# 503 - 2010 - vika 1 - til 10. janúar 2010


VIKA 1 2010


Föstudagur 8. janúar 2010

Írski hagfræðingurinn David McWilliams
Írski hagfræðingurinn David McWilliams segir í grein í Irish Independent að Ísland sýni heiminum mikilvægi þess að setja fólkið ofar fjármálastofnunum. Munurinn á Íslandi og Írlandi er sláandi segir David, því Ísland hafi núna bankakerfi sem er tengt við þjóðina og þarfir hennar en á Írlandi sé það hins vegar þjóðin sjálf sem sé tengd við bankakerfið og þarfir bankakerfisins; IE | bloggsíða David | MBL | Hendum evrunni

Utanríkisráðherra Lettlands, Maris Riekstins, tekur afstöðu með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. "Ef Frakkland hefði verið mótaðili í Icesave deilunni þá hefði tónn Breta og Hollendinga verið allur annar". Maris Riekstins vísar á bug ýktum viðbrögðum sumra evrópskra stjórnmálamanna; EuObesrver | BBN

Uffe Ellemann-Jensen, fyrrum utanríkisráðherra Danmerkur skrifar frekar barnalega og ferkantaða bloggfærslugrein um Icesave málið á Berlingske Tidende. Ég hef alltaf haldið frekar mikið upp á Uffe Ellemann nema að því leyti hve krónískt og gagnrýnislaust hann situr fastur á ESB önglinum. Þar engist hann núna hneykslaður á hugrekki Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. Hollusta Uffe Ellemann við Evrópusamrunann blindar og stýrir hugsun þessa ágæta manns. Þetta hefur örugglega verið hrikalega erfið ákvörðun fyrir forseta Íslands. En ákvörðun tók hann í samræmi við það sem á undan var gengið. 

Evrópusambandið er steindautt

Það var einmitt Poul Schlüter forsætisráðherra Danmerkur og yfirmaður Uffe Ellemann-Jensen sem lýsti því yfir að Evrópusambandið væri steindautt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um EF-pakkann í febrúar 1986. Þá var Uffe Ellemann utanríkisráðherra. Svo þegar Danir sögðu nei við Maastricht sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 2. janúar 1992, varð allt vitlaust hér í því Evrópusambandi sem Poul Schlüter hafði lýst yfir að myndi aldrei verða til aðeins 7 árum áður. Þá sagði hið svo kallaða "Alþjóðasamfélag-Evrópu" að Danmörk hefði sagt nei við allri Evrópu og hefði engan rétt til að stöðva þróun allrar Evrópu. Þetta var náttúrlega bara notað sem þrýsti- og hræðslutæki til að hræða Dani aftur á sinn stað í ESB. Þá var það Uffe Ellemann sem tók mest undir þessi sjónarmið og barðist hvað harðast fyrir því að Danmörk myndi halda áfram að hanga á fingurgómunum inni í því ESB sem átti ekki að vera til, en sem samt var orðið til. Allt var sett á fullt til að finna málamiðlun svo Danmörku yrði ekki refsað fyrir að “stoppa Evrópu”, eins og það var kallað - og gæti haldið áfram að dingla á nöglunum inni í ESB sem þá var orðið að raunveruleika, þrátt fyrir loforð forsætisráðherrans 7 árum áður.

1984: Similarly, it will be up to the foot-dragging Danes and Greeks to decide whether they want to join the seven-member WEU. And the Norwegians will face the same choice between Scandinavian and European identity. hér

Nú eru það Íslendingar sem eru orðnir “footdragging” í Evrópu. Menn geta ímyndað sér hvernig staðan væri ef Ísland væri í ESB og ætlaði að segja "nei við Evrópu". En Danir voru lengi vel kallaðir “the footdragging Danes” í bæði ESB og NATO árum saman. Mest vegna vegna þokukenndar afstöðu sinnar til stórra mála en sem þó átti að mestu rætur sínar að rekja til innbyrðis slagsmála hinna borgaralegu- og vinstri afla í dönskum stjórnmálum. Sósíaldemókratar gerðu allt til að eyðileggja fyrir ríkisstjórn Poul Schlüters. Þetta tímabil var dönskum sósíaldemókrötum til lítils sóma.

