# 493 - 2010 - vika 11 - til 21. mars 2010


VIKA 11  2010


Föstudagur 19. mars 2010

Evrusvæðis-martröð Þýskalands

Martröð á evrusvæði

Ofangreint er frá þeim athugasemdum sem grein Martins Wolf vakti á Financial Times um daginn. Greinin bar yfirskriftina "evrusvæðis-martröð Þýskalands". Ég leyfi mér að benda lesendum á athyglisverð innlegg frá lesendum blaðsins. Ein þeirra kom frá fyrrverandi bankastjóra pólska seðlabankans, Krzysztof Rybinski. Hann bendir á þessa ofangreindu útreikninga varðandi skuldamál gríska ríkisins. En þetta er ekki einsdæmi fyrir evrulönd þó svo að staða Grikklands sé með þeim verri. Persónan Istvan kemur einnig með þá dapurlegu ábendingu að ekki séu mikil efni á að slaka á í jöfnuði utanríkisviðskipta né verðbólgubaráttu í öldrunarhagkerfi eins og Þýskalandi.

Could you please elaborate on how the ECB could raise German inflation rate well above the euro area average? Shouldn't the ECB focus on euro area inflation? What should be the external position of an economic area that is facing rapid aging?

Greiðslugeta ríkissjóða felst í skattatekjum frá vinnandi fólki. Ekkert vinnandi fólk, engin fyrirtæki og engar tekjur. Og ekki batnar greiðslugeta ríkissjóða við það að missa stjórn yfir eigin peningamálum og stýrivaxtavopni. Það sést vel á stöðu Grikklands í dag. Ekki var það bankakerfi Grikklands sem var vandamálið þar.

Vinnuafl Þýskalands mun minnka mjög hratt á næstu áratugum. En að sama skapi mun framfærslubyrði ríkissjóðs Þýskalands þyngjast. Hann þolir illa neina verðbólgu að ráði því útgjöld hans eru að miklu leyti háð dýrtíð, þ.e eiginlega verðtryggð. Því má verðbólga ekki fara úr böndunum í Þýskalandi því afleiðingarnar yrðu skelfilegar fyrir ríkiskassann. Það er því kannski ekki undarlegt að tillögur sumra manna um að slakað yrði á verðbólgumarkmiðum seðlabanka ESB, fengju kuldalegar móttökur í Þýskalandi; FT, Germany’s eurozone crisis nightmare & Comments

Er vinnuafl Danmerkur að týnast?

Er vinnuafl Danmerkur að glatast
Danska hagstofan kom með dapurlegar fréttir af atvinnumarkaði landsins. Fólki í atvinnu fækkaði um hvorki meira né minna en 151.000 persónur á síðasta fjórðungi fyrra árs, miðað við sama tímabil á árinu 2008. Þetta er mesta fall í atvinnustigi síðan 1995. Menn eru að velta vöngum yfir því hvert þetta fólk fór. Það hefur ekki skilað sér inn í opinberar atvinnuleysistölur eins og við mátti búast. Því álítur Danske Bank að opinberar atvinnuleysistölur endurspegli ekki rétta mynd af atvinnuástandi í Danmörku. Að það sé verra en upp er gefið.

Danska hagstofan kom einnig með tölur yfir þá sem eru ekki í atvinnu - þ.e. þeir sem eru á framfærslu hins opinbera að fullu eða að hluta til, en ekki í vinnu. Um 833 þúsund manns á vinnualdri eru ekki í atvinnu núna;

Rúmlega 111.000 manns eru skráðir atvinnulausir. Þessu til viðbótar eru 142.000 manns í kassageymslum hins opinbera (í "þjálfun" eða þykjustuvinnu).

Verðbólga - stýrivextir - atvinnuleysi í Danmörku frá 1976 til 2007

Um 238.000 manns þiggja þær örorkubætur sem ausið var út til hægri og vinstri til margra með illt í stóru tá á stóru atvinnuleysisárunum eftir að fastgengi var tekið upp í Danmörku árið 1982. Frá og með því blómstraði atvinnuleysi og eymd fram til 1999. Í aðeins 4-5 ár á síðustu 32 árum hefur atvinnuleysi farið undir 6% í Danmörku.

Svo eru 130.000 manns á eftirlaunum. En eftirlaunum var einnig ausið út til hægri og vinstri á atvinnuleysisárunum. Það þarf jú að láta kjósa sig einhvern veginn. Ekki hefur tekist að leggja eftirlaun aftur niður eins og til stóð. Athugið eftirlaun eru ekki það sama og íslensk eftirlaun. Hér eru þau veitt til fólks áður en það nær ellilífeyrisaldri (d. pension).

