# 492 - 2010 - vika 12 - til 27. mars 2010

VIKA 12 2010

Föstudagur 26. mars 2010

PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan

1. Írland ennþá á leiðinni niður og á heljarþröm

Írska hagstofan kynnti í gær fyrstu niðurstöður mælinga á frammistöðu írska evruhagkerfisins á síðasta ári. Árið 2009 í heild kom út með 7,1 prósent samdrætti í landsframleiðslu og 11,3 prósent samdrætti í þjóðarframleiðslu. Þetta er mesti samdráttur á einu ári í sögu Írlands, segir hagstofan. Á síðasta fjórðungi 2009 féll landsframleiðsla Írlands um 5,1 prósent miðað við sama tímabil á árinu 2008. Samdráttur landsframleiðslu á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2009 var 2,3 prósent, þannig að samdrátturinn heldur áfram á Írlandi. Á síðustu 11 ársfjórðungum hefur hagkerfið haldið áfram að dragast saman alla ársfjórðunga nema einn. Samtals á þessu tímabili er 13,2 prósent af írska hagkerfinu horfið; hagstofa Írlands | Børsen

Þá vitum við eftirfarandi

2. Við vitum að ERM landið Lettland sem tengt hefur mynt landsins fasta við evru hefur sett nýtt heimsmet í efnahagshruni. Í skýrslu Center for Economic and Policy Research í Washington í febrúar kom fram að afleiðing gengisbindingarinnar sé sú að heimsmet í hruni landsframleiðslu nokkurs ríkis, síðan sögur hófust, er nú verið að setja með 30% hruni landsframleiðslu Lettlands inni í ERM-pyntingarklefa Evrópusambandsins. Samdrátturinn í landsframleiðslu Lettlands á þremur árum verður yfir 30%. Þetta er meira en landsframleiðsla Bandaríkjanna féll í stóru kreppunni frá 1929-1933 | Mánudagur 15. febrúar 2010

PDF snið vika 12 2010

PDF_utgafa_vika_12_2010.pdf

Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða

Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín

3. Við vitum að finnska hagstofan gerði grein fyrir árinu 2009 í heild þann 1. mars. Landsframleiðsla Finnlands féll um hvorki meira né minna en 7,8% á árinu í heild. Þetta er mesta hrun í landsframleiðslu Finnlands á einu ári frá því að mælingar hófust árið 1975. Í frægu finnsku kreppunni 1991-1993, þegar Finnland upplifði erfiða bankakreppu samhliða hruni Sovétríkjanna, þá féll landsframleiðsla Finnlands "aðeins" um 6% á árinu 1991 þegar verst lét. Til að fá fram tölur um svipað hrun og varð á árinu 2009, þurfa Finnar að leita aftur til áranna 1917-1918. Þetta er hin svo kallaða finnska leið sem mikið hefur verið í ríkisfjölmiðlum á Íslandi og kynnt þar sem fyrirmynd fyrir Ísland | Þriðjudagur 2. mars 2010

4. Við vitum að Grikkland er orðið gjaldþrota í evrum inni í Evrópusambandinu. Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn er á leiðinni þangað.

5. Við vitum að það er hægt að hafa svo kallaðan sterkan gjaldmiðil í veikum hagkerfum. Það sjáum við á Japan og evrusvæðinu. Þetta eru tvö veikustu hagkerfi heimsins og sem einnig munu þjást mest næstu árin, áratugina og aldirnar - þ.e íbúar þessara hagkerfa.

6. Við vitum líka að gjaldþrotahætta ríkisjóða í Evrópu er hærri hjá þeim löndum sem hafa ekki sína eigin mynt. Þetta vitum við núna.

Ekkert af þessu virðist viðskiptaráðherra Íslands vita. Hann hlýtur að lifa og anda í lokuðu ERM-herbergi inni við sundin blá. Já, hann er heppinn að búa á Íslandi, því framtíð íslenska hagkerfisins var að minnsta kosti öfundsverð þegar hann settist sæll og glaður í ráðherrastól viðskiptaráðuneytisins. Þetta tilfelli er greinilega verra viðureignar en nokkurn tíma hefur mælst frá upphafi. Hvað gerðist? MBL

Írland - Finnland - Grikkland - Þýskaland - Lettland - Litháen - Eistland. Svo eru það Spánn - Portúgal - Ítalía. . . og Gylfi.

Hve mikið meira þurfum við að vita? Hvenær verðum við loksins upplýst?

