# 499 - 2010 - vika 5 - til 7. febrúar 2010

VIKA 5 2010

Föstudagur 5. febrúar 2010

PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan

Ekki ég og litla blágula evran

Nú keppast frammámenn og lönd þeirra við að segja og sanna að það séu ekki þeir og þeirra land sem sé að ógna tilveru myntbandalags Evrópusambandsins. Efnahagsmálaráðherra Spánar, Elena Salgado, segir að það sé ekki Spánn sem ógni tilveru myntar Evrópusambandsins. "En ef forsætisráðherra Spánar, Jose Luis Rodriguez Zapatero, vill fremja harakiri í stað þess að skpta um skoðun, þá er það ekki mitt mál", sagði Ignacio Fernandez Toxo formaður CCOO samtaka verkalýðsfélaga á Spáni í gær. Samtök hans hafa boðað til mótmælagöngu í tilefni hækkunar á eftirlaunaaldri frá 65 ára til 67 ára. Spænska stjórnarandstaðan hótar að bera fram vantrauststillögu í þinginu.

The government says it will cut spending by 50 billion euros as it tries to reduce a budget deficit of 11.4 percent of gross domestic product in 2009 to the EU limit of 3 percent by 2013.

Miklar efasemdir aðila markaðarins um ríkisfjármál Spánar felldu IBEX hlutabréfavísitöluna um 6% í gær. Markaðurinn efast um að Spánn geti skorið niður opinber útgjöld ef á þarf að halda á meðan atvinnuleysi er 20% í landinu og engin von sé til þess að glötuð samkeppnishæfni spænska hagkerfisins geti endurheimst á meðan landið getur ekki fellt neitt gengi. Eina leiðin er þá að fella laun almennings. Um leið falla einnig skattatekjur ríkisins og fjárfestar í ríkisskuldabréfum landsins vita að þá er Spánn orðið enn einni tönninni lélegri skuldari vegna þess að greiðslugeta spænska ríkisins er þar með að þurrka sig sjálfa upp.

"The current fundamentals of the Spanish economy only make good reading if one is into horror stories," wrote 4Cast analyst Jose Garcia Zarate, adding that Spain, more than Portugal or even Greece, was increasingly being singled out as the "make or break test for the Eurozone", due to the size of its economy.

Markaðurinn veit vel að lönd með sjálfstæða mynt, eigin peningastjórnun og eigið fljótandi gengi eiga mun síður á hættu að verða lélegir skuldarar því gengisfelling vinnur oft að því að varðveita og bæta greiðslugetu ríkja, því peningakassar þeirra verða þá síður atvinnu- og tekjulausir. Gengisfelling heldur hjólum atvinnulífsins betur gangandi og skattatekjur koma öruggara í ríkiskassann. Þess vegna þarf t.d. sænska ríkið að greiða fjárfestum minna fyrir að fá lán en sjálft þýska ríkið þarf að greiða núna. Sú hefur einnig verið staðan alla fjármálakreppuna. Reyndar þarf sænska ríkið að borga lægri vexti á lánum til ríkisins en öll lönd myntbandalags Evrópusambandsins þurfa að greiða. Svíar njóta betri vaxtakjara vegna þess að þeir hafa sína eigin mynt sem getur spornað við tekjuþurrð ríkissjóðs vegna atvinnuleysis launþega í fyrirtækjum landsins; Reuters

Nauðungaruppboð taka fyrir alvöru við sér í Danmörku

PDF snið vika 5 2010

Föstudagur 5. febrúar 2010.pdf

Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða

Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín

Hagstofa Danmerkur kom með nýjustu tölur yfir nauðungaruppboð og gjaldþrot hlutafélaga í gær. Þó svo að nauðungaruppboð hafi tekið vel við sér frá og með árinu 2007, þegar íbúðaverð byrjaði að lækka og fólk að missa vinnuna sína, þá er ennþá langt upp í "helvítisárin" frá týnda áratug Danmerkur sem hófst árið 1985 þegar gengi dönsku krónunnar var bundið varanlega fast við þýska markið og Þjóðverjar í Bonn og Frankfurt látnir um peninga- og vaxtastefnu þessa nágrannaríkis síns. Þá var húsnæðismarkaður Danmerkur lagður í rúst. Raunstýrivextir fóru þá í 10% án nokkurar ástæðu yfir höfuð. Lánveitingar urðu að sama skapi erfiðar því svo fáar fjárfestingar gátu borið 10-15% raunvexti. Samkeppni á smásölumarkaði varð einhæf og fákeppni hefur ríkt allar götur síðan; DST

Þrot greiðslugetu hlutafélaga í Danmörku slær met

Gjaldþrot hlutafélaga í Danmörku eru nú komin í yfir 500 félög á mánuði og er þetta mesti mánaðarlegi fjöldi gjaldþrota fyrirtækja frá því hagstofan hóf að skrá slíkar tölur í Danmörku árið 1979; DSTTölvu- og upplýsingabransi síðustu 10 ára áætlunar ESB

Síðasta 10 ára áætlun Evrópusambandsins, Lissabon 2000 markmiðin, áttu að byggja m.a. á 1) tölvuiðnaði, 2) upplýsingatækni og 3) fjarverslun í gegnum internetið. Það var þetta sem átti að fá ESB til að ná hagsæld Bandaríkjamanna á svipaðan hátt og stál- og þungaiðnaður Sovétríkjanna átti alltaf að sigla ríkjum þess upp að hlið þessa stærsta flaggskips hagsældar og velmegunar í heiminum, þ.e. efnahag Bandaríkjamanna.

