# 500 - 2010 - vika 4 - til 31. janúar 2010


VIKA 4  2010


Föstudagur 29. janúar 2010

Pest, kólera eða hrun evrusvæðis

Kominn er upp margradda orðrómur og getgátur um hugsanlegar ESB-björgunaraðgerðir í gríska ríkishallamálinu. En um leið og það mál kemst á varir embættismanna og ráðherra í ESB, þá bíta þeir sig sjálfkrafa í tunguna vegna þeirra fordæmisskapandi flóðgátta sem þá myndu opnast hvað önnur illa stödd evru & ESB-lönd varðar. Pest eða kólera ræður nú ríkjum á matseðli frammámanna ESB ríkja; FT | Edward Hugh | FTD

Hlutfallsleg hækkun fjölda atvinnulausra í DK

Mynd; hlutfallsleg hækkun fjölda atvinnulausra í DK

Mikið vanmetið atvinnuleysi í Danmörku 

Samkvæmt fréttum danska ríkisútvarpsins segir Danske Bank í nýrri skýrslu að samdrátturinn á atvinnumarkaði í Danmörku sé sá mesti í 40 ár. Bankinn segir að frá byrjun síðasta árs hafi tapast 133.000 störf á árinu og að þar til viðbótar muni tapast 45.000 störf í danska hagkerfinu á þessu ári. Danske Bank segir að samdrátturinn á atvinnumarkaði muni geta haft langvarandi neikvæð áhrif á hagvöxt í Danmörku. Jes Asmussen aðalhagfræðingur Handelsbankans segir að tölurnar yfir fjölda atvinnulausra í DK séu misvísandi og gefi ranga mynd af atvinnuástandinu. Þróunin í atvinnuþáttöku gefi mun betri og réttari mynd af ástandi mála. 

Samtök launþegahreyfinga í Danmörku segja að yfirlýsing forsætisráðherra Danmerkur, sem sagði að þróunin á dönskum atvinnumarkaði hefði verði "flöt", sé algerlega misvísandi. Samtökin benda forsætisráðherranum á að hlutfallsleg hækkun á atvinnuleysi í Danmörku sé sú fjórða mesta í þeim löndum sem Danmörk ber sig venjulega saman við. Danmörk hefur einnig haft þriðju mestu hlutfallslegu hækkun í fjölda atvinnulausra (sjá mynd hér að ofan)

Mikill munur á atvinnuleysistölum dönsku hagstofunnar og þeim sem hagstofa ESB gefur upp
Ég hef varpað þeirri spurningu til dönsku hagstofunnar (DST) hvernig standi á því að það er orðinn svona ótrúlegur munur (sjá mynd til vinstri) á þeim atvinnuleysistölum sem hagstofan sjálf gefur upp miðað við þær atvinnuleysistölur sem hagstofa ESB gefur upp (des-09 4,3% og des-09 7,2%). Ég fékk það svar að þetta "hlyti" að vera svona vegna mismunandi mats á stærð vinnuaflsins. En þessi ofannefnda skýrsla samtaka launþegahreyfinga í Danmörku kemur hins vegar með greinagott svar sem líklega er rétt (sjá línurit og texta á bls. 4 í skýrslu AE í vefslóð hér fyrir neðan). Mismunurinn er útskýrður svona: "þegar áraði vel hin nokkur síðustu ár létu margir danskir launþegar hjá líða að kaupa sér hina hefðbundnu tryggingu gegn atvinnuleysi sem gefur þeim rétt á atvinnuleysisbótum þegar þeir missa vinnuna". Þ.e.a.s ef maður hefur EKKI gerst meðlimur í neinum "A-kassa" = atvinnuleysistryggingasjóði (þeir eru nokkrir talsins hér í DK - og maður þarf að borga hið mánaðarlega iðgjald þeirra í 12 mánuði samfleytt) þá eiga launþegar EKKI rétt á neinum atvinnuleysisbótum. Það sem meira er: "þeir geta heldur ekki sótt um félagslega aðstoð hjá ríki eða bæ á meðan þeir eiga eignir eða eru í sambúð með maka sem hefur góðar tekjur eða á eignir. Þetta fólk er ekki inni í atvinnuleysistölum dönsku hagstofunnar." 
Hagvaxtarspá OECD fyrir árin 2011 til 2017
Þeir sem eru í allskyns kössum eða á námskeiðum á kostnað og á framfærslu hins opinbera telja heldur ekki með í atvinnuleysistölum DST. Þó eru þeir á framfærslu hins opinbera vegna þess að þeir hafa enga atvinnu. Þegar ég stundaði hér hagfræðinám á árunum 1985-1989 var það viðtekinn sannleikur lektora og prófessora Árósaháskóla að raunverulegt atvinnuleysi í Danmörku væri krónískt yfir 10%, þegar allt hið lausa væri talið með. Spá OECD yfir næstu 8 árin í Danmörku hljóðaði upp á að DK myndi fá ca. fjórða lélegasta hagvöxt í öllum 30 ríkjum samtakanna fram til 2017. Þessi spá OECD fer nú að gefa vissa meiningu. 