Fimmtudagur 25. mars 2010

Ekki lengur friðarverkfæri

Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine telur að hörð andstaða Angelu Merkel kanslara gegn efnahagslegri björgun gríska lýðveldisins á kostnað Þýskalands og ESB, lýsi vel þeirri afstöðu sem hefur verið að gerjast og myndast meðal þýsku þjóðarinnar undanfarin ár. Þýskaland vill ekki lengur vera hið efnahagslega burðarvirki þessa klúbbs sem á heima í Brussel. Þýskaland vill bara verða venjulegt aðildarríki sem ver og berst fyrst og fremst fyrir hagsmunum Þýskalands - á undan hagsmunum "klúbbsins". Að Þýskaland komi í fyrsta sæti hjá Þýskalandi (eins og hjá hinum 26 löndunum). Þýskaland vill að evran sé stöðugur gjaldmiðill og ef eitthvert evruland sé að garfa undan gjaldmiðlinum þá verði hægt að henda því út úr myntsamstarfinu. Að Þjóðverjar álíti evruna ekki lengur vera eins konar "friðarverkefni". Þýskaland vill ekki lengur bera byrðar samstarfsins eitt; Frankfurter Allgemeine | Eurointelligence

Ég skil Þjóðverja vel. Þeir hafa áhyggjur af framtíðinni. Þjóðinni mun fækka svakalega á næstu áratugum. Þeir hafa ekki lengur efni á að taka á sig miklar byrðar því svo fátt ungt fólk mun veðra til staðar í Þýskalandi til að bera miklar byrðir í framtíðinni. Komandi kynslóðir verða svo fámennar. Allt í sambandi við barnseignir og opinberar hvatningar í þeim efnum er ennþá tabú í Þýskalandi. Það er arfleiðin frá fjölskylduáætlunar verkefnum Hitlers sem hér er vofan. Þjóðin þolir ekki að minnst sé á svona mál. Þetta mál var hinsvegar eitt af hjartans málum de Gaulle's Frakklandsforseta eftir styrjöldina. Virðist honum hafa tekist að hafa einhver jákvæð áhrif á franskt þjóðfélag í þessum efnum.

Skiptir um skoðun

Edward Harrsion hagfræðingur hefur skipt um skoðun. Núna er hann orðinn sannfærður um að mögulegt sé að evrusvæðið brotni upp (eða niður); Credit Writedowns

Það er hægt að hrynja eða brotna niður á ýmsan máta. Til dæmis er hægt að klessukeyra eins og Ísland gerði. Svo er hægt að brotna niður og bráðna eins og ísjaki og leysast að lokum alveg upp. En það tekur tíma. Á meðan fær efnahagurinn eins konar eyðni. Myntbandalagið mun ekki leysast upp á einu ári. Það mun taka nokkur ár.

Eða hvað? Ég sjálfur er ekki einu sinni viss lengur. Ekki þegar ég virkilega spyr sjálfan mig alvarlega eða ef ég þyrfti að gerast ábyrgðarmaður á svoleiðis skuldabréfi. Ekki eftir að hafa horft á Berlínarmúrinn falla á nokkrum dögum. Á ferðalögum mínum um Vestur Þýskaland 1981-1982 taldi enginn sem ég ræddi við að þetta yrði mögulegt. Spurningarmerkið á evrunni stækkar bara og stækkar.

Finnar halda áfram með hátt atvinnuleysi

Hagstofa Finnlands sagði að 9,2 prósent af Finnum á vinnumarkaði hefðu verið atvinnulausir í febrúar. Þetta er sama hlutfallið og í janúar. Það var 10,1% atvinnuleysi hjá karlmönnum og 8,2% hjá konum. Atvinnuþátttaka var 65,4% og 21.000 Finnar höfðu helst úr lestinni sem þátttakendur á vinnumarkaði á síðustu 12 mánuðum; Hagstofa Finnlands

Danska elítan er að eyðileggja Danmörku

Jótlands pósturinn skrifar í leiðara að sófa- og skrifborðs-elítan á reiðhjólunum í Kaupmannahöfn, viskíbeltinu, 68- og rauðvínskynslóðin (já þetta eru öll dönsk heiti), sé að eyðileggja Danmörku með áætlunarbúskap sem er algerlega öndverður við þá byggðastefnu sem tekin var af borðinu hér fyrir 30-40 árum og leyst upp. Hin misskipta Danmörk er komin aftur.

