Lestu mig fyrst

Gunnar Rögnvaldsson

Þrífst frelsið í faðmi

ESB og evru?

Fyrsta og annað farrými hagkerfa

Visna vöðvar frelsisins ef þeir eru ekki notaðir?

Sumir vilja líkja frelsinu við vöðva heilans. Ég er sammála þessari samlíkingu. Hvaða þýðingu hefur frelsið fyrir velmegun og hvað er það sem fær velmegun til að vaxa og dafna? Það er frelsið, kæru lesendur. Frelsi einstaklinga sem svo verður að frelsi heillar þjóðar. Frelsið er vöðvabúnt heilans og þegar það dafnar með ágætum þá eykst velmegun okkar allra. Það er þó einn hængur á þessu máli, það þarf að nota frelsið. Það þarf að koma í veg fyrir að þetta vöðvabúnt heilans visni. Með því að iðka frelsið og nota vöðvabúnt heilans þá er hægt að koma í veg fyrir að þessir dýrmætu vöðvar visni og þar með að velmegun okkar minnki. Ef auka á velmegun okkar allra þá þarf að standa vörð um frelsið, viðhalda því og oft að kaupa það dýru verði. Sífellt þarf að vinna að því að auka frelsi því frelsisaukning á, andstætt frelsisskerðingu, oft erfitt uppdráttar. Þegar frelsið og sjálfsábyrgðin hverfur hjá einstaklingum og þjóðum, þá munu þær sjálfkrafa verða fátækari og fátækari.

Innganga í Evrópusambandið (ESB) eða upptaka myntar annarra ríkja mun óhjákvæmilega þýða frelsisskerðingu. Það er vegna þessa sem Evrópusambandið dregst sífellt meira og meira aftur úr velmegun bæði Bandaríkjamanna og Íslendinga, alveg andstætt þeim markmiðum Evrópusambandsins sem sett voru í Lissabon árið 2000, oft nefnd Lissabon 2000 markmið ESB. Þau mæla svo fyrir að hagkerfi Evrópusambandsins eigi að verða ríkasta og samkeppnishæfasta hagkerfi heimsins árið 2010. Samtök iðnaðar og verslunar í Evrópu, EuroChambres, ákváðu strax að fylgja eftir framvindu árangurs þessara markmiða og að kynna svo reglulega þann árangur sem Evrópusambandið næði. EuroChambres er félagsskapur 19 milljón fyrirtækja í 45 löndum Evrópu og hafa samtökin starfað á vettvangi viðskipta, iðnaðar og efnahagsmála Evrópu síðan 1958.

Fyrsta skýrsla EuroChambres kom út árið 2005. Þar kom í ljós að þjóðartekjur þegna Evrópusambandsins árið 2004 voru 18 árum á eftir þjóðartekjum þegna Bandaríkjanna. Þáverandi hagvaxtarhraði Evrópusambandsins þýddi að ef hagkerfi Bandaríkjanna væri fryst á tölum ársins 2004 myndi það taka Evrópusambandið 18 ár að ná þeirri hagsæld sem þegnar Bandaríkjanna nutu árið 2004. Þarna kom einnig fram að framleiðni í hagkerfi Evrópusambandsins var 14 árum á eftir framleiðni bandaríska hagkerfisins, eða sem svaraði til framleiðni í Bandaríkjunum árið 1990. Atvinnuþátttaka þegna Evrópusambandsins var heilum 25 árum á eftir atvinnuþátttöku þegna Bandaríkjanna og enn verra var það hlutfall þjóðarframleiðslu sem hagkerfi Evrópusambandsins fjárfesti í framtíð sinni, þ.e. í rannsóknum og þróun. Slíkar fjárfestingar ákveða að stórum hluta hvort þjóðir verði ríkar eða fátækar í framtíðinni, því þær laða að bestu heila heimsins og besta fáanlega fjármagn. Hér var Evrópusambandið 25 árum á eftir Bandaríkjunum.