Um það bil 64-120.000 manns eru svo á bænum. Þegar allt er talið saman þá eru þetta því um 833.000 manns sem eru ekki í vinnu.

Fyrir utan þetta eru svo ein milljón ellilífeyrisþegar. Svo koma allir námsmenn og skólafólk. Er þá einhver við atvinnu í Danmörku? Já og nei, en alltof fáir.

Ein mestu afglöp sem ríkisstjórnir geta gert er að fara að nota örorkubætur sem kassageymslu fyrir fólk á vinnualdri. Mér sýnist þetta vera að sækja í sig veðrið á Íslandi. Það má aldrei hætta að krefjast þess að fyrirtækin taki inn óreynt fólk og ali það upp til góðra starfa. Óbreytt fólk verður að geta notið kennslu og aðlögunar innan veggja fyrirtækja og hækkað þar í tign. Það er m.a. þetta sem Bandaríkin hafa. Því finnst fólki þar að möguleikar þess takmarkist ekki við mikið annað en eigið framlag og áhuga. Land tækifæranna fyrir marga - líka fyrir litla Jón og litlu Gunnu.

Hér víða í Evrópu þarf fólk að passa inn í starfið fyrirfram. Enginn sveigjanleiki er eftir. Hér þarf helst meirapróf til vera treyst fyrir kústskafti. Í miklu og langvarandi atvinnuleysi verða fyrirtækin ofdekruð. Offramboð af vinnuafli vegna atvinnuleysis býr líka til leiðinleg fyrirtæki. Og ekki er að fúlsa við samningi sem undirverktaki við hið opinbera um að halda nefborunarnámsekið fyrir atvinnulausa. Þessi námskeið skila engu nema útgjöldum. Sára litlu nema rúðubrotum Frédéric Bastiat. Ekkert jafnast á við að fá útborgaða peninga fyrir raunverulega atvinnu. Að hafa raunverulega atvinnu er að vera hluti af samfélaginu.

Eins og norski prófessorinn Frank Aarebrot við háskólann í Bergen sagði um hið stóra vandamál ungmenna Evrópu, hið massífa atvinnuleysi þeirra til langframa; "Það afl og þau áhrif sem svona stór hópur fólks getur haft má ekki vanmeta. Brúnstakkar, svartstakkar o.fl. komust til áhrifa í Þýskalandi 1930. Sagan segir okkur að pólitískir vindar geta blásið til beggja átta. Að hafa atvinnu er það sama og að tilheyra samfélaginu". sjá; Mánudagur 8. mars 2010 Hvað gerist þegar unga fólkið missir vonina?

Til að ljúka þessum þætti á jákvæðum nótum þá er að segja frá því að danska hagstofan tilkynnti einnig um að á sama tímabili jókst atvinnustig í hinum opinbera geira (skatta-fjármagnaða geira) um 1%. Þetta gerir þá fall atvinnustigs í einkageiranum því stærra, eða 8,7%. 

Um það bil 75% allra kjósenda í Danmörku eru á framfærslu hins opinbera að fullu leyti, eða að hluta til eða eru opinberir starfsmenn. Hver kýs undan sér kassann? Þrífst virkt lýðræði og nýsköpun í svona samfélagi? Getur svona samfélag framkvæmt nauðsynlegar breytingar? DST | DST | Børsen 


Fimmtudagur 18. mars 2010

Evruþátttaka hefur djúpfryst ítalska hagkerfið

Mynd; ft.com/alphaville

Evruþátttaka hefur djúpfryst ítalska hagkerfið

Er Evrópujökull að myndast? Þið munið öll eftir hinum sjúka manni Evrópu (e. the Sick Man of Europe). Frá 1990 varð Þýskaland hinn sjúki maður Evrópu. Sameining Þýskalands kostaði mikið og hagvöxtur varð ömurlegur. Hefur þetta batnað núna? Nei Þýskaland er ennþá fárveikt. Meðalhagvöxtur á ári í Þýskalandi hin síðustu 10 ár er næstum enginn, eða 0,2-0,5 prósent á ári síðustu 9-12 ár. Þetta er þá tæplega 30% af hagkerfi evrusvæðis, sem ennþá er fárveikt.