Það er útbreiddur misskilningur hjá mörgum aðfluttum, Norðurlandabúum (t.d. Íslendingum) sem öðrum, að þeir eigi sjálfkrafa rétt á atvinnuleysisbótum eða félagslegri aðstoð í Danmörku. Þetta er mikill og oft dýr misskilningur. Enginn fær hér atvinnuleysisbætur nema að hafa borgað af launum sínum í "A-kassa =arbejdsløshedskasse" í eitt ár og skilað 1920 vinnustundum á innan við síðustu 36 mánuðum. Uppfylla verður bæði skilyrðin. Félagsmálastofnanir eru að sama skapi að mestu lokaðar fyrir alla aðflutta sem hafa ekki unnið hér í nokkra mánuði eða verið búsettir í landinu í allt að 8 ár. Umsækjandi og/eða maki meiga heldur ekki eiga miklar eignir eða hafa góðar tekjur, þá fær fólk enga aðstoð. Það mesta sem félagsmálastofnanir geta gert fyrir nýlega aðflutta án atvinnu, er að greiða flugmiða þeirra heim með næstu flugvél. DR | AE

Vaxtamunamet var slegið á skuldabréfamarkaði evrusvæðis í gær

Grikkland varð að bjóða 7% ávöxtun á skuldabréfum gríska ríksins í gær. Nýtt met var þar með slegið á evrusvæðinu í gær. Nú er það flestum ljóst að aðild að myntbandalagi Evrópusambandsins er ekki vörn gegn fjármálavandræðum. Mikill óróleiki er á mörkuðum vegna gríska ríkishallamálsins og eru fjármál Spánar, Írlands og Portúgals að sogast inn í málið. Bandaríkjadalur hækkar stöðugt í verði gangvart evru og liggur nú á því hæsta frá því í júlí á síðasta ári. IE | FT


Fimmtudagur 28. janúar 2010

Stettin í Póllandi í gær

Mynd; Stettin í Póllandi í gær

Enn meiri vetur. 

Myndina tók sonur minn í miklu frosti og snjókomu þegar hann var að fara með ruslið út í öskutunnu í Stettin í Póllandi í gærkvöldi. Hér í Danmörku fór hitinn yfir frostmark í fyrsta skiptið í margar vikur í gær, en svo verður okkur strax í dag aftur dengt niður í -5 á daginn og -15 á nóttunni. Dóttir minni í París fannst líka kallt þar í gær og nóg er framboðið af kvefpestum í neðarjarðar lestarkerfi borgarinnar, sem er yfirfullt af fólki á hverjum einasta degi ársins.

Brussel krefst endurskoðunarréttar yfir þjóðhagsreikningum ríkja ESB. 

Samkvæmt fréttum Financial Times í gærkvöldi er framkvæmdanefnd ESB er að leggja fram tillögu til laga í ESB þar sem hagstofu ESB yrði veitt endurskoðunar- og eftirlitsheimild yfir þjóðhagsreikningum allra ríka Evrópusambandsins. Hagstofu ESB, Eurostat, yrði falið þetta eftirlitshlutverk sem fyrst. Þessi hagstofa ESB er staðsett í Lúxemburg og hefur sætt mikilli gagnrýni frá m.a. fyrrverandi endurskoðanda ESB sem var vísað brott úr starfi þegar hreinsa átti til í þeirri fjármálaóreiðu Evrópusambandsins sem olli afsögn framkvæmdanefndarinnar undir stjórn Jacques Santers. Stærsti hluti þess fjármagns sem ekki var hægt að gera grein fyrir heyrði til undir hagstofu ESB.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem svona tillaga er borin fram í Brussel því árið 2005 sóttist framkvæmdanefndin eftir að fá þessa heimild yfir á valdsvið sitt. Þá höfnuðu ríkisstjórnir ESB landanna beiðninni því þeim féll ekki í geð yfirfærsla þessa valdsviðs til Brussel. Það er gríska ríkishallarekstrar málið sem m.a. er ástæðan fyrir beiðni Brussel um meira vald. Við það mál bætist væntanlega portúgalska og hugsanlega einnig spænska ríkishallamálið; FT

Ekkert lát á áhyggjum yfir ríkisfjárlögum og hugsanlegum ríkisgjaldþrotum landa evrusvæðis

Formaður evruhópsins, Jean-Claude Juncker, kallar á meiri samruna og samhæfingu. Ekki er lengur nóg að hafa sameiginlega stefnu í megindráttum ríkisfjármála. Samkvæmt Juncker er meiri samhæfing líka nauðsynlegt ef ESB á að gera sig gildandi á sviði heimsmála. Bráðum verður þess væntanlega krafist að ESB fái sameiginlega skattgreiðendur. Það var auðvitað alltaf ætlunin frá byrjun. En svoleiðis markmið er aðeins hægt að selja ríkisstjórnum ESB-landa í smá skömmtum með aðstoð hinnar öruggu rúllupylsuaðferðar (d. salami metoden). Juncker kallar einnig á að Frakkland og Þýskaland hugsi og lifi eftir sömu efnahagslegu lífsfílósófíu. Það verkefni er nokkuð stórt. Þjóðir ESB passa greinilega ekki lengur við koncept Brussels. Því þarf að breyta þjóðunum.

