# 485 - 2010 - vika 19 og 20 - til 23. maí 2010

VIKA 19 og 20 2010

Föstudagur 21. maí 2010

PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan

PDF snið vika 19 og 20 2010

Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða

Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín

Norðurslóðir

Horft yfir sundin og kominn heim

Þá er stóra skrefið yfir eystri Atlantsál stigið og fast Ísland aftur komið undir fætur mínar. Það er afskaplega gott að vera kominn heim til Íslands eftir 25 ára fjarveru. Ég byrjaði strax á því að tryggja mig gegn verðbólgu með því að kaupa 12 lítra af Coca Cola Light. Þetta er skiljanlegt því á þeim stað sem ég kom frá kosta 2 lítrar af kók tæplega 700 ISK. Mismuninum gæti ég að vild eytt í íslenskt grænmeti þ.e.a.s. ef grænbólga brytist út. En auðvitað endaði mismunurinn í harðfiski, íslensku smjöri (hreinu), sviðum og Egilssíld. Maðurinn sem stýrði kælidisknum fræddi kjánann mig á því að lambahakk héldi ekki lengur "rauðum lit" á kæli og fengist því ekki. Ég trúði honum ekki. Þetta ætla ég kanna nánar. Áberandi finnst mér hve þjónustulund var vingjarnleg, góð og glaðleg á þeim stöðum sem ég hef þurft að sækja þjónustu.

Verðhrun markaða, óöryggi og svartýni

Ég hef ekki náð að fylgjast fullkomlega með undanfarna daga. En útbreidd svartýni og niður á við þrýstingur virðist vera að koma trú, kjark og áhættusókn fjárfesta á kné víða um heim. Við þurfum víst að muna að þessar vikurnar eru þessir sömu fjárfestar í Evrópusambandinu kallaðir "spákaupmenn" og "úlfaflokkar" (Wolf Pack). Sérstaklega í Svíþjóð segir FT. En Svíar státuðu þó áður af því að hafa framleitt elgfrían Saab sem þoldi að keyra á elgdýr án þess að efri hluti bifreiðarinnar léti undan. En svo varð Saab "úlfaflokki spákaupmanna" að bráð! Átakanlegt og frekar hallærislegt, ef maður má segja svoleiðis.

Svo virðsit sem ótti við verðhjöðnun sé að verða óttanum við verðbólgu yfirsterkari. Ljóst er að ömurlega brothætt bankakerfi evrulanda stendur og skelfur eins og Royal súkkulaðibúðingur á tyllidögum. Ennþá á eftir að vinda ofan af miklum uppgírunum útlána frá fyrri árum (deleveraging). En hve mikið er að marka vísbendingar um verðhjöðnun í núverandi ástandi í ljósi þess að fyrri hluti ársins 1921 bauð upp á verðhjöðnun í Þýskalandi, en á seinni hluta þess sama árs var verðbólgan í Þýskalandi komin upp í 500%. Allt þetta innan eins og sama ársins. Þökk sé verðbólguvæntingum sem fóru úr böndunum og litlu öðru; FT

Þýsk örvænting

Ríkisstjórn Þýskalands viðrist vera að tapa sér í örvæntingarfullri viðleitni við að róa niður þýska þingheiminn, sem skiljanlega krefst einhverra "aðgerða" í kjölfar björgunarpakka ESB, og sem lítil önnur áhrif virðist haft haft en að reita þingið til reiði og örvæntingar. Þingið vill fá að sjá "blóð fljóta", sama hverra blóðið er. Sjá blóð fyrir alla peningana sem kanslarinn fyrir Þýskalands hönd álpaðist til að semja um í "bara eitthvað annað en Guð hjálpi evrunni" örvæntingarkasti um miðja nótt í reykfylltum salarkynnum Brussel.