Öllu er beint til stórbæja og höfuðborgarsvæðisins. Heilsugæsla eins og hún leggur sig, 50 km er orðið í næstu lögreglustöð, 70 km í næsta póst- eða dómshús og svo framvegis. Skólar eru lagðir niður, strætisvagnar hætta og menning hverfur. Landbúnaður er að gefast upp og samfélagslegt hlutverk hans er að visna og hverfa. Iðnaður flytur til landa sem eru ódýrari í huga stjórnenda (en þó mest af því að hinir gera það). Það er að skapast "yfir" og "undir" Danmörk.

Sem sagt. Upplýstir opinberir skrifborðsmenn eru eina ferðina enn að koma öllu til fjandans. Ég er hjartnalega sammála JP. Þess utan: mikil nýsköpun verður ekki til í stórborgum. Það er margsannað. Að leggja niður byggðarstefnuna var ófyrirgefanlegt. Þetta mun kosta landið og peningastofnanir þess mikið í hinn langa enda. Og íbúa landsins ennþá meira; JP

Danska sjónvarpið upplýsti

Í gærkvöldi var sagt frá því að margir þeir sem "tældir" voru utan úr heimi til Danmörku á árunum fyrir hrun og fimm mínútur í hrun, komu hingað einungis til að verða atvinnulausir. Árin 2006-2009 sögðu margir danskir atvinnurekendur að það væri bráðnauðsynlegt að fá til landsins hámenntað fólk á svo kölluðu "grænu korti" - sem þýddi lægri skatta fyrstu þrjú árin. Að það vantaði nauðsynlega hámenntað innflutt fólk. Þetta komst í dönsku spunavélina og stjórnmálamenn gleyptu hrátt það sem spunnið var ofaní þá. En mikið af þessu fólki er nú atvinnulaust, vinnur í uppvaski eða við pitsubakstur með tvöfalda meistaragráðu og PHD. Það kemst ekki heim aftur sökum fátæktar. Reiðin sauð í þeim sem héldu að hér biðu þeirra gull og grænir skógar.

Óði hattarinn sagði Lísu í Undralandi að orð hafa þá meiningu sem þú vilt að þau hafi. Óði hattarinn hefði verið eins og heima hjá sér í Evrópusambandinu því þar fær orðið “nei” þýðinguna “já” og pólitískum áróðri er básúnað út sem upplýsingum; hér

Óupplýstar þjóðir

Sendiherra ESB af finnskum uppruna á Íslandi segir að upplýsingaskortur sé nokkuð útbreiddur á Íslandi. Að vera haldinn upplýsingaskorti lýsir sér ekki þannig að viðkomandi sé fyrirmunað að afla sér þeirra upplýsinga að 7 af hverjum 10 Íslendingum sem hafa skoðun vilji hvorki ganga né sigla í ESB. Nei, þessi skortur lýsir sér á sama hátt og í Noregi. Sökum þess hve Norðmenn eru illa upplýstir segja þeir sífellt hærra og hærra nei við því að verða upplýstir með hraða ESB ljóssins. Þá vitum við það. Þetta er allt saman skorti á upplýsingum að kenna. Hversu miklar upplýsingar skyldi þurfa til svo skorturinn hverfi? MBL | Nationen

Miðvikudagur 24. mars 2010

Mynd af svartri framtíð. Lífið eftir japönsku

Mannfjöldaspá fyrir Japanska hagkerfið næstu 95 árin. Þessi spá jafngildir því að Íslendingar allir yrðu aðeins um 100.000 talsins eftir 95 ár. Þegar faðir minn góði og sálugi fæddist árið 1921 voru Íslendingar um það bil 94.000 talsins. Þetta var fyrir aðeins 89 árum. Þegar ég fæddist árið 1956, eða 35 árum seinna, voru Íslendingar orðnir 159.000 talsins. Í dag eru þeir um 315.000. Þetta kallar maður framfarir og að eiga bjarta framtíð.

Það leiðinlega við þessa japönsku mynd er eðlilega það, að fyrir Japani þýðir þetta endalok velmegunar. En svona eða álíka verður ástandið í flestum ríkjum Evrópusambandsins einnig. Ömurlegt framtíð er í vændum fyrir flest ríki ESB. Það er ógerningur að snúa þessari þróun við nema á hundruðum ára. Þannig virkar útsæðislíkan bænda (e. farmers seed model) fyrir Homo Sapiens. Að finna eina konu á frjósemisaldri á þessari mynd mun kosta mikla leit. Ef þær geta flúið svona samfélag þá munu þær örugglega gera það. Þær munu að minnsta kosti ekki vilja fæða börn inn í svona ruglað samfélag. Þær fara í verkfall. Japanskar konur fóru í verkfall. Nútíminn kom aldrei til þeirra; Life After Japanese

