# 486 - 2010 - vika 18 - til 9. maí 2010
VIKA 18 2010
Föstudagur 7. maí 2010
Mynd: top-10 listinn yfir lönd í mestri hættu á greiðslufalli. Ísland fór af þessum lista í gær.
PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan
PDF PDF_utgafa_vika_19_og_20_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Óttinn ræður ríkjum
Nú eru dýrðardagar fyrir þá sem trúa á grunnstærðir (e. fundamentalist) þ.e. fyrir þá sem láta ekki stjórnast af óttanum eða stormsveipum óttans á mörkuðum og í hagkerfum. Þeir fara út með innkaupakörfuna og kaupa á meðan óttinn ríkir og blóðið flýtur. Leiðarljós þeirra er yfirleitt einbeitt trú á einfaldar grunnstærðir.
Í gær fór Wall Street í panik þegar tölvukerfi tók um örskamma stund völdin og leysti uppsafnaðan ótta úr læðingi á meðan sjónvarpsskjár sýndu götuóeirðir í Grikklandi.
Hverju trúum við? Hvað trúum við á? Engin evrulönd hafa misst trúna á evrusvæðið sitt því trú þeirra á fyrirbærið var aldrei til staðar frá upphafi. Löndin þróuðust því í sitt hvora áttina, eins og allir sem vildu gátu séð. En á meðan var haldið stórt ECB-peningapartý í mörgum evrulöndunum. Sérstaklega í þeim löndum sem þegar voru byrjuð að hellast úr lest alþjóðasamkeppninnar áður en evrusvæðið var stofnað. Þessi lönd heita nú oft PIIGS og þvílíkt.
Ég trúi ekki á að það sé hægt að leysa vandamál evrulanda Suður-Evrópu, Írlands né Eystrasalts innan handjárna myntbandalagsins. Því held ég að við munum sjá stórslys gerast og að endirinn verði mjög sorglegur fyrir Evrópu. Grikkland er að verða Lehmansbræðra banki númer tvö. Hvað tekur svo við? Evruhrun? Evrulandahrun? Ný heimskreppa?
Kenneth Rogoff bendir á það í grein í Financial Times að rannsóknir hans og Carmen Reinhart sýni að það sé afskaplega erfitt og langt ferli að breyta landi sínu úr svo kölluðu "nýmarkaðslandi" og yfir í "þróað hagkerfi". Það tekur að meðaltali 75 ár eða lengur segir Rogoff. Þetta gæti þýtt að Ísland eigi ennþá eftir nokkurra áratuga líf sem eins konar "nýmarkaðsland".
Aðeins bilað fólk vill líma hið spræka og magnþrungna íslenska hagkerfi fast við gjaldmiðil hagkerfa gamalmenna. Gjaldmiðil hagkerfa sem verða að treysta á að eftirspurn frá útlöndum haldi í þeim lífinu. Svona lönd eru orðin útflutningsdópistar því innanlands eftirspurn heima hjá þeim sjálfum getur ekki lengur haldið samfélögum þeirra gangandi. Útflutningur heldur í þeim lífinu. Þetta þýðir að eftirspurn frá sterkari neytendum í útlöndum - eins og t.d. frá Íslandi - heldur í þeim lífinu. Þetta virðast Samtök Iðnaðar á Íslandi ekki hafa neina hugmynd um.
The fact that a country can repay its debt does not necessarily mean it should choose to do so.
Portúgal var svo seint sem árið 1984 í prógrammi hjá AGS. Síðasta greiðslufall Grikklands endaði á árunum í kringum 1965. Spánn á heimsmet í greiðsluföllum í seinni tíma hagsögu. Tólf talsins.
Svo eru sumir að krefjast þess að peninga og gjaldmiðlastjórn íslenska hagkerfisins sé eins og hjá heimsins þróuðustu hagkerfum, eða í öldrunarhagkerfum.