Nú hefði komið sér vel að hafa "á Guð við treystum" prentað á evruseðla eins og forsjálir Bandaríkjamenn vissu að væri oft það besta sem hægt væri að treysta á - og létu því prenta þá traustsyfirlýsingu á seðlana sem ekta-seðlabanki Bandaríkjanna gefur út. En auðvitað er svona "bandarískur hégómi" fyrir neðan virðingu svo kallaðra "Evrópumanna". Þeir völdu því gríska €-táknið í staðinn. Já gríska €-táknið á seðlana ásamt undirskrift franska embættismannsins Jean-Claude Trichet; Eurointelligence

Ríkisskuldaeldfjall Grikklands

Lánshæfnismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur framkvæmt þá skuggalegu útreikninga að bara smávægilegt hagvaxtaráfall í Grikklandi á næstu árum muni ná að skrúfa skuldabyrði gríska ríkisins frá 140% af landsframleiðslu og upp í 170% af landsframleiðslu. Fáir efast um að massífur niðurskurður ríkisins muni hafa eyðileggjandi áhrif á hagvöxt í Grikklandi, undir hinu læsta og heftandi evru gengisfyrirkomulagi landsins. Þessa dapurlegu útreikninga þyrfti Icesave ríkisstjórn Íslands að skoða; FT | Eurointelligence

Þriðjudagur 18. maí 2010

Hvað gerðist í Berlín, Brussel, Bundesbank og víðar evru-björgunarhelgina 7. til 9. maí ?

Áhugaverða grein frá því í gær er að finna á vefsetri Der Spiegel. Hér eru tvær málsgreinar, áherslur eru mínar

Frankfurt am Main, Bundesbank, 10:30 p.m.

Bundesbank President Weber updates his fellow executive board members with the latest news from Berlin and Brussels. He reports that the European Central Bank has decided to buy up the bonds of countries needing credit, possibly by as early as Monday. There is a moment of shocked silence, because everyone participating in the conversation knows what this means: It invalidates the Maastricht Treaty, the euro zone is now jointly and severally liable for all member states, and the European Central Bank is losing its independence by yielding to political pressure and getting into the business of the monetary financing of countries.

One of the Bundesbank executive board members asks Weber whether he has made the chancellor aware of the consequences. Weber answers that he voted against the purchase of government bonds in the governing council of the European Central Bank, but that he was outvoted. In addition to Weber, ECB chief economist Jürgen Stark and Nout Wellink, president of the Dutch central bank, are also against the idea.

Der Spiegel; 'We Only Have One Shot'

Mánudagur 17. maí 2010

Laun þurfa að falla um 20-30 prósent

Poul Krugman bendir á þá vantvitrænu staðreynd sem Wolfgang Munchau skrifar um hér, að laun launþega og launakostnaður í jaðarlöndum evrusvæðis þurfa að falla um 20-30 prósent svo hagkerfi þessara landa geti orðið samkeppnishæf við Þýskaland. Svo gríðarlega stóra bólu hefur "þveröfug-við-okkar-þarfir" peninga- og vaxtastefna seðlabanka Evrópusambandsins búið til í jaðarlöndum evrusvæðis á síðustu 11 árum.

En segir Krugman - og þetta er mjög stórt en - það sem of fáir hugsa hins vegar út í er sú staðreynd að Lettland (sem nú hefur sett heimsmet í efnahagshruni nokkurs lands nokkurn tíma, enda fast í ERM Evru-Víetnam-ferli Evrópusambandsins) er að reyna að lækka laun og launakostnað í Lettlandi með tröllauknum niðurskurði á flestum sviðum. Atvinnuleysi í Lettlandi hefur þar af leiðandi rokið upp frá 6 prósentum og upp í og yfir 22 prósent. En þrátt fyrir þetta hefur launakostnaður aðeins fallið um 5,4 prósent frá því hann var í hámarki við upphaf lettneska efnahagshrunsins. Því mun Lettland áfram verða í alvarlegu niðurskurðar- og kreppuástandi árum saman, segir Krugman; Et Tu, Wolfgang?

Já. Þetta átti allt saman að lagast með tilkomu evrunnar, var okkur sagt í ESB þegar henni var þvingað upp á svo marga Evrópubúa. En ekkert hefur lagast með tilkomu evru og ekkert mun lagast á meðan hún er til. Þetta á allt saman aðeins eftir að verða miklu verra en það er orðið nú þegar.

Þeir sem standa á palli og predika þessa samfélags- og efnahagspólitík (massífan niðurskurð og læst gengisfyrirkomulag í gegnum sameiginlega mynt), hafa alveg gleymt því að Þýskaland mun ekki bara leggjast á bekk hjá kreppusálfræðingi og hætta að keppa áfram á kostnaðar- og gæðagrundvelli við öll jaðarlönd evrusvæðis - og allan heiminn.