En það eru fleiri sjúklingar sem liggja á öldrunardeildinni. Ítalía er alveg meðvitundarlaust hagkerfi. Ekkert bifast á Ítalíu. Skegg- og hagvöxtur í ítalska hagkerfinu er alveg hættur og hárin fara bráðum að draga sig inn undir húðina og hverfa. Frá árslokum 2001 til ársloka 2009 hefur ítalska hagkerfið vaxið um það bil 0,0000%. Þetta er verra en Japan og er þá mikið sagt. Ítalía er rúmlega 17% af evru hagkerfinu. Þá höfum við 17+30 eða um það bil 47% af evruhagkerfinu sem er orðinn jökull.

Nú fer Þýskaland fram á að restin af evrusvæði setji frystivélarnar í gang og frysti sig niður í þýsk-ítalska jöklakerfið. Þetta er kölluð aðlögun. En hve skemmtilegt verður að fylgjast með þessu náttúrufyrirbæri. Ég mæli með pistlinum á Financial Times Alphaville, sjá slóð að ofan.

Edward Hugh -neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka Evrópusambandsins á Spáni

Byggingarbólan á Spáni hefur forðað Spáni frá frosti. Ástæðan fyrir því að bólan varð til á Spáni sést vel hér á mynd Edward Hugh; neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka Evrópusambandsins á Spáni. Segið svo að vaxtavopnið virki ekki! Írland er svipað, rjúkandi rústir; And From Berlin Down to Beijing, Can’t You Just Hear Those Factories Hum?

ESB, evran og friður

Í frétt Bloomberg, sem ég skrifaði um í gær, kom fram að Martin Feldstein álítur að sameiginleg mynt komi ekki í veg fyrir ófriðar- og styrjaldarhættu á milli þeirra landa sem nota myntina. Þetta hefur lengi verið mitt álit líka. Ef menn hugsa dýpra þá munu þeir alltaf komast að þeirri niðurstöðu að það eina sem hindar ófrið og styrjaldir er öflugt lýðræði. Lýðræðisþjóðir fara ekki í stríð við aðrar lýðræðisþjóðir. Það gera þær bara ekki. Fundnar eru lausnir. En þær geta þó þurft að heyja hernaðarlega baráttu við andlýðræðisleg öfl, þ.e. berjast fyrir varðveitingu lýðræðis. Þess vegna er það að mínu mati þvættingur að halda því fram að tilkoma Evrópusambandsins hafi stuðlað að og varðveitt frið í Evrópu. Það er lýðræðið sem hefur gert það, ekki ESB. Hinsvegar hefur ESB og Brussel á margan hátt gert sitt ýtrasta til að grafa undan lýðræðinu í Evrópu. Nú er einnig að koma í ljós að Evrópusambandið er að verða frystikista efnahagsmála. Hagsæld, velmegun, massíft atvinnuleysi og ömurleg frjósemi eru að frjósa föst og þekja Evrópu með ís. Hvar endar þetta?

Lugu þeir í gær?

Wolfgang Münchau hjá Eurointelligence fór ekki fögrum orðum um útkomuna úr fundi fjármálaráðherra evrusvæðis í gær. Hann segir að næstum sé um beinar lygar að ræða í yfirlýsingu evruhópsins. Löndin eru ekki sammála um neinar lausnir og heldur ekki sammála um að þeirra sé þörf. Finnland, Ítalía, Holland og Þýskaland vilja helst kalla á AGS til aðstoðar Grikklandi. Það vill Frakkland og restin af evrulöndunum ekki. Markaðir standa ennþá (a.m.k í gær) í þeirri trú að um samkomulag sé að ræða. Þeir munu fljótlega finna út úr því eins og venjulega. Það stutta í því langa er að gríska málið er ennþá óleyst og margt óvænt getur ennþá gerst; Eurointelligence

Í dag; uppfært;

March 18 (Bloomberg) -- Greece should turn to the International Monetary Fund if it needs aid, the chief finance spokesman for German Chancellor Angela Merkel’s party said, in a reversal that signals a rift with European leaders Jean-Claude Trichet, Jean-Claude Juncker and Nicolas Sarkozy; Bloomberg

Það verður að líkindum AGS sem fær Grikkland í meðferð. Er Þýskaland búið að gefast upp á myntbandalaginu sem því var þröngvað inn í? Já, það hef ég á tilfinningunni. 


Miðvikudagur 17. mars 2010

Bandaríski hagfræðingurinn Martin Feldstein - niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir í Grikklandi munu mistakast og landið hugsanlega yfirgefa myntbandalagið

Stjórnmálamenn hlusta ekki alltaf á hagfræðinga (áfall?)