Í greiningu samtaka verkalýðsfélaga í Danmörku, Arbejderbevægelsens Erhvervsråd, kemur í ljós að heildarfjöldi starfa í tölvuiðnaði (vél- og hugbúnaður) hefur fallið frá 20.000 heilsdags störfum og niður í 13.000 heilsdags störf á því tímabili sem Lissabon 2000 áætlun ESB náði yfir. Heildsöluhluta þessa geira reiddi svipað af og starfsfækkun varð einnig mikil í síma- og fjarskiptahluta þessa geira. Eini hluti tölvu- og upplýsingageirans sem óx var ráðgjafahlutinn. En þar var mikill vöxtur á tímabilinu. En allt í allt þá vinna jafn margir í heild við þennan geira í dag eins og fyrir 10 árum síðan. Allur sá atvinnulegi framgangur sem bransinn náði frá árinu 2004 er nú horfinn; AE

Um fjarverslun og Lissabon-2000 markmið Evrópusambandsins

Mynd; David Ogilvy - oft nefndur faðir beinnar markaðsfærslu

Hvað varðar fjarverslun almennt í ESB þá er það þannig ennþá að hin gömlu og hefðbundu póstverslunarfyrirtæki sitja ennþá á þungt stærsta hluta þess markaðar. Sumir muna eflaust eftir því þegar netverslunin Amazon var að klífa línurit NASDAQ hlutabréfavísitölunnar í dot com bólunni fyrir aldamótin. Þá höfðu menn miklar væntingar til þessa fyrirtækis. En staðreyndin var og er sú að um leið og markaðurinn fékk rétt í því að Amazon gæti farið að velta einhverju fleiru en eigin hlutabréfum, að þá myndi hagnaðarhlutfall (profit margin) Amazon ekki verða hærra en hjá venjulegri matvöruverslun eða póstverslun. Því um leið og Amazon gæti farið að sýna hagnað vissu refir gamla póstverslunargeirans ofurvel að Amazon væri þá um leið komið með sömu innviði og sama fasta kostnað eins og öll venjuleg póstverslunarfyrirtæki þurfa að burðast með. Sumir muna kannski einnig eftir því að þetta tímabil (dot com bólan) var kallað "nýja hagkerfið" (e."the new economy"). Mynd; David Ogilvy, oft kalaður faðir beinnar markaðsfærslu (lífsnauðsynlegt myndskeið fyrir þá sem stunda markaðsfærslu og þróa concept)

Svo það var alls ekki neinn sérstakur leyndarómur fólginn í því að vera til staðar á netinu. Evrópsk netverslun (Pan-European) er jafn erfið eins og venjuleg evrópsk póstverslun er á pappír. Hagnaðarhlutfallið er um eða undir einu prósenti af veltu, hvort sem um er að ræða netverslun eða pappírsverslun. Svona er þetta hjá flestum sem hafa ekki afburða stærðar- og rekstrarhagkvæmni eins og til dæmis stærsta póstverslun heimsins, Otto Versand í Þýsklandi. En það fyrirtæki þarf meira en 45.000 blaðsíður til að kynna allt vöruúrval þess fyrirtækis á hverri önn og yfir 50.000 manns starfa hjá fyrirtækinu. Otto byrjaði með einn pallbíl og lager í kjallaraholu í Hamborg eftir seinni heimsstyrjöldina. Stærsta póstverslun sem ég hef heimsótt er Littlewoods í Liverpool. Met þeirra var að senda 15 milljón vörur út á einni viku.

