrétting á hallarekstri ríkissjóð verður ómöguleg, því skattatekjur hans þorna þá upp. Þær koma frá atvinnu. Hvorug ríkisstjórnin, Portúgals né Grikklands, er tilbúin til að fara út í svona harkalegar aðgerðir og framkvæma þann niðurskurð sem er svo nauðsynlegur.
Last week the ECB had a chance to dismantle this doom machine when the board of governors announced new rules for determining what debts could be used as collateral at the ECB
Á meðan ríkisstjórnirnar sitja og sjúga á sér þumalputtana, þá kemur Brussel með sína "áætluðu björgunaraðgerðir" með aðstoð seðlabankastjóra ECB, herra Trichet, sem skaffar peningana. Seðlabankinn styður undir og fjármagnar hina óábyrgu hegðun þessara landa á evrusvæði. Í síðustu viku gafst seðlabankanum tækifæri á að stöðva þetta dómsdags fyrirkomulag. En það gerði seðlabankinn ekki. Hann byggði bara enn stærri tímasprengju fyrir allt evrusvæðið.

Þýskaland mun líklega gefast upp á þessu og taka tappann úr evrubaðkarinu. Það mun gerast með barki og brestum þar sem lönd verða gjaldþrota. Þá mun smithættan líklega verða mikil; Baseline Scenario

Morgan Stanley: endalok evru?

Joachim Fels stefnustjóri heimsviðskipta með gjaldeyrir hjá stórbankanum Morgan Stanley segir í nýjustu útgáfu "The Global Monetary Analyst" að endalok evru í núverandi mynd séu ekki ólíkleg. Þetta segir hann því björgunaraðgerðir Brussel og seðlabanka Evrópusambandsins muni skapa safn ríkja með léleg ríkisfjármál, veikja gjaldmiðilinn og skapa verðbólguþrýsting til langframa. Því munu ríki sem leggja áherslu á stöðugleika velja að yfirgefa myntbandalagið og jafnvel stofna bandalag með álíka ríkjum. Skýrslu Joachim Fels hjá Morgan Stanley er hægt að nálgast og lesa hér; - sjá einnig; FT/AlphavilleThe end of the euro


Fimmtudagur 15. apríl 2010

Raunverð húsnæðis í JAP, ÞÝS og OECD frá 1970

Hugleiðing: Höfum við áður staðið með svona taflstöðu?

Hefur Evrópa áður staðið í þeim sporum að eiga á hættu að skipta alls engu máli. Hvað sjáum við í heiminum í dag? Hvað er að gerast? Hvert mun "gáfað fjármagn" leita núna og í framtíðinni? Mun það leita til Evrópu? Mín skoðun er sú að fjármagnið mun ekki leita til Evrópu. Þvert á móti, það mun flýja Evrópu. Það mun flýja hnignunina. Flýja öldrunarhagkerfin og hin hrikalegu vandamál sem þeim munu fylgja næstu hundruð ára.
 
Fjármagn er eins og áburður er fyrir bændum. Það getur virkað eins og vatn í Sahara. Það fær hluti til að vaxa. Það er þess vegna sem banka- og fjármálastarfsemi er svona mikilvæg og á sama tíma mjög svo umdeild - á vissum tímum sögunnar.
 
Núna erum við að sjá mjög breytta heimsmynd. Núna sjáum við að kannski er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem gáfað fjármagn hefur afgerandi valkosti sem það hafði ekki áður. Það getur valið um heimsmynd og heimssvæði. Það þarf ekki lengur að vera staðsett í gamla hluta heimsins. Það þarf heldur ekki að hafa heimilisfestu í gamla hluta heimsins. Nú getur fjármagnið flúið gamla heiminn. Farið þaðan fyrir fullt og allt, yfir til nýja heimsins og aldrei komið til baka.
 
Þetta hefur stór-fjármagnið aldrei áður getað gert í sögunni. Annað hvort var því óheimilt að flýja, eða þá að það var ekki til neinn staður sem hægt var að flýja til. Enginn annar staður sem gat gefið því það afkast sem á þurfti að halda. 
 