Þessi evrulönd sem nú eru kölluð PIIGS munu aldrei ná samkeppnishæfni sinni við Þýskaland á strik. Aldrei. Þau eru því miður læst inni í föstu gengisfyrirkomulagi við Þýskaland. "Evrusvæðis-samkeppnishæfni" þeirra er eins dauðadæmd og evran er að verða. Þ.e.a.s. fram til þess dags sem þau munu losna úr evruhandjárnunum. Þau munu ekki ná sér deginum fyrr.

Að einblína á evrusvæðið og 27 lönd Evrópusambandsins eru hræðileg mistök gamaldags tollabandalags. Tíminn er hlaupinn frá ESB. Þau lönd sem létu ekki blekkjast og héldu fast í sína eigin mynt eru lánsöm. Heimurinn allur og markaðurinn sjálfur mun verðlauna þau fyrri að hafa haldið skynsemi sinni heilbrigðri með virku afli sjálfstæðis. Ekkert annað afl mun halda skynseminni heilbrigðri fyrir þau.

Föstudagur 14. maí 2010

Myndir: Handelsblatt

Lygarar evru-myntbandalagsins

Þýska viðskiptablaðið Handelsblatt var með harðorða grein í blaðinu í gær undir yfirskriftinni "evrulygarar - hvernig þeir sviku loforð sín". Evran er góðviðris mynt, segir blaðið, hún þolir ekki álag. Undir álagi hefur ECB-seðlabanki Evrópusambandsins hent öllum grundvallarreglum seðlabankans og myntbandalagsins fyrir borð. Blaðið rekur 6 þátta atburðarrás svikinna loforða.

Fyrsta loforðið var: Uppfylla þarf þrjú skilyrði fyrir aðild að myntbandalaginu. Þau lönd sem uppfylla skilyrðin geta tekið upp evru - Theo Waigel nóvember 1996.

Fyrsta loforð svikið: þetta árið uppfylla engin af 16 löndum myntbandalagsins þessi skilyrði. Ríkissjóðir myntbandalagsins eru að meðaltali reknir með 6,6% tapi. Ekkert bendir til að þetta lagist á næstu árum. Ríkissjóður Írlands er rekinn með með 11,7% tapi.

Annað loforðið var: "evran verður að minnsta kosti eins góður og stöðugur gjaldmiðill eins og þýska markið var" - Theo Waigel nóvember 1996.

Annað loforð svikið: evran hefur frá 1999 sveiflast meira gagnvart dollar en þýska markið gerði síðustu 10 árin í lífi þess. Þetta gerðist þrátt fyrir að verðbólga var aðeins 1,5% að meðaltali á fyrsta áratug evrunnar. En á síðasta áratug þýska marksins var verðbólgan 2,5%. Þrátt fyrir þetta hefur evran verið óstöðugri mynt.

Þriðja loforðið var: Eftir að við fáum evru mun þýska þjóðin gleyma þýska markinu - Helmut Kohl, apríl 1998.

Þriðja loforð svikið: Staðreyndin er sú að margir Þjóðverjar vilja fá þýska markið aftur. Samkvæmt rannsókn GDZ-Bank vilja 44% Þjóðverja leggja niður evruna og fá þýska markið aftur strax.

Fjórða loforðið var: Það er enginn seðlabanki í heiminum eins óháður og sjálfstæður eins og ECB-seðlabankinn - Wim Duisenberg, júní 1998

Fjórða loforð svikið: Staðreyndin er sú að eftirmaður Duisenberg, Jean-Claude Trichet, hefur brotið allar reglur peningastefnunnar samkvæmt öllum reglugerðarbókum. Hann kaupir ríkisskuldabréf. Hann prentar peninga og hendir regluverki peningastefnu seðlabankans fyrir borð. Samkvæmt yfirhagfræðingi Deutsche Bank, Thomas Mayer, er ECB-seðlabankinn nú orðinn handlangari ríkisstjórna evrulanda.

Fimmta loforðið var: Ekkert eitt land eða ein ríkisstjórn á evrusvæðinu mun fá neina sérmeðferð hjá ECB-seðlabankanum. "Seðlabanki Bandaríkjanna breytir ekki regluverki eða stefnu sinni vegna eins einstaks fylkis í Bandaríkjunum" - Jean-Claude Trichet, janúar 2010

Fimmta loforð svikið: Síðan þann 3. maí 2010 tekur ECB-seðlabankinn við ríkisskuldabréfum Grikklands þó svo að þau uppfylli ekki kröfur um veðhæfni því þau eru í ruslflokki. Þetta var gert vegna yfirvofandi ríkisgjaldþrots Grikklands og bara fyrir Grikkland.

