Er innheimta hlutverk ESB?

Post date: Aug 31, 2009 4:47:6 PM

EU moet geen deurwaarder spelen.

Prófessor Michael Hudson við Missouri háskólann í Bandaríkjunum, Gunnar Tómasson hagfræðingur og lektor Dirk J. Bezemer við háskólann í Groningen í Hollandi gagnrýna harðlega harkalegar aðgerðir gegn Íslendingum og fleiri skuldugum Evrópuríkjum í grein sem birtist í hollenska blaðinu Volkskrant í dag. Hér á eftir fer greinin í íslenskri þýðingu.

Er innheimta hlutverk ESB?

Ísland er prófsteinninn. Um það er ekki deilt að skuldir jukust langt úr hófi fram við „útlánavæðingu” síðustu áratuga. Á nýliðnu Greenspan tímabili var lánsfjármögnuð neyzla og síhækkandi verði fasteigna, hlutabréfa og annarra fjáreigna talin vera jafngildi „verðmætasköpunar”. Við erum reynslunni ríkari núna. Verð fasteigna og hlutabréfa er hrunið en skuldirnar standa eftir. Núna, þegar bólan er sprungin, blasa við okkur tvenn viðfangsefni. Hvernig endurreisum við framleiðslukerfið eftir áralanga útlánavæðingu? Og hvernig gerum við upp skuldirnar?

Á því síðarnefnda er mikilvægur evrópskur flötur. Hvernig standa evrópuríki að innbyrðis skuldauppgjöri? Spurningin er sérstaklega mikilvæg fyrir minni ríki sem tóku lán í erlendri mynt og eru núna í miklum vanda. Lánardrottnar þeirra eru ríki sem gáfu bönkum lausan tauminn til að skuldsetja heilar þjóðir á gullöld „útlánavæðingarinnar”. Afleiðingin blasir við í erfiðri skuldastöðu Íslands gagnvart Bretlandi og Hollandi, Lettlands gagnvart Svíþjóð, og Ungverjalands gagnvart Austurríki. Og dæmin verða væntanlega fleiri.

Vandinn er sá að stjórnvöld frumkvöðla „útlánavæðingarinnar” virðast fúsari til innheimtustarfa fyrir þá og aðra þegna sína en þátttöku í uppbyggjandi átaki við að leysa úr skuldavanda Evrópu og heimsins alls. Jafnframt reyna þau að fá alþjóðastofnanir til að leggja málstað þeirra lið með hótunum um að stuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða innganga í ESB sé í veði. Það er eftirtektarvert að í almennri umræðu í Hollandi og víðar virðist vera litið á slíka fjárkúgun sem sjálfsagðan hlut væntanlega í ljósi þess að 'skuld er skuld'. Skuldarar hafa notið lífsins með okkar peningum og ber því að borga reikninginn, með ströngum aðhaldsaðgerðum ef svo ber undir.

Þetta skýra og einfalda afstaða horfir fram hjá ýmsum óþægilegum staðreyndum. Í fyrsta lagi hafa lánastofnanir hagnast vel á óhóflegri skuldsetningu þjóða. Útreikningar fyrir Lettland sýna að tekjur erlendra banka af vöxtum og fasteignum voru hærri hvert ár frá 1995 til 2008 en sem nam lánum þeirra til Lettlendinga. Það var því hreint útstreymi á fjármagnsreikningi. Viðkomandi bankar (aðallega sænskir) hafa nú þegar hirt hagnað sinn en eftirláta Lettlandi áframhaldandi skuldagreiðslur. Undir forsæti Svíþjóðar hvetur ESB til strangra aðhaldsaðgerða af Lettlands hálfu svo að komist verði hjá greiðslufalli.