Næsta skýrsla EuroChambers kom út árið 2007 og mældi aftur árangur Lissabon 2000 markmiða ESB. Þegar hér var komið sögu kom í ljós að bilið milli efnahags þegna Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafði breikkað enn meira. Þjóðartekjur þegna Evrópusambandsins voru nú 21 ári á eftir, framleiðni hafði versnað miðað við bandaríska keppinautinn og var nú 17 árum á eftir. Sama niðurstaða var fyrir bæði ESB-27 og evrusvæði, nánast enginn munur fannst. Atvinnuþátttaka, rannsóknir og þróun voru nú 28 árum á eftir Bandaríkjamönnum.

Síðasta skýrsla EruoChambers kom út síðastliðið vor. Hér var sagan næstum sú sama nema bilið hafði enn breikkað. Þjóðartekjur á hvern þegn voru nú 22 árum á eftir þjóðartekjum á hvern þegn í Bandaríkjunum og framleiðni var 19 árum á eftir framleiðni bandarísks vinnuafls. Atvinnuþátttaka í Evrópusambandsríkjum hafði hins vegar stórbatnað og var nú aðeins 11 árum á eftir atvinnuþátttöku Bandaríkjamanna. Heildaratvinnuleysi í ESB hafði fallið niður í 7,1% og atvinnuleysi ungmenna undir 25 ára aldri var komið niður í 15%.Atvinnuástand í Evrópusambandinu er, þegar þetta er skrifað, því miður aftur á niðurleið. Þegar rætt er um Evrópusambandið í heild þá þurfa menn að hafa í huga eftirfarandi staðreyndir: 99,8% af öllum fyrirtækjum í Evrópusambandinu eru lítil, minni og millistór fyrirtæki (SME). Þau standa fyrir 81,6% af allri atvinnusköpun í ESB. Aðeins 8% af þessum fyrirtækjum hafa viðskipti yfir innri landamæri Evrópusambandsins. Aðeins 12% af aðföngum fyrirtækjanna eru innflutt og aðeins 5% af þessum fyrirtækjum hafa viðskiptasambönd í öðru ESB-landi. Svo þrátt fyrir drauminn um hinn innri markað, þá er gamla Evrópa alls ekki á leiðinni til þess að verða sá sameiginlegi markaður sem vonast var til.

Þegar hér er komið sögu í umræðunni um málefni Evrópusambandsins segja menn oft: „Já en þetta lagast ef við fáum sameiginlega mynt því þá munu viðskipti og verslun loksins aukast á efnahagssvæðinu.“ Það hefur því miður alls ekki verið reyndin. Frá 1995 til 2004 hafa innri viðskipti og verslun á milli evrulanda staðið í stað eða jafnvel minnkað. Í 8 af 11 af þeim löndum sem tóku upp evru þegar hún var stofnuð, hafa innri vöruviðskipti við hin evrulöndin minnkað sem hlutfall af heildarvöruviðskiptum við umheiminn (Philip R. Lane 2006). Sömu sögu er að segja um innri viðskipti með þjónustu (Lane 2006). Sama mynd, lítil sem engin áhrif frá sameiginlegri mynt umfram það sem aukin hnattvæðing hefur í heild sinni haft á efnahag flestra opinna hagkerfa.

Ástæðan? Jú, landamæri þjóða gilda einnig fyrir menningu þeirra. Innrásir eru innrásir, sama hvort þær eru gerðar með skriðdrekum, orðum eða pennastrikum. Þessi landamæri útiloka þó alls ekki góða samvinnu geri menn sér grein fyrir mun á menningarheimum. Hér skiptir því aðeins eitt máli, að ekki séu teknar ákvarðanir og þær framkvæmdar eins og þessi munur sé ekki til, að menn stingi ekki hausnum í sandinn. Í þessum efnum mun evra Evrópusambandsins ekki hjálpa Íslendingum, frekar en hún hefur hjálpað aðildarlöndunum.

