# 495 - 2010 - vika 9 - til 7. mars 2010


VIKA 9  2010


Föstudagur 5. mars 2010

Ennþá frost - fragtskip í smá ís á Kattegat í gær

Ennþá frost: fragtskip í smá ís á Kattegat í gær

Gjaldeyrishöft innleidd á evrusvæði

Þriðjungur allra fasteignalána í evrulandinu Austurríki eru í erlendri mynt. Mest í svissneskum frönkum eða japönskum jenum. Seðlabanki Austurríkis segir að almennir Austurríkismenn skuldi nú um 35 miljarða evrur í erlendum fasteigna- bíla- og spákaupmennskulánum.

Þessar lántökur fóru fram í gegnum austurríska bankakerfið á meðan gengi franka og jens gagnvart evru var lágt á árunum fyrir hrunið 2008. Nú hefur gengi þessara erlendu gjaldmiðla hækkað mikið eða um 13% til 30% og fer hækkandi í takt við að myntvafningurinn evra fellur í gengi og myntbandalagið þar á bak við fer inn í sinn endanlega upplausnarfasa. Sá fasi getur orðið langur og strangur.

Það eru fjármálayfirvöld í Austurríki sem eru orðin hrædd. Þau ætla því að banna svona lán og loka fyrir aðgengi almennings að lánum í erlendri mynt. Aðeins ríkt og mikilvægt fólk mun fá að nota þessa þjónustu framvegis. Ef evran mun hrynja verulega hratt á næstu árum þá mun það hafa slæmar afleiðingar fyrir bankakerfið og lánþiggjendur þess í Austurríki.

Evrubankakerfi Austurríkis - Hypo Group Alpe Adria bankinn þjóðnýttur þann 14 desember 2009
Evrubankakerfi Austurríkis hefur átt erfiða daga og hafa tveir af sex kerfislega mikilvægum bönkum landsins þegar verið þjóðnýttir. Síðast var það Hypo Group Alpe Adria sem var þjóðnýttur þann 14. desember síðastliðinn. Þá þurfti Fransmaðurinn og seðlabankastjórinn Jean-Claude Vigilant Trichet að eyða helginni í Austurríki.

Þeir sem áttu þennan nú þjóðnýtta banka voru að mestu leyti þýskir þegnar og stjórnmálmenn sem stýra ennþá í Bayern Landesbank í Þýskalandi. BLB átti 67% í HGAA. Forstjóri Bayern Landesbank sagði af sér um leið.

Fyrri bankinn sem þjóðnýttur var í evrulandinu Austurríki hét Kommunalkredit Austria AG, sem þýðir eiginlega Bæjarútgerð Austurrísku Sveitafélaganna. Mikið af útlánum bankakerfis Austurríkis hefur farið til Austur-Evrópu og landa á Balkanskaga.

Aðalstöðvar svissneska seðlabanans - Swiss National Bank
Svissneski seðlabankinn hefur verið að reyna að gera sitt besta til að halda gengi svissneska frankans niðri með aðgerðum á gjaldeyrismörkuðum. Hátt vanskilahlutfall lántakaenda í Austurríki, Austur-Evrópu og á Balkanskaga vegna gengisáhættu mun ekki gagnast svissneskum bönkum sérstaklega vel. Gert er ráð fyrir að reglur fjármálayfirvalda Austurríkis verði kynntar þann 22. mars næstkomandi og settar í framkvæmd án tafar.

Ef fjármálaeftirlit Íslands hefði haft augun framan á höfðinu hefði mátt sporna við miklum vandræðum á Íslandi. Svona augu framan á höfðinu virðast Þjóðverjar hafa haft því lítil sem engin lán eru þar tekin né veitt í myntum sem Þjóðverjar fá laun sín ekki greidd í. Bloomberg | FTD | WSJ

Söguleg launalækkun í Þýskalandi

Söguleg launalækkun í Þýskalandi - Hagstofa Þýskalands - Statistisches Bundesamt
Þýska hagstofan greindi frá því í fyrradag að í fyrsta skipti í sögu þýska lýðveldisins (þ.e. frá árinu 1949) hafa laun launþega fallið í landinu í heild. Hér er átt við fall launa í krónum og aurum á hvern launþega á árinu 2009. Launin féllu um 0,4% yfir alla línuna og um 3,6% í iðnaði. Hér er því um aukningu í samkeppnishæfni Þýskalands að ræða.