2007: Uffe Ellemann-Jensens beretning om hans tid i Bruxelles og hans kamp for et samlet Europa. Danskerne er fodslæbende europæere, mener Uffe som selv er begejstret for det europæiske samarbejde. Uffe fortæller om den forbitrede kamp mellem ham og socialdemokraterne om fodnoter. Útvarpsþáttur

Afstaða Uffe Ellemann sannar að mínu mati hversu illa málið er kynnt og hversu illa ríkisstjórn Íslands hefur barist fyrir málstað Íslands. Það hefur hún ekki viljað gera af fullu afli vegna ESB-umsóknar Samfylkingarinnar. Ef svona gungustefna hefði alltaf verið viðhöfð í utanríkismálum Íslands þá hefðum við varla neina landhelgi að ráði í dag.

Atvinnuleysi á evrusvæði frá 1991

Að mínu mati er það ESB-þráhyggjustefna Samfylkingarinnar sem kemur í veg fyrir að íslenska þjóðin geti staðið saman á þessum örlagatímum. Þessi þráhyggja sprengdi síðustu ríkisstjórn í miðri bankakreppu og hefur sú aðgerð nú komið af stað stjórnmálakreppu sem eyðileggur Ísland innan frá. Þessi þráhyggja hefur líklega komið í veg fyrir þá þjóðstjórn sem hefði verið svo æskileg þegar bankarnir hrundu. Þráhyggja Samfylkingarinnar klýfur íslensku þjóðina í herðar niður, lamar varnir landsins, stuðlar að sundrungarstjórnmálum og skemmir fyrir Íslandi á örlagaríkan hátt um allar jarðir. Engin sátt, samlyndi og endurreisn mun komast á fyrr en umsókn Samfylkingarinnar inn í ESB hefur verið dregin til baka. Þá verður fyrst hægt að virkja varnar- og sóknaröfl Íslands til hins ýtrasta. Samstaða er bráðnauðsynleg. Samfylkingin er sennilega mesta sundrungarafl í íslenskum stjórnmálum frá upphafi. Það er örugglega mjög erfitt fyrir Vinstri græna að vera saman í stjórn með þessum flokki.

The Eurozone's next decade will be tough
Ástand efnahags- og gjaldmiðilsmála á evrusvæði hefur ekki verið eins mikið til umræðu frá því að myntbandalagið var stofnað. Gapið á milli norðurs og suðurs innan myntbandalagsins hefur aldrei verið stærra. Gapið á milli vaxta- og peningamálaþarfa landanna innan myntbandalagsins hefur aldrei verið stærra. Gapið á milli efnahagsþróunar almennt innan landa evrusvæðis hefur heldur aldrei verið stærra. Raunverulegur ótti um hvort evrusvæðið muni þola það þeytivinduafl sem er að verkum innan svæðisins, er orðinn áberandi. Skuldastaðan verður mjög erfið og hagvaxtarhorfur eru slæmar vegna hinnar sameiginlegu myntar og því heftandi regluverki sem henni fylgir; WSJ | Danske Bank (PDF) | AEI

Í viðtali við Bloomberg segir talsmaður Fitch Rating að það sé fyrst og fremst hin pólitíska stjórnun og óvissa á Íslandi sem olli lækkun á lánshæfnismati ríkissjóðs Íslands. Fitch á greinilega erfitt með að setja tölur og tákn sín á Ísland. Því er best að lækka matið til að vera á öruggu hliðinni. Þessi lækkun matsins, segir talsmaðurinn, hefur enga praktíska þýðingu fyrir ríkissjóð núna því hann þarf ekki að endurnýja lán eða greiða af lánum næstu tvö árin. Talsmaður Fitch sagði að lán Norðurlandanna í gegnum AGS sé sérstaklega skilyrt Icesavemálinu. Það bætti aðeins við snjóinn hér í nótt og frost var um 10 gráður í morgun. Ekkert til að tala um miðað við Noreg og Svíþjóð. Vatnavegir Þýskalands eru að frjósa til og stoppa prammaflutninga á kolum og birgðum; Credit Writedowns


