Svartur dagur í sögu Danmerkur
Gunnar Rögnvaldsson 4. janúar 2010
Svartur dagur í sögu Danmerkur. Í grein Ditte Staun, Lave K. Broch og Bjørn Elmquist í Jyllands Posten þann 21. desember 2009, segir að gildistaka Lissabon sáttmálans í Danmörku sé svartur dagur í sögu landsins því þessi nýja Lissabon stjórnarskrá ESB sé ólögleg samkvæmt stjórnarskrá Danmerkur. En danska stjórarskráin krefst þess að öll eftirgjöf sjálfstæðis og fullveldis landsins verði að fara út til þjóðaratkvæðagreiðslu ef 5/6 hlutar þingsins séu ekki samþykkir eftirgjöfinni. Sá stuðningur var ekki til staðar í þinginu. Almenningur var svikinn um þá umræðu sem hefði átt að fara fram, því tveir stærstu flokkar landins neituðu að ræða innihald þessarar nýju stjórnarskrár ESB við síðustu þingkosningar í landinu. En nýja Lissabon stjórnarskráin hefur nú þegar tekið gildi í Danmörku. Flokkarnir vísuðu aðeins til þess að lögspekingar ríkisstjórnarinnar skyldu fyrst meta hvort Lissabon stjórnarskráin þýddi eftirgjöf sjálfstæðis.
Hópur borgara í Danmörku reynir nú að fá leyfi til að taka málið upp fyrir dómstólum. "Að maður þurfi að berjast fyrir því að fá leyfi til að koma með þetta mál fyrir dómstóla er skandall", segja greinarhöfundar.
Björn Elmquist er lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður Venstre og Radikale. Hann var einnig formaður fyrir Retspolitisk Forening og stjórnarformaður Amnesty International. Hann var kosinn hugrakkastur stjórnmálamanna í Danmörku árið 1995. Ditte Staun er talsmaður lýðhreyfingarinnar gegn ESB aðild Danmerkur. Lave K. Broch er formælandi fyrir “ESB-gagnrýnið netverk” hjá Radikale.
Höfundar segja að það sé stórt vandamál fyrir lýðstjórn og lýðræði í Danmörku að ný stjórnaskrá ESB sé innleidd án þjóðaratkvæðagreiðslu, því þessi nýja stjórnarská muni einmitt takmarka danska lýðstjórn í eigin landi. Nýja Lissabon stjórnarskráin mun þýða að ESB mun geta ráðið yfir Danmörku á mörgum sviðum löggjafar, með einföldum meirihlutaákvörðunum frá Brussel. Verst af öllu er það að nýja Lissabon stjórnarskráin er skrúfuð þannig saman að hægt er að auka við völd Evrópusambandsins án þess að nýir sáttmálar þurfi að koma til.
"Fyrsti desember var því svartur dagur fyrir þig sem Dana, því þann dag fékkstu nýja stjórnarskrá án þess að hafa verið spurður að neinu og í mörgum tilfellum án þess að fólk vissi af því." Jyllands Posten
Bjørn Elmquist
Ditte Staun