Ofan í þetta mun svo bætast að nýlega hafa þýsk verkalýðsfélög samið um 0,0% launahækkun. Engin sérstök lágmarkslaun gilda á mögum sviðum í þýska hagkerfinu. Varla er hægt að segja að þýskir launþegar hafi fengið verulega launahækkun síðastliðin 11 ár. Það er því öruggt að innan myntbandalagsins mun samkeppnishæfni flestra landa myntbandalagsins gegn Þýskalandi ekki batna í bráð. Hún mun bara versna. Hvaðan á hagvöxtur evrusvæðis að koma? Frá verðhjöðnun? | Hagstofa Þýskalands

Seðlabankastjóri ECB fékk þó launahækkun

Laun seðlabankastjóra Evrópusambandsins, Jean-Claude Trichets, hækkuðu hinsvegar átta sinnum meira á árinu 2009 en verðbólgan á myntsvæði hans hreyfðist sama ár, eða um 2,5%. Laun Jean-Claude Trichet voru 360,612 evrur og eru þau meira en tvöfalt hærri en laun seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Ben S. Bernanke. Á árinu 2009 náði myntsvæði Jean-Claude Trichet að falla ofaní dýpstu kreppu svæðisins frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Jean-Claude Trichet segir að laun almennra launþega á evrusvæði muni varla hækka í ár; Bloomberg

Ferðaáætlun Geórgios Papandréou

Þjóðkjörinn forsætisráðherra Grikklands 2009 - Geórgios Papandréou
Varla er hægt að skipuleggja ferðaáætlun betur en gríski forsætisráðherrann hefur gert. Margir vita eflaust að nú hefur Grikkland auglýst þann hrikalega niðurskurð ríkisútgjalda sem evrulöndin hafa krafist. Grikkland afhenti að minnsta kosti í orði og vilja það sem beðið var um. Í dag verður Geórgios Papandréou í Berlín og París. En í næstu viku verður hann í Washington í Bandaríkjunum. Þar er Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn til húsa. Forsætisráðherrann sagði í gær að Grikkland myndi leita til AGS ef allt annað brygðist. En það vill hvorki ESB né seðlabanki Evrópusambandsins að Grikkland geri. Það myndi koma sér illa ef AGS kæmist að þeirri niðurstöðu að best væri fyrir Grikkland að yfirgefa myntbandalagið strax heldur en seinna - og jafnvel aðstoða Grikkland við það verk.

Furðulegt er að menn séu að gera svona mikið úr peningamálum Grikklands núna því landið hefur, á einn eða annan hátt, verið í vanskilum meira eða minna síðan 1832 og keyrt með 7,8% fjárlagahalla að meðaltali frá árinu 1988. Halda sumir að það sé hægt að píska Grikki til að verða þýskir bara sí svona? Allir aðilar markaðarins hafa alltaf vitað að Grikkland er Grikkland. Þeir áttu bara aldrei að kasta myntinni sinni fyrir róða og taka upp myntvafninginn evru. Landið kæmist vel áfram á heimshöfunum bara með því að vera Grikkland áfram; BW | AFP 