Vöxturinn er ekki hér

Danir hafa fundið vel fyrir þessu, en þeir segja að um 100.000 dönsk atvinnutækifæri hafi tapast á undanförnum árum eingöngu vegna beintengingar dönsku krónunnar við gengi evru, sem er núna nálægt sögulegu hámarki allra tíma. 50% af útflutningi Danmerkur fara til landa utan evrusvæðisins og þau lönd eru ekki beintengd við evru. Þumalfingurreglan segir að fyrir hver 3–4% sem gengi dönsku krónunnar hækkar tapist 40.000 atvinnutækifæri því útflutningur verður þá síður samkeppnishæfur við vörur frá löndum utan myntsvæðisins. Margir gleyma að þó að gengi dönsku krónunnar sé bundið fast við gengi evru, þá hoppar og skoppar danska krónan á hverjum degi gagnvart öllum öðrum gjaldmiðlum heimsins. Þetta þýðir að gengisstöðugleiki er einungis gagnvart einum gjaldmiðli. Og vaxtarmöguleikarnir fyrir danska framleiðslu hafa ekki reynst vera á markaði þessa eina gjaldmiðils. Sá markaður hefur að miklu leyti verið frosinn fastur í vaxtargildru Evrópusambandsins í áratugi. Aðalvöxturinn fyrir útflutningsvörur Danmerkur hefur verið á öðrum mörkuðum og mun svo einnig vera í framtíðinni.

Atvinnurekendur hafa tekið eftir þessu og lært hér af. Þegar evrunni var ýtt úr vör töldu danskir atvinnurekendur lífsnauðsynlegt að Danir tækju strax upp evru, en þessi skoðun er svo sannarlega breytt núna. Þessir sömu dönsku atvinnurekendur hafa horft á evruna falla um 30% gagnvart dollar og svo hvernig hún hefur hækkað aftur gagnvart dollar. Allt þetta hefur átt sér stað á þeim 10 árum frá því evra kom til sögunnar, sem sýnir að evra lýtur nákvæmlega sömu lögmálum og allir aðrir gjaldmiðlar heimsins. Það er þó fyrst og fremst hagvaxtargildra Evrópusambandsins sem hefur haft úrslitaáhrif á minnkandi áhuga danskra atvinnurekenda á evru. Þeir sækja jú vöxtinn þar sem hann er að fá og það er ekki á evrusvæðinu.

Þjóðartekjur á hvern þegn voru nú 22 árum á eftir þjóðartekjum á hvern þegn í Bandaríkjunum

EruoChambers 2008

Hvað er það sem virðist hafa fest Evrópu-sambandið í hagvaxtargildru?

Þessi grein birtist áður í tímaritinu Þjóðmál haustið 2008Magt fleira athyglisvert var í Þjóðmálum að þessu sinni. Meira og betur er fjallað um þessa haust-útgáfu Þjóðmála í Vef-þjóðviljanum

[ Ritið Þjóðmál fæst í öllum bókabúðum Pennans og Eymundsson, bensínstöðvum Olís og nokkrum fleiri stöðum. Einnig er hægt að kaupa einstök hefti og gerast áskrifandi íBóksölu Andríkis (Vef-Þjóðviljinn). Þá er hægt að gerast áskrifandi og kaupa einstök hefti í síma 698-9140. Þjómál kostar 1.300 krónur. Útgefandi Þjóðmála er Bókafélagið Ugla, Hraunteigi 7, 105 Reykjavík, sími 698-9140 ]

Evran

Hver er árangurinn?

Enginn hefur enn svarað grundvallarspurningunni um evru, en hún er þessi: Af hverju? Álíka fáir hafa þó rætt afleiðingar evru fyrir evrulöndin sjálf: Hver er árangurinn? Eða eins og Kaninn segir: „Show me the money?“ Hvar eru peningarnir? Sjálf framkvæmdin hefur vissulega tekist framar vonum, en hvernig hefur sjúklingurinn það? Hver er árangurinn? Engin áþreifanleg aukning í verslun og viðskiptum á milli evrulanda, lítill sem enginn hagvöxtur á 65% af evrusvæðinu og viðvarandi mikið atvinnuleysi öll árin

Fólkið í ESB

- hin mikilvægasta, en að því er virðist, óendurnýjanlega náttúruauðlind Evrópusambandsins. Íbúar Evrópusambandsins eignast of fá börn til að bera uppi velmegun og velferð fyrir þá sem koma á eftir þeim. Fólkinu mun fækka