Wolfgang Munchau segir að langlífi evru-myntarinnar sé ekki lengur hægt að taka sem gefinn hlut ef núverandi ríkisstjórnunar-kerfi evrulanda fái að halda áfram (e. governance system). Hann segir að Grikkland, Írland, Portúgal og jafnvel Spánn ógni tilveru myntbandalagsins. Það vantar vekfæri til að glíma við gríska málið. Eina sem dugar er meiri samhæfing.

Hagfræðingurinn Nouriel Roubini segir að Spánn hóti tilveru myntbandalagsins. Á sama deginum sagði Axel Weber yfirmaður þýska seðlabankans í viðtali við CNBC að myntbandalagið væri stöðugleikabandalag og að myntin evra væri komin til að vera að eilífu (e. forever); Eurointelligence | Bloomberg | WSJ | Børsen

Í Bandaríkjunum í gær

Mynd; Í Bandaríkjunum í gær

En hvað með meira frelsi og meiri sjálfsákvörðunarrétt?

Fáum virðist detta í hug að fara leiðina til baka, þ.e. leiðina til meira frelsis og sjálfsákvörðunarréttar. Fara aftur til EEC tímans áður en Maastrichtsáttmálinn gerði EEC að eins konar ríki sem fékk nafnið European Union og skammstöfunina EU. Einungis meira frelsi getur virkjað vöðva frelsisins í ESB. Einungis virkir vöðvar frelsisins geta búið til þá velmegun sem er að verða spurning um líf eða dauða margra landa Evrópusambandsins í framtíðinni. Frelsið er vöðvabúnt heilans og aðeins frjáls heili með virkum frelsisvöðvum ríkja og einstaklinga getur búið til nauðsynleg verðmæti og velmegun fyrir alla, þ.e hagvöxt og í það minnsta stuðlað að viðhaldi mannfjöldans. Þetta vantaði alveg í Sovétríkjunum og því urðu þau hrum, visin og gjaldþrota, þrátt fyrir mikinn skara góðra skriffinna, menntamanna og sérfræðinga af öllu tagi. 

Listir og tækni
Í Bandaríkjunum var í gærkvöldi kynnt enn ein andleg, veraldleg og efnahagsleg afurð frelsisins. Þessi afurð var búin til með virkum vöðvum frelsis sem knúði marga góða heila og hvatti þá til dáða og framkvæmda. Að afurðinni unnu bæði heimamenn og innflytjendur sem áratugum saman hafa streymt til þessa lands. Vonandi selst afurðin vel í heiminum og vonandi tekst Bandaríkjunum að viðhalda frelsinu sem knýr framfarirnar. Þetta er alls ekki sjálfgefinn hlutur. 

Þær eru orðnar margar tækninýjungarnar sem hafa komið frá tæknifyrirtækjum Bandaríkjanna síðustu marga áratugina. Ég mæli með kynningu á New York Times dagblaðinu (38 mínútur og 50 sekúndur inni í kynningunni) á því hvernig hægt verður að njóta blaðsins á nýjan hátt á nýjum stafrænum vettvangi nútíðar og framtíðar. Mörgum gömlu dagblöðum heimsins er hugsanlega ennþá hægt að bjarga - og gott betur en það, ef þau hirða um að endurnýja sig. Bókaverslunin er einnig afar aðlaðandi þar sem afurðin kemur pappírnum og gæðum letursins svona vel til skila til augna lesandans.

Engin von er til þess að næsta 10 ára áætlun Evrópusambandsins muni áorka neinu í þessum efnum frekar en sú fyrri gerði. Forsenda hennar átti einmitt að vera tölvugeirinn og upplýsingatækni - en bara samkvæmt tilskipun. Jú, það eina sem ESB tókst í síðustu 10 ára áætlun embættismanna sambandsins var að fjárkúga stærsta hugbúnaðarfyrirtæki heimsins og predika yfir því hvernig það ætti að standa að þróun vafra og stýrikerfis fyrirtæksisins. 