Fimmtudagur 4. mars 2010

im Keller

Úr kjallaraholu myntbandalags Evrópusambandsins

Handelsblatt

ESB vill banna spegla

Ef það er eitthvað sem ríkisstjórnir evrusvæðis þola illa, þá er það að þurfa að horfa á sína eigin ásýnd í spegli markaðarins. Markaðurinn endurspeglar oft ágætlega slappleika, getu- og árangursleysi ríkisstjórna og svo sjálft stjórnmálaástandið. Oft tekur það markaðinn dálítinn tíma að finna og birta réttu endurspeglunina. En að lokum mun myndin alltaf birtast, sæmilega rétt og skýr. Þess vegna vilja ráðamenn evrusvæðis helst banna spegla. Þeir þola illa að vita af því að nú hefur markaðurinn loksins séð í gegnum pretti og feluleiki þeirra á árunum fram að stofnun myntbandalagsins. Feluleikurinn hélt svo áfram á þeim eftirfarandi 9 árum sem notuð voru vel og vandlega til að fela og grafa hundakúnstir ríkisstjórna evrusvæðis í endalausum leiðréttingum á þjóðhagsreikningum landanna í skjóli værukærðar, tíma og tölfræði (meira um það seinna).

James Carville noted long ago; This is clearly shooting the messenger . . . The bond market (and now, the CDS market), disciplines governments, and they don’t like it one bit. . . . Nobody likes market discipline, especially governments.  But they’re the ones who usually need it the most. Hence we should resist cynical, self-interested calls to terminate CDS speculators, and instead pay more attention to the message they are sending about the unsustainability of fiscal policies in Europe, and around the world; FT/Alphaville

Nú er það vesalings evran sem er fórnarlamb vondra manna í bönkum og fjárfestingarsjóðum, eina ferðina enn. Vondu mennirnir sem spá gegn evrunni eru út um allt, segir ESB og biður seðlabanka Bandaríkjanna um aðstoð við að rannsaka málið. Yfirvöld evrusvæðis vilja rannsaka hverjir séu að græða (já græða) á vandamálunum í Grikklandi með því að taka stöðu gegn evrunni og svo með því að stunda kaupmennsku með afleiður skuldatrygginga evru-ríkissjóða í vandræðum.

En það er meira. Sumir stjórnarmeðlimir í stjórn seðlabanka Evrópusambandsins ráðast nú á lánshæfnismatsfyrirtæki heimsins og segja að það sé "ósanngjarnt" að lánshæfnismat Grikklands eigi allt undir lánshæfnismati eins fyrirtækis komið. Í þessu tilfelli er það Moody's sem átt er við því bæði S&P og Fitch hafa þegar lækkað ríkissjóð Grikklands niður fyrir þröskuldinn inn í peningageymslur seðlabanka Evrópusambandsins. Allt veltur því á Moody's núna.

Bíddu aðeins, það er meira. Fjármálaráðherrar evrulanda komu með þá sprenghlægilegu hugmynd að - já nú kemur það - að sjálfur seðlabanki Evrusvæðis ætti að setja á fót og sjá um lánshæfnismat á ríkissjóðum evrulanda! Það sem kæmi væntanlega út úr þessu makkverki stjórnmálamanna yrði eins konar lánsfælnishvöt fyrir fjárfesta. Aðgengi evrulanda að alþjóðlegu fjármangi myndi aðeins versna enn frekar en orðið er.

A report produced for EU finance ministers will show that the ECB should build its own country rating for European states, so that it no longer has to rely on the credit checking of Moody’s, Standard & Poor’s and Fitch. FT | FTD

Jean-Claude Trichet
Það er kannski ekki undarlegt að bankastjóri seðlabanka Evrópusambandsins (ECB), Jean-Claude Trichet, hafi lítið látið sjá sig opinberlega í tæpa tvo mánuði. Þetta er maðurinn sem árin og mánuðina þar á undan hélt 10-12 opinberar ræður í hverjum mánuði. Næstum ekkert hefur til hans spurst eftir að slá fór í ríkisfjármál evrulanda og myntina frægu. Kannski er hann niðri í kjallara ECB að undirbúna nýtt lánshæfnismat á ríkissjóði Grikklands. "Við lýsum því hér með yfir að Grikkland sé á barmi gjaldþrots" . . . nei nei, hvað er þetta eiginlega . . . röng síða! "Við lýsum því hér með yfir að allt er vel í Grikklandi og hvar sem er annars staðar í heiminum nema í Bandaríkjunum auðvitað . . og svo á Íslandi.