Árið 1998 hélt einn duglegasti og snjallasti fjárfestir heimsins, Warren Buffet, tölu og svaraði spurningum nýútskrifaðra nemenda við háskólann í Flórída í Bandaríkjunum. Einn nemandi skólans spurði Warren Buffet að því af hverju hann fjárfesti aldrei í Japan. Svarið var athyglisvert og er jafnvel enn athyglisverðara núna 11 árum seinna. Þrátt fyrir að getað fengið peninga í Japan að láni á eitt prósent vöxtum, hafði Warren Buffet ekki ennþá getað fundið neitt Japanskt fyrirtæki sem hann vildi fjárfesta í til að fá til baka meira en eitt prósent. Þarna á þessum árum voru öldrunarvandamál Japanska hagkerfisins ekki komin eins mikið í brennidepil eins og þau eru núna. Ég skrifaði um mannfjöldaspá Japans hér miðvikudaginn 24. mars. Myndbandið með Warren "gamla" Buffet er hér og spurningin um Japan er um það bil 9 mínútur og 30 sekúndur inni í myndbandinu. Allur þátturinn með Buffet er afar lærdómsríkur. 
 
Svona, að mínu mati, verður stærsti hluti Evrópusambandsins. Öldrunarvandamál, hnignun, verðhjöðnun, skuldir og enginn hagvöxtur mun fá fjármagnið til að halda á betri mið. Að mínu mati hefur ESB og sérstaklega myntbandalag þess aðeins innsligað þessa neikvæðu þróun enn betur. Þessa þróun getur ekkert stöðvað lengur. Að senda Ísland í þessa verðandi efnahagslegu þurrkví væru ófyrirgefanleg og heimskulegustu mistök allra tíma. Og nóg er komið af mistökunum. Eftirfarandi kom einnig upp á borðið í gær, og ekki skal mig undra þessi viðhorf: 
AEP: Global fund managers have changed their views of the euro area dramatically since the Greek crisis erupted last year and exposed the deep structural flaws in monetary union; 'no-go zone'

Miðvikudagur 14. apríl 2010

Einsdæmi: farið var á bak við Þýskaland í málefnum myntbandalagsins

Þau óhugnanlegu tíðindi hafa borist til eyrna þýskra fjölmiðla að Frakkland, Ítalía og embættismenn seðlabanka Evrópusambandsins hafi farið á bak við kanslara Þýskalands og þar á eftir þvingað hana til að samþykkja stærsta ríkislánapakka mannkynsögunnar. NRC Handelsblatt lýsir með óhug þeirri atburðarrás sem fáir virðast ennþá hafa gert sér grein fyrir, varðandi hinn svo kallaða "hjálparpakka" til Grikklands.
“Between phone calls, the French and Italian presidents met face to face. They worked out a deal with ECB chairman Jean-Claude Trichet . . " 
Á sunnudag höfðu Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti, Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu og bankastjóri seðlabanka Evrópusambandsins þegar samið sín á milli um að fara í gang með að útbúa björgunarpakka handa Grikklandi. Þeir sögðu svo Angelu Merkel kanslara Þýskalands frá þessu í símtölum sem áttu sér stað á sunnudag. Þeir stilltu málinu þannig upp að það yrði að finna lausn á málunum áður en markaðir opnuðu á mánudag. Samt hafði engin formleg beiðni borist frá Grikklandi. Það sem er enn skuggalegra er það að á milli símtala hittust Sarkozy og Berlusconi andliti til andlits án þess að kanslarinn vissi af því. Einungis hafði verið ákveðið að símaráðstefna átti að fara fram þennan dag á milli leiðtoga evrulandanna.
"The German reaction to the Greek rescue plan is one of a sheer horror"
Hér var sem sagt rúllað yfir kanslara Þýskalands sem seint og síðar meir skildi að ekki var hægt að koma sér undan þátttöku án þess að setja myntbandalags-sprengjuvörpuna í skotstöðu. Þetta er jú líka mynt Þýskalands. Nú er sem sagt búið að skuldbinda Þjóðverja til að axla stærstu byrðar þessa máls með skammbyssupólitík. Merkel vildi hafa samráð við öll 27 lönd ESB áður en nokkuð væri ákveðið; Nrc Handelsblatt | Eurointelligence