Bandaríski hagfræðingurinn Martin Feldstein segir að fyrirhugaðar efnahaglegar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir Grikklands muni mistakast og landið muni vel hugsanlega yfirgefa myntbandalag Evrópusambandsins (EMU), svo það geti þar með fengið sína eigin mynt og unnið sig út úr vandamálunum.

Martin Feldstein er prófessor við Harwardháskóla og fyrrverandi ráðgjafi Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta. Hann þótti líklegastur til að verða seðlabankastjóri Bandaríkjanna áður en George W. Bush valdi Ben S. Bernanke til þess starfs.

Þegar ákveðið var að setja EMU á fót sagði Martin Feldstein að evrusvæðið hefði ekki hinar réttu forsendur til að verða ákjósanlegt myntsvæði fyrir sameiginlega mynt ESB-landa. Martin Feldstein benti á að húsmóðir í Róm hefði engan áhuga á að vita hvað brauðið kostaði í Finnlandi, hún myndi áfram kaupa það í næsta bakarí og hún talaði ekki Finnsku. Það sama gliti fyrir trésmiðinn frá Barcelona, hann myndi ekki sækja vinnu til Berlínar, hann talar ekki þýsku og mun ekki læra þýsku bara til þess að geta stundað vinnu á þýsku.

Lesist: staðbundin áföll og bólur munu myndast á myntsvæðinu því hreyfanleiki vinnuafls er svo að segja enginn. Staðbundnar þenslubólur munu því auðveldlega verða til á myntsvæðinu og sem ekki er hægt að stýra eða laga með stýrivöxtum, því þeir eru stilltir á meðaltalsverðbólgu í kjarnalöndum EMU. Þegar bólurnar springa mun það leiða til vandræða fyrir ríkissjóði viðkomandi landa því engar yfirfærslur á milli ríkisfjárlaga landanna eru leyfðar innan EMU og löndin hafi takmarkaða möguleika á að verða samkeppnishæf aftur (e. asymmetric shocks within the eurozone; hér)

Svona bólur myndu ekki skapast svo auðveldlega í Bandaríkjunum því nýtt vinnuafl myndi streyma til staða þar sem mikil eftirspurn er eftir því - og þannig halda tímalaunum niðri. En skyldi skaðinn þó verða, gerði það ekki svo mikið til því þá myndu fjármunir til greiðslna atvinnuleysisbóta og heilsugæslu koma frá Washington, því fjárlög sambandsríkisstjórnar Bandaríkjanna eru hátt í 30% af landsframleiðslu BNA. Svona sameiginleg fjárlög eru ekki til í EMU. Hagfræðingurinn Poul Krugman benti einnig nýlega á hið sama.

Now, if Spain were an American state rather than a European country, things wouldn’t be so bad. For one thing, costs and prices wouldn’t have gotten so far out of line: Florida, which among other things was freely able to attract workers from other states and keep labor costs down, never experienced anything like Spain’s relative inflation. For another, Spain would be receiving a lot of automatic support in the crisis: Florida’s housing boom has gone bust, but Washington keeps sending the Social Security and Medicare checks; hér

Árið 2005 benti Martin á að þær breytingar sem þá voru gerðar á reglum myntbandalagsins myndu opna fyrir að ríki myntbandalagsins myndu koma sér inn í vítahring krónísks fjárlagahalla (það sama sagði seðlabanki Þýskalands, sjá; mánudagur 1. mars 2010). Í nóvember 2008 sagði Martin Feldstein að aðstæður á ríkisskuldabréfamarkaði EMU segðu fjárfestum að hætta væri á að myntbandalagið myndi brotna upp.

Charles Wyplosz
Nemandi Martins Feldstein, Charles Wyplosz, segir að spár fyrrverandi kennara síns muni sanna sig sem rangar. Ef Grikkland yfirgæfi myntbandalagið þá myndi efnahagur þess fara í rúst. Athugið; það er vinsælt meðal ESB-hagfræðinga að segja að það sé betra að verða gjaldþrota innan myntbandalagsins en utan þess.

Martin Feldstein stendur við ályktun sína og segir að það sé alls ekki óhugsanlegt að lönd yfirgefi EMU. Stjórnmálamenn hlusta ekki endilega á það sem hagfræðingar segja. (sjá; Þá voru 155 hagfræðingar sammála um eitt - en ekki var hlustað á þá)

Glenn Hubbard við háskólann í Columbíu fylki segir að munurinn á Martin Feldstein og mörgum öðrum hagfræðingum sé sá, að það sem Martin segir, hefur oft praktíska þýðingu í raunveruleikanum. "Feldstein er mjög þýðingarmikill hagfræðingur", segir Hubbard; Bloomberg | Sjá einnig grein Martin Feldstein í Vox EU janúar 2009: Reflections on Americans’ views of the euro ex ante 

Þýskaland líka?