Hugskot um ættarsamfélagið

Ég sá þessa bloggfærslu hjá Sigurði Ingólfssyni í gær. Þarna rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við hagfræði-dóttur mína sem býr (því miður fyrir mig:) í París í Frakklandi eins og er. Við vorum að ræða saman um hið hrikalega lága frjósemishlutfall sem er í næstum öllum löndum ESB - og hvernig standi á þessu. "Pabbi, þú skilur þetta ekki alveg," sagði hún. "Ég hef séð fólk á götunni hérna í París með smábörnin sín. Þetta er ömurlegt að horfa uppá. Þú ert alinn upp á Íslandi og skilur ekki að hér eignast fólk ekki börn nema að það sé alveg 1000% öruggt um að lenda ekki á götunni með barnið. Þið á Íslandi þurfið ekki að hugsa út í þetta. Þið eignist bara börn án þess að hugsa út í það, vel vitandi að þið munuð ekki lenda á götunni með barnið, sama á hverju dynur."

Þetta hafði ég auðvitað ekki hugsað út í. En svo fór ég að hugsa nánar; já þetta er rétt hjá henni, en það er meira, miklu meira. Af hverju er fólk á Íslandi ekki hrætt við að eignast börn? Jú fyrir það fyrsta þá er þar auðvitað hið svo kallaða "velferðarsamfélag". En sú skýring ein dugar ekki nándar nærri alveg. Hún er alls ekki næg, því jafnvel í "velferðarsamfélögum" eignast fólk ekki börn, eða a.m.k ekki nógu mörg börn til í það minnsta að viðhalda samfélagi sínu. Það er eitthvað meira hér. Já það er meira og það er; 1) sterk fjölskyldubönd og 2) sterkt ættarsamfélag.

Þegar RÍKIÐ yfirtekur hlutverk fjölskyldunnar þá endar líf ættarsamfélagsins. Því þá eyðileggur ríkið hvatana sem búa til þær aðstæður sem fær ættarsamfélagið til að þrífst vel og blómstra. Blóð er næstum alltaf þykkara og haldbetra en vatn hins opinbera. Ég enda þó alltaf á þeirri lokaniðurstöðu sem bæði ég og konan mín komumst næstum alltaf að, þegar við ræðum þessi mál; í endanum er það alltaf atvinnumarkaðurinn sem knýr fólk til góðra gjörninga á þessu sviði. Full atvinna, tækifæri fyrir alla, menntaða sem minna menntaða, er það sem hefur úrslitaþýðingu fyrir framtíð samfélagsins.

En full atvinna getur ekki skapast í ríkjum með of stóran opinberan geira, því hagvöxtur í svoleiðis samfélögum verður alltaf of lélegur til að geta knúið fram fulla atvinnu handa öllum. Ergo; lágir skattar, hóflegur lítill opinber geiri, fjölskyldu- og ættarsamfélag, plús að það sé ekki tabú þó svo ógift fólk, eða fólk sem er ekki í sambúð, eignist börn; að það reddist þrátt fyrir allt. Þökk sé fjölskylduböndum og ættarsamfélaginu. Að reyna að gera ættarsamfélagið óþarft eru grundvallarmistök. Það ætti hins vegar alltaf að reyna að gera hið opinbera sem mest óþarft. Það er það eina eðlilega.

  1. The size and functions of government and economic growth

  2. Danmark har haft den 5. laveste økonomiske vækst fra 1996 til 2006

  3. Danmark står til at få den 4. laveste vækst i oecd i perioden 2011-2017

Þessi tvö fyrirbæri, fjölskylduböndin og ættarsamfélagið, munu aldrei skera það mikið niður að þau hætti að virka. Það gerir hins vegar hið opinbera þegar skattatekjurnar hætta að koma inn. Og það munu þær gera (skattatekjurnar) þegar samfélagið verður gelt. Þá er ekkert eftir. Búið er þá að eyðileggja alla innviði samfélagsins frá grunni. Þá tekur Viktoríanskt samfélag við, þar sem hver er sjálfum sér næstur.

Svo eru örugglega fleiri þættir sem spila hér inn. En nógu stór er að minnsta kosti hinn opinberi geiri í Frakklandi þar sem fólk sést á götunni með börnin sín í því langtíma massífa atvinnuleysi sem þar ríkir. Sama er að segja um mörg ríki með stóran opinberan geira þar sem frjósemishlutfall er allt of lágt. Það sama var einnig að segja um Sovétríkin. Þau voru ljóslifandi dæmi um fullkomna upplausn fjölskyldunnar og afnám ættarsamfélagsins. Svartnættið í faðmi hins gjaldþrota opinbera varð algert. Samfélagið dó og er ennþá að deyja.

