Ljósaperur Evrópusambandsins

Gunnar Rögnvaldsson 7. janúar 2010

Ljósaperur samkvæmt tilskipun

Þýska neytendatímaritið Ökotest skrifar um rannsókn sína á hinum svo kölluðu “umhverfisvænu” ljósaperum sem neytendur í ESB eru nú þvingaðir til að kaupa. Evrópusambandið í Brussel er búið að banna venjulegar ljósaperur í 27 löndum. ESB-Brussel hefur rekið þann áróður að neytendur geti sparað allt að 190 evrur á ári með minni “orkukneyslu”, því þessar ljósaperur sem sambandið hefur ákveðið fyrir okkur, séu svo mikilfenglegar og orkusparandi.

En svo er ekki reyndin segir neytendatímarit Þjóðverja, Ökotest. Próf Ökotest sýna að þegar þessar nýju ESB-ljósaperur eru bornar saman við hefðbundnar ekki-ESB ljósaperur, þá veldur hinn tilætlaði árangur ESB miklum vonbrigðum. Aðeins 1/3 hluti af 16 tegundum ESB-ljósapera framleiddu nægilega birtu. Ein gerð peranna framleiddi næstum ekkert ljós. Fjórar gerðir pera féllu á öllum prófum Ökotest og voru dæmdar sem “flop”. Aðeins ein gerð pera fékk einkunnina “nægilega góð”.

Dýrsta orkusparandi ESB-ljósaperan í prófinu notaði meira rafmagn og framleiddi jafnframt minna ljós en hefðbundin ekki-ESB-ljósapera. Finnska Yle útvarpið sem fjallaði um próf Ökotest talaði einnig um heilsuspillandi áhrif frá ESB-perunum, því margar þeirra innihalda kvikasilfur. Skýrsla Ökotest segir að á síðasta ári hafi Evrópusambandið í Brussel bannaði kvikasilfur í hitamælum en svo jafnframt innleitt það í ljósaperum á sama árinu. Það eru mörg herbergi í Brussel.

Næst fáum við vonandi rússneskar ljósaperur. Það er örugglega allt í lagi því þær geta varla verið verri en blái rándýri ljóminn frá ESB-perunum. Ég er orðinn þreyttur á að eltast við að finna leifarnar af gömlum birgðum af venjulegum hefðbundnum ljósaperum hér í ESB. En ég er ennþá þreyttari á ESB-bitrunni frá ESB-perunum. Hún er blágul og tifar eins og tímasprengja á meðan perurnar ofhitna og bræða sökkulinn í ljósastæðunum.

En þetta lagast örugglega bráðum, því núna er Brussel í gangi með gerð nýrrar 10 ára áætlunar Evrópusambandsins. Sú vinna fer væntanlega fram í ölum 10.000 herbergjum embættismanna Brussel. Þetta er bráðnauðsynlegt, því síðasta áætlun ESB mistókst meira en fullkomlega. Hún gékk mest afturábak. Það fer því örugglega bráðum að birta til á ný. Ég mun vonandi geta fjallað um hina nýju 10 ára áætlun ESB í dagsbirtunni hér í glugganum fljótlega.; Ökotest | Yle | Árangur síðustu 10 ára áætlunar ESB

Ökotest | Yle | Árangur síðustu 10 ára áætlunar ESB