Martin Wolf á Financial Times
Martin Wolf á Financial Times er farinn að halda að hugsanlegt sé að Þýskaland sé á leiðinni út úr myntbandalaginu. Að Þýskaland nenni ekki að vera í myntbandalagi með löndum sem fara á hausinn - og sem geta ekki keppt á sama máta og eftir sömu efnahagsstefnu og Þýskaland keppir við umheiminn. Evran sé einnig of hátt verðlögð til að Þýskaland geti haldið áfram að keyra hagkerfi sitt áfram á útflutningsstefnu sem byggist á innfluttri eftirspurn frá umheiminum, sökum þess hve innanlands eftirspurn í Þýskalandi sé krónískt ónóg fyrir þýska hagkerfið.

Martin Wolf óttast enn fremur að heimurinn geti verið á leið inn í efnahagslegt verndarkapphlaup vegna þrálátrar og einstrengilegrar kröfu Þýskalands og Kína á massífum eigin hagnaði á viðskiptum sínum við útlönd. Við seljum þér og kaupum ekki neitt af þér í staðinn (“beggar-my-neighbour” stefnu). Þýskaland er ekki sammála og segir að mikill hagnaður á utanríkisviðskiptum Þýskalands við umheiminn sé merki um velgengni, dugnað og gæði; FT

Áfram slæmar tölur frá Finnlandi

Vöxtur í innstreymi nýrra pantana til finnska iðnaðarins féll aftur í janúar eftir bata í nóvember og desember. Illa gengur fyrir þjónustugeira finnska hagkerfisins. Hann féll um 7,3% á síðasta fjórðungi 2009 miðað við sama tíma árið 2008. Á sama tíma dróst einnig velta í framleiðslugeira Finnlands saman um 15%. Frá nóvember til janúar féllu laun um 2,2% í Finnlandi miðað við sama tíma á árinu áður. Ferðamannaiðnaður Finnlands er einnig í samdrætti. Finnskar krækjur, hagstofa Finnlands; 1 | 2 | 3 | 4 | 5

Danskur útflutningur ennþá í stöðnun

Í janúar féll útflutningur á milli mánaða um 0,5% en innflutningur jókst um 6,5%. Mikil aukning varð í innflutningi frá Kína (19%). Innflutningur frá Finnlandi féll hinsvegar um 11%. Danska ríkisstjórnin spáir að það séu minnst þrjú ár þangað til að Danmörk hafi komið sér út úr kreppunni, þ.e að landsframleiðslan hafi náð sér eftir hrunið. Þetta yrði þá lengsta efnahagkreppa í Danmörku hin síðustu 40 ár, segir spá ríkisstjórnarinnar. "Við vitum ekki hvenær við náum að vinna inn það tapaða", segir Whitta Jacobsen hagfræðingur og ein af hinum svonefndu efnahaglegu "vísu-mönnum" Danmerkur. Whitta Jacobsen er við Kaupmannahafnarháskóla. Hún telur að spá ríkisstjórnarinnar lýsi of mikilli bjartsýni. Þetta mun að líkum taka mun lengri tíma, segir hún; DST | Børsen


Þriðjudagur 16. mars 2010

ESB - eilífðarverkefnið og vekefnastjórarnir

FT

Hvað er eiginlega að gerast í EMU?

Þeir sem hafa fylgst með, vita að um þessar mundir er verið að reyna að bjarga myntbandalaginu í sinni núverandi mynd. Hvorki meira né minna. En þetta er gert með hangandi hendi, og ekki af ástæðulausu. Grikkland er bara eitt af einkennunum á fársjúku myntbandalagi ESB. Flestum er nú orðið ljóst að myntbandalagið gengur ekki upp með svona ólík lönd innanborðs. Myntbandalag með 16 löndum var glapræði. Sumir eru þó ekki viljugir til að viðurkenna þetta ennþá. Þar fremstir í flokki eru skriffinnar Brussel, sem nú óttast um áhrif og framtíð sína. Í sama flokki eru líka nokkrir fáráðlingar á Íslandi.