Danir munu ekki taka upp evru

Skoðanakönnun - Danir munu ekki taka upp evru

Mikill meirihluti bankahagfræðinga í úrvalshópi "Ritzaus og RB-Børsens Økonomiske Panel" segja að Danmörk muni ekki taka upp evru á næstu 10 árum og eigi heldur ekki að gera það. Aðalhagfræðingur Sydbank, Jacob Graven, segir líklegt að evrusvæðið muni ekki verða til eftir 10 ár, að minnsta kosti ekki í núverandi mynd. Eitt eða fleiri lönd munu þá hafa yfirgefið myntbandalagið. "Í ljósi vandamála Grikklands með skuldir og fjárlagahalla langt umfram það sem leyfilegt er, og með Spán og Portúgal á sömu leið, er víst óhætt að segja að það braki og bresti hressilega í sökklinum undir myntbandalaginu". Danir hrylla sig yfir því sem er að gerast í Grikklandi og álíta að ekki sé sniðugt að ganga í þennan vandamálaklúbb, segir Jacob Graven. "Hinir efnahagslegu ávinningar við að taka upp evru eru svo að segja engir. Ástæðurnar væru eingöngu stjórnmálalegs eðlis". Í tilefni fréttarinnar á Børsen er lesendum gefinn kostur á að kjósa um hvort þeir vilji taka upp evru í Danmörku eða ekki: 70% þeirra lesenda sem kusu voru andvígir evruupptöku; Børsen

Hagvöxtur Noregs 2009: −1,5%

Eins og boðað var kom hagstofa Noregs með tölur yfir landsframleiðslu norska fastlandsins og hagkerfisins í heild í gær. Samdráttur á árinu 2009 í heild var aðeins 1,5%. Þetta gildir bæði um norska hagkerfið með eða án olíuiðnaðarins. Útflutningur dróst saman um 4,3%, innflutningur um 9,7%, fjárfestingar um 7,9% og einkaneysla um 0,1%. Neysla hins opinbera blés hins vegar út um 5,2%. Fólki með atvinnu fækkaði um 0,4% og fjöldi vinnustunda í hagkerfinu voru 1,5% færri en á árinu 2008. Heil 20 ár eru liðin frá því að síðast varð samdráttur í landsframleiðslu Noregs; Hagstofa Noregs

Myndskeið WSJ frá Grikklandi

Dagblaðið Wall Street Journal var í Grikklandi og talaði þar við mýs og menn. Myndskeiðið er hægt að horfa á hér á bloggsíðu Edwards Harrsion hagfræðings: Credit Writedowns


Miðvikudagur 3. mars 2010

FT  FT

Að tryggja sig gegn hagsæld

Að tryggja sig gegn hagsæld

Þetta átti bara að verða örstutt vangavelta, en svo varð ekki. Það er hægt að tryggja sig gegn því að verða fyrir hagsæld. Auðveldasta leiðin til að komast hjá hagsæld í dag virðist vera sú að ganga bara beint í myntbandalag Evrópusambandsins. Þetta er lærdómurinn af málum myntbandalags Evrópusambandsins.

Fyrir nokkrum árum horfði ég á sænskan sjónvarpsþátt. Hann fjallaði um þann klofning sem varð í sænska samfélaginu þegar vindar jafnaðarmennsku blésu hvað harðast í því þjóðfélagi - og þegar sænskir jafnaðarmenn lögðu stóran hluta gamla bændasamfélags Svíþjóðar í rúst með nýjum áætlunarbúskap og nýju samfélagsskipulagi. Margir áttu um sárt að binda mjög lengi. Um 500 smábýli voru leyst upp á hverjum degi.