Hin svo kölluðu "velferðarsamfélög" eiga sífellt á hættu að breytast í dópsölu ríkisins fyrir stjórnmálamenn. Ekki er hægt að komast út úr dópsölunni né neyslu þegnana aftur. Ríkið blæs út, hagvöxtur, nýsköpun og loks frjósemi stöðvast og hverfur.

Eina óendurnýjanlega náttúruauðlind Evrópusambandsins, að því er virðist, er fólkið sjálft. Það er að hverfa. Árið 2050/60 munu flest börn heimsins - í einu landi - að líkindum fæðast í Bandaríkjunum og ekki í Kína. Í hvorum markaðnum vilt þú, Ísland mitt kæra, vera þátttakandi? Svartnætti eða ekki. To be, or not to be í orðsins fyllstu merkingu. Er ekki kominn tími til að einhver sjónfrár sé settur á ný í útkíkk á þjóðarskútunni, sem greinlega er að sigla í vitlausa átt. Austur er kolröng stefna.

Evran er nú fallin um 10 til 13% á nokkrum vikum

Til gamans eða hryllings? Stórar sviptingar á gjaldeyrismörkuðum er erfitt að sjá fyrir. Hér er dæmi um tvo risastóra gjaldmiðla. Það þarf mikið afl til að hreyfa mikið við gagnkvæmu gengi svona risa. En er það virkilega svo? Nei, það þarf kannski ekki svo mikið meira en tvö bankakerfi sem taka afgerandi afstöðu til þess sem er að gerast eða ekki að gerast.

Hér að ofan og til gamans er mynd úr farsíma 21. aldar. Ef þú ert með farsíma sem getur sótt gögn frá t.d. Yahoo, þá er hægt að slá inn gjaldmiðlakrossum alveg eins og t.d. heiti á verðbréfi. Til dæmis EURUSD=X sækir upplýsingar um hvað ein evra kostar í Bandaríkjadölum. Hér er það verðið á evrunni sem er fallandi (í Bandaríkjadölum séð) og hefur sem sagt fallið um 10 til 13% frá því í lok nóvember mánaðar. Fleira getur fallið en íslenska krónan. Það þarf ekki einu sinni heilt hrunið bankakerfi til. Eins er hægt að slá inn USDISK=X til að fá að vita hvað þarf að borga margar krónur fyrir einn dollara þá stundina. Ótrúlegir þessir farsímar nú um daga. Ég man ennþá eftir sveitasímanum. Þrjár stuttar og ein löng var símanúmerið þar sem ég var í sveit í torfbæ. Það eru aðeins 45 ár síðan ég talaði í svona síma - og vissi ekkert hvað ég átti að segja.

Þriðjudagur 23. mars 2010

Stungið upp í Brussel

Eftir vikur af pókerspili og sýndarmennsku standa málin þannig að svo virðist sem Grikkland verði sent í fang Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins (AGS). Það sama mun þá gilda fyrir þau lönd sem hafa fengið efnahag sinn eyðilagðan af rangri vaxta- og peningastefnu myntbandalags Evrópusambandsins. Þetta skrifar Ambrose Evans-Pritchard á breska dagblaðinu Telegraph.

AEP telur að þýskir og hollenskir valdamenn hafi á krítísku augnabliki áttað sig á því að sú von sé dauðfædd að þeir munu nokkurn tíma getað boxað sig í gegnum þing landa sinna með tillögur um fjáraustur á almannafé til notkunar í björgunarleiðangri ríkisfjármála þeirra evrulanda sem nú ramba um í skuldakreppu eða jafnvel á barmi gjaldþrots.

Þetta, segir AEP, mun koma eins og blaut tuska í andlitið á evrókrötum og elítu Brussels, sem nú þegar hefur sagt að verði Grikklandi ekki bjargað, jafngildi það byrjuninni á endalokum myntbandalagsins (EMU). Að trúverðugleiki fyrirbærisins sé algerlega í húfi [eins og Olli Rehn sagði í síðustu viku með tárin í augunum].