Það er þó að mínu mati búið að viðurkenna einn stóran og mikilvægan hlut: myntbandalagið virkar ekki eins og til var ætlast. Á einni nóttu kom kviksyndið í ljós og opinberaði sig, svart og kalt. En það er þó mjög mikilvægt að hafa viðurkennt þetta. Um það bil 20 mikilvæg ár Evrópu hafa farið í ekki neitt. Framfarir og hagsæld hafa sem afleiðing siglt fram hjá þessu efnahagssvæði. Árin hafa farið í formsatriði og skriffinnsku á meðan efnahags- og lýðræðislegir landvinningar hafa farið forgörðum. Nú er ekki mikið sem getur spornað við hnignuninni lengur. Spornað við hinni efnahagslegu og demógrafísku hnignun sem bara mun halda áfram að taka til hendinni í ESB.

  1. Sameining Þýskalands er misheppnuð. Stór tækifæri fóru þar forgörðum.
  2. Hræðslan við sterkt Þýskaland hefur eyðilagt mest.
  3. Sem afleiðing er Þýskaland orðið rekald sem verður að halda áfram að byggja á efnahagsstefnu sem krefst að haldið sé fast í núverandi útflutningsstefnu Þýskalands og sem hin ríkin þola ekki í gegnum sameiginlegu myntina
  4. Þýskaland hefur haldið ESB uppi, fjárhaglega séð. Einungis vegna slæmrar samvisku eftir seinni heimsstyrjöldina. Þýskaland hefur borgað þennan brúsa og verið góður þegn og gert mest. En ekki er hægt að refsa nýjum kynslóðum endalaust fyrir syndir feðranna. Það gengur ekki.

Ég giska á að Þýskaland sé búið að fá nóg. Að ætla sér að láta önnur lönd borga fyrr ógöngur annarra landa í myntbandalaginu er ekki hægt. Þetta er hvorki mögulegt í framkvæmd, hagfræðilega, né fjármálalega - og allra síst stjórnmála- og lýðræðislega séð. Þetta hafa menn nú viðurkennt með gríska klúðrinu. Grikklandi verður ekki bjargað. Hvorki er hægt að berja Suður-Evrópu til þess að passa inn í myntbandalagið - og ekki er hægt að berja Þýskaland til þess að umturna hagkerfi og þjóðinni allri, svo Þýskaland passi betur inn í myntbandalag með hinum löndunum. Þýskaland mun ekki fórna útflutningsknúna hagkerfi sínu, það mun ekki fórna stjórnarskrár lögfestum markmiðum um hámarks 0,35% fjárlagahalla frá og með árinu 2016. Það mun ekki fórna sér og ekki koma Evrópu til bjargar með stóraukinni eftirspurn sem bæta ætti innri spennu hagkerfanna. Að biðja Þýskaland um að hætta að vera samkeppnishæft er sprenghlægilegt.

The first is that a monetary union comprising 16 or more EU members will ultimately require a fully fledged fiscal union, or fail

Þegar ég fór að skrifa um það að myntbandalagið myndi aldrei getað þrifist án samruna ríkisfjármála landanna, þá var hlegið að mér á Íslandi. Þetta virkaði svo afskaplega vel, héldu sumir á Íslandi - og halda jafnvel enn. En nú vitum við að þetta var rétt. ESB verður annað hvort að fara áfram eða afturábak. Það getur ekki verið eins og það er núna.

Bráðum munu Þjóðverjar leggja til að lönd eins og Grikkland yfirgefi myntbandalagið. Útgöngudyr verða smíðaðar og í endanum munu mörg lönd notfæra sér þá leið. En þessar dyr verða einstefnudyr. Enginn mun komast inn um þær aftur. Á endanum verður það Þýskaland, Frakkland, Benelux-löndin og Austurríki sem verða einu löndin í myntbandalaginu. Finnar munu t.d. fá markið sitt aftur. Fjármálaráðherra Þýskalands hefur nú þegar viðrað þessa hugmynd um útgöngudyr. En um leið er verið að setja endahnútinn á veru margra landa í EMU.

The second conclusion is that a rules-based monetary union is still possible, but only among a group of similar countries – in terms of their economic development, and their fundamental political attitudes towards economic policy

Tilvist svona útgönguleiðar mun líklega fá markaðinn til að knýja löndin út í gegnum dyrnar. Þetta vita Þjóðverjar mjög vel. En ekki er um annað að ræða. Þetta er eina raunverulega björgunarleiðin til fyrir alla Suður-Evrópu. En svo er hin leiðin, að Þýskaland sjálft segi sig úr myntbandalaginu. Það gæti líka gerst.

The Schäuble proposal tells me that Germany’s conservative establishment longs for the second option. They should be careful what they wish for. One way or the other, they might eventually get it.