Atvinnuleysi í Finnandi hækkar enn

Atvinnuleysi í Finnandi hækkar enn
Hagstofa Finnlands tilkynnti í gær að atvinnuleysi í Finnlandi í desember hefði hækkað upp í 7,9%. Um 86,000 færri Finnar höfðu atvinnu í desember 2009 en í sama mánuði 2008. Atvinnuþáttaka var 67%. Varla er hægt að segja að Finnland hafi náð sama atvinnustigi og var þar fyrir stóru kreppuna sem kom og var 91-93, a.m.k ekki fyrr en á allra seinustu árum og varla það. Frá 2000 til 2010 kom hlutabréfamarkaður Finnlands úr með -47,74% ávöxtun á samtals 10 árum og er þar með hina næst verstu ávöxtun stærri hlutabréfamarkaða heimsins á undan Írlandi sem skilaði samtals -55,75% árangri á þessum 10 árum. Þess ber að geta að hlutabréfamarkaður Finnlands var mikið háður hruni dot com bólunnar í byrjun áratugsins; YLE | SF | SFG

Miðvikudagur 27. janúar 2010

Kolind-sund á Djurslandi

Mynd; Kolind sund á Djurslandi

Janúar 2010: kaldasti mánuður í Danmörku í 23 ár

Veðurstofa Danmerkur skrifar að þessi janúar mánuður sé ekki bara kaldasti janúar mánuður síðastliðin 23 ár, heldur einnig kaldasti mánuður ársins öll síðastliðin 23 ár. Ef þessi janúar mánuður endar á -3,5 gráðu meðalhita, segir veðurstofan, þá erum við alveg í skottinu á janúar mánuði ársins 1879, sem er 11. kaldasti mánuður í skjalasafni veðurstofunnar. En skjalasafnið nær aftur til ársins 1874. Það er þó töluverður kuldaspotti niður til þess kaldasta mánaðar í Danmörku sem við eigum tölur yfir. Það var styrjaldarveturinn 1942. Þá fór meðalhitastig í janúar niður í -6,6 gráður. Hér hjá mér á Djurslandi er ennþá sami snjórinn og féll hér skömmu fyrir jól. Hitinn næst síðustu nótt fór niður í 17 stiga frost. Mér telst til að ég hafi notað einn skógarrúmmeter af beykibrenni í þessum mánuði, ofaní rándýru hitaveituna, auðvitað; DMI

Flugfélag Eistlands lækkar laun starfsmanna um 30%

Mikil óánægja er hjá flugmönnum og starfsfólki í vélum Estonian Air eftir að flugfélagið lækkaði laun þeirra um 30% frá með síðustu áramótum. SAS á 49% í Estonian Air; BBN

Er öldrun að sökkva japanska hagkerfinu?

Þróun frjósemishlutfalls japanskra og þýskra kvenna
Hið öldrunarhrjáða hagkerfi Japans, þar sem hið opinbera skuldar meira en 200% af landsframleiðslunni, dregst meira og meira saman. Japanskir neytendur, sem eru að verða eldri og eldri og í of mörgum tilfellum barnlausir, hafa ekki verslað eins lítið í verslunarmiðstöðvum landsins síðan árið 1985. Smásala í japönskum verslunarmiðstöðvum féll um 10% á árinu 2009 miðað við 2008. Í matvöruverslunum féll salan um 13 þúsund miljarða jen, eða niður til ársins 1988. Salan í verslunarmiðstöðvum og stórverslunum hefur nú fallið í samfleytt 22 mánuði í röð.
Þau lönd sem hafa haft lélegasta samanlagða hagvöxt í löndum OECD frá 1994 til 2007
Þau lönd sem hafa haft lélegasta samanlagða hagvöxt í löndum OECD frá 1994 til 2007 voru (frá botni og upp) Ítalía, Japan, Þýskaland, Sviss, Evrusvæðið, Frakkland og Danmörk. Þessi röð gæti hafa breyst nokkuð ef árin 2008 og 2009 eru tekin með, því engin meiriháttar hagkerfi heimsins náðu að dragast eins mikið saman á árinu 2009 eins og evrusvæðið og Þýskaland; BB

Standard & Poor’s skipti í gær um skoðun varðandi framtíðarhorfur fyrir lánshæfnismat japanska ríkisins. S&P breytti horfunum í "neikvætt". Rebecca Wilder var einnig með athyglisverða bloggfærslu um efnahag Japans í gær. Ég vara lesendur við óþægilegu myndefni (skuldir japanska ríkisins og þróun lánveitinga til e. "non-financial" geirans í Japan). Hver vill fjárfesta í Japan? Ekki ég; Rebecca Wilder

Seðlabanki Þýskalands. Öll aðstoð á vegum ESB til Grikklands er útilokuð

Aðalstöðvar seðlabanka Þýskalands í Frankfurt
Yfirmaður seðlabanka Þýskalands, Axel Weber, sagði í gær að öll aðstoð við Gikkland á vegum Evrópusambandsins væri útilokuð og myndi virka í öfugu hlutfalli við tilgang hennar. "Hvaða hjálp sem væri, til Grikklands, yrði ekki hægt að réttlæta stjórnmálalega séð. Grikkland verður sjálft að leysa vandamál landsins." Skuldabréfa útgáfa gríska ríkisins í fyrradag tókst vonum framar eftir að gríska ríkið bauð extra og enn aukalega háa ávöxtun til fjárfesta. Létti mörgum við þetta því talið var að án árangursríkrar skuldabréfasölu núna hefði gríska ríkið orðið uppiskroppa með fé innan aðeins nokkurra vikna. 