Fimmtudagur 7. janúar 2010

Lafði barónessa Catherine Margaret Ashton utanríkisráðherra Evrópusambandsins í Brussel

Þýska neytendatímaritið Ökotest skrifar um rannsókn sína á hinum svo kölluðu “umhverfisvænu” ljósaperum sem neytendur í ESB eru nú þvingaðir til að kaupa. Evrópusambandið í Brussel er búið að banna venjulegar ljósaperur í 27 löndum. ESB-Brussel hefur rekið þann áróður að neytendur geti sparað allt að 190 evrur á ári með minni “orkukneyslu”, því þessar ljósaperur sem sambandið hefur ákveðið fyrir okkur, séu svo mikilfenglegar og orkusparandi. 

En svo er ekki reyndin segir neytendatímarit Þjóðverja, Ökotest. Próf Ökotest sýna að þegar þessar nýju ESB-ljósaperur eru bornar saman við hefðbundnar ekki-ESB ljósaperur, þá veldur hinn tilætlaði árangur ESB miklum vonbrigðum. Aðeins 1/3 hluti af 16 tegundum ESB-ljósapera framleiddu nægilega birtu. Ein gerð peranna framleiddi næstum ekkert ljós. Fjórar gerðir pera féllu á öllum prófum Ökotest og voru dæmdar sem “flop”. Aðeins ein gerð pera fékk einkunnina “nægilega góð”. 

Ljósaperur Evrópusambandsins
Dýrsta orkusparandi ESB-ljósaperan í prófinu notaði meira rafmagn og framleiddi jafnframt minna ljós en hefðbundin ekki-ESB-ljósapera. Finnska Yle útvarpið sem fjallaði um próf Ökotest talaði einnig um heilsuspillandi áhrif frá ESB-perunum, því margar þeirra innihalda kvikasilfur. Skýrsla Ökotest segir að á síðasta ári hafi Evrópusambandið í Brussel bannaði kvikasilfur í hitamælum en svo jafnframt innleitt það í ljósaperum á sama árinu. Það eru mörg herbergi í Brussel. 

Næst fáum við vonandi rússneskar ljósaperur. Það er örugglega allt í lagi því þær geta varla verið verri en blái rándýri ljóminn frá ESB-perunum. Ég er orðinn þreyttur á að eltast við að finna leifarnar af gömlum birgðum af venjulegum hefðbundnum ljósaperum hér í ESB. En ég er ennþá þreyttari á ESB-bitrunni frá ESB-perunum. Hún er blágul og tifar eins og tímasprengja á meðan perurnar ofhitna og bræða sökkulinn í ljósastæðunum. 

En þetta lagast örugglega bráðum, því núna er Brussel í gangi með gerð nýrrar 10 ára áætlunar Evrópusambandsins. Sú vinna fer væntanlega fram í ölum 10.000 herbergjum embættismanna Brussel. Þetta er bráðnauðsynlegt, því síðasta áætlun ESB mistókst meira en fullkomlega. Hún gékk mest afturábak. Það fer því örugglega bráðum að birta til á ný. Ég mun vonandi geta fjallað um hina nýju 10 ára áætlun ESB í dagsbirtunni hér í glugganum fljótlega.; Ökotest | Yle | Árangur síðustu 10 ára áætlunar ESB


Miðvikudagur 6. janúar 2010

Fjöldi gjaldþrota á mánuði í Danmörku frá 1979

Mynd (DST); fj. gjaldþrota á mánuði í DK frá 1979

Árið 2009 bauð upp á mesta fjölda gjaldþrota fyrirtækja í Danmörku. Samkæmt dagblaðinu Børsen, sem hefur heimildir sínar frá Experian, endaði árið 2009 með að 5879 fyrirtæki urðu gjaldþrota. Þetta er mesti fjöldi gjaldþrota fyrirtækja í Danmörku síðan mælingar hófust árið 1979. En þetta er ekki allt. Á árinu 2010 spáir lánshæfnismats fyrirtækið Soliditet að minnsta kosti öðru eins. Soliditet segir að sökum lélegrar greiðslugetu og lánstrausts muni mikill fjöldi fyrirtækja ekki geta fengið þá fjármögnun sem nauðsynleg er til að geta tekið þátt í þeim efnahagsbata sem vonast er eftir. Fjöldi vel lánshæfra fyrirtækja minnkar á meðan fjöldi fyrirtækja með lágt lánshæfnismat eykst; Børsen