Að ætla sér að troða Íslandi þarna inn, er svo heimskulegt að menn ættu að skammast sín fyrir yfir höfuð að láta sér detta það í hug. Það lýsir algerri vanþekkingu á málunum. Þetta er sama vanþekkingin og bjó til tímasprengju-bankakerfið á Íslandi.

Það er þó vel hægt að fyrirgefa Íslandi því Ísland var að lenda á flugvelli opinna frjálsra hagkerfa í fyrsta sinn í sögu landsins. Íslandi fipaðist því miður lendingin, en það mun ekki gerast aftur. Flestar þjóðir þurfa að brotlenda til að geta lært af biturri reynslunni. Nú er hins vegar kominn tími á að seinna tímasettu sprengjur ESB springi. Það er gott að fyrirbærið tími er til. Ef tíminn væri ekki til þá myndi allt gerst samtímis allsstaðar.

Meira:

Wolfgang Münchau: Shrink the eurozone, or create a fiscal union

Edward Hugh; Serious Problems Emerge For The F-UK-De Group Of Countries


Mánudagur 15. mars 2010

Aðalstöðvar þýska seðlabankans í Frankfurt

Mynd: Deutsche Bundesbank

Við, gullforðinn, erum ekki heima og verðum ekki heima

Seðlabanki Þýskalands, Deutsche Bundesbank, segir að gullforði Þýskalands sé ekki viðlátinn sem fjármagn til notkunar í hugsanlegan björgunarsjóð fyrir hálf gjaldþrota ríki myntbandalags Evrópusambandsins. Hvorki núna né nokkurn tíma. "Við höfum ekki vitneskju um að til standi að nota ekki gullforðann í hugsanlegan björgunarsjóð. En skyldu áætlanir um hið gagnstæða verða staðfestar myndu þær mæta staðfastri strangri andstöðu seðlabankans. Seðlabankinn ræður algerlega yfir gullforðanum í nafni sjálfstæðis stofnunarinnar. Hvorki ríkisstjórn Þýskalands né evrópski seðlabankinn hafa neinn rétt á aðgangi að gullforða þýsku þjóðarinnar" (hurð læsist). Tilefni yfirlýsingar seðlabankans var grein í vikublaðinu Focus; iMN | Frankfurter Allgemeine

(Meira um Deutsche Bundesbank í glímu við stjórnmálamenn, hér: Seðlabankinn og þjóðfélagið)

Varar við því að bjarga öðrum evrulöndum frá gjaldþroti

Hans-Werner Sinn - Ces Ifo
Hin áhrifa- og þýðingarmikla þýska efnahagsstofnun Ces Ifo í München varar við því að myntbandalagið fari út í að bjarga öðrum evrulöndum frá gjaldþroti. Forseti stofnunarinnar, Hans-Werner Sinn, segir að hættan sé sú að björgun þeirra  evrulanda sem eru á barmi gjaldþrots, með fjármangi frá öðrum evrulöndum, muni eyðileggja myntvafninginn evru.

Að bjarga þeim ekki mun þó virka sem sleggjuhögg á myntvafninginn, en sé þó skárra en að fara að stunda yfirfærslu á auðæfum annarra evrulanda til þeirra evrulanda sem eru á barmi gjaldþrots. Það væri að verðlauna slæma hegðun og myndi senda alröng skilaboð. Grikkland á að yfirgefa myntbandalagið og gengisfella sína eigin mynt og þannig vinna sig út úr vandamálunum, segir Hans-Werner. Niðurskurðar- og sparnaðar áætlanir einar dugi ekki til að bjarga málum í Grikklandi. Evran myndi þá hrynja í verði en hún væri hvort sem er alltof hátt metin; Reuters

Myntbandalagið hefur ekki leitt til meiri viðskipta á milli evrulanda

Joao M. C. Santos Silva
Samkvæmt frétt netútgáfu fréttablaðs háskólans í Bergen, Forskning Norge, sem fjallar um rannsóknir í Noregi og á alþjóðavettvangi, hafa viðskipti á milli evrulanda ekki aukist neitt umfram það sem gerst hefur hjá öðrum löndum heimsins frá því sameiginlegur myntvafningur myntbandalagsins, evra, kom í umferð fyrir 11 árum. Forskning Norge vitnar í rannsókn hagfræðinganna Joao M. C. Santos Silva við University of Essex og Silvana Tenreyro við London School of Economics (ég hef ekki lesið skýrsluna ennþá)
Silvana Tenreyro
Auknum viðskiptum á milli evrulanda var lofað þegar myntvafningnum evru var komið á fót. Eins átti evran að vera vopn í alþjóðasamkeppninni og þá sérstaklega við Bandaríkin og Asíu. En samkvæmt rannsókninni hefur aukning í viðskiptum á milli evrulanda ekki verið meiri en aukningin var á milli annarra landa heimsins á sama tímabili (aukin hnattvæðing almennt). Verslun og viðskipti á milli evrulanda hefur ekki aukist meira en viðskiptin á milli evrulanda, EES-landa og ESB-landa sem nota ekki evru sem gjaldmiðil.

