Þýska markið, Deutsche Mark, stjórnar ennþá öllu hér í Evrópu
Post date: Nov 22, 2009 10:53:23 AM
Á sama tíma hefur seðlabankastjóri ECB ítrekað ósk sína um “sterkan Bandaríkjadal”, sem myndi þýða lægra gengi evru gagnvart dollar. Hans ósk er því lægri evra. Það sama hafa frönsk stjórnvöld gefið til kynna. En Þjóðverjar segja að þeir séu ekki háðir gengi evru gangvart Bandaríkjadal. Þess vegna er auðvitað ekkert að óttast. Hægri hönd Frakklandsforseta, Henri Guaino, segir að evra á 1,5 dollara sé "stórslys" fyrir Frkakkland (e. disaster).
Svona er upplagt að koma í veg fyrir hagvöxt og velmegun í 15 löndum myntbandalagsins. Maður fjarstýrir gengi gjaldmiðils þeirra. Svona heldur maður hinum evrulöndunum í járngreipum og sem sínum einka-útflutningsmarkaði. Ekki er að furða þó hagvöxtur Evrusvæðis frá stofnun þess sé einn sá lélegasti í OECD. Væri ekki hreinskilnislegra að láta AGS um þetta? Að hafa AGS bara alltaf inn á gafli hjá sér? Fréttastofa Bloomberg hefur sennilega ekki þorað öðru en að breyta fyrirsögn fréttarinnar. Fyrst hljóðaði hún svona - "Deutsche Mark Rules Again as Germany Undercuts Trichet Call to Weaken Euro" - en núna er hún svona - "German Exports Undercut Trichet’s Weaker Euro Push (Update3)". Einhver hefur kvartað; Bloomberg
Heilum áratug eftir að evran kom í stað þýska marksins er útflutningsknúinn efnahagsbati og efnahagsstefna Þýskalands enn að vinna gegn efnahagsbata 15 annarra landa evrusvæðis. En að þessu sinni er þetta gert undir bankastjórn evrópska seðlabankans (ECB). Gengi evrunnar hækkar bara og hækkar, þvert á þarfir flestra hagkerfa evrusvæðis. En Þýskalandi er nokkuð sama. Spákaupmenn gjaldeyrismarkaða veðja nú á að alltof hátt gengi evru muni hækka ennþá meira en orðið er. Þetta gerist vegna þess að markaðurinn veit að það er Þýskaland sem ræður öllu um þennan gjaldmiðil 16 landa Evrópusambandsins. Eitt land ræður yfir gjaldmiðli 15 annarra landa.
Þessi gjaldmiðill átti að sameina. En hann sundrar kannski meira en hann sameinar. Núna skaðar hann efnahagsbata í þeim löndum sem eru ekki eins samkeppnishæf og eins ónæm fyrir of háu gengi og Þýskaland er. Þessi einkenni þýska hagkerfisins ráða mestu um hvert og hvernig gengi evru mun þróast. Þetta er bagalegt fyrir öll lönd sem eru með þessa evru, nema náttúrlega fyrir Þýskaland. Efnahagsráðherra Þýskalands segir að þetta sé "ekkert til að hafa áhyggjur af".