Það góða er þó það að Ísland er smá saman að mjakast út af því áhættukorti sem vinsælast er að skoða meðal peningamanna sem vilja síður tapa fé sínu. Þökk sé sjálfstæðri mynt Íslands. Ný lönd eru hins vegar komin inn á áhættukortið. Þau hafa enga sjálfstæða mynt og ekkert gengi. Þau eru bara evrulönd sem trúa á Brussel. Þau munu þurfa að fara með margar langar bænir á næstunni. Ég trúi á sjálfstæði og fullveldi Íslands - og krónuna; FT
Fimmtudagur 6. maí 2010
Pottþétt Ponzi kerfi seðlabanka Club Med?
Austurríska dagblaðið Der Standard skrifar að ECB-seðlabanki ESB taki nú á móti grískum ríkisskuldabréfum alveg án tillits til hvort þau hafi náð lágmarks lánshæfniseinkunn hjá alþjóðlegum matsfyrirtækjum eða ekki. Þetta er ábyrgðarlaust hjá ECB-seðlabankanum segir blaðið.
En þetta er hinsvegar mjög þægilegt fyrir banka í Evrópu og Grikklandi. Þeir taka peninga að láni á eitt prósent vöxtum í Frankfürt og fjárfesta þeim í hávaxta ríkisskuldabréfum Grikklands í suðri og leggja þau svo inn í seðlabankann sem tryggingu. Öll áhættan er lögð á herðar annarra landa evrusvæðis og skattgreiðenda þeirra.
Kannski er þetta bara byrjunin á því sem koma skal því ECB-seðlabankinn mun ekki geta neitað Portúgal, Spáni og öðrum evrulöndum í erfiðleikum um svona "undanþágur" segir blaðið.
Augu þeirra sem sáu ECB-seðlabankann sem verðugan arftaka Deutsche Bundesbank eru nú að opnast heldur betur, segir Der Standard. Það sem ECB-seðlabankinn stendur fyrir í dag er meira í ætt við drachma, escudos, lira og pesetas en skyldleiki seðlabankans er við þýska markið.
Fyrst var björgunarbann evrulanda brotið (e. no bailout clause) og nú eru þeir sem áttu að gæta gjaldmiðils okkar að stökkbreyta sér í Seðlabanka Club Med (PIIGS-seðlabanka). Sjálfstæði seðlabankans og reglum um stöðugleika er bara hent út í gegnum gluggann; Der Standard
Þýsku ríkisstjórninni stefnt í stjórnarskrárréttinn
Fjórir prófessorar í Þýskalandi gáfu út þá yfirlýsingu í gær að þeir ætli draga ríkisstjórnina í stjórnarskrárréttinn þann sama dag sem aðstoð Þýskalands við Grikkland verður samþykkt í þinginu.
Hópurinn samanstendur af Joachim Starbatty fyrrverandi hagfræðiprófessor við háskólann í Tuebingen. Karl Albrecht Schachtschneider fyrrverandi lagaprófessor og sérfræðingi í stjórnarskrárrétti við háskólann í Nuremberg. Þeim Wilhelm Hankel og Wilhelm Nölling prófessorum í hagfræði, en nú báðir hættir störfum. Nölling sat áður í stjórn þýska seðlabankans, Deutsche Bundesbank. Hér er viðtal við Nölling í þýska útvarpinu frá því í mars mánuði; DR | WSJ
Tvennir tímar
Úr því að ég minnist á þýska seðlabankann þá datt mér í hug að sumir lesendur hefðu gaman að því að kíkja aðeins í sögubókina aftur og skoða sjónvarps- og umræðuþátt sem prófessor Milton Friedman stóð fyrir á sjöunda átatug síðustu aldar. Þar kom bankastjóri Deutsche Bundesbank, Otmar Emminger, í þáttinn og fræddi viðmælendur um viðhorf þýska seðlabankans til verðbólgu. Otmar Emminger var þekktur á alþjóðlegum vettvangi peningamála. Hann sagði eitt sinn að "þeir sem döðruðu við verðbólgu myndu alltaf giftast henni". Hérna er þátturinn.
Milton Friedman PBS Free to Choose 1980 Vol 9 of 10 How to Cure Inflation
Miðvikudagur 5. maí 2010
Verðhrun grískra banka í gær (%)
Orð róma og orðrómur verður til. Geðbilun eða hvað?