Í öðru lagi er orsök vandans að hluta til hegðun banka og erlendra lánardrottna í aðdraganda kreppunnar. Nýlega voru birt skjöl sem sýna að stórir Kaupþingshluthafar stuðluðu að hruni bankans með úttekt á andvirði stórra ótryggðra lána til þeirra sjálfra. Aðgerðir Hollendinga og Breta voru ekki síður skaðlegar. Íslenzk stjórnvöld höfðu níu mánuði til að semja um uppgjör við innstæðueigendur skv. ESB tilskipun 94/19/EC. Það hefði hugsanlega leitt til farsællar lausnar ef hollensk og brezk stjórnvöld hefðu kosið að miðla málum. Í staðinn ákváðu þau að lítt hugsuðu máli að borga eigin ríkisborgurum út innstæður þeirra og sendu reikninginn, ásamt hótunum, til Íslands. Gordon Brown beitti jafnframt hryðjuverkalögum til að frysta reikninga sem féllu undir íslenzka lögsögu. Þar með glataðist að fullu það sem e.t.v. hefði mátt bjarga. Með hliðsjón af slíkri hegðun þvert gegn tilskipunum ESB er það hámark hræsni þegar hollenski utanríkisráðherrann Maxime Verhagen hvatti Ísland 21. júlí sl. að „sýna í verki að það taki ESB tilskipanir alvarlega".

Í þriðja lagi skal varast að láta sem hér sé um venjulega deilu milli lánardrottna og skuldara að ræða. Fyrir Ísland líkt og Lettland snýst málið um það hvort komist verði hjá algjöru efnahagshruni. Hagkerfið fer einfaldlega í greiðsluþrot ef innheimta á skuldina að fullu. Verg landsframleiðsla Íslands 2008 var 12.3 milljarðar evra. Vegna kreppunnar mun hún e.t.v. verða innan við 8 milljarða í ár, og aðeins að hluta í gjaldeyri. Hollenskar og brezkar kröfur nema samtals 4 milljörðum evra, eða meira en 50% af VLF. Samtals er áætlað að erlendar heildarskuldir Íslands nemi um 240% af VLF. Engin þjóð hefur áður endurgreitt erlenda skuld af þessari stærðargráðu. Ísland skortir auk þess útflutningsgetu til að afla nauðsynlegs gjaldeyris til að endurgreiða skuldina. Ísland ætti því ekki annarra kosta völ en að fjármagna afborganir með nýjum lántökum. Viljum við knýja skuldsettar þjóðir inn á slíka tortímingarbraut? Viljum við að Ísland, Lettland og aðrar þjóðir nái að rétta sig við, eða kjósum við að leggja þeim augljóslega óbærilega skuldabyrði á herðar?

Í það minnsta hljótum við að huga skynsamlega að eigin hag. Íslenzkt hagkerfi í skuldafjötrum mun aldrei geta endurgreitt nema hluta skuldarinnar. Spurningin er hvort við höldum fast við óraunhæfar kröfur eða stefnum að raunhæfu uppgjöri? Og hvað með evrópska samhygð sem Verhagen utanríkisráðherra og aðrir hollenskir stjórnmálamenn styðja? Verður hún sett skör lægra en kröfur lánardrottna?

Það verður ekki komist hjá því að hugsa til Þýzkalands á þriðja áratug síðustu aldar. Keynes var þá sem hrópandinn í eyðimörkinni og varaði við því að Þýzkaland gæti ekki staðið undir kröfum bandamanna um stríðsskaðabætur. En Þýzkaland var knúið til að takast þær á herðar og stóð í skilum um hríð með lántökum, enda ekki annarra kosta völ. Þetta jók einungis greiðslubyrði landsins og rak aðþrengda þjóð í útbreidda arma öfgafullra stjórnmálamanna. Nítíu árum síðar vitum við lok þeirrar sögu. Við aðstæður sem kröfðust vizku og framsýni reyndust þjóðir bandamanna ótrúlega skammsýnar. Við vitum ekki hvert aðþrengdir Íslendinga, Eystrasaltsbúar eða Ungverjar kynnu að snúa á komandi tíð. Á þessum punkti í samtímasögunni vitum við það eitt að vandinn er okkar allra. Við tókum öll þátt í því að skuldsetja hagkerfi úr hófi fram, og okkur ber því að vinna úr vandanum saman. Það hefur ekki gengið vel til þessa. Vaxandi spennu gætir í samskiptum þjóða og stuðningur við Evrópusambandið fer minnkandi í nýjum og væntanlegum aðildarríkjum. Hvað mun barnabörnunum finnast um okkur eftir nítíu ár?

***

Höfundar:

Dirk J. Bezemer, lektor, University of Groningen, Hollandi

Michael Hudson, prófessor, University of Missouri, Bandaríkjunum

Gunnar Tómasson, hagfræðingur