Mynd; David Ogilvy - maðurinn í Hathaway-skyrtunni

Tölvu- og gagnakerfi póstverslana eru hrikalega dýr. Ímyndið ykkur risastóra matvöruverslun sem þarf að vita og geyma nafn og heimilisfang á hverri einustu vöru sem fer út um dyrnar á versluninni - plús stærðir, skilanir og oft raðgreiðslur afborgana á hverri vöru og yfir 90% þjónustuhlutfall á hverri vöru sem sýnd hefur verið í glugga verslunarinnar síðustu sex mánuðina. Svo og birgðakerfi með kannski 200.000 vörunúmerum í rauntíma. Littlewoods var með eigið fríhafnarsvæði og 10.000 starfsmenn og 10.000 notendur í tölvukerfi fyrirtækisins. Lager og pökkunarhúsnæðið var ólýsanlega stórt. Hjá netverslunum fer það sem þær þurfa ekki að eyða í prentun og útsendingar póstlista til að greiða þeim sem reka leitarvélar og verðsamanburðar-vélar á netinu. Þetta er pappírs og prentsmiðjukostnaður netverslana. Þar til viðbótar kemur mikill auglýsingakostnaður netverslana eða um og yfir 10% af veltu og ennþá meira í startfasa fyrirtækjanna. Mynd; ein frægasta auglýsing David Ogilvy

Það var sem sagt þetta sem Evrópusambandið lagði sem grunn fyrir velmegun í löndum sambandsins í síðustu 10 ára áætlun sambandsins. Að framtíðin væri fólgin í því að reka 1% hagnaðargefandi fyrirtæki á netinu! Þetta minnir mig á skemmtileg ummæli dansks kunningja míns sem vinnur sem tæknifræðingur hjá tæknistofnun sem ráðgefur um úthýsingu framleiðslu til annarra landa. Hann hefur mikla og innilega ótrú á vindmyllubransa Danmerkur. Hann sagði: "ef það er hátækni að flytja 70 metra löng járnrör og plastrusl á vörubílum um harðbrautir Evrópu, öllum til mikils ama og trafala, þá máttu kalla mig apa." Endingartími vindmylla er það lélegur að allt útlit er fyrir að þessi skemmtilega og þétta umferð með "járnrör og plastrusl" um harðbrautir og sveitavegi Evrópu sé vel tryggð, þar til loksins kviknar á perunni hjá einhverjum.

Fimmtudagur 4. febrúar 2010

»» "Joaquin Almunia efnahagsmála kommissar Evrópusambandsins sagði að harkalegur niðurskurður ríkisfjármála í Grikklandi væri sérstaklega mikilvægur svo hindra mætti frekari flótta fjármagns frá landinu. Hið mikla ójafnvægi sem efnahagur Grikklands þjáist af er ekki hægt að halda út lengur. Staðreyndin er sú að markaðirnir eru að setja mikinn þrýsting á. Það er ekki hægt að hafa þennan þrýsting að engu. « » Almunia sagði að ótti markaða hefði breiðst út fyrir landamæri fjármála Grikklands og inn í fjármál annarra landa evrusvæðis sem einnig eru með ríkisfjármál sín úr böndunum, sérstaklega til Spánar og Portúgals. Í þessum löndum höfum við séð stanslausa glötun samkeppnishæfni frá því þau gengu í myntbandalagið. Utan að komandi fjárþörf þeirra er verulega mikil. ««

En hvað sagði Martin Wolf í síðustu viku?

Brot af því sem hann sagði (mánudag 25. jan) er eftirfarandi: ". . . Þetta þýðir að annað hvort verða hin löndin að keyra með halla í einkageiranum (eyða meiru en aflað er) eða þá að hið opinbera verður að vera rekið þar með halla. Ef það er hinn opinberi geiri sem keyrir með halla í þessum löndum - og er svo þvingaður til að ná jafnvægi í ríkisrekstri vegna þrýstings frá yfirvöldum evrusvæðis - þá mun landsframleiðsla verða þvinguð niður í þessum löndum. Þetta mun þýða að lokum er það einkageirann sem er þvingaður yfir í hallarekstur - og sem svo mun leiða hann til gjaldþrota. Það er annað hvort hið opinbera eða einkageirinn í þessum löndum sem verða að fjármagna hagnað Þýskalands, svo framarlega sem allt evrusvæðið er í jafnvægi við umheiminn.

Eina leiðin fyrir þessi lönd (sem heita ekki Þýskaland eða Holland) út úr gildrunni er að lækka laun og kostnað og það mun svo þvinga allt evrusvæðið inn í kreppu. Kreppu í löndunum í útjaðri evrusvæðis (og þau eru mörg) og svo einnig í kjarnalöndum evrusvæðis. Engin þekkt efnahagsstefna getur glímt við varnalega kreppu. Allt getur gerst. Ég hef alltaf óttast að evran geti sprengt Evrópusambandið. Ég trúi því að það sé alveg mögulegt.

Ný og fersk aukaeftirspurn verður að koma til frá kjarnalöndum evrusvæðis. Er það mögulegt? Eða þá að allt evrusvæðið sem heild komist í hagnað gagnvart umheiminum? Það er mjög ólíklegt með svo slaka eftirspurn frá umheiminum - og með svo hátt gengi á evrunni."