Sjötta loforðið er: Lofað er að eyða áhrifum aukins peningamagns í umferð vegna sérstakra aðgerða seðlabankans sem er bein afleiðing neyðar- og björgunaraðgerða myntbandalagsins, þ.e. bankinn fer út og kaupir ríkisskuldabréf á markaði fyrir peninga sem hann prentar sjálfur.

Sjötta loforð svikið: Þetta er síðasta loforð ECB-seðlabankans. Hann segist hafa til ráðstöfunar tól og tæki sem sjúga inn samsvarandi peningamagn úr umferð og hann býr til eftir að bankinn á algerlega tilviljanakenndan hátt er kominn út í ríkisskuldabréfakaup. Hann segist þannig ætla að koma í veg fyrir verðbólgu. Hvort þetta takist hjá ECB eru sérfræðingar efins um; Handelsblatt

Fimmtudagur 13. maí 2010

ECB-seðlabanki Evrópusambandsins féll á fyrsta prófinu

Hagfræðingurinn Charles Wyplosz er harðorður og skiljanlega vonsvikinn vegna þeirrar myntbandalags-björgunaraðgerðar sem soðin var saman um miðja nótt í Brussel um síðustu helgi.

ECB-seðlabankinn er fallinn á fyrsta prófinu, segir Wyplosz. Árum saman hefur hann nöldrað í evruríkjunum vegna smáatriða. Nú nota forsprakkar evrusvæðis seðlabankann til að bjarga evruríkjum frá gjaldþroti. Þetta er þverbrot á þeim reglum sem bankanum voru settar. Hann mun líklega skuldsetja sig.

This feat would be more impressive if the money was indeed available. Unfortunately, so far at least, it is an empty shell. It is surprising that the financial markets bought into it but then they did initially buy into several previous plans only slowly realize that the facts were short of the promises

En þetta er ennþá verra. Þeir peningar sem á að nota til að bjarga myntbandalaginu eru ekki til. Enginn þeirra sem voru í Brussel nóttina frægu hefur neina lagalaga heimild til að gera það sem gert var þ.e. að skuldbinda skattgreiðendur í löndum sínum. Þess utan er enginn "myntbandalags-skattgreiðandi" til.

The most troubling aspect is that this move is clearly part of the overall package. One can interpret it as emergency efforts to avoid another Lehman-style collapse. Alternatively, one could conclude that the ECB’s famed independence has not survived its first test

Þar fyrir utan þá eru ekki til neinar "opinberar-evrusvæðis-skuldir" því það er ekki til neinn "myntbandalags-skattgreiðandi" á svæðinu. Á kannski að búa hann til núna í hvelli? Markaðirnir hafa ekki ennþá náð að skilja þetta. En þegar þeir loksins skilja hlutina þá mun fara illa fyrir sumum löndum: Charles Wyplosz á Vox

Já. Myntbandalagið er orðið eins og risastór banki. Of stór mistök til að bjarga. Það eina mögulega sem eftir er, er að prenta fleiri peninga - og þá hoppar Þýskaland út um einka gluggann.

Keisarinn er klæðalaus

Leyfi mér að benda hér aftur á 6 mínútna langt viðtal við John Taylor. Langtíma fjárfestar eru nú á leið út úr evrusvæðinu (FT). Þeim líkar ekki það sem þar er að gerast: 11 maí 2010: John Taylor: um björgunarpakka evrusvæðis

Miðvikudagur 12. maí 2010

Stutt en athyglisvert viðtal

Var þetta þá eftir allt saman ekki Alan Greenspan að kenna? Örstuttur úrdráttur: Martin Wolf aðalritstjóri efnahagsmála á Financial Times heldur því fram í viðtali þann 7. apríl að orsök fjármálakreppunnar sé ekki að finna í peningastefnu seðlabanka heimsins og heldur ekki í þeirri sem viðhöfð var í seðlabanka Bandaríkjanna á meðan Alan Greenspan sat þar sem yfirmaður. Í stuttu máli var um bankabólu að ræða. Bankar fengu leyfi til að starfa með allt of litlu eigin fjármangi á kistubotninum. Þar við bættist gífurlegt innflæði fjármagns frá fjármagnseigendum í löndum Asíu. Þegar krísan skall á voru bankarnir varnalausir. Sem sagt; þetta er bönkunum "að kenna" og þeim sem áttu að hafa eftirlit með þeim [og svo auðvitað þeim sem skuldsettu sig upp fyrir haus með ódýru lánsfé úr bönkunum; G.R]. Ekki er við seðlabanka Bandaríkjanna að sakast, segir Martin Wolf. Viðtalið er hér: (opnast í WMP eða álíka forriti) MW - Bloomberg vefsíðan

Mun Grikkland yfirgefa ESB?