Viðbrögðin í Þýskalandi eru hörð og sár

Frank Schaeffler (frjálsir demókratar): sagði við Dow Jones Newswires að þetta væri brot á sáttmálum myntbandalagsins og væri efnahagslega óheillavænleg ákvörðun. Hann hvetur Grikkland til að yfirgefa myntbandalagið af frjálsum og fúsum vilja vegna þess að það sé eina leiðin fyrir Grikkland til að verða samkeppnishæft land aftur.

Schaeffler segir að björgunaráætlunin fresti aðeins vandamálum Grikklands, hún leysir þau ekki. Fjárþörf Grikklands sé 86 miljarðar evrur fram til 2012. Þetta samkomulag brýtur í bága við það sem samþykkt var í mars, þ.e. að ekki megi niðurgreiða hjálp til Grikklands með aðstoð skattgreiðenda í öðrum evrulöndum. "Þetta skapar falskt myntbandalag þar sem ríki þurfa að bera ábyrgð á ríkisfjármálum annarra landa."   

Hið leiðandi Börsen-Zeitung: viðskiptadagblað segir að þetta sé upphafið á endalokum evrunnar. Seðlabanki Þýskalands ætti að hefja prentun og útgáfu Deutsch-marks aftur.

Hagsmunasamtök þýskra skattgreiðenda: eru reið og segja að Þýskaland sé nú þegar skuldsett upp fyrir axlir því landið skuldi 73,1% af landsframleiðslu eða sem svarar til 1,6 billjón evra. Þetta yrðu hrein og klár brot á Maastricht sáttmálanum, sagði Karl Heinz Daeke hjá samtökunum. "Hinn venjulegi launþegi mun ekki skilja af hverju hann ætti að bera ábyrgð á lélegum ríkisfjármálum Grikklands á meðan verið er að aflýsa skattalækkunum til hans hér heima. Allt í einu eru 8,4 miljarðar evrur til á lausu handa Grikkjum."

Hagfræðiprófessor Wilhelm Hankel: segir að hann muni stefna ríkisstjórninni ef Grikkland fær lánið. Í opnu bréfi til Angelu Merkel sagði Hankel að kanslarinn ætti að vinna að því að evrulöndin gætu fengið sínar gömlu myntir aftur. Evran hefur ekki verndað löndin gegn alþjóðlegri spákaupmennsku heldur hefur hún boðið uppá spákaupmennsku gegn löndunum.

Hankel segir að evran verði aðeins til svo lengi sem Þýskaland borgar brúsann. "Gefðu löndum evrusvæðis sína gömlu mynt til baka, það er eina leið þeirra til hagsældar," skrifaði Hankel.

Hagfræðiprófessor Ekkehard Wenger: við háskólann í Wuerzburg segir að Þýskaland ætti að íhuga að yfirgefa myntbandalagið áður en fleiri veik lönd evrusvæðis skaði landið ennþá meira; DJ Newswires

Svíar meira og meira andsnúnir evruupptöku

Sænski SEB bankinn lét Demoskop framkvæma skoðanakönnun meðal Svía um hvort þeir vildu fórna sænsku krónunni og taka upp evru. Niðurstaðan er sú að 55 prósent sögðu nei og aðeins 37 prósent aðspurðra sögðu já. Þetta er svipuð niðurstaða og kom út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni í Svíþjóð um sama mál árið 2003. Þá sögðu 56 prósent nei. Mestur áhugi fyrir evruupptöku er meðal hálaunaðra háskólamanna yfir fimmtugt í einbýlis- og raðhúsum í Stokkhólmi; EP


Þriðjudagur 13. apríl 2010

Hin hlaðna skammbyssa Grikklands loksins komin á borðið?