Rætt var við fyrrverandi nemendur í skóla nokkrum í einu af fátækari hverfum Stokkhólms. Þeir lýstu skólagöngu sinni á þessum tímum á átakanlegan hátt. Það sem skapaði samstöðu og samheldni meðal nemenda í skólanum var sú hefndarlega "samhygð" að sýna ekki betri árangur en sá lélegasti gat sýnt í bekknum. Þeir tóku sig af sínum á þennan hátt. Þarna datt mér eftirfarandi í hug: þetta er kjörin leið til að tryggja sig gegn hagsæld. Síðan þetta var er Svíþjóð dálítið breytt. En margir þessara nemenda urðu þó neðanveltu í því sænska samfélagi sem varð seinna meir.

Í dag virðist svipað vera í gangi í myntbandalagi Evrópusambandsins. Þýskaland er skammað fyrir að vera samkeppnishæft. Skömm Þýskalands felst í því að Portúgal, Ítalía, Írland, Grikkland og Spánn eru orðin ósamkeppnishæf lönd innan þess myntbandalags sem þau eru í með Þýskalandi. Þetta, segja menn, gerðist vegna þess að Þýskaland lagði sig fram. Þetta gerðist líka vegna þess að þau lönd sem eru ekki eins og Þýskaland, gátu ekki lengur lagfært samkeppnisaðstöðu sína með því að breyta verðmiðanum á sjálfum sér. Breyta honum með gengisbreytingu á sinni eigin mynt, eins og þau svo oft gerðu áður en þau köstuðu gömlu myntinni fyrir borð. 

Þau hafa því  enga sjálfstæða mynt og ekkert gengi gagnvart Þýskalandi lengur. Svo aðstoðaði seðlabanki myntsvæðisins við að magna upp vandamálin með því að ausa peningum á neikvæðum raunstýrivöxtum yfir þau lönd sem pössuðu ekki við kjarnaverðbólguna í kjarnalöndum myntbandalagsins. Miklar bólur urðu til á vakt þessa seðlabanka Evrópusambandsins.

Það var þetta sem sölumenn myntbandalagsins sögðu okkur upphaflega að ætti að lagast með tilkomu þessa sameiginlega gjaldmiðils. Hann, nýi gjaldmiðillinn, átti að jafna út efnahagslegu ójafnvægi, innri spennu og mismun í samkeppnisaðstöðu á milli landanna. Þessi útgáfa af sannleiknaum gildir ekki lengur í ESB. Þar er allt á hvínandi hvolfi núna. Vandamálin geisa innbyrðis í myntbandalaginu eins og flugeldur í lokaðri tunnu. Mennirnir eru að verða sótsvartir ofaní tunnunni. Svartir af reiði. 

Tunnuverksmiðjan á Siglufirði brann þegar ég var polli, hún logaði í þrjá daga. Tunnur loga yfirleitt vel og lengi. Nægur var því tíminn til að ná góðri mynd. Því stærri verksmiðja, því lengur logar, nema náttúrlega ef um púðurtunnuverksmiðju sé að ræða. 

Í reiðinni og vandræðunum þeysast þessir menn nú um á sínum pennum og prikum og gleyma alveg öllu því sem þeir voru búnir að segja og skrifa undanfarin mörg ár. Nú er verið að reyna að finna smugu. Sama hversu lítil hún er, það vantar smá smugu til að svindla á öllu því sem þeir sögðu um forsendur þessa blessaða myntbandalags Evrópusambandsins. Þeir segja að þýska þjóðin skilji ekki vandamálin og sýni enga samúð. Þeir segja að Grikkland skilji heldur ekki neitt og geri of lítið sem aukið gæti skilning manna hinum megin í myntbandalaginu.

Við þurfum að leyfa Þjóðverjum að vera Þjóðverjar, Svíum að vera Svíar og Grikkjum að vera Grikkir. Það hentar öllum best. Það er óðs manns æði að ætla að reyna að breyta og mublera um á heimilum heilla þjóðfélaga.