Uppfært: Last updated: January 27 2010 11:51 | Greek bond yields rise to record high | Greek benchmark 10-year bond yields, which have an inverse relationship with prices, rose to 6.42 per cent on Wednesday, an 18 basis point rise on the day and more than 150bps higher than at the start of December last year. Greek yields are trading 332 basis points over Germany, up 28 basis points on the day, as investors demanded a much bigger premium to buy Greek debt. FT

Axel Weber er talinn einn áhrifamesti stjórnarmeðlimur seðlabanka Evrópusambandsins: EUB

ESB-andstæðingar vanmeta hina pólitísku fjárfestingu ESB í evru.

The Economist logo
Í minnisbók Charlemagne á vefsíðu Economist segir höfundurinn að andstæðingar og efasemdarmenn myntbandalagsins hafi alltaf vanmetið þá pólitísku fjárfestingu sem stóru ríkisstjórnir myntbandalagsins hafi gert í þessu verkefni. Stóru fjárfestarnir í myndun myntbandalagsins munu gera allt til þess að varðveita þessa fjárfestingu sína. ESB er að verða ennþá óvinsælla meðal þegna myntbandalagsins en Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn er meðal þjóða, vegna hinnar ótakmörkuðu viðleitni stjórnmálamanna myntbandalagsins til að halda myntbandalaginu saman, sama hvað það kostar. Það munu ekki koma neinar myntbandalagssprengjur, segir Charlemagne. Það sem mun hins vegar gerast er áframhaldandi stöðnun, hnignun og hægfara langtíma uppsöfnun á eymd og volæði fyrir þá þegna sem búa undir oki þessarar pólitísku fjárfestingar stjórnmálamanna í myntbandalagi ESB. Hér veðra menn að muna að þegnarnir voru yfirleitt ekki spurðir álits um hvort land þeirra ætti að ganga í myntbandalag ESB eða ekki; CN

Fyrrverandi yfirendurskoðandi ESB: "The system is not only corrupt, but corrupting." 

Ný bók fyrrverandi endurskoðanda Evrópusambandsins 

Evópusambandið í Brussel afhjúpað - Marta Andreasen
Fyrrverandi yfirendurskoðandi efnahags og fjárlaga Evrópusambandsins, Marta Andreasen, sem ráðin var til starfa hjá Evrópusambandinu í Brussel eftir að innvortis spillingarmál felldi þáverandi framkvæmdanefnd Jacques Santer, hefur gefið út bók. Marta Andreasen var ráðin til starfa hjá ESB til að hreinsa út í Brussel og koma í veg fyrir að miljarðar evra gætu horfið í spillingarsukki embættismannaveldis Evrópusambandsins, eins og gerst hafði. En hún var rekin eftir aðeins fimm mánuði í starfi og engar endurbætur átti sér stað í Brussel. Hún segir að Evrópusambandið sem ekki bara spillt, heldur virkar það líka spillandi. BJ

Þriðjudagur 26. janúar 2010

Evran - nú segir læknirinn að sjúklingurinn verði fyrst að vera heilbrigður til að geta þolað lyfin sem áttu að lækna sjúkdóminn

Smyglarar, brunalið og slökkvilið. 

Einn eftirsóttasti smyglvarningur á evrusvæðinu, smá 12 árum eftir að sjálfstætt gengi allt að 16 landa myntbandalagsins var lagt niður, er hagstætt og sjálfstætt gengi eigin gjaldmiðils sem passar við ástand efnahagsmála heima í einmitt hverju landi fyrir sig. Gengi sem passar við ástandið heima hjá okkur. Þessi lönd fengu það sem Bandamenn og Frakkar sömdu um þegar Þýskaland var sameinað á ný. Fast gengi við fasta nágranna sína í gegnum sameiginlega mynt. Þetta, sögðu sérfræðingarnir, átti að jafna út mismun og ójafnvægi í samkeppnisaðstöðu og samkeppnishæfni á milli hagkerfanna. Þetta átti líka að stórauka - 300% sögðu sumir - verslun og viðskipti milli þeirra landa sem voru svo heppin að fá að koma með í þennan klúbb útvaldra ríkja með "fyrirmyndar" efnahag, eins og t.d. Portúgal , Írland, Ítalía, Grikkland og Spánn.