Hvað er það sem virðist hafa fest Evrópusambandið í hagvaxtargildru? Uppspretta velmegunar og ríkidæmis verður alltaf frelsið. Þessvegna lögðu Sovétríkin upp laupana, þrátt fyrir að þau hefðu gott kerfi skriffinna, sæmilegt menntakerfi, góða vísindamenn og mjög marga og góða áætlunargerðarmenn. Það hjálpaði þeim þó ekki neitt þar sem einstaklingsfrelsið og sjálfsábyrgðina vantaði alveg. Ekkert var hægt nema með aðstoð hins opinbera. Vöðvar frelsisins voru horfnir og þessvegna önduðust Sovétríkin og var andlátið einkar kvalarfullt fyrir þegnana. Evrópusambandið er einnig að verða mjög voldugt sem bákn skriffinna. Uppspretta hins dýrmæta frelsis liggur dýpra í manninum en flestar hagfræðibækur geta nokkurntíma sýnt fram á. Þar sem formúlurnar byrja og enda þar tekur við það fyrirbæri sem hvergi er hægt að sýna fram á með formúlum eða macro-kenningum um efnahag þjóða. Þessu gera fæstir sér grein fyrir. Það er þetta frelsi, sjálfstæði og sjálfræði sem hefur gert Ísland að einni ríkustu þjóð í Evrópu í dag. Frelsið og sjálfstæðið sem vannst á 20. öldinni hefur unnið verk sitt vel og er núna stærsta og dýrmætasta auðlind Íslendinga.

Afturljós hagkerfanna

Í blindri birtu afturljósa hagkerfanna má segja margt um bólur og stórar hagsveiflur svipaðar þeim sem núna eru að leika frelsishugsun margra Íslendinga grátt. Hér á ég við þá áköfu örþrifaumræðu á Íslandi undanfarna mánuði um efnahagsmál og mynt íslensku þjóðarinnar, þar sem margir menntamenn virðast vilja draga þjóðina inn í faðm deyfðar og stöðnunar Evrópusambandsins.

Dot.com bólan var merkileg að því leyti að hún var fyrsta stóra bólan frá því að bílar og rafmagnstæki komu á markað í byrjun 20. aldar. Þetta var fyrsta skeið brautryðjandi framfara síðan 1929 þar sem allir voru ósammála og enginn vissi hvað þetta myndi hafa í för með sér. Hugaðir fjárfestar stukku samt í kaldan sjóinn, oft án björgunarvestis og fjármögnuðu uppfinningar og framtak frumkvöðla og athafnamanna. Margir fjárfestar urðu illa úti. En það er einn af kostunum við að hafa vöðva frelsisins virka – að þora að taka áhættu og þora að tapa peningum. Allir fjárfestar vita að það er ekki hægt að græða á öllu sem menn taka sér fyrir hendur.

Það var vegna þessara virku vöðva frelsisins í dot.com bólunni að Bandaríkjamenn fengu fyrirtækin, atvinnutækifærin, afleiðurnar og hagvöxtinn sem ekki fengust í Evrópusambandinu. Þessi tækifæri sigldu að mestu fram hjá ESB-löndunum sem drógust enn frekar aftur úr efnahag Bandaríkjanna. Frumkvöðlarnir fóru til Bandaríkjanna því þar gátu þeir fengið hugmyndir sínar fjármagnaðar.Þegar stóra hrunið kom á Wall Street árið 1929 skapaðist svipað hugarástand og nú um stundir. Menn misstu trú á framtíðina, fjárfestingar flæddu úr framtíðartækifærum og yfir í vörur gamla tímans. Um þessar mundir eru það hráefni, matvæli, málmar og olía sem hafa verið „öruggu fjárfestingarnar“. Í fátinu árið 1929 veltu margir fyrir sér hvort þeir ættu ekki að halda áfram fjárfestingum í hestvagna- og hestasvipuverksmiðjum, því bílar voru allt í einu orðnir áhættusamir sem fjárfesting. „Mamma“ kom svo fram á sviðið í formi hins opinbera, og þá fyrst fór kreppan fyrir alvöru af stað. Keynes tókst að selja stjórnmálamönnum þá hugmynd að markaðsöflin gætu ekki ráðið við ástandið, en menn höfðu einungis gleymt að fylgjast með peningamagni í umferð og afleiðingin varð fjárþurrð. Risavaxinn opinber peningakassi, sem er hin stóra arfleifð kenninga Keynes, olli því að vöðvar frelsins í Bandaríkjunum hrörnuðu allt fram að tímum Reagans.