Að ganga ekki í takt

Að ganga ekki í takt - Hann sagði að Adolf Hitler hefði orðið ánægður með samfélagið í dag

Konan mín sagði mér að það hefði komið heimspekingur í danska ríkissjónvarpið í gærkvöldi (já, ríkis). Hann var að gefa út bók. Hann sagði að Adolf Hitler hefði orðið mjög ánægður með samfélagið í dag. Hvað meinarðu?, spurði fréttamaðurinn vandræðalega. Jú hann vildi að við gengjum öll í takt. Lýðræðið væri sett til hliðar sagði heimspekingurinn Søren Gosvig Olesen. Í dag hlýða menn og gera eins og þeim er sagt. Til dæmis fer öll þjóðin eftir því sem heilbrigðisyfirvöld segja. Spinn doktorar stjórnvalda gegna hlutverki áróðursráðuneytis.

"Þetta er rétt hjá honum Gunni, enginn hefur lengur góðan rétt á að segja neitt sem brýtur í bága við pólitískan rétttrúnað í dag", bætti konan mín svo við. "Sjáðu bara umhverfismálið" sagði hún. Það er hið svo kallaða hlýnunarmál sem hún á við - og fjölmiðlana. "Hmm já, þetta er kannski rétt hjá honum," sagði ég við konuna mína. Svo labbaði ég burt. Á leiðinni að skrifborðinu datt mér í hug að vandamálið í myntbandalagi Evrópusambandsins núna væri það að Grikkland gengi ekki í takt - bara alls ekki í takt.

 

DEADLINE 22:30 - tirsdag 02. marts 2010 | Søren Gosvig Olesen


Þriðjudagur 2. mars 2010

Árið 2009 undir evru - mesta hrun í landsframleiðslu Finnlands á einu ári frá 1918

Hagvöxtur Finnlands 2009: −7,8%

Finnska hagstofan kom með tölur yfir landsframleiðslu á síðasta fjórðungi ársins 2009 í gær. Enginn hagvöxtur varð í heild á síðasta fjórðungi ársins í Finnlandi.

Finnska hagstofan gerði einnig grein fyrir árinu 2009 í heild. Landsframleiðsla Finnlands féll um hvorki meira né minna en 7,8% á árinu í heild. Þetta er mesta hrun í landsframleiðslu Finnlands á einu ári frá því að mælingar hófust árið 1975. Í frægu finnsku kreppunni 1991-1993, þegar Finnland upplifði erfiða bankakreppu samhliða hruni Sovétríkjanna, þá féll landsframleiðsla Finnlands "aðeins" um 6% á árinu 1991, þegar verst lét. Til að fá fram tölur um svipað hrun og varð á árinu 2008-2009, þá þurfa Finnar að leita aftur til áranna 1917-1918. Það er víst óþarft að segja frá því hér að mynt Finnlands heitir og er því miður evra myntbandalags Evrópusambandsins. En ég segi það samt, já einu sinni enn.

Útflutningur Finnlands hrundi alls um 24% frá 2008-2009, fjárfestingar hrundu um 13%, innflutningur hrundi um 22% og einkaneysla féll um 2,1%. Rekstrarafkoma fyrirtækja hrundi um 39%. Þau greiddu því 44% minna í skatta og greiddu út 34% minna í arð; Hagstofa Finnlands 

Hagvöxtur Svíþjóðar 2009: −4,9%

Sænska krónu hagkerfið dróst tæplega 40% minna saman er evru hagkerfi Finnlands gerði á árinu 2009 í heild. Samdráttur heldur þó áfram í Svíþjóð því landsframleiðslan féll um 0,6% frá þriðja til fjórða tímabils ársins 2009 og um 1,5% á milli ára.