Þetta finnst mér ákaflega mikilvægt að endurtaka hér, því í gær lagði yfirstjórn Evrópusambandsins og seðlabanki myntbandalagsins inn pöntunarseðil í pantanamóttöku póstverslunar ríkisstjórnar Grikklands í Aþenu. Pöntunin er langur listi sem ég hef ekki kynnt mér ennþá. Á listanum eru meðal annars launalækkun opinberra starfsmanna, hækkun ellilífeyrisaldurs og niðurskurður opinberrar þjónustu. Afhendingartími grísku ríkisstjórnarinnar má ekki vera lengri en einn mánuður, því annast hættir ESB við pöntunina og hengingaról markaðarins herðist aftur um háls gríska ríkisins.

Um leið og pöntunin frá Brussel barst boðuðu samtök verkalýðsfélaga í Grikklandi til allsherjarverkfalls þann 24. febrúar. Vonir margra munu standa og falla með viðbrögðum þeirra sem eiga að uppfylla pöntunina, þ.e. grískum almenningi. Þegar fjármálamarkaðurinn fregnaði að pöntunarlisti Brussel og ECB væri móttekinn í Aþenu, þá snéri hann sér að næsta landi sem er Portúgal. Ríkisskuldabréfaútboð portúgalska ríksins gékk því illa í gær.

Yields on 10-year Portuguese bonds jumped 21 basis points yesterday as funds switched their fire to the next "domino", questioning whether the government of Jose Socrates can deliver spending cuts without a parliamentary majority. "The lightning rod has been passed to Portugal: who is next – Spain?" asked Marc Chandler, from Brown Brothers Harriman

Svo mun líklega bráðum koma að Spáni. En Spánn er allt annar handleggur en bæði Grikkland og Portúgal því hagkerfi Grikklands stendur í reynd mun betur en hagkerfi Spánar, burtséð frá fjárlagahalla, og Portúgal er einnig lítið miðað við Spán. Bankar Grikklands eru líka mun betur settir en spænski bankageirinn. Á Spáni eru upphæðirnar geigvænlegar því Spánn er fjórða stærsta hagkerfi ESB og stendur fyrir tæplega 12% af efnahag 12-evrulanda, þ.e. tæplega helmingur efnahagsstærðar Þýskalands sem var 27,3% árið 2007. Ein stærsta byggingarbóla mannkynssögunnar fór fram á Spáni á undanförnum árum. Hvernig fjármagnaði Spánn þessa bólu? Það er 20% atvinnuleysi á Spáni núna svo ekki munu skattatekjur ríkisins fossa þar inn. Þar að auki er 45% atvinnuleysi hjá ungmennum undir 25 ára aldri á Spáni. Unga fólkið, fjárfestar framtíðarinnar, eru án tekna.

Þar næst í röðinni gæti svo verið Ítalía sem stendur fyrir 17,4% af efnahag 12-evrulanda. Ef mikill niðurskurður þarf að framkvæmast í löndum sem nema kannski 30-40% af heildarefnahag evrusvæðis, er þá ekki líklegt að greining Martin Wolfs leiði okkur inn í þá varanlegu kreppu evrusvæðis sem hann boðar - og í endum til algers hruns evrusvæðis sem lífvænlegur mannabústaður fyrir þegna þessa efnahagssvæðis?

Þá erum við ekki að tala um L-laga kreppu evrusvæðis eins og tíðrætt var um á Davos ráðstefnunni í Sviss í síðustu viku (PDF). Þá erum við að tala um helming V-laga kreppu í plús 90 gráðu stellingu (ca. svona ➘ ). Þetta finnst mér liggja í augum uppi. Niðurstaða: ekki er nóg með að stofnun myntbandalagsins hafi drepið hagvöxt evrusvæðis hin síðastliðin 11 ár, og gott betur en það ef aðlögunar- og undirbúningsferlið er einnig tekið með (the convergence phase). Skortur hagvaxtar til langframa mun þreyta og örenda efnahag þessara þjóðfélaga að eilífu.

Ofaní varanlegt brotthvarf hagvaxtar frá evrusvæðinu í heild, þá mun fækkun mannfjölda allra ofangreindra landa hin næstu 4-500 ár, nema Frakklands, hnýta endahnútinn á þá litlu slöngu velgmunar sem hugsanlega mun seytla svolítið frá til aldurshniginna þegna þessara landa á öllum næstu mörgum áratugum. Þetta blasir við. Ekki er hægt að skera svona niður án þess að lenda í því sem Martin Wolf bendir á. Þetta er kallað að skjóta sig í alla útlimi í einu (eða skera undan hagkerfunum) því ekkert komast þau áfram læst inni í myntbandalaginu, algerlega án kosta eigin gengis og sjálfstæðrar myntar, eins og Martin Wolf bendir svo réttilega á. Allt er þetta gert til að bjarga myntbandalaginu. Ekkert af þessu er gert til neins annars. Myntbandalagið hangir nú sem steypuklossi um háls landa evrusvæðis. Á meðan fer andlát hagvaxtar evrusvæðis fram í kyrrþei. Telegraph | FT | Myndskeið TV2 DK | AFOE: Is the capital account a Trojan horse?