Andarteppa - Þorskastríðin

Mynd: andarteppa

Leiðari í tilefni gærdagsins: Lætin i fjölmiðlum í gær minntu mig á þau skipti þegar kjósendur í Danmörku sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslum um hina svo kölluðu “Evrópusamvinnu”. Sögðu nei þvert ofan í vilja stjórnvalda. Því minna og fámennra sem landið er, því minna er því ætlað að hafa skoðun á nokkrum hlut. Þegar litar þjóðir gera ekki eins og til er ætlast verður pirringur og stundarreiði hinna stóru meira áberandi. Stóru löndunum er svo annt um að verða ekki uppvís að andlitstapi vegna músargildru sem þá situr föst á nefi þeirra. Gildru sem hindrar hinn stóra grandiósa andardrátt og gerir þau nefmælt. Þetta gildir sérstaklega þegar lönd eru mikið fyrrverandi. Þetta þekkja Íslendingar vel frá fyrri tímum. Það er óþolandi að í hverju tilfelli andarteppu hinna fyrrverandi skuli einhvers konar herafli hins svo nefnda “alþjóðasamfélags” vera notaður sem vottorð fyrir yfirgangi. 

Fjandsamlegar yfirskriftir blaða eru fyrst og fremst til þess ætlaðar að koma gang í músasmelli og upplagstölur. Þær eiga einnig að auka við hraða-hróður viðkomandi blaðs. Þetta á við um mjög marga fjölmiðla, en þó ekki alla. 

Í mörg þau skipti sem ég hef orðið vitni af mjög ósanngjarnri umfjöllun í garð Íslands hér í Danmörku, hef ég sent viðkomandi fjölmiðli kurteisa en ákveðna línu með réttmætum smáskömmum í tölvupósti. Það eru þá mín sjónarmið sem standa í skeytinu. Oftar en ekki hef ég fengið svör frá blaðamönnum. Svör sem stundum hafa undið upp tækifærum sem gefa manni kost á að útskýra eigin sjónarmið. Vinsamlegheit komast þá oftar en ekki að á milli okkar. Það gerðist líka í gær. Ég fékk strax svar frá blaðinu og var tilkynnt að ósanngjarnri neikvæðri fyrirsögn í garð Íslands hefði verið breytt í minna neikvæða fyrirsögn og sem var þá ekki eins ósanngjörn lengur. Þá þakkar maður fyrir og sendir ennþá meira af upplýsingum og bætir við eigin skoðunum og bakgrunni. Maður getur alltaf vonað að bréf manns beri árangur. En ef engin bréf eru send, þá gerist ekki neitt nema eitt; þú verður áhrifalaus og fláður í tætlur. Örugglega hafa margir fleiri Íslendingar líka sent bréf vegna þessarar greinar blaðsins. Því fleiri því betra. 

Yfirvöld á Íslandi hefðu átt að vera tilbúin með pakka af aðgerðum til styrktar málstað Ísland á erlendri grund. Þau hefðu átt að hafa her manna tilbúinn í viðbragðsstöðu til að senda hverjum einasta fjandsamlega fjölmiðli pakka af upplýsingum og koma á samskiptum. En nei, það öndverða virðist bara hafa gerst. Þetta gerðu yfirvöld sennilega ekki og er ástæðan sennilega sú að íslenska stjórnkerfið var upptekið við krossapróf Evrópusambandsins. Krossapróf sem fer fram á blindraletri og dulmáli sem krefst allrar athygli stjórnvalda. Þetta er og hefur því verið mjög erfitt mál allan tímann því málstaður stjórnvalda Íslands fer greinilega ekki saman við málstað þjóðarinnar. Það er nefnilega ekki hægt að sjá að þjóðin og stjórnvöld eigi sameiginlegan málstað í þessu og fleiri málum. Það hefur reyndar ekki verið hægt að sjá að svo væri í bráðum heilt ár. 