Er sagan hugsanlega að endurtaka sig?

Mun Keynes koma aftur og valda meiri usla? Fer „mamma“ aftur á kreik? Hinn opinberi geiri í löndum Evrópusambandsins er núna mun stærri en hann var árið 1944, í styrjaldarhagkerfi Bretlands í seinni heimsstyrjöldinni. Opinberi geirinn í Evrópusambandinu er raunar orðinn svo stór að eðlilegur hagvöxtur getur varla myndast lengur. Mun Evrópusambandið þola stærri skammt? Svarið er alveg örugglega nei.

Var evran nauðsynleg, eða var hún pólitískt verkfæri?

Út frá hagfræðilegu sjónarmiði var evra allsendis óþörf fyrir löndin í Evrópusambandinu og það sem meira er, hún hefur alls ekki skilað evrulöndunum aukinni velmegun eða ríkidæmi. Mjög auðvelt er að sýna fram á hið gagnstæða. Það er ekki heldur hægt að halda því fram að evra sé eingöngu hugmynd Evrópusambandsins. Sannleikurinn er sá að evra er fyrst og fremst pólitískt verkfæri. Hún er afleiðing landfræðilegrar legu Evrópu. Þegar Bandaríkjamenn unnu kalda stríðið gegn Sovétríkjunum kom upp sá einstaki möguleiki að hægt var að sameina þýsku löndin aftur í eitt ríki. Sú hugmynd féll í misjafnan jarðveg. Bretar voru mjög áhyggjufullir og Frakkar óttuðust að sameining Þýskalands og fall Sovétríkjanna myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Áhyggjur Breta voru mest bundnar við fortíð Þýskalands en áhyggjur Frakka voru bundnar við framtíðina en þó í ljósi fortíðarinnar. Frakkar höfðu áhyggjur af því að Þýskaland myndi færast nær hinu nýja Rússlandi og raska því valda- og áhrifahlutfalli sem ríkt hafði í Evrópu meira eða minna síðan 1945.

Áhyggjur Frakka voru skiljanlegar og sérstaklega þegar þær eru skoðaðar í ljósi þeirra friðarsamninga sem tóku gildi eftir fyrri heimsstyrjöldina en Þjóðverjar þverbrutu þá án þess að Bandaríkin eða Bretland lyftu litla fingri til að fylgja skilmálunum eftir. Nú yrði hið sameinaða Þýskaland með 80 milljónir þegna. Bandamenn, að tilstuðlan Frakka, ákváðu því í sameiningu að eitt af skilyrðunum fyrir sameiningu Þýskalands yrði að löndin myndu stefna að því að koma sér saman í eitt myntsvæði.

Af þessu má sjá að evra er fyrst og fremst pólitískt verkfæri, sem smíðað er á steðja hins pólitíska raunveruleika sem ríkt hefur í heimsálfu þar sem stofnað hefur verið til tveggja heimsstyrjalda á innan við 100 árum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir skoða evru sem hagstjórnartæki. Hún er annað hvort það næst besta sem hægt er að komast af með eða hið næst versta – allt eftir því hvernig litið er á hina pólitísku hlið málsins. En fleira kom til. Þeir sem hafa langtíma minni, muna að á öllum tímum verða til tískusveiflur í stjórnmálum og hagfræði. Breyttar aðstæður hafa þau áhrif á stjórnmál og hagstjórn að sveiflur myndast á markaði kenninga um góða hagstjórn og stjórnmálahugmyndir. Þegar þýska markið ávann sér ímynd hins trausta gjaldmiðils Evrópu var hagstjórn hagkerfa ríkja OECD frumstæðari en hún er í dag. Flest hagkerfi Vestur-Evrópu voru lokuð og frjálst flæði fjármagns takmarkað. Frjáls samkeppni átti erfitt uppdráttar og olíukreppa hafði sett mark sitt á flest hagkerfi hins vestræna heims. Víða var mikill halli á greiðslujöfnuði, með tilheyrandi aðgerðum til úrbóta á versnandi samkeppnishæfni. Verðbólga var viðvarandi og óróleiki á gjaldeyrismörkuðum hrjáði mörg lönd. Menn fóru að gæla við þá hugmynd að hægt væri að laga málin með því að bindast eða tengjast einhverjum traustum gjaldmiðli. Við þetta hófu margir – og mest Þjóðverjar sjálfir – hið þýska mark upp á eins konar altari gjaldeyrismarkaða Evrópu. Það var þó hængur á þessari dýrkun á þýska markinu. Þeir sem sóttust eftir bindingu við þýska markið höfðu engin áhrif á peningastefnu þýska seðlabankans. Þarna hófst í raun ný þrautarganga margra ríkja í Evrópu, slagsmálin við bankastjórnina í Frankfurt. Í mörg ár voru bankastjórar þýska seðlabankans hötuðustu menn Evrópu því auðvitað tóku Þjóðverjar ekkert tillit til þeirra landa sem bjuggu um sig í skugga þýska marksins.