Miðvikudagur 3. febrúar 2010

Frjálsir kjarasamningar í ESB í húfi?

Danska dagblaðið Politiken skrifar: Dönsk verkalýðsfélög eru afar óánægð með að yfirmenn Evrópusambandsins geti þröngvað launalækkunum í gegn í Grikklandi. Í fyrsta skipti í sögu hinnar sameiginlegu myntar Evrópusambandsins er evruland það nálægt ríkisgjaldþroti að ESB er því sem næst að yfirtaka stjórnun ríkisfjármála og hins opinbera í landinu.

Í dag munu yfirmenn Evrópusambandsins afhjúpa fyrir ríkisstjórn Grikklands bindandi áætlun þar sem miklar og bindandi kröfur verða gerðar til innheimtu skatta og niðurskurðar launa hjá opinberum starfsmönnum í landinu. Hér er ekki um að ræða vinsamlega beiðni. Hér er um að ræða skuldbindingu. Ef Grikkir brjóta skuldbindinguna þá munu þeir þurfa að greiða miljarða evrur í sektir.

"Aldrei fyrr hefur verðið sett fram svo nákvæmt, þröngt og ósveigjanlegt eftirlitskerfi með skýrslugerðarkvöðum og heimildum til refsiaðgerða", segir evrukommissar Joaquin Almunia.

Það er óttinn við að ástandið í Grikklandi muni ná að smita allt evrusvæðið með skulda- og gjaldþrotaáhættu, sem fær ESB til að koma með svo harkalegar kröfur á hendur Grikkjum, segir blaðið.

Politiken segir að hætta sé á að aðgerðirnar í Grikklandi muni vekja upp mikinn óhug út um alla Evrópu. Blaðið hefur eftir formanni launþegasamtaka opinberra starfsmanna í Danmörku, Dennis Kristensen hjá FOA (verkalýðsfélag opinberra starfsmanna), að það að Evrópusambandið sé að grípa inn í launamyndun og kjarasamninga sé algerlega ósamþykkjanlegt.

Dennis Kristensen segir að verkalýðsfélagið hafi aldrei skipt sér af þjóðaratkvæðagreiðslum í Danmörku. En það sé alveg á hreinu að ef við erum komin svo langt út á plankann að ESB sé farið að skipta sér af kjarasamningum og krefjast launalækkunar í löndum sambandsins, þá munum við taka upp til endurskoðunar hvort við eigum ekki beita okkur gegn því að Danmörk taki upp evru. Því þá er í raun launamyndun og hið frjálsa kjarasamningakerfi okkar í húfi fyrir alla Danmörku; Politiken

Kreppan er langt frá yfirstaðin. ESB er við það að springa í loft upp

Hinn heimsþekkti hagfræðingur Nouriel Roubini og Arnab Das hjá RGE eru með grein í Financial Times í dag. Samkvæmt henni er nýrri miklu-kreppu (Great Depression) kannski aflýst, en þeir eru þó ekki alveg sannfærðir um það. Húsnæðislánatröllriðin eru Ísland, Bandaríkin, Bretland, Spánn, Írland, mið og austur Evrópa. Tröllriðnir eru bankar Íslands, Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Rússlands og landa hinna gömlu Sovétríkja. Ríkisskuldatröllriðin eru Úkraína, Naftogaz, Dubai World, Grikkland og önnur sjúk lönd evrusvæðis.Grikkland er stórslys í uppsiglingu en vandamál Grikkja eru ekki einstök. Á lausn vandamála Grikklands hvílir líf evrusvæðis og kannski líf ESB í heild. Hriplekir ríkiskassar og ósamkeppnishæfni eru samnefnarar Suður-Evrópu. Vegna lánaveislu bankakerfis ESB og óstjórnar er Grikkland búið að verðleggja sig útaf útflutningsmörkuðum heimsins.

Spánn er tifandi tímasprengja. Bæði Spánn og Portúgal þurfa að innrétta samfélög sín uppá nýtt ef evrusvæðið á að lifa af. Þau passa ekki inn. Pólitískt byssuhlaup þvingar mörg lönd Evrópusambandsins út í djúpan niðurskurð [til að bjarga ESB og ESB aðild landanna]

Fátt nema djúpur og massífur niðurskurður ríkisútgjalda, miklar launalækkanir og hjöðnun kostnaðar mun megna að bjarga málum landa evrusvæðis. Þetta eru eru því lyfin. Án pólitísks samruna enda öll myntbandalög líf sitt. Fyrr en seinna mun skortur á pólitískum samruna og sameiginlegum klyfjaburði ríkisútgjalda eyða myntbandalagi Evrópusambandsins. FT