Minnsta krafa þjóðarinnar til íslenskra stjórnvalda er þessi; að minnsta kosti jafn margir vinni við að upplýsa og bæta málstað Íslands erlendis eins og núna vinna við ESB dulmálið. Það er algert lágmark. Það er auðvitað ekki hægt að nota sama fólkið í báða málstaði því tilgangur lyfjanna er svo afskaplega öndverður að hætta er á losti og víxlverkunum. Afleiðingar víxlverkana sjást nú þegar á sjúklingunum. Hann er í losti. 

Þetta er allt mjög erfitt mál ef hershöfðingjar hersins eru ekki á sama máli og þjóðin sem þeir eiga að berjast fyrir. Ef ríkisstjórn Íslands væri fyrirtæki þá væri það nú þegar orðið gjaldþrota. En ríkisstjórnin er hvorki her né fyrirtæki. Hún er bara rekald. Svo hér er minn einfaldi boðskapur til ríkisstjórnar Íslands. Annað hvort ertu með okkur, eða þú ert með hinum. Það er ekkert þar á milli. | Það snjóar hér áfram.


Þriðjudagur 5. janúar 2010

Prófessor við háskólamiðstöðina í Suður-Danmörku sagði í fréttatíma dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 kl. 19:00 að forseti Íslands hefði gert hárrétt í að samþykkja ekki lagasmíði Alþingis í Icesave málinu. Hann sagði að það væri ekki hægt að dæma heila þjóð til að borga innistæður ríkra innistæðueigenda í bönkum úti í heimi. Ég náði því miður ekki nafninu á prófessornum. Í fréttatíma danska ríkissjónvarps sagði hins vegar hinn velkunni Carsten Valgreen það sem hann er vanur að segja, þið vitið, "alþjóðasamfélagið Plc", IMF osfv. Hann gat þó ekki svarað spurningu fréttmannsins um hvað hann myndi sjálfur gera ef hann væri Íslendingur. Hann vék sér undan að svara þeirri spurningu, enda hefði heiðarlegt svar sennilega þýtt umsvifalausa kauplækkun.

Þróun launakostnaðar undir einum gjaldmiðli - Norður- og Suður-Evrópa

Rannsóknarþjónusta þýska þingsins, Bundestag, álítur að svipta eigi Grikkland atkvæðarétti í ráðum Evrópusambandsins ef til gjaldþrota gríska ríksins kemur og ef sýnt er að Grikkland hafi brotið lög myntbandalags Evrópusambandsins. Þetta skrifaði þýska blaðið Der Spiegel þann 28. desember síðastliðinn. Vaxandi andstaða er meðal seðlabanka- og stjórnmálamanna í löndum myntbandalags Evrópusambandsins gegn því að Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum verði á nokkurn hátt falið að bjarga evruríkinu Grikklandi frá hruni og ríkisgjaldþroti. Alex Weber sem er forseti þýska seðlabankans segir að “við þurfum ekki á AGS að halda” og bendir á að það sé ólöglegt að fjármagna fjárlagahalla eins ríkis innan myntbandalagsins með fjármunum annara ríkja myntbandalagsins. En það eru einmitt fjármunir flestra seðlabanka ESB sem eru notaðir til að fjármagna starfsemi og björgunaraðgerðir AGS. 

Samkvæmt fyrri skrifum Simon Johnson, sem m.a. er fyrrverandi yfirhagfræðingur hjá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum og núna prófessor við MIT og Peterson Institute, þá er og hefur framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóri Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins í reynd alltaf verið útnefndur og stýrt af ríkisstjórnum í Evrópu til að vera einmitt fulltrúi hagsmuna ríkisstjórna Evrópu. 