Rannsóknin tekur til hóps OECD-landa og leggur til grundvallar, EES-lönd (athugið, Ísland er í EES) sem eru ekki með evru, ESB-lönd án evru og svo sjálfra evrulandanna. EES-lönd sem hafa ekki tekið upp evru hafa aukið viðskiptin við evrulönd og ESB-lönd án evru jafn mikið og evrulöndin hafa upplifað sín á milli, segir Joao M. C. Santos Silva prófessor.

Forskning.no bendir einnig á hina frægu rósarskýrslu eftir hagfræðinginn Andrew K. Rose sem sagði að verslun og viðskipti á milli evrulanda myndi þrefaldast þegar löndin fengju sameiginlega mynt. En raunveruleikinn, samkvæmt þessari og fleiri rannsóknum, er sem sagt núll, hvað varðar verslun og viðskipti.

Jan Tore Klovland prófessor við verslunarháskóla Noregs segir að evran sé meira pólitískt verkfæri en efnahagslegt verkfæri. Um efnahagslega ávinninga séu fáir sammála segir hann. Steinar Holden prófessor við Óslóarháskóla segir að  erfitt sé að sanna neitt í þessum efnum. Hann álítur að viss ávinningur og samhæfing hafi náðst á fjármálasviðinu [já, t.d. opnað á möguleika á sameiginlegu gjaldþroti evruríkja sem nú hugsanlega stendur fyrir dyrum. Eftir að internetið kom með verðsamanburðarvélar handa öllum þá er sameiginleg mynt orðin nánast fornaldargripur, afsakið. Samkvæmt mínum heimildum frá einni stærstu "Pan-European" netverslun evrusvæðis hefur salan í Evrópu minnkað langsamlega mest í vissum evrulöndum miðað við ekki-evrulönd. Það þurfti t.d. ekki sameiginlega mynt til að erlendir ferðmenn uppgötvuðu verðfall á Íslandi]. En í núverandi kreppu, segir Steinar, að það sé augljóst að þau lönd sem hafa sjálfstæða mynt hafi notið mikils góðs af þeim sveigjanleika sem því fylgir; Forskning Norge


Sama sagan í Danmörku? - hinn innri markaður ESB - engin áhrif

Sama sagan í Danmörku? Hinn innri markaður ESB, engin áhrif

Síðasta haust kom einnig út dönsk rannsókn sem sýndi að vera Danmerkur í hinum svo kallaða innri markaði ESB og í ERM hefur ekki leitt til neinnar aukningar í utanríkisviðskiptum Danmerkur við evrulönd né ESB lönd. Tilgangur rannsóknarinnar var ekki að sanna né afsanna neitt í þessum efnum, en lesa mátti þetta út úr skýrslu þjóðhagfræðistofnunar viðskiptadeildar Árósarháskóla, sem kom út í júní 2009. Þar kom í ljós að eftir að Danmörk gerðist aðili að hinum svo kallaða innri markaði ESB hefur útflutningsfyrirtækjum fækkað. Það hefði ekki skipt neinu máli fyrir Danmörku að standa utan við þennan innri markað ESB, skrifaði rannsóknarvefurinn "Videnskab DK" í þessu tilefni. Videnskab

20% raunvextir á útlánum á Írlandi (lögleiddir okurvextir?)

Samkvæmt vef Money Guide Ireland eru vextir á yfirdráttarheimildum á venjulegum bankareikningum á Írlandi um það bil 14-15%. Sé bætt við þeirri 4-6% neikvæðu verðbólgu sem ríkir á Írlandi núna, eru raunvextir á svona lánum um og yfir 20%. Ofaní þetta kemur í mörgum tilfellum 25 evru gjaldtaka. Mynt Írlands er evra; MGI


http://www.tilveraniesb.net/stuttar-vikufrettir


PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðanSkráasafn stuttra en oft daglegra frétta
PDF snið vika 11  2010 
PDF_utgafa_vika_11_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "
save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Comments