12 árum seinna, 23. janúar 2010: Growing imbalances between countries within the common currency are a "matter of serious concern for the eurozone as a whole", and these imbalances "can weaken confidence in the euro and endanger the cohesion of the monetary union"

En nú er kviknað í húsum nokkurra fastra nágranna. Þau standa í ljósum logum. Það slökkvilið sem löndin áttu alltaf heima hjá sér er nú læst inni í skáp sem er staðsettur í Brussel. Enginn veit hvort það megi nota vatn á eldinn eða ekki. Hann brennur því áfram, hægt en örugglega, öllum til mikils ama. Mestur er aminn og gremjan hjá þeim sem sögðu að þetta fyrirkomulag væri óbrennandi. Sögðu að slökkvilið elda væri úrelt. Sumir muna kannski ennþá eftir ákafanum og gleðinni þegar níunda rúgbrauðssymfónía Beethovens ýtti evrunni úr vör - án slökkviliðs.

Í Brussel er þessu alveg þveröfugt farið. Þar er það fullveldi og sjálfstæði nokkura þjóða með brennandi efnahag sem er hinn eftirsóttasti smyglvarningur af öllum. Menn geta varla stillt sig um að taka á varningnum. Brjóta upp kassana og éta sig fallþungaða af innihaldinu. Sérstaklega ekki eftir að það tókst svona afburða vel að smygla áhættutöku þorpara einkageirans, sem bankarnir tilheyra, yfir og inn í Maastricht-ríkisfjármála-sóttvarnargirðingu þeirra sérfræðingana sem lögðu niður slökkviliðið og settu í stað þess á stofn brunaliðið í Brussel. Núna nærir eldurinn sig á þessum bakteríum þorpara einkageirans sem skógur embættismanna í brunaliðinu átti að hafa eftirlit með. Eldurinn nærir sig á ávöxtum skattgreiðenda sem eru þar með komnir í gíslingu. Þetta átti ekki að geta gerst því það var búið að skrifa í skjöl sóttvarna að þetta væri bannað. Þess vegna er myntin sameiginlega nú orðin meira til ógagns en jafnvel spádómar flestra efasemdarmanna buðu upp á frá byrjun.

12 árum seinna, 23. janúar 2010: With surveillance reach growing and the debate moving into the area of political sanctions being applied by over-arching Brussels bureaucrats, «Europe» is making a power-grab for the purse-strings of the member states that fund it.

It's not new but Greece easily represents «a turning point in the history of monetary union,» which was the 1999 creation of the shared euro currency, says Royal Bank of Scotland economist Jacques Cailloux.

Nú er ástandið svo slæmt að jafnvel brunaliðið í Brussel er komið á hvolf. Núna segir Brussel að það sé einmitt mismunurinn á samkeppnisaðstöðu og samkeppnishæfni á milli hagkerfanna sem sé að eyðileggja myntina. Hafið þið heyrt það betra? Það sem myntin átti að lækna er nú að eyðileggja sjálfa myntina. Þetta svarar til þess að læknir skammar sjúkling sinn fyrir að vera veikur því veiki hans eyðileggi virkni lyfsins sem hann gaf sjúklingunum við sjúkdómnum. Læknirinn segir núna að skjúklingurinn verði fyrst að verða heilbrigður til að geta þolað lyfin sem áttu að lækna sjúkdóminn sem lyfin voru framleidd til að lækna. Halló!

12 árum seinna, 23. janúar 2010: «Let us be clear: in the past, some national politicians have resisted stronger mechanisms of governance» in Brussels, Jose Manuel Barroso, who heads the European Commission, the body that drafts and enforces EU laws, said last week.

«I hope that... all EU governments will now recognize the need for full ownership of Europe 2020 and for a truly coordinated and coherent action in economic policy,» he said, referring to a new strategic framework.

Því segir formaður brunaliðsins í Brussel nú að brunaliðið þurfi bráðnauðsynlega að slá eignarhaldi sínu á alla Evrópu. Ekkert minna dugar til. Þeir sem skilja þetta ekki valda formanninum vonbrigðum. Já sjúklingurinn veldur vonbrigðum. Hann passar ekki við lyfin. Þó hafa engar stökkbreytingar átt sér stað á Evrópu, a.m.k ekki hin síðustu nokkur hundruð ár. Svo mun einnig verða áfram. Evrópska apótekið er ekki orðið neitt smá batterí núna, ekki frekar en fyrri daginn. Engum virðist lengur detta í hug að láta sjúklinginn bara í friði. Tilraunalækningar Evrópu halda áfram; DerSpiegel | EuObserver | Eurointelligence | Kathimerini

Nýtt norskt rit um Ísland, fjármálakreppuna og ESB er komið út

Norsku samtök andstæðinga ESB-aðildar Noregs, Nej til EU, hafa gefið út 65 síðna rit um fjármálakreppuna og ESB og einnig 66 síðna rit um hinn "nýja raunveruleka" á Íslandi og íslensku ESB-umræðuna; Finanskrisen og EU | Sagaøyas nye virkelighet. Þarna er hægt að hlaða niður PDF-útgáfum.