The managing director of the I.M.F. is very powerful, with a great deal of authority and discretion, and has always been a European — in effect, appointed by European governments to represent their interests. Meira: The IMF Should Move To Europe

Aðalstöðvar þýska seðlabankans í Frankfurt
Nokkuð ljóst er að forseti seðlabanka Þýskalands gerir sér grein fyrir því að ekki er hægt að nota AGS sem bjargvætt í Grikklandi því Grikkland er þegar í innsta búri þess félagsskapar sem stýrir AGS og áhrif AGS geta því ekki orðið meiri en þau eru nú þegar í Grikklandi. Hann notar því þau sterku rök að vegna reglna myntbandalagsins sé ekki hægt að senda AGS þar inn því það brýtur í bága við reglur um stuðning ríkissjóða myntbandalagsins við aðra ríkissjóði innan myntbandalagsins. Útkoman úr þessum rökum Weber er sú að myntbandalagið sjálft verði að fást við Grikkland. Þarna er hann að reyna að bjarga andliti myntbandalagsins og útiloka aðkomu AGS að hrikalegum vandamálum Grikklands.

Þetta fyrrnefnda álit rannsóknarþjónustu þýska þingsins sem skilaði áliti sínu til þingmannsins Volker Wissing (FDP) fékk þingmanninn til að ítreka við Evrópusambandið að það skoði gaumgæfilega þau lönd sem vilja komast inn í myntbandalagið, þannig að þeim verði ekki hleypt þar inn nema að algerlega sé öruggt að þau þoli, standist og uppfylli kröfur myntbandalagsins til langframa. 

Mín skoðun: að ganga í myntbandalagið er þá kannski sambærilegt við að ganga í efnahagslegt klaustur eða jafnvel fangabúðir. Það snjóar hér áfram; Der Spiegel


Mánudagur 4. janúar 2010

Svartur dagur í sögu Danmerkur

Svartur dagur í sögu Danmerkur. Í grein Ditte Staun, Lave K. Broch og Bjørn Elmquist í Jyllands Posten þann 21. desember 2009, segir að gildistaka Lissabon sáttmálans í Danmörku sé svartur dagur í sögu landsins því þessi nýja Lissabon stjórnarskrá ESB sé ólögleg samkvæmt stjórnarskrá Danmerkur. En danska stjórarskráin krefst þess að öll eftirgjöf sjálfstæðis og fullveldis landsins verði að fara út til þjóðaratkvæðagreiðslu ef 5/6 hlutar þingsins séu ekki samþykkir eftirgjöfinni. Sá stuðningur var ekki til staðar í þinginu. Almenningur var svikinn um þá umræðu sem hefði átt að fara fram, því tveir stærstu flokkar landins neituðu að ræða innihald þessarar nýju stjórnarskrár ESB við síðustu þingkosningar í landinu. En nýja Lissabon stjórnarskráin hefur nú þegar tekið gildi í Danmörku. Flokkarnir vísuðu aðeins til þess að lögspekingar ríkisstjórnarinnar skyldu fyrst meta hvort Lissabon stjórnarskráin þýddi eftirgjöf sjálfstæðis.

Hópur borgara í Danmörku reynir nú að fá leyfi til að taka málið upp fyrir dómstólum. "Að maður þurfi að berjast fyrir því að fá leyfi til að koma með þetta mál fyrir dómstóla er skandall", segja greinarhöfundar. Björn Elmquist er lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður Venstre og Radikale. Hann var einnig formaður fyrir Retspolitisk Forening og stjórnarformaður Amnesty International. Hann var kosinn hugrakkastur stjórnmálamanna í Danmörku árið 1995. Ditte Staun er talsmaður lýðhreyfingarinnar gegn ESB aðild Danmerkur. Lave K. Broch er formælandi fyrir “ESB-gagnrýnið netverk” hjá Radikale.