Norskir stýrivextir

Norskir stýrivextir á pásu, segja spámenn. Seðlabanki besta gjaldmiðils Evrópu, norsku krónunnar, lætur sennilega ógert að hækka stýrivexti enn frekar í Noregi í dag, ef spá peningaspámanna gengur eftir. Stýrivextirnir eru 1,75% núna. Þessi sjálfstæða fljótandi mynt Norðmanna hefur það eiginlega aðeins of gott og því mun seðlabanki Noregs líklega reyna að koma í veg fyrir frekari hækkun gengis norsku krónunnar gangvart öðrum gjaldmiðlum með því að hækka ekki stýrivexti frekar á tímabilinu fram að næsta vaxtaákvörðunardegi. Verðbólga virðist ekki bæra það mikið á sér að ástæða sé til að ráðast gegn henni með því að hækka vexti enn frekar í bili.

Norska ríkisstjórnin eyddi metupphæðum í að örva norska hagkerfið í kjölfar fjármálakreppunnar haustið 2008, eða sem svarar til 4,7% af landsframleiðslu Noregs. Þetta segir OECD. "Ef þið viljið koma í veg fyrir frekari hækkun norsku krónunnar ættuð þið að fylgja peningastefnu bandaríska seðlabankans", sagði hagfræðingurinn Nouriel Roubini á fundi í Osló fyrir nokkrum dögum. Seðlabanki Ástralíu lét í gær ógert að hækka stýrivexti ástralska dalsins frekar en orðið er. Þeir eru því ennþá óbreyttir á 3,75%. Ákvörðun seðlabanka Ástralíu í gær minnir okkur á að kælivökvar peningayfirvalda á næstunni muni koma í frekar slakri bunu, sagði norðmaðurinn Björn-Roger Wilhelmsen, sem er fyrrverandi hagfræðingur norska seðlabankans; Bloomberg

Er myntbandalag líka skuldabandalag?

Vefmiðillinn Business Insider skrifar að fjárfestar ættu að athuga gang sinn vel og vandlega þegar að skuldamálum landa evrusvæðis kemur. "Löndin á evrusvæðinu halda sum að þau séu ennþá sjálfstæð ríki". En því fer fjarri því þau eru bundin saman í gegnum sameiginlega mynt. Business Insider vill greinilega halda því fram að þó svo að ekki sé um eignlegt pólitískt bandalag að ræða, þá séu löndin engu að síður bundin saman í eins konar skuldabandalag í gengum sameiginlega mynt og því þurfi fjárfestar að huga vel að samanlögðum skuldum allra landa evrusvæðis í einu.

Þessar skuldir eru hrikalegar og bendir Business Insider fjárfestum á grein í Financial Times sem segir að ríkisstjórnir evrusvæðis hafi á einum mánuði tekið að láni 110 miljarða evrur á mörkuðum. Þetta er bara smá brot af því fjármagni sem þessar ríkisstjórnir muni þurfa að taka að láni á þessu ári. Þetta mun þvinga upp ávöxtunarkröfur og ýta veikari löndum með slaka lánshæfni út í vítahring sífellt hærri vaxtabyrðar. BI

Þriðjudagur 2. febrúar 2010

Mynd; samkeppnishæfni Finnlands. Því hærra gildi, því verri samkeppnishæfni

Samkeppnishæfni Finnlands

Bara við hefðum haldið okkur við finnska markið. Þetta segja sumir í Finnlandi núna. En það er of seint að gera eitthvað í þeim málum núna, því frá árinu 2000 er gjaldmiðill Finnlands evra. Það er ekki hægt að skila henni til baka og fara í gömlu finnsku vinnufötin aftur. Seðlabanki Finnlands birti um daginn yfirlit yfir finnska hagkerfið. Þar er hægt að sjá að samkeppnishæfni finnska hagkerfisins hefur versnað mikið allar götur frá því að Finnland gekk í myntbandalag Evrópusambandsins. Samkvæmt tölum hagstofu ESB og hagstofu Íslands var samdráttur í landsframleiðslu Finnlands á milli ára mun verri en á Íslandi hina síðustu 4 ársfjórðunga, þ.e. frá fj.4-2008 til fj.3-2009.

Finnland virðist í síauknum mæli reiða sig á að geta búið til ný störf í hagkerfinu í gegnum útflutningsgreinar landsins. En það versta fyrir Finna er að verðið á vörum þeirra erlendis er að mestu ákveðið í Brussel, en ekki í Helsinki. Það eina sem Finnar geta reynt að hafa áhrif á er á hvaða tímalaunum launþegar í Finnlandi vinna. Þessi tímalaun verða fyrir pressu frá m.a. innflæði fjármagns og lánveitingum bankakerfis Finnlands og svo af einokun í dreifingarkerfinu, sem er mikil í mörgum löndum ESB. Nú er svo komið að Finnland, Danmörk og Írland eru dýrustu lönd ESB. Þessi lönd ráða engu um gengi gjaldmiðils síns. Það mun því ekki reynast Finnum né Dönum auðvelt að pressa tímalaun launþega nægilega mikið niður á meðan þessi dýrtíð geisar í Finnlandi og Danmörku.