Forsætisráðherra Grikklands segir að hin margumtalaða "hlaðna skammbyssa" gegn "vondum spákaupmönnum" sé nú komin á borðið. Hann hefur verið að reyna að sannfæra heiminn um að "vondir spekúlantar" séu að gera ríkissjóð Grikklands erfitt fyrir. Þessu hefur hann haldið fram þó svo að óyggjandi sannanir hafi komið fram um að hér séu einungis óttaslegnir fjárfestar að verki. Þeir eru að reyna að tryggja sig gegn greiðslufalli Grikklands. 

Nýir fjárfestar í grískum ríkisskuldabréfum hafa einnig krafist hærri áhættuþóknunar fyrir að fjármagna taprekstur ríkissjóðsins Grikklands áfram. Þeir vilja fá hærri vexti núna. Athugið að Grikkland er ekki að borga niður skuldir sínar. Það er einungis að reyna að fá lán hjá fjárfestum til að geta greitt vexti af þeim lánum sem ríkið hefur nú þegar tekið og til að endurnýja eldri lán ríkisins - og til að fjármagna áframhaldandi taprekstur ríkissjóðs.

Byssuhleðsla Grikklands er sem sagt þetta loforð frá öðrum evruríkjum um að þau ætli að lána ríkissjóði Grikklands 30 miljarða evrur, ef svo skyldi fara að Grikkland gæti ekki lengur fengið peninga að láni hjá nýjum "vondum fjárfestum" á frjálsum markaði til að borga vexti af gömlum lánum ríkisins.

Samkvæmt greiningu franska bankans BNP Paribas skiptast lánsfjárloforðin þannig á milli landanna: Þýskaland 8,4 miljarða evrur (0,3% af landsframleiðslu Þýskalands) - Frakkland 6,3 miljarðar evrur - Ítalía 5,5 miljarðar evrur - Spánn 3,7 miljarðar evrur - Holland 1,8 miljarðar evrur - Belgía 1,1 miljarðar evrur - Austurríki 0,9 miljarðar evrur - Portúgal 0,8 miljarðar evrur - Finnland 0,5 miljarðar evrur - Írland 0,5 miljarðar evrur. Um það bil 5 prósent ársvextir munu verða á láninu. Grikkland þarf því að borga þessa peninga til baka með 5 prósent vöxtum ef það notar þá. Þessir peningar ásamt meira fjármangi frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum (AGS) eiga að duga Grikklandi í eitt ár. iMn    

Gott ráð til fjárfesta í ríkisskuldum evrusvæðis

Mín skoðun; Jæja, eftir að forsætis- og fjármálaráðherrar evrulanda hafa gefið út þá yfirlýsingu að þeir ætli að útbúa 30 miljarða evru lánapakka sem muni standa ríkissjóði Grikklands til afnota, ef á þarf að halda, þá ættu fjárfestar að hafa eftirfarandi í huga; Frá og með nú vitum við að hjá gríska ríkinu getum við fengið ca. 6-7% ávöxtun á peningum okkar. Af hverju ættum við þá að vera að kaupa ríkisskuldabréf af ríkissjóði Þýskalands með 3% ávöxtun, þegar við vitum að við getum fengið 6-7% hjá ríkissjóði Grikklands og að ríkissjóður Þýskalands og annarra evru landa mun ofaní kaupið ábyrgjast að við fáum peningana okkar greidda til baka frá gríska ríkinu? Ef við ættum að halda áfram að kaupa skuldir af ríkissjóði Þýskalands þá verða þeir að bjóða okkur betri ávöxtun en þetta, því nú getum við fengið "þýskar ríkisskuldir" hjá gríska ríkinu á 6-7% ávöxtun. Er þetta ekki frábært?  

Er það ekki einhvern veginn svona sem menn hugsa? Það myndi ég gera. Ef þetta er rétt þá mun þetta þýða að vaxtakostnaður ríkissjóðs Þýskalands mun bara hækka og hækka í takt við hversu mörgum gjaldþrota löndum evrusvæðis mun verða staflað upp á framfærslubyrði hans. Ef þetta verður reyndin þá munum við í orðsins fyllstu merkingu getað talað um gjaldþrotabandalag Evrópusambandsins - og þá undir ónýtri mynt. 