Útflutningur Svíþjóðar hrundi um 12,5% á árinu 2009. Smámunir miðað við Finnland. Innflutningur hrundi um 13,5%. Fjárfestingar hrundu um 15,3%. Einkaneysla dróst saman um 0,8%. Fjöldi fólks í atvinnu fækkaði um 2,6% og vinnustundum fækkaði um 2,6%. Þetta er mesta hrun í landsframleiðslu Svíþjóðar frá lokum seinni heimsstyrjaldar 1945; Hagstofa Svíþjóðar

Smásala í Danmörku féll í janúar

Danska hagstofan sagði að magn í smásölu hefði fallið um 0,9% í janúar. Mest féll sala á fatnaði eða um 2,6%. Sala matvæla og allra annarra neysluvara féll einnig. Magn smásölu í Danmörku er nú það næst minnsta síðan í desember 2004. Aðeins september 2009 var verri. Frá janúar 2009 til janúar 2010 er magn smásölu fallið um 3,2% og mest var fallið í sölu á fatnaði, það dróst saman um 6,1% á milli ára og sala matvæla um 3,%; Hagstofa Danmerkur

Þá vitum við það

Síðasti fjórðungur 2009 og árið í heild; Bati í hagvexti Þýskalands er stöðvaður (0,0%) eftir að Þýskaland hvarf um 4,9% á árinu. Spánn heldur áfram að dragast saman sjöunda ársfjórðunginn í röð. Ítalía datt aftur í það með 0,2% samdrætti á 4.fj.09. Finnland er horfið um 7,8% og vex ekki ennþá. Svíþjóð dregst ennþá saman. Danmörk er horfið um 5,1% og vöxtur var þar aðeins 0,2% á 4.fj.09. Og atvinnuleysi landanna er á bilinu tæp 8% til 19%.

Allt er hér því næstum hljótt og frekar dautt, nema ef væri í landi matarins, sem einnig hefur mestu frjósemi allra landa evrusvæðis, nema auðvitað Írlands. Þetta er Frakklandið góða, en þar óx landsframleiðsla um 0,5% á 4.fj.09. Sennilega þökk sé dálitlu af ungum neytendum á tryggri framfærslu hins opinbera í 25% atvinnuleysi franskra ungmenna. Aumingja ríkissjóður Frakklands, hann fær að kenna á ESB "budget enforcers" á næstunni. Olli Rehn mun fljúga um mest allt ESB á nornapriki Brussels á næstu árum. Með ríkishallamálið stífa í pokanum. 

Þá er bara að bíða spenntur eftir hagstofu Íslands á föstudaginn og þeirri norsku á miðvikudaginn. Þá getum við borið Norðurlöndin fimm saman. Hvort er verra; algert bankahrun eða evran? Ég veðja á evran sé verri en íslenska bankahrunið, þ.e.a.s fyrir hagvöxtinn.  


Mánudagur 1. mars 2010

Fjárlagahersveitir Evrópusambandsins

Peningar grískra skattgreiðenda

Ókjörnir embættismenn Evrópusambandsins ásamt stjórnmálamönnum annarra landa sambandsins leggja síaukinn þrýsting á ríkisstjórn Grikklands til þess að reyna að fá hana til að forða því að myntbandalag Evrópusambandsins lendi í öngþveiti eða upplausn. Krafist er ennþá meiri niðurskurðar á opinberum útgjöldum en ríkisstjórn Grikklands hafði hugsað sér. Litlu virðist skipta lengur hvað það var sem ríkisstjórn Grikklands lofaði kjósendum í nýafstöðnum kosningum þar í landi. Allt í einu er orðið opinbert það sem allir þeir sem kærðu sig um að vita gátu vitað ofurvel. Hallarekstur hefur verið á gríska ríkinu, mikill.

DEUTSCHE BUNDESBANK Monthly Report April 2005:

At its spring meeting on 22 and 23 March 2005, the European Council agreed to fundamental changes to the Stability and Growth Pact which crucially weaken the pact’s rules for a sound fiscal policy. The outcome of these decisions will jeopardise the aim of achieving sustainable public finances in all EU member states participating in monetary union. Not only do stable underlying fiscal policy conditions make a contribution to sustained economic growth, they are also needed to cope with future problems stemming from demographic developments. A particular worry from the perspective of a central bank is that public finances which are not lastingly sound make a stability-oriented monetary policy difficult. It is now a matter for the national governments, by pursuing a prudent fiscal policy, to dispel fears that the amendment of the pact implies effectively abandoning the objective of sustainable government financesy.