Mun auðveldara er bara að flytja framleiðsluna úr landi. En það er einmitt það sem Finnsk og Dönsk fyrirtæki gera. Þann 18. janúar tilkynnti finnski vélaframleiðandinn Wärtsilä að það er það sem þeir munu gera - til viðbótar þeim finnsku skógar- og tréiðnaðarfyrirtækjum sem hafa flutt til Svíþjóðar. Tréiðnaðarfyrirtækin geta ekki flutt lengra því finnski skógurinn er frekar illa flytjanlegur eins og er. En það er hagstætt gengi sænsku krónunnar sem fær finnsk fyrirtæki til að flytja framleiðsluna til Svíþjóðar.

The Wärtsilä 20 generating set production in Vaasa Finland is planned to be closed and moved to China in order to stay competitive in this market.

Hér gengur því allt eins og til var ætlast. Rökin fyrir stofnun myntbandalagsins voru einmitt þau að húsmóðirin í svarta kjólnum í Róm og Barcelona yrði að geta vitað hvað brauðið í bakaríinu á Hilla Sillalagötu 16 í Helsinki kostar. Gagnsæ verð. "One money - one market" hét það. Nú líður húsmóðurinni í Róm og Barcelona miklu betur. Hún veit hvað brauðið í Finnlandi kostar.

Það er bara eitt smá vandamál hér til viðbótar. Húsmæðurnar tvær munu ekki fara til Finnlands til að kaupa brauð. Þær tala heldur ekki finnsku. En það sem er þó ennþá verra, fyrir húsmæðurnar og heimili þeirra, er það að enginn vill lengur fjárfesta í ítölskum, spænskum, grískum eða portúgölskum verksmiðjum svo heimilistekjur heimila þeirra geti staðið undir innkaupaferð í bakaríið í Helsinki. Tímalaun þessara landa er svo hátt núna að fjárfestar vilja ekki staðsetja fjármagn í framleiðslugetu þessara landa.

Finnska brauðið í bakaríinu á Hilla Sillalagötu 16 í Helsinki mun því ekki skipta neinu máli fyrir heimili þessara landa í suðri. Brauð landa Suður-Evrópu munu áfram verða keypt í næsta bakarí, sama hvað hönnuðir myntbandalagsins sögðu. En hver man lengur hvað þeir sögðu? Ekki almenningur. Hann fer bara á kassann og verður atvinnulaus. Kassinn sem alltaf er staðsettur og fjármagnaður af fólki í næstu götu.

Framleiðslugeiri evrusvæðis tekur við sér í gömlu kjarnalöndunum

Framleiðslugeiri gömlu 1957-kjarnalanda evrusvæðis nýtur framgangs, samkvæmt nýjustu tölum Markit PMI vísitölunnar. En það öndverða er hins vegar að gerast í löndum Suður Evrópu. Þar heldur samdrátturinn bara áfram. Eins og Ambrose Evans-Pritchard skrifar:German goods are flooding the South. In the 12 months to November, Germany-Benelux had a current account surplus of $211bn: Spain had a deficit of $82bn, Italy $74bn, France $57bn, and Greece $37bn

Ambrose Evans spyr líka að því hvort Þýskaland ætti ekki bara að yfirgefa myntbandalagið og taka þýska markið í notkun á ný. Væri það ekki besta lausnin fyrir alla? Nema að lönd myntbandalagsins treysti sér til að fara að krefjast þess að hagkerfi Þýskalands geri sig sjálft ósamkeppnishæft. Nú væri gott fyrir lönd Suður-Evrópu að hafa sitt eigið gengi. Þá væri staða þeirra ekki svona slæm. Tvíharða evrusvæði með kröftugu miðflóttaafli er nú fyrir alvöru að birtast í frekar óþægilegri mynd fyrir öll þau lönd sem eru aðilar að myntbandalagi Evrópusambandsins. Á toppinum eru Þýskaland og Frakkland ásamt Benelux löndunum. Á botninum er Suður Evrópa og Írland. Mun Finnland ganga í PIIGS klúbbinn? Meira um þetta hér; Credit Writedowns

Veðrið verður kallt áfram segir veðurstofan

31 frostdagur var í Danmörku í janúar. Varla er hægt að segja að hitastigið hafi farið upp fyrir frostmark síðan fyrir jól. Meðalhitastig í Danmörku í janúar var -3,2 gráður. Þetta er langt undir því venjulega sem er 0,0 gráður; DMI

Mánudagur 1. febrúar 2010

"If Greece goes under that's a problem for the eurozone. If Spain goes under it's a disaster," - Nouriel Roubini