Dósinni sparkað áfram eitt ár niður eftir götunni

Simon Johnson fyrrverandi yfirhagfræðingur AGS segir að þetta lánsfjárloforð evruríkja til Grikklands muni einungis hafa þau áhrif að nú geta "skynsamir peningar" (e. smart money) forðað sér frá Grikklandi án þess að tapa of miklu, því með þessum lánsloforðum sé spennt undir þá öryggisnet. Þeir munu nota netið til þess að koma sér út úr grískum ríkisskuldum á betra gengi og að þeir muni jafnframt halda sig burtu frá Grikklandi það sem eftir er því Grikkland muni bara halda áfram að á leið sinni í ríkisgjaldþrot. En nú bara á hægari hraða. 

Þetta var líka svona hjá Argentínu og Rússlandi áður en þau fóru í þrot. Þau fengu bæði svona hjálparpakka. En aðgengi þeirra að hinum frjálsa markaði opnaðist ekki aftur við það. Fyrir Grikkland mun aðgengi að hinum frjálsa markaði líklega verða lokað áfram. Nú hafi áhættan á smitum til annarra evrulanda bara aukist því nú veit markaðurinn að hann mun geta knúið ríkisstjórnir evrulanda til að greiða hærri vexti án þess að fjárfestar munu tapa á því að þrýsta ávöxtunarkröfu sinni upp í loft upp. Portúgal og Spánn næst? - spyr Simon Johnson; SJ

Lánapakkinn engin lausn fyrir evrusæðið 

Wolfgang Münchau tekur í sama streng og Simon Johnsons. Hann gengur svo langt að geta sér til um það að Grikkland sé eins og Bear Stearns bankinn sem var ekki sendur í gjaldþorþrot. En svo komi hugsanlega Portúgal og Spánn næst í röðinni en sem yrðu þá eins og Lehman Brothers bankinn sem ekki var hægt að bjarga og fór í þrot. Evrusvæðið er enn ófært um að leysa þau vandamál sem mynt þess kallar yfir ríkin sem nota hana [galdra-mynt]. FT

Loftið fór úr kanslara Þýskalands

Stóri taparinn í þessu máli er Angela Merkel. Ef Grikkland þarf að nota þennan lánapakka þá mun ríkisstjórn Þýskalands verða stefnt fyrir stjórnarskrárdómstól landsins - og það af fleiri en einum aðila. "Menn ættu ekki að vera að reyna að pakka þessu inn í neitt annað en þetta er. Hér er verið að brjóta stöðugleikasáttmála myntbandalagsins", segir Frank Schaeffler sem er talsmaður hjá frjálsum demókrötum í Þýskalandi. "Þessi lánapakki mun skaða evruna og aðeins hjálpa Grikklandi í smá tíma. Við erum hér á hálum ís, bæði laga- og efnahagslega séð"; Bloomberg

Erfið pilla fyrir hin vandræðaríki evrusvæðis

Mín skoðun; Ef Grikkland mun þurfa að leita á náðir þessa lánapakka frá evruríkjunum þá getur það orðið erfið pilla að gleypa fyrir þau ríki evrusvæðis sem eru í eða eru að komast í sömu aðstöðu og Grikkland sjálft er í núna. Það yrði erfitt fyrir Írland, Spán og Portúgal að þurfa að standa við þessar skuldbindingar. Þessi ríki munu heldur ekki skilja af hverju er verið að gera upp á milli landanna á peningamörkuðum evrusvæðis. Það verður erfitt fyrir írska skattgreiðendur að kyngja þessu eftir að allt bankakerfi þess lands er svo að segja hrunið ofan á þjóðina.   

Einnig verður erfitt fyrir Þjóðverja að gleypa þessa pillu því fram til þessa hefur kanslari Þýskalands sagt þýskum skattgreiðendum að hún munu sjá til þess að fjármunir þýska ríkisins muni ekki verða notaðir til að björgunar ríkisfjármála annarra evrulanda, - eins og Þýskaland sjálft krafðist á sínum tíma að væri grundvallar skilyrðið fyrir þátttöku Þýskalands í myntbandalaginu.