Það var árið 2005 að ESB setti nýjar reglur um fjárlagahalla ríkja evrusvæðis. Nýjar reglur um hinn svo kallaða stöðugleikasáttmála. Þessi stöðugleikasáttmáli átti að halda myntbandalaginu á floti því bandalagið er alveg án neins sameignlegs jarðsambands við skattgreiðendur sem búa til tekjustofna ríkjanna. Nýjar reglur voru settar vegna þess að tvö stærstu lönd sambandsins, Þýskaland og Frakkland, höfðu syndgað og brotið stöðugleikasáttmálann. Það með höfðu þau  stofnað framtíð myntbandalagsins í voða. En þá gat enginn sagt neitt því þessi tvö lönd voru of stór til þess að geta hlustað á smápeðin í bandalaginu. Þýski seðlabankinn varaði þá við þessu. En núna á sem sagt Grikkland að taka við öllu skrallinu og hlusta vel og vandlega. Það er nógu lítið til að geta hlustað á alla hina: Bloomberg | AFP | VOX | Seðlabanki Þýskalands

Landsframleiðsla Danmerkur 2009:  −5,1%

Hagstofa Danmerkur birti á föstudaginn tölur yfir landsframleiðslu Danmerkur á seinasta fjórðungi síðasta árs. Hagvöxtur var lítill sem enginn frá 3. til 4. ársfjórðungs, eða 0,2%. Miðað við sama tíma á árinu 2008 hafði landsframleiðsla fallið um 3,4% á fjórðungnum. Útflutningur féll um 0,4% á milli 3. og 4. ársfjórðungs. Innflutningur féll einnig um 1,7% á tímabilinu. Það sem framkallaði 0,2% hagvöxt á síðasta fjórðungi ársins 2009 var birgðasöfnun (0,6%), innflutningur nýrra bifreiða og önnur neysla sem lyfti einkaneyslu um 0,6%. Neysla á þjónustu dróst saman um 0,5%.

Ef litið er á árið 2009 í heild, þá dróst landsframleiðsla Danmerkur saman um 5,1% á árinu. Útflutningur hrundi um 10,7% og innflutningur um 13,2%. Fjárfestingar drógust saman um 11,9%. Einkaneysla féll um 4,6% (kaup á nýjum bifreiðum um 29,8%). Það eina sem jókst á árinu 2009 var neysla hins opinbera sem blés út um 2,2 prósentu stig á milli ára; DST

Lífskjör Slóvaka

Landakort af Slóvakíu

Þriðjungur Slóvaka finnst að lífskjör þeirra hafi fallið á síðustu fjórum árum, þ.e. frá árinu 2006. Aðeins fimmtungur Slóvaka finnst að lífskjör þeirra hafi batnað á þessu tímabili. Meira en helmingi íbúa Slóvakíu finnst að stjórnvöldum hafi mistekist að glíma við neikvæðu hliðar yfirstandandi efnahagskreppu. Slóvökum finnst að spilling og frændsemispot séu helstu gallar þjóðfélagsmála landsins; Slovak Spectator

Slóvakía tók upp evru þann 1. janúar 2009. Atvinnuleysi í Slóvakíu í desember mældist það fimmta mesta í 27 löndum Evrópusambandsins, eða 13,6%. Aðeins Lettland (22,8%), Spánn (19,5%), Eistland (15-16%) og Litháen (14-16%) höfðu meira atvinnuleysi í desember en Slóvakía; Atvinnuleysi í ESB núna


SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA

http://www.tilveraniesb.net/stuttar-vikufrettir


PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðanSkráasafn stuttra en oft daglegra frétta
PDF snið vika 9   2010 
Vika_9_2010_PDF_utgafa.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "
save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Comments