Angelu Merkel hefur algerlega snúist hugur, andtætt því sem evrukratar og Brusselelítan héldu og vonuðu. Þeirra taktík hefur alltaf verið sú að atburðarásin í dagsins önn myndi þvinga í gegn meiri og æ meiri samruna því of dýrt, stjórnmálalega og efnahagslega, yrði að vinda ofan af því sem þegar væri búið að setja í gang [Þannig hefur ESB mótast. Svo er kosið um það sem búið er að gerast, þ.e. þá sjaldan sem stjórnmálamenn hafa lagt í þá áhættu að spyrja kjósendur álits]. AEP hefur það eftir um forsætisráðherra Grikklands að landið hans sé nú á milli steins og sleggju. Það sé þvingað út í AGS-legar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir, en þó án þess að geta notið verndar AGS eða fengið í gegnum sjóðinn aðgang að fjármagni á nauðsynlegum lágum lánskjörum. Af hverju ætti Grikkland að leyfa að landið sé notað sem tilraunakanína og kastað sem bolta á milli hagsmunaafla innan ESB?

En staða Grikklands er þó miður sú að kvóti landsins í sjóðakerfi AGS mun aðeins heimila landinu lántöku sem er 12 sinnum hærri en framlag þess til sjóðsins. Þetta væru þá aðeins 15 miljarðar evrur og dugar það Grikklandi rétt fram að júlí mánuði.

AEP segir að ekki sé hægt að kenna Grikklandi, Írlandi, Ítalíu né Spáni um það sem hafi gerst og sé að gerast. Þessi lönd hafi bara verið ofurseld þeirri einu röngu efnahags- og peningastefnu sem í boði er í myntbandalaginu.

[Hér er ég ekki sammála AEP. Löndin hefðu aldrei átt að ganga í myntbandalagið til að byrja með. Þau vissu vel hvers var krafist. Svo hér er að mínu mati í hæsta máta við stjórnmálamenn þessara landa að sakast. Þeir fóru í peningamálaútrás með lönd sín vegna glysgirni og elítuvæðingar í eigin efnahags- og stjórnmálum. Létu glepjast. Sömu örlög myndu bíða Íslands ef það gengi í myntbandalagið. Ísland yrði 100% ósamkeppnishæft á fjórum árum, gjaldþrota á sjö árum og fullkominn efnahagslegur krypplingur á tíu árum]

Það er heldur ekki við Þjóðverja að sakast segir AEP. Af örlæti gaf Þýskaland upp á bátinn fyrsta flokks mynt sína, þýska markið, einungis til að halda pólitíska friðinn við nágrannana [við Frakkland sem gekk með myntbandalag á heilanum]. Þetta var forsendan fyrir sameiningu Þýskalands. Frakkar settu upp verðið: eitt stykki myntbandalag vegna hræðslunnar við sterkt sameinað Þýskaland.

Þeim sem ég kenni hins vegar um, segir AEP, er elítan í Brussel sem þvingaði þetta verk í gegn á röngum og fölskum forsendum. Elítan hunsaði hina efnahaglegu arfleið og landslag Evrópu - og heilbrigða efnahaglega skynsemi. Nú verður elítan að svara til saka fyrir ekki bara kreppu, heldur einnig depression í Evrópu; The Telegraph

Já, eins og ég hef sagt sjálfur. Þó svo að margir nágrannar mínir í næstu götu þurfi að ganga um með hækjur, þá þarf það ekki endilega að þýða að ég sjálfur taki upp hækjur í minni götu. Ég vil helst ekki þurfa að ganga um með hækjur. Það eina eðlilega er að vera ekki í ESB, því það er hækja Frakklands og Þýskalands. Þeirra lyf. Ísland er lánsamt að vera ekki fætt inn í þetta landfræðilega hækjufélag Evrópu.

Skoðanakönnun: Þjóðverjar vilja út úr evru

Financial Times og Harris Interactive framkvæmdu skoðanakönnun í Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi og á Spáni. Þar kom fram að meirihluti þýsku þjóðarinnar vill yfirgefa myntbandalagið og þar af leiðandi fá þýska markið aftur. Meirihlutinn vill að Grikkland yfirgefi myntbandalagið og er einnig algerlega á móti því að koma Grikklandi til aðstoðar með fjármunum Þýskalands.

Wolfgang Munchau segir að núverandi staða mála myntbandalagsins, stjórnmálalega séð, sé ekki samrýmanleg áframhaldandi tilveru evru og myntbandalagsins [sem er það sama og að segja að stjórnarskrá Þýskalands sé ekki samrýmanleg því sem farið er fram á við Þjóðverja að gert verði - eða í sanni öfugt]. Við séum að horfa á byrjunina á endalokum evrunnar ef núverandi staða festi sig í sessi segir Munchau.