Evran yrði slæm lausn fyrir Ísland vegna þess að hún er næst besta lausn á sögulegum hrakförum Frakklands og Þýskalands. Hún er skuldatryggingarvíxill Frakka gagnvart Þýskalandi. Evra er lyf þessara tveggja þjóða og þær hafa skuldbundið sig til að taka þetta lyf um ókomna tíð. Ísland er mjög lánsamt að þurfa ekki að ferðast um á þessu öðru farrými hagkerfa. Af hverju ættu Íslendingar að gerast ábyrgðarmenn á þessum víxli? Þeir skulda hér ekki neitt.

Móðir allra fjármálakreppu

Þær raddir hafa heyrst á Íslandi að ef gangi illa að bindast og taka upp evru sé alltaf hægt að hætta við hana aftur! Að segja sig úr myntbandalagi Evrópusambandsins er vissulega hægt í orði en nánast útilokað á borði. Úrsögn myndi krefjast langs undirbúnings. Heimili og fyrirtæki myndu gera ráð fyrir gengisfellingu þeirrar myntar sem myndi koma í stað evru. Þau myndu því einnig undirbúa sig vel og flytja bankainnistæður sínar yfir í banka í öðrum evrulöndum eða skipta innstæðum yfir í aðrar myntir. Fjárfestar skuldabréfa myndu skapa kreppu á skuldabréfamörkuðum og hin óskilvirka vél skuldatryggingaálaga myndi einnig fara í gang á ný. Allar alvarlegar umræður um úrsögn úr evru myndu alveg sjálfkrafa vekja ótta, og það ekki að ástæðulausu, um yfirvofandi gengisfellingu þjóðarmyntarinnar því með úrsögninni er verið að segja umheiminum að efnahagsstjórn undir evru hafi skaðað efnahag og efnahagsstjórnunarmöguleika landsins. Það er ekki kostnaður, eins og stundum heyrist, sem væri vandamálið við úrsögn úr evru-myntbandalaginu heldur sú staðreynd að allir mundu gera ráð fyrir að úrsögnin hefði gengisfellingu í för með sér. Þetta blasir við. Þeir sem hyggjast segja sig úr myntbandalaginu vilja fá aftur fullan umráðarétt yfir eigin mynt, stýrivöxtum og stjórn peningamála. Svo hvað annað en gengisfelling kæmi til greina?

Eitt land hefði þó möguleika á úrsögn undir öðrum formerkjum, en það er Þýskaland. Þá myndu viðbrögð allra verða örðuvísi, því það myndi þýða að rykið yrði dustað af altari hins gamla Deutsche Mark. Allir aðilar markaða myndu samstundis skilja að sú ákvörðun yrði flestum Þjóðverjum og þýsku efnahagslífi gleðifréttir, því það var með miklum efasemdum sem Þjóðverjar gengust undir evru á sínum tíma. Úrsögn Þjóðverja yrði á hinn bóginn miklar sorgarfréttir fyrir þau lönd sem eftir sætu með evru sem gjaldmiðil.