Í gær viðruðu bæði Nouriel Roubini og Michael Woolfolk þann líklega möguleika að gríska vandamálið yrði svo erfitt, þrátt fyrir alla björgunarpakkana, að Grikkland myndi yfirgefa myntbandalagið og ESB - hugsanlega innan næstu 12 mánaða. Að landið felldi þar á eftir gengið til að koma hagvexti í gang. Það er deginum ljósara að það eina sem getur komið Grikklandi á réttan kjöl aftur er hagvöxtur, mikill sterkur hagvöxtur og að lánadrottnar afskrifi hluta skulda. Michael Woolfolk telur líklegt að evran haldi áfram að falla og fari niður í 1 dollara eða jafnvel neðar. Af þeirri ástæðu mun seðlabanki Bandaríkjanna eiga mun erfiðara með að hækka stýrivexti þegar þess þarf; Roubini | Woolfolk (neðst)

Neue Zürcher Zeitung - Switzerland

Payday for Europe's illusions

Engin samúð frá Sviss

Svissneska dagblaðið Neue Zürcher Zeitung segir að evruríkin séu nú að greiða hið hæsta verð fyrir óraunhæft tálsýnar-myntbandalag. Þetta er allt saman þeim sjálfum að kenna (embættismönnum og stjórnmálamönnum ESB). Nú reyna þeir að kenna markaðinum og "spákaupmönnum" um sín eigin mistök og óraunhæfa tálsýn. Þegar myntbandalagið var stofnað héldu stofnendur þess að þeir gætu samhæft löndin og efnahag þeirra sem þátt tóku í myntbandalaginu. Sum þeirra nutu góðs af lágum vöxtum. En myntbandalagið vanrækti hins vegar á glæpsamlegan hátt að viðhafa aga í ríkisfjármálum. Enn einu sinni átti að reyna að hundsa lögmál frjálsra markaðshagkerfa; þeir sem tóku áhættu og uppskáru hagnaðinn verða að bera áhættuna. Þess vegna þarf að láta þá tapa á Grikklandi með skuldaafskriftum, sem er það eina raunhæfa; Neue Zürcher Zeitung | Euro Topics

Þriðjudagur 11. maí 2010

Þjóðverjar óttast um myntina

Ein elsta samfélags-rannsóknarstofnun Þýskalands framkvæmdi að beiðni blaðsins Bild am Sonntag skoðanakönnum meðal Þjóðverja. Þessi könnun var líklega gerð áður en björgunaraðgerðir helgarinnar áttu sér stað. Samkvæmt könnuninni vilja 59 prósent Þjóðverja að Þýskaland íhugi að taka aftur upp þýska markið ef evran verður varanlega "veikur gjaldmiðill". 40 prósent voru andvígir. Samkvæmt könnuninni óttast meirihluti Þjóðverja verðbólgu; MB | HULIQ

Myntbandalagið er hrunið

Fjármálaráðherra Danmerkur, Claus Hjort Frederiksen, segir með óbeinum orðum að myntbandalag Evrópusambandsins sé hrunið. "Myntbandalagið byggði á regluverki, eða eins konar stjórnarskrá, og nú er þetta hrunið". Honum finnst "ergilegt" að Danmörk þurfi að veita evruríkjum 9 miljarða danskra króna ríkisábyrgð fyrir fjárskuldbindingum sínum; JP/EPN

Mín skoðun: Sennilega getur hann ekki sagt nei án þess að verða sakaður um að vera andevrópskur og jafnvel þjóðernissinni, en það eru þau heiti sem Evrópusambandssinnar nota svo oft á þá sem eru þeim ósammála. Þegar rökin þrjóta þá er þessu nær undantekningalaust slengt framan í andlitið á andstæðingum. Á venjulegu mannamáli heitir þetta pólitískur rétttrúnaður og ósvífni.