Mánudagur 12 apríl 2010

Fregnir af sáttmálabrotum ESB í nafni "efnahagslegs stöðugleika"

Þær fregnir hafa borist að evrulönd hafi skuldbundið sig, á einn eða annan hátt, til að koma saman 30 miljarða evru lánapakka til handa gríska lýðveldinu.

Lex dálkur Financial Times skrifar að hinn efnahagslegi raunveruleiki hafi hitt aðila myntbandalags Evrópusambandsins með braki og brestum. Valdamenn evrulanda hafi nú í kyrrþey ákveðið að sniðganga þá sáttmála sem lagðir voru til grundvallar við stofnun myntbandalagsins. Markaðir verða hugsanlega ánægðari.

En skuldir Grikklands eru eftir sem áður 120 prósent af landsframleiðslu og fjárlagahalli ríkisins 13 prósent. Frá og með þessum degi hefur Grikkland ekki lengur neinar afsakanir fyrir því að afhenda ekki vöruna á réttum tíma: massífan niðurskurð ríkisútgjalda. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli næstu daga, vikur, mánuði og ár: FT Lex

Án hjálpar Þýskalands mun myntbandalagið leysast upp

Hinn vel þekkti fjármálamaður George Soros, sem árið 1992 græddist mikið fé á hruni EMS-gengisbindingar ESB-landa, segir að það séu 50/50 líkur á að myntbandalag Evrópusambandsins leysist upp komi Þýskaland Grikklandi ekki til hjálpar. Hann segir að evrusvæðið sé nú statt á heljarbrún og að aðeins fjárhagsleg hjálp frá Þýskalandi geti bjargað málunum. Soros segir að skaðinn sem upplausn myntbandalagsins myndi valda sé svo hrikalegur að þegar menn skoði það mál þá muni þeir toga vagninn burt frá bjargbrúninni.

Athugasemdir Soros eru tengdar ræðu forstjóra Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins (AGS), Dominique Strauss Kahn, sem hann flutti í Cambridge. Þar sagði Strauss Kahn að evrusvæðið þyrfti á yfirríkislegu valdi að halda yfir fjárlögum og ríkissjóðum evrulanda. "Tilkoma evru myntarinnar var aðeins fyrsta skrefið. Það er þó ekki hægt að hafa sameiginlega mynt án meira samhæfðari efnahagsstjórnun."

Áður en fundin verður haldbetri lausn til framtíðar verður Þýskaland að koma til hjálpar, sagði Soros. "En svo óheppilega vill til að það virðast vera vandamál með Þýskaland núna. Það vill ekki borga fyrir hirðulaus lönd Suður-Evrópu sem nú eru í miklum vandræðum. Sé það svo í raun, þá er evran í hættu og allt Evrópusambandið er þá einnig í hættu. Ég vona bara að Þýskaland muni hjálpa."
Soros, who famously made around a $1bn profits almost two decades ago by betting on sterling’s exit from the Exchange Rate Mechanism, argued that “having a common currency was very sensible for a common market.” However, he stressed that Europe now faced a test. “Is there the political will to keep Europe together? If there is not I think that there will be a process of disintegration.”
Soros sagði einnig að AGS væri eina stofnunin sem sé fær um að skipuleggja lausn og glíma við vandamál Grikklands. En þurfi Grikkland að borga 6-7% markaðsvexti þá mun landið ekki ná sér; FT

Lánshæfnismat ríkissjóðs og bankakerfis Grikklands lækkað

Fitch lækkaði lánshæfnismat ríkissjóðs Grikklands enn frekar á föstudaginn. Matið er nú hið sama og á ríkissjóði Búlgaríu og Panama. Það var lækkað um tvö þrep.

Eftir að hafa skert lánshæfnismat gríska ríkisins skar Fitch líka lánshæfnismat gríska bankakerfisins niður og var ástæðan sögð sú að bankakerfi Grikklands á heima í evrulandi sem er í vandræðum. Bankakerfið er því að hluta til í ruslflokki núna: Bb


SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA


PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan

PDF 
snið vika 15  2010
PDF_utgafa_vika_15_2010.pdf 
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín


Skráasafn stuttra en oft daglegra frétta

Comments