Kæru evruáhugamenn, úrsögn allra leppríkja úr evru-myntbandalaginu, þ.e. allra evrulanda sem heita ekki Þýskaland, myndi einungis þýða að móðir allra fjármálakreppna yrði gangsett í viðkomandi löndum. Úrsögnin myndi skapa stærsta áhlaup allra tíma á fjármálastofnanir, skuldabréfamarkaður yrði lagður í rúst, vextir á erlend lán ríkisins myndu líklega hækka, og kjarasamningum yrði sagt upp. Allir myndu gera sér ljóst að það eitt að yfirgefa evru og taka upp gömlu mynt landsins aftur myndi aðeins leysa hluta af þeim vanda sem kom úrsögninni af stað. Allir myndu jafnframt gera ráð fyrir meiriháttar stefnubreytingum og víðtækum umbótum flestra þátta efnahagsstjórnar og beinlínis krefjast þess. Ef halli á ríkisfjárlögum væri vandamál, þá yrði þess krafist að tekið yrði á þeim vanda strax í sjálfu úrsagnarferlinu. Um leið og úrsagnarferlið hæfist yrði landið gengisfellt um alla eilífð niður í neðstu kjallaradeild Evrópusambandsins og dæmt sem skaðvaldur samstarfsins. Aðeins fáar ríkisstjórnir myndu lifa af þá streitu sem úrsögnin hefði á alla þá sem hafa eitthvað með peninga, skuldabréf, fjármál, kjarasamninga og bankamál að gera.

Það er því fullkomlega glórulaus bjartsýni að tala sem svo að ef Íslendingum líki ekki hið takmarkandi og hið frelsisskerta athafnasvigrúm sem er í löndum sem enga peningastjórn hafa, þá sé hægt að yfirgefa félagsskapinn og fara í gömlu vinnufötin aftur. Þetta eru einungis villtir draumórar sölumanna Evrópusambandsins á Íslandi, veruleikinn yrði allur annar.

Skammsýni og múgsefjun evruumræðu

Population, the Ultimate non-Renewable Resource?

Ný bók hagfræðingsins Edward Hugh

Ísland og Nýfundnaland

- hver er munurinn?

Árið 2006 gerði kvikmyndahöfundurinn Barbara Doran heimildarkvikmynd um land sitt Nýfundnaland.

Filmmaker Barbara Doran talks about her documentary "Hard Rock and Water" with Mark Molaro. The film compares the islands of Newfoundland and Iceland - especially how independence benefited Iceland overwhelmingly, while Newfoundland's choice to join Canada in 1949 is felt to be a very mixed blessing for many Newfoundlanders

Viðtal Mark Molaro við Barböru Doran er hægt að hofa á

neðst hér á þessari síðu

Meira um Nýfundnaland

Málefni Nýfundalands

Umræðan á Íslandi er orðin þannig að menn eru farnir á líta á evru sem fyrsta flokks hagstjórnartæki, en ekki sem þá annarsflokks pólitísku lausn sem hún fyrst og fremst er hugsuð á vandamálum meginlands Evrópu. Þegar Helmut Kohl kom með hattinn í hendinni til að biðja bandamenn um leyfi fyrir sameiningu Þýskalands, sá François Mitterrand samstundis að þarna opnuðust sjaldgæfar dyr til svo að segja að þvinga Þjóðverja með í myntsamstarf. Þjóðverjar höfðu aldrei haft mikinn áhuga á sameiginlegu myntsvæði, því þýska markið hafði reynst þeim vel, svo sameiginleg mynt var þeim aldrei ofarlega í huga. Öll undirbúningsvinnan við evru var hastverk og lítið sem ekkert var farið eftir skoðunum akademískra hagfræðinga og sérfræðinga á forsendum og skilyrðum fyrir því að svona myntsamstarf gæti heppnast vel. Werneráætlunin frá 1970 var því tekin fram aftur, eftir að hafa verið kistulögð árum saman, stílfærð og sett í framkvæmd. Aðeins eitt land af ellefu uppfyllti öll upptökuskilyrðin þegar ákveðið var hvaða lönd gætu tekið upp evru, nefnilega Lúxemburg, en Werneráætlunin er verk Pierre Werner fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemburgar.