Hann segist hafa heyrt því hvíslað að eina hugsanlega málamiðlunin í þessari glímu myntbandalagsins við Þýskaland sé sú, að gegn einnota (one off) aðstoð við Grikki - og svo aldrei aftur til neinna annarra landa - fái Þýskaland innleitt nýja, herta og ógnvekjandi skilmála fyrir veru og þátttöku landanna í myntsamstarfinu. Og svo einnig, að hægt verði að reka lönd úr myntbandalaginu gegn vilja þeirra. En Munchau bindur ekki miklar vonir við að svona málamiðlun sé raunverulega í boði. Hann telur að Angela Merkel ætli sér greinilega ekki að fara á skjön við stjórnarská Þýskalands og vilji einnig túlka anda stofnsáttmála myntbandalagsins samkvæmt upphaflegum tilgangi hans.

En hver sem ákvörðunin verður, þá marka þessir atburðir þáttaskil og upphafið á endalokum myntbandalagsins eins og við þekkjum það í dag, segir Munchau. Þetta sé hið sögulega mikilvægi ákvörðunar Angelu Merkel kanslara, sem greinilega ætlar sér að taka stjórnarskrá Þýskaland alvarlega - og sem sagt - taka hana fram yfir tilveru myntbandalagsins [og sem mig grunar að hún, úr þessu, álíti dauðadæmt hvort sem er]

FT skoðanakönnun | einnig hér á Eurointelligence | FT WM

Mánudagur 22. mars 2010

Fölskum væntingum þarf að linna

José Manuel Barroso forseti framkvæmdanefndar Evrópusambandsins gaf fyrir helgina út yfirlýsingu um að ríkisstjórnir evrusvæðis ættu að koma sér sem fyrst saman um björgunaraðgerðir handa Grikklandi. En Grikkland getur ekki lengur tekið nauðsynlega peninga að láni á fjármálamörkuðum evrusvæðis án þess að þurfa að borga svo háa vexti að engin leið er fyrir landið að standa undir svo hárri ávöxtun til þeirra fjárfesta sem ennþá vilja lána gríska ríkinu peningana.

Á algerlega öndverðum meiði var hins vegar kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sem kom fram í útvarpsviðtali á sunnudagsmorgun og varaði við því að málsaðilar færu að koma af stað frekari óróleika á fjármálamörkuðum byggðum "fölskum væntingum" um björgunaraðgerðir til handa Grikklandi. Hún sagði að málefni Grikklands væru ekki einu sinni á dagskrá á fundi leiðtoga ESB á morgun, þriðjudag.

Svo er skilið að útvarpsviðtalið við frú Merkel hafi verið hljóðritað áður en Manuel Barroso sendi út yfirlýsingu sína. En eigi síður var viðtalinu við hana útvarpað. Frú Merkel segist ekki sjá þess merki að Grikklandi vanti peninga núna og að gríska ríkisstjórnin hafi staðfest að svo sé [sem sagt, allt upp í loft ennþá og pókerspilið um Grikkland og myntina frægu heldur áfram]: FT. Þarna sannast það sem allir þyrftu að vita: galdurinn við peninga er að hafa þá.

2004: Hvernig mun meiri fátækt gagnast ESB? Mun evran lifa af?

Það var viðtal við fjármálamanninn Jim Rogers á Bloomberg á föstudaginn. En það var ekki sjálft viðtalið við hann sem mér finnst merkilegt. Ég sá það þó með öðru auganu. Um helgina var ég að væflast fyrir framan tölvuskjáinn, mér til gamans, og fór inn á heimasíðu Jim Rogers. Þar er að finna ljósmyndir frá ferðalagi hans fyrir nokkrum árum, um mörg lönd heimsins, meðal annars eru þar myndir frá heimsókn hans til Íslands.