Evran í hættu sem hugsanlegur valkostur við Bandaríkjadal

Á Bloomberg og í Business Week í dag er löng grein sem segir að fjárfestar séu að draga sig út úr evru sem gjaldmiðli og að seðlabankar heimsins séu að minnka forða sinn af evrum. Í raun eru fjárfestar að fylgja fordæmi seðlabankanna segir blaðið. George Soros segir að í raun sé enginn raunverulegur valkostur til sem getur komið í stað Bandaríkjadals sem gjaldeyrisforða-gjaldmiðill seðlabanka heimsins. Undanfarin misseri hafa seðlabankar heimsins bætt evrum í forðasöfn sín á kostnað Bandaríkjadals. En samkvæmt þessari frétt er þetta ekki lengur tilfellið. Undirliggjandi ástæða er ríkisskuldavandamál þeirra landa sem standa að baki gjaldmiðlinum evru, og þau vandamál munu ekki leysast á næstu mörgum árum. Virðast aðilar markaðarins trúa á frekar mikið fall evru á þessu ári [en það er einmitt það sem evran þarf af gera, svo varla getur gengisfall verið aðalástæðan fyrir minnkandi trú seðlabanka á evru sem gjaldmiðli]. Búist er við mesta falli evru á einu ári frá því myntinni var ýtt úr vör árið 1999.

“Greece is the catalyst, but it goes to the root of the entire structure of the euro,” said Adnan Akant, who helps oversee $39 billion as head of foreign exchange in New York at Fischer Francis Trees & Watts. “The U.S. and Asia are likely to outpace Europe in the economic recovery. That’s reason enough” to bet against the euro, he said.

Blaðið vitnar í hagfræðinginn Nouriel Roubini sem sagði að þegar litið sé fram á við er skipbrot og upplausn myntbandalagsins alls ekki úr augsýn, hættan er til staðar. Verðbréfasalar hafa selt evrusvæðis-eignir í samfleytt 19 vikur og þar með tekið 13 miljarða dala virði út úr efnahagskerfi evrusvæðis á sama hátt og þeir gerðu þegar fjármálakreppan geisaði haustið 2008. Seðlabankar gera nú það sama sýna nýjustu gögn frá AGS, þ.e. pakka saman og fara úr evru; Bloomberg | BW

Evrusvæðið í hættu

Ambrose Evans-Pritchard segir í grein á Telegraph að viðbrögð ráðamanna í Þýskalandi við vandamálum Grikklands hafi komið af stað miklum flótta fjármagns út hagkerfum Suður-Evrópu. Þessi neikvæðu viðbrögð í Þýskalandi hafi komið þrátt fyrir að Þjóðverjar geri sér grein fyrir því að ríkisskuldakreppa sumra landa evrusvæðis geti haft gereyðandi áhrif fyrir allt myntsvæðið; Telegraph

Lánsfjárskortur ríkir á evrusvæði

Í enn óbirtri skýrslu seðlabanka evrusvæðis segir blaðið Financial Times að þar standi að lánveitingar bankakerfis evrusvæðis séu enn að dragast saman. Þar af leiðandi mun efnahagur landa evrusvæðis jafna sig seinna en efnahagur Bandaríkjanna. Svo virðist sem fjármálamarkaður evrusvæðis virki ekki sem skyldi og að uppþornaðar lánveitingar bankakerfisins munu ekki ná að smyrja hjól atvinnulífsins eins og til var ætlast; FT

Hvað myntbandalagið þarf að gera til að geta lifað af

Wolfgang Münchau er með grein í FT í dag þar sem hann segir hvað evrusvæðið þarf að gera til að geta lifað af. Wolfgang Münchau hefur lengi verið einn af áköfustu aðdáendum myntbandalagsins. En nú er trú hans á langlífi myntbandalagsins að hverfa. Til þess að myntbandalagið geti lifað af þarf það að hans mati að gera fjóra hluti; 1) koma sér upp krísuviðbúnaði sem getur tekist á við vandamál á borð við ríkisgjaldþrot. 2) Til þess að geta lifað af þarf myntbandalagið eyða sínu innra ójafnvægi sem er undirrót fallhættu myntbandalagsins. [ En það var einmitt þetta sem sjálft myntbandalagið átti að lækna, til þessa var það stofnað - að jafna út mismuninn landanna á milli. Nú segja margir að það þurfi að laga þetta innra ójafnvægi svo myntbandalagið geti lifað af. Þetta er að snúa tilgangi myntbandalagsins á haus. Hver er þá hinn eiginlegi tilgangur myntbandalagsins núna, ef ég má vera svo frakkur að spyrja]. 3) Endurhanna löggjöfina fyrir fjármálakerfið á evrusvæði. 4) Endurbyggja hinn svo kallaða innri markað, hann er í rúst, segir Münchau. [hann hefur aldrei virkað og er ennþá einungis kenning á blaði]; FT

SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA

http://www.tilveraniesb.net/stuttar-vikufrettir