Þetta er álíka og með eplin sem átti að gefa leikskólabörnum í Danmörku svo þau fengju vítamín og smá hressingu. Það mátti ekki gefa þeim eplin án þess að Brussel gerði það sama fyrir öll löndin. Svona er að vera "fullvalda ESB-ríki". Svo var skólum gert skylt að festa ESB-merkið vel og vandlega á veggina við epla- og mjólkurkassann svo börnin færu nú ekki á mis við andlit velgjörðarmannsins, þegar þau sækja sér þar gjafir. Þetta hefði Jósef Stalín ekki getað gert betur. Þetta kostar danska ríkið sennilega 9 miljarða pr. epli, miðað við ástand mála í dag og til lengri tíma litið

Var það sjálfur seðlabanki ESB sem verið var að bjarga?

Það er oft gaman að hlusta á dr. Marc Faber. Hann heldur því blákalt fram að björgunaraðgerðin í gær hafi í raun snúist um að bjarga sjálfum seðlabanka Evrópusambandsins. Nú er bankinn kominn í "prent-iðnaðinn", segir Faber. John Brynjólfsson segir að ECB-seðlabankastjórinn "hafi spilað póker en í enda dagsins komst heimurinn að því að hann var bara að blöffa". Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. MF Bloomberg | JB Bloomberg

Keisari án klæða

John Taylor yfirmaður hjá FX Concepts Inc sjóðnum segir að evran sé í útrýmingarhættu og að ekkert hafi breyst með tilkomu billjón dollara björgunarhrings myntbandalagsins. Hann sagði í viðtali að allt sé ennþá við það sama. Skuldir og vandamál Suður-Evrópu eru þarna ennþá og verða ekki leyst á þennan hátt. Það eina sem gagnast Suður Evrópu er að Þýskaland sendi auðæfi sín sem gjafir suður fyrir Alpafjöll. Fleiri og meiri lán hjálpa Suður Evrópu ekki.

"Ennþá vita menn ekkert um hvaða kvaðir fylgja lánum úr björgunarpakkanum og það mun fyrst koma í ljós eftir nokkra mánuði". Kóngurinn (myntbandalagið) er ekki í neinum fötum, sagði Taylor. Hann heldur að myntbandalagið muni lognast út af. Evrópa mun ekki sameinast í Bandaríki Evrópu eins og til þarf svo sameiginlegur gjaldmiðill geti gengið upp. En ESB keypti sér nokkurra mánaða frið með þessum aðgerðum, sagði Taylor: Bloomberg | Stytt/klippt viðtal

Þýski seðlabankinn var andvígur. Axel Weber: nei!

Axel Weber seðlabankastjóri Þýskalands og stjórnarmeðlimur í ECB-bankanum reyndi ekki að leyna því að þýski seðlabankinn væri algerlega andvígur því að nota það sem aðilar markaðarins í daglegu tali kalla fyrir "kjarnorku-möguleikinn" - en það er að koma markaðinum til aðstoðar með því að kaupa af honum þau ríkisskuldabréf sem hann vill ekki lengur eiga en getur ekki losnað við án mikils taps. Axel Weber greiddi því atkvæði gegn þessari aðgerð ECB-bankans og sagði hana vera "áhættusama".

Þessi ákvörðun brýtur að margra dómi gegn stofnsáttmálum myntbandalagsins. Hér eru þó ekki allir sammála. En það er þó deginum ljósara að andi sáttmálans var einmitt sá að komið yrði í veg fyrir að þetta yrði nokkurn tíma gert.

Axel Weber reyndi að senda áhyggjufullum landsmönnum sínum huggun með því að ítreka að seðlabanki Þýskalands væri á vaktinni á þeirra vegum. En sem sagt. Ekki var hlustað á þýska seðlabankann að þessu sinni frekar en árið 2005 þegar hann varaði við því að slakað væri á kröfum til hallareksturs ríkissjóða myntbandalagsins. En þá var slakað á kröfunum tímabundið; iMN

Mánudagur 10. maí 2010

Ímynd stöðugleika - frá forsíðu Handelsblatt í gær

Hvað ef? Hvað ef ECB er raunverulegur Frankenstein?

Hver mun greiða fyrr gjaldþrot seðlabanka Evrópusambandsins ef illa fer? Í reynd stendur enginn heill fjárhagslegur lögaðili á bak við seðlabanka Evrópusambandsins. Þeir sem standa ECB-bankanum eru einungis seðlabankar þeirra landa sem nota evru. En á bak við þá raunverulegu seðlabanka standa hins vegar ríkissjóðir landanna - raunverulegir ríkissjóðir sem eru hið eina óvéfengjanlega fjármagnsafl og lögaðili fyrir verðmæti frá þegnum landanna.