Það merkilega var hins vegar það að á heimasíðu Rogers rakst ég á vefslóð inn á spjallþátt sem hann tók þátt í með Dr. Marc Faber og Antony Burgmans (Unilever) árið 2004. Umræðuefnið var stækkun Evrópusambandsins það árið. Þá gengu 10 ný lönd í ESB; Austur-Evrópa og Eystrasaltslöndin. Það var greinilegt að Jim Rogers hafði unnið heimavinnuna sína vel. Það höfðu Marc Faber og Antony Burgmans hins vegar ekki gert. Þeir töluðu mest í loftköstulum og væntingum á meðan Rogers var faglegur og hélt sig við staðreyndir. Hann vissi meira um Evrópu en þeir innfæddu héldu. Hann spurði nærgöngulla spurninga en fátt var um svör; hvernig ætti það að gagnast ESB að fá inn 10 fátæk ný og gatslitin lönd? Evran mun hrynja sagði Rogers. Nei sögðu Faber og Burgmans. Þeir sögðu að Grikkland, Írland og Spánn (ECB poster boys) væru skínandi sólargeislar sem sýndu glæsilegan árangur evrunnar (bæði Grikkland og Írland eru de facto gjaldþrota í dag og Spánn er á heljarþröm). Glæsilegur árangur og sólargeislar, hmm?

Rogers; það fæðast svo að segja engin börn í svo mörgum löndum ESB, sama er að segja um þessi nýju 10 lönd. Hvernig á ESB að lifa þetta af? Framtíð ESB er kolsvört. Það verður enginn eftir til að borga brúsa gamla fólksins í þessum löndum. Enn engin svör, mest loftkastalar, gáfumannlegt uml og óskhyggja. Rogers benti á lélega framleiðni í þessum 10 nýju löndum. Burgmans benti á verksmiðju Unilever í Austur-Evrópu sem hefði sýnt árangur eftir 14 ár. Rogers sagði að 14 ár væri langur tími til að ná hagnaði út úr einni verksmiðju. Þátturinn endaði á að allir voru þeir orðnir sammála um að klukkan væri fimm mínútur í miðnætti, eða meira, fyrir Evrópusambandið. Þetta var fyrir 6 árum. Hvað skyldi klukkan þeirra vera núna? Lítið sem ekkert af því sem komið var inn á hefur lagast neitt síðan þeir töluðu saman. Frekar orðið verra. 2004, Riverside Conversations part 2; The Future of Europe | Viðtalið á Bloomberg frá því á föstudaginn; opnar spilara WMV | Heimasíða Jim Rogers

Eldur í Nóaflóði

Poul Krugman jarðar Peter Schiff og óðaverðbólgu hans. Greinilegt er að Poul Krugman telur hættuna á verðbólgu vera litla. Það er frekar verðhjöðnun sem við ættum að hafa áhyggjur af. Reynslan í Japan sýnir okkur það. Mikið var prentað af peningum þar en verðin hafa bara haldið áfram að falla frá árinu 2000. Þeir vakar sem liggja að baki óðaverðbólgu séu einfaldir og vel þekktir, enginn þeirra sé virkur núna. Menn eru að ruglast í hlutunum segir Krugman; Eldur í Nóaflóði | Um óðaverðbólgu

Mín reynsla: Verðbóla => fólk flýr peninga og fer inn í eignir. Það vill ekki eiga peninga, vill bara eiga eignir. Verðhjöðnun => fólk flýr eignir og fer yfir í peninga. Fólk vill ekki eiga eignir sem eru að falla í verði. Fólk vill helst bara eiga peningana. Hvað sjáum við í dag? Eru eignaverð að hækka? Nei það eru þau ekki. Hlutabréfamarkaður er ekki einu sinni búinn að jafna sig efir áföllin 2008/2009 og það er alls ekki öruggt ennþá að hann geri það yfir höfuð. Það sem ég óttast mest núna er einhvers konar paradigm shift - bæði meðal neytenda og fjárfesta. Algerlega óvænt útkoma úr áföllunum. Markaðurinn gæti fundið upp á því að álykta að allt sé allt í einu 50% minna virði en menn héldu eða álitu vegna þess að X og Y verða svona en ekki svona, eins og þau voru áður.

En eitt eða tvennt tel ég víst. Á meðan hlutabréfamarkaðir fara ekki varnalega og örugglega í gang, bæði í magni og verðum, þá mun hagvöxtur ekki gera það heldur. Flæði fjármuna eftir áföll er þannig að fyrst verða peningarnir að fara inn á hlutabréfamarkaðinn, svo fara þeir til fyrirtækjanna, og koma svo þaðan til neytenda og fasteigna þeirra í lokin (í formi meiri atvinnu og betri launa). En auðvitað get ég haft algerlega rangt fyrir mér. Þetta eru einungis mínar vangaveltur. Hver veit það sem ekki er hægt að vita? Ekki ég. Nema það að ég veit að við munum fá "depression" á evrusvæði. Ekkert getur komið í veg fyrir það lengur. Djúpfrystirinn mun koma. Evrusvæðið er ónýtt.

http://www.tilveraniesb.net/stuttar-vikufrettir