Frá því evrunni var ýtt úr vör hafa skilyrði hennar verið afar hagstæð, því lítið hefur reynt á stöðugleikahæfni myntsvæðisins, en nú eru góðu tímarnir á enda. Verðbólga er 100% yfir verðbólgumarkmiðum seðlabanka evru (ECB) og mun verða langt yfir þessum verðbólgumarkmiðum við að minnsta kosti allar næstu tíu vaxtaákvarðanir ECB. Allt bendir til að það sé verið að sigla inn í kreppu á evru-svæðinu. Hætt er við að komandi kreppa muni reynast myntsamstarfinu erfið. Bæði Þýskaland og Ítalía, sem samanlagt eru um 50% af stærð evru-hagkerfisins, hafa verið með minnsta hagvöxt allra ríkja OECD frá 1994. Aðeins Japan hefur sýnt lélegri hagvöxt á þessum síðustu 14 árum. Ef við skoðum hagvöxt OECD-landa frá því evran kom fyrst til sögunnar eru bæði Þýskaland og Ítalía með lélegri hagvöxt en Japan. Óvíst er hvort Þýskaland eða Ítalía komast yfirleitt út út krepputíma við ríkjandi aðstæður. Til þess er hættan á neikvæðum og varanlegum vítahring verðhjöðnunar í hagkerfum þessara landa of stór.

Ég er því handviss um að það væri mikið óráð fyrir Ísland að binda sig of fast við sólarlag efnahags evrulanda. Það eru uggvænlegir tímar framundan fyrir stærstu löndin í myntbandalaginu og dragsúgurinn verður mikill. Vöðvar frelsisins eru orðnir visnir og vanmáttugir á evrusvæðinu og því munu evrulöndin lítið þora að gera til að sporna við þeirri þróun sem nú er í gangi. Þau eru öll hrædd við að brjóta í bága við stöðugleikasamstarfið og munu því lítið aðhafast sjálfum sér til framdráttar

Enginn hefur enn svarað grundvallarspurningunni um evru, en hún er þessi: Af hverju? Álíka fáir hafa þó rætt afleiðingar evru fyrir evrulöndin sjálf: Hver er árangurinn? Eða eins og Kaninn segir: „Show me the money?“ (Hvar eru peningarnir?) Sjálf framkvæmdin hefur vissulega tekist framar vonum, en hvernig hefur sjúklingurinn það? Hver er árangurinn? Engin áþreifanleg aukning í verslun og viðskiptum á milli evrulanda, lítill sem enginn hagvöxtur á 65% af evrusvæðinu og viðvarandi mikið atvinnuleysi öll árin. Jú, það er komið pólitískt svar við stóru spurningunni um af hverju, en það er væntanlega ekki það svar sem hefur stýrt þeirri örþrifaumræðu sem við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði á Íslandi. Umræðan á Íslandi hefur eingöngu verið efnahagslegs eðlis, en í þeim efnum er nákvæmlega ekkert að sækja fyrir Ísland með upptöku evru, því evran er fyrst og fremst pólitískt verkfæri.

Mikilvægi sjávarútvegs Íslands

Í mynd og tölum: Mikilvægi sjávarútvegs

700 ára leið

til fullveldis aftur

- lestu mig

fleiri greinar

Seðlabankinn og þjóðfélagið

Ísland og Nýfundnaland - hver er munurinn?

Árið 2006 gerði kvikmyndahöfundurinn Barbara Doran heimildarkvikmynd um land sitt Nýfundnaland.

Filmmaker Barbara Doran talks about her documentary "Hard Rock and Water" with Mark Molaro. The film compares the islands of Newfoundland and Iceland - especially how independence benefited Iceland overwhelmingly, while Newfoundland's choice to join Canada in 1949 is felt to be a very mixed blessing for many Newfoundlanders

Hard Rock and Water.

Af hverju vegnar Íslandi svona miklu betur en Nýfundnalandi?

"Sjálfstæði er hugarástand"

- Filmmaker Barbara Doran

Heimildalisti

Charles Wyplosz: 2006; European Monetary Union: the dark sides of a major success

Philip R. Lane: 2006: The Real Effects of European Monetary Union

EuroChambers - The Association of European Chambers of Commerce and Industry: Time Distances 2005, 2007, 2008, www.eurochambres.eu

George Ross; French Social Democracy and the EMU: ARENA Working Papers WP 98/19

OECD Economic Outlook No 83

Barry Eichengreen: The euro: love it or leave it?: 19.nóvember 2007: www.voxeu.org

David Gress / Cepos: 2007: Velstandens Kilder

Gunnar Rögnvaldsson © 2008