Höfundar segja að það sé stórt vandamál fyrir lýðstjórn og lýðræði í Danmörku að ný stjórnaskrá ESB sé innleidd án þjóðaratkvæðagreiðslu, því þessi nýja stjórnarská muni einmitt takmarka danska lýðstjórn í eigin landi. Nýja Lissabon stjórnarskráin mun þýða að ESB mun geta ráðið yfir Danmörku á mörgum sviðum löggjafar, með einföldum meirihlutaákvörðunum frá Brussel. Verst af öllu er það að nýja Lissabon stjórnarskráin er skrúfuð þannig saman að hægt er að auka við völd Evrópusambandsins án þess að nýir sáttmálar þurfi að koma til.

"Fyrsti desember var því svartur dagur fyrir þig sem Dana, því þann dag fékkstu nýja stjórnarskrá án þess að hafa verið spurður að neinu og í mörgum tilfellum án þess að fólk vissi af því." JP

Verðbólga - stýrivextir - atvinnuleysi í Danmörku frá 1976 til 2007

Tugir þúsunda starfa í Danmörku eru á leiðinni til útlanda segir í frétt danska ríkisútvarpsins, sem vitnar í grein í dagblaðinu Politiken. Það er samkeppnishæfni Danmerkur sem er sökudólgurinn. Hún hefur versnað mikið því laun eru of há og framleiðni of lítil miðað við útlönd. Það er einfaldlega orðið of dýrt fyrir mörg dönsk fyrirtæki að framleiða vörur og þjónustu hér í Danmörku, segir greinin. Nordea bankinn segir að launahækkanir síðustu 10 ára hafi kostað Danmörku 35.000 störf. [Hér eru ekki tekin með þau störf sem hafa horfið vegna sögulega hás gengis dönsku krónunnar sem er bundin föst við staur inni í miðju Þýskalandi]. 

Á næstu árum munu 10.000 störf til viðbótar hverfa frá Danmörku segir Torben Pedersen, sem er prófessor við verslunarháskólann í Kaupmannahöfn. Starfsflóttinn mun verða tvöfalt meiri en á árunum fyrir kreppuna. Það eru ekki bara láglauna störf og líkamlega erfið störf sem flýja til útlanda segir fjármálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederiksen. Hin svo kölluðu “þekkingarstörf” og rannsóknir flýja einnig til útlanda. Það er því afgerandi að launum sé haldið í ró segir ráðherrann. Samtök iðnaðar í Danmörku (DI) eru einnig áhyggjufull og segja að lönd eins og Kína og Indland mennti fólk sem fá aðeins 1/3 af þeim launum sem dönsk fyrirtæki þurfa að greiða starfsfólki í Danmörku. "Svo eru Þjóðverjar einnig í gangi með skattalækkanir hjá fyrirtækjum". Það hefur því myndast mikill hvati fyrir dönsk fyrirtæki að flytja störf og starfsemi sína til útlanda. Aðeins þannig geta þau haldið áfram að selja þær vörur og þjónustu sem þau framleiða.

Mín skoðun; gengisfelling dönsku krónunnar er bráðnauðsynleg - og þó fyrr hefði verið. Möguleikinn á gengisfellingu verður að vera grundvallaréttur smáþjóða. Stærri lönd og hagkerfi þurfa mun síður á þessu vopni að halda. En fyrir smærri og lítið hagerfi er þetta vopn spursmál um líf eða dauða. En það er bannað að tala um þetta í Danmörku því fastgengisstefna Danmerkur er orðin að trúarbrögðum. Hreinum trúarbrögðum. Ekkert verður hægt að gera til að sporna við þróuninni þannig að spá OECD mun örugglega rætast. Danmörk mun fá þann 3. lélegasta hagvöxt í OECD á næstu 7 árum sem samtökin hafa spáð, eftir að hafa haft þann 5. lélegasta á síðustu 10 árum. Danmörk mun því halda áfram að hrapa neðar og neðar á skala yfir ríkustu þjóðir heimsins. Öllu verður fórnað á altari trúarbragða peninga- og gengismála í Danmörku og ESB; DR


SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA

http://www.tilveraniesb.net/stuttar-vikufrettir


PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðanSkráasafn stuttra en oft daglegra frétta
PDF snið vika 1 2010 
Fostudagur_8_januar_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "
save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Comments