Norsk skýrsla: pólitísk stefna fyrir vöxt og atvinnu 

Norska greiningarstofnunin, MENON Business Economic, hefur skilað af sér skýrslu til viðskipta- og efnahagsmálaráðuneytis Noregs um efnahagsstöðu Noregs miðað við efnahag ESB og landa þess. Skýrslan ber titilinn, "pólitísk stefna fyrir vöxt og atvinnu". Niðurstöður skýrslunnar segja að Noregur hafi mun hærri efnahagslegan vöxt- og framgang en öll lönd Evrópusambandsins, eða 90% hærri þjóðartekjur á mann en meðaltal landa Evrópusambandsins. Sé allur olíuiðnaður Noregs tekinn frá og undanskilinn eru þjóðartekjur á hvern mann ennþá 34% yfir meðaltali allra landa ESB. Framleiðni vinnuafls Noregs er 57,3% hærra en í ESB. Atvinnuþáttaka í Noregi er 78% og sú þriðja mesta í Evrópu. Ísland er ekki með í tölunum um atvinnuþáttöku því þá væri Noregur í 4. sæti því atvinnuþáttaka á Íslandi er sú mesta í Evrópu; PDF Politikk for vekst og sysselsetting

Efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga

Ég rakst á athyglisvert erindi eftir Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra Íslands. Erindið var flutt á Söguþingi í Reykjavík þann 31. maí 1997 og ber yfirskriftina "efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga". Erindið fjallar að mestu um tímabilið frá því að Ísland fékk efnahaglegt frelsi og fram að upphafi seinni heimsstyrjaldar: Seðlabanki Íslands; PDF Efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga


Mánudagur 25. janúar 2010

Der Spiegel - Fyrir hvern hringdi myntbandalagið vel ?

Fyrir hvern hringdi myntbandalagið vel?

Það nýjasta í málum þess myntbandalags Evrópusambandsins sem átti að auka verslun og viðskipti á milli evrulanda - en hefur bara alls ekki gert það - og sem átti að stórauka hagvöxt og velmegun íbúa evrusvæðis - en hefur bara gert hið gagnstæða - er það að efnahagsmál sumra þeirra landa sem nú eru að þrotum komin í myntbandalaginu "ógna sjálfri tilveru myntar myntbandalagsins". Hver var það sem sagði þetta? Eitthvert lánshæfnismatsfyrirtæki? Einhver banki? Eitthvert greiningarfyrirtæki? Einhver hagfræðingur? Nei engir þessara. Þetta sagði sjálf framkvæmdanefnd Evrópusambandsins núna um helgina. Þessu var lekið í þýska blaðið Der Spiegel yfir helgina.

Hagfræðingurinn Edward Hugh skrifaði grein í gær varðandi þessa frétt í Der Spiegel. Martin Wolf hjá Financial Times hittir naglann nokkuð vel á höfuðið, en Edward Hugh hefur eftirfarandi eftir Martin í grein sinni. Martin segir þetta (lausleg þýðing);

Martin Wolf hjá Financial Times
"Það sem fólk virðist ekki skilja er það að löndin í útjaðri myntbandalagsins eru föst og geta ekki sloppið burt úr gildru samkeppnisbrenglandi verðhjöðnunar Þýskalands og Hollands (innvortis gengisfelling). Svo lengi sem allt evrusvæðið er með efnahaglegt jafnvægi gagnvart umheiminum, en Þýskaland sjálft er hins vegar með mikinn efnahagslegan hagnað, þá hlýtur það að þýða að hin löndin á evrusvæðinu VERÐA að vera með mikinn uppsafnaðan halla. Þýskaland tekur innanlands-eftirspurnina frá hinum löndunum (með sífelldri innvortis gengisfellingu).
Atvinnuleysi í löndum Evrópusambandsins í nóvember 2009
Þetta þýðir að annað hvort verða hin löndin að keyra með halla í einkageiranum (eyða meiru en aflað er) eða þá að hið opinbera veður að vera rekið þar með halla. Ef það er hinn opinberi geri sem keyrir með halla í þessum löndum - og er svo þvingaður til að ná jafnvægi í ríkisrekstri vegna þrýstings frá yfirvöldum evrusvæðis - þá mun landsframleiðsla verða þvinguð niður í þessum löndum. Þetta mun þýða að lokum er það einkageirann sem er þvingaður yfir í hallarekstur - og sem svo mun leiða hann til gjaldþrota. Það er annað hvort hið opinbera eða einkageirinn í þessum löndum sem verða að fjármagna hagnað Þýskalands, svo framarlega sem allt evrusvæðið er í jafnvægi við umheiminn.