Under current Eurozone rules, each national fiscal authority stands behind its own central bank, but no fiscal authority stands directly behind the ECB

ECB-bankinn hefur ekkert svona afl. Hann svífur um í lausu lofti á milli samninga og sáttmála. Eitt eða fleiri lönd gætu lokað á fjármögnun til ECB. Gætu lokað á hann vegna vantrausts. Lokað vegna þess að landið treystir honum ekki lengur. Markaðurinn gæti hæglega komist að þessu og hefur örugglega þegar komist að þessu. Hvers virði eru veð ESB? Þau eru ekki öll ríkisskuldabréf. Þau eru investment grade (covered bonds). Svoleiðis pappíra samþykkja ekki allir raunverulegir seðlabankar. Ég þori ekki að hugsa þetta lengra. Bendi þess í stað á tvær greinar:

  1. Buiter’s warning: Who is the recapitaliser of last resort for the ECB?

  2. The European fiscal vacuum makes the ECB timid on quantitative and credit easing

"Við ætlum að verja evruna sama hvað það kostar" (skattgreiðendur borga)

Þetta sagði forseti Frakklands og Brussel-embættismenn um helgina. "Við munum verja evruna sama hvað það kostar", var sagt. En af hverju ætti að verja mynt sem er of hátt skráð fyrir svo mörg lönd evrusvæðis? Af hverju ekki bara leyfa henni að falla og falla? Þegar nánar er skoðað er það ekki gengi evrunnar sem á að verja. Það á að reyna að verja skuldavandamál evrulanda og upplausn myntbandalagsins. Það er það sem átt er við en menn hafa ekki kjark til að segja. En auðvitað er ekki hægt að verja lönd frá gjaldþroti til lengdar. Það mun einungis hafa gjaldþrot ennþá fleiri evruríkja í för með sér

Það væri algerlega forkastanlegt að eyða fjármunnum skattgreiðenda í að reyna að hindra hið óumflýjanlega. Það jafngildir því að hella peningum þeirra í sjóinn. Ef ríkisgjaldþrot sumra evrulanda er óhjákvæmilegt þá þarf að fá þau yfirstaðin og leyfa þeim að yfirgefa þann mekanisma sem kom í þeim í þessa aðstöðu

Lítið hefur heyrst í kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, en hún leið mikið fylgistap í fylkis-kosningum í gær, - og sunnudagurinn endaði því miður með því að fjármálaráðherra hennar var lagður inn á sjúkrahús í Brussel. Margir slæmir hlutir gerast samtímis. Þetta lyktar ekki vel. Þurfum við að biðja bænir okkar í dag? Er þetta dagurinn þar sem Evru-Frankenstein fær á sig tvo fætur og kemur til dyra eins og hann er klæddur? Markaðirnir banka á - banki banki!

Góður liðsauki bættist við með björtu ljósi vitavarða Evrópuvaktarinnar

Evrópuvaktin hefur opnað vefsetur og viti þeirra lýsir frá og með nú. Þar birtast fréttir, pistlar og greinar um Evrópumál og stjórnmál innanhúss á Íslandi. Að Evrópuvaktinni standa þjálfaðir menn þ.e. þeir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri. Þetta er kærkomið og bráðnauðsynlegt framtak. Ég sendi þeim og umsjónarmönnum setursins hér með mínar bestu óskir og þakkir fyrir framtakið.

Mér finnst sem það ríki undarleg þögn meðal ESB- og evruáhugamanna bæði hér í Evrópu og á Íslandi. Stundum velti ég því fyrir mér hvað þyrfti til svo þeir teldu að myntbandalagið teldist frekar skaðvaldur fyrir alla Evrópu og að Ísland ætti ekki að ganga í ESB. Þyrftu öll evru ríkin að verða gjaldþrota samtímis svo þeir sæju ljósið? - og þyrfti heila kjarnorkustyrjöld í Evrópu til að fá ESB trúboða Íslands til að endurheimta jarðsambandið við landið sitt góða á ný. Evrópuvaktin var einmitt með leiðara um þögnina: Þögn aðildarsinna

Best að halda áfram að pakka . .

http://www.tilveraniesb.net/stuttar-vikufrettir