Eina leiðin fyrir þessi lönd (sem heita ekki Þýskaland eða Holland) út úr gildrunni er að lækka laun og kostnað og það mun svo þvinga allt evrusvæðið inn í kreppu. Kreppu í löndunum í útjaðri evrusvæðis (og þau eru mörg) og svo einnig í kjarnalöndum evrusvæðis. Engin þekkt efnahagsstefna getur glímt við varnalega kreppu. Allt getur gerst. Ég hef alltaf óttast að evran geti sprengt Evrópusambandið. Ég trúi því að það sé alveg mögulegt.

Ný og fersk aukaeftirspurn verður að koma til frá kjarnalöndum evrusvæðis. Er það mögulegt? Eða þá að allt evrusvæðið sem heild komist í hagnað gagnvart umheiminum? Það er mjög ólíklegt með svo slaka eftirspurn frá umheiminum - og með svo hátt gengi á evrunni."

Meðaltal hagvaxtar í Þýskalandi á ári í sex áratugi - 60 ár

Kæri Martin Wolf. Þetta var mjög góð greining hjá þér. En þú gleymir mjög mikilvægu atriði. Hin varanlega veika eftirspurn innanlands í Þýskalandi er að miklu leyti tilkomin vegna hinnar hröðu öldrunar þýsku þjóðarinnar. Þýskaland er orðið elliheimili og elliheimili geta ekki aukið eftirspurn í hagkerfum sínum. Hún mun halda áfram að minnka næstu 250 til 500 árin, því það er þannig sem aldurspýramídar á hvolfi virka ásamt hinni svo kölluðu gildru lítillar frjósemi (e.low fertility trap). Þjóðverjum mun fækka um allt að 20 miljón manns á næstu 45 árum. Það tekur margar margar kynslóðir að snúa þróuninni við. Þegar konum á frjósemisaldri fækkar mjög mikið þá mun þeim fáu sem eftir sitja ekki geta fundist lífvænlegt að fæða afkvæmi sín inn í deyjandi þjóðfélag, sem stjórnað er af gamalmennum - og sem einnig hafa kosningarétt. Þær munu því kjósa með fótunum og menn þeirra líka. Því miður. Evrusvæðið er búið að vera fyrir fullt og allt. Þýskaland mun bráðum ekki hafa efni á þegnum sínum.
Atvinnuleysi á evrusvæði frá 1991
Nú munu brátt verða afgerandi kaflaskipti í sögu Evrópusambandsins. Nú verður fyrir alvöru og af fullu afli reynt að pressa meiri og enn meiri pólitískum samruna í gegn. Sameining ríkisfjárlaga ríkja Evrópusambandsins "verður" að komast í gang. Ríkjunum mun verða sagt að verði ekki af þessu, þá mun myntbandalagið og einnig sjálft Evrópusambandið leysast upp. Þeim verður smá saman stillt upp við vegg. Stórríki fátækar í endalausri kreppu er í smíðum.

16. desember 2009. Í leiðara FT Deutschland ásakar ritstjórnin Þýskaland fyrir að hafa stunda undirboð á atvinnumarkaði evrusvæðis og ESB (e. wage dumping). Blaðið hefur tekið eftir því sem ég hef vitað áratugum saman að efnahagslíkan myntbandalagsins og hins svo kallaða "innri markaðar" stenst ekki með 16 ríkisstjórnum, 16 fjárlögum og 15 seðlabönkum. Blaðið segir að á árunum 1999-2009 hafi Grikkland misst mikla samkeppnishæfni því launakostnaður í Grikklandi hafi hækkað um 26% á meðan hann hefur aðeins hækkað um 8% í Þýskalandi á saman tíma; FTD

Það er aðeins eitt sem svona lönd skilja og það er massíf gengisfelling

Eins og ég skrifaði í viku 51 á síðasta ári: Þegar maður er lítið land - kannski Ísland - og rekst á svona land með svona efnahagsstefnu eins og Þýskaland hefur - og sem stundar hana í skjóli myntbandalagsins - þá er aðeins eitt sem gildir. Það er aðeins eitt sem svona lönd skilja, og það er massíf gengisfelling sem mótleikur gegn "wage dumping"! En það krefst þó þess að maður hafi einhverja mynt til að fella. Ef maður hefur það ekki, þá endar maður líf sitt sem nýlenda, þræll og einka-útflutningsmarkaður Þýskalands, þ.e. sé maður svo vitlaus að hafa álpast inn í ESB í stundar geðveikis- og hræðslukasti. Þá fær maður svona bréf eins og Grikkir eru að fá frá yfirvöldum evrusvæðis núna; Vika 51


SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA

http://www.tilveraniesb.net/stuttar-vikufrettir


PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðanSkráasafn stuttra en oft daglegra frétta
PDF snið vika 4  2010 
Fostudagur_29_januar_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "
save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Comments