Það er ekkert til í þessu sagði forsætisráðherra Spánar í gær. Úr ýmsum áttum hafði sá orðrómur borist að Spánn væri í þann mund að biðja um 280 þúsund milljónir af evrum frá … tja … frá þeim löndum í myntbandalaginu sem eru minna illa stödd er Spánn er. En það var sem sagt ekkert til í þessum orðrómi, sagði spænski forsætisráðherrann og kallaði þetta "geðbilun".
Auðvelt er að skilja reiði ráðherrans, en samt trúði markaðurinn ekkert sérstaklega á orð hans. Markaðurinn er orðinn því svo vanur að ráðamenn og ríkisstjórnir evrulanda ljúgi hraðar en þær hugsa. Ekkert er að í Grikklandi, var sagt svo lengi. Svo kom í ljós að þar var ekki allt í góðu lagi. Evrusvæði átti líka að vera fyrirmynd alls heimsins sagði Brussel síðasta haust. Ekkert jafnaðist á við að komast inn í klúbbinn, hann veitti löndum svo mikla vörn.
Fjármálaráðherra Þýskalands fullvissaði okkur í fyrra um að flest slæmt væri Bandaríkjunum að kenna. Svo kom Brussel allt í einu og sagði að lyfið sem evrulöndunum var gefið fyrir 11 árum virkaði bara alls ekki. Að flest væri orðið ennþá verra en það var áður er myntbandalagið var fundið upp.
Svo sagði ESB og ECB-seðlabankinn okkur að AGS yrði aldrei hleypt inn á evrusvæðið. AGS er kominn til Grikklands núna og er í þann mund að hefja niðurskurð á landinu, sundur og saman. Seðlabankinn skipti þarna um skoðun á einu bretti.
Svo kom herra seðlabankastjóri ECB aftur út á svalirnar í janúar og sagði að það væri bara ein evra til og að engar undantekningar yrðu veittar frá reglusetti bankans fyrir nein ein lönd. Þessu breytti bankinn í gær og var þar með enn ein U-beygja bankans tekin. Hann keyrir nú í hringi. Er von að markaðurinn trúi illa á þau orð sem koma frá galdra-myntbandalagi Evrópusambandsins?
Svo kom fröken Angela Merkel kanslari Þýskalands fram í sjónvarpi í gær og sagði að evrusvæðinu vantaði lokaðan klefa fyrir evrulönd svo þau sjálf gætu farið þar inn og gert sig gjaldþrota í friði. Að það vantaði "mekanisma" sem gerði evruöldunum kleift að verða gjaldþrota á sómasamlega mátann (e. orderly default).
Evran braut því næst 1,3 dollara múrinn í gær. En það þykir mörgum merkilegur þröskuldur. Þar er viðspyrnan mikil, því svo margir hafa stillt tölvuforritin á að kaupa þar og selja. Fleiri seldu greinilega en keyptu. Nú hefur þessi viðspyrna sem sagt verið hreinsuð út og fallið getur haldið áfram, ef verða vill. Hvað gerir íslenska krónan þá? Varla lætur Seðlabankinn hana sitja eftir uppi í háaloftum svo lífsnauðsynlegur útflutningur og viðskiptajöfnuður skaddist ekki of mikið. Þetta er varla rétti tíminn til þess? Börsen1 | Börsen2 | FT1 | WSJ
Leiðin út er í gegnum lokað og læst bankakerfið
Poul Krugman Nóbels hagfræðingur heldur að gríska björgunaraðgerðin muni mistakast. Hann heldur þó að það geti falist ákveðin tækifæri í því ef koma muni til áhlaups á bankakerfi Grikklands og annarra landa í svipaðri aðstöðu.
Hvernig má það vera? Jú, eina vörnin gegn áhlaupi á bankakerfi er að loka á úttektir fólks og fyrirtækja úr bönkunum. Þegar búið er að læsa bönkunum og frysta innistæður þá hafa þar með skapast ákjósanleg skilyrði til þess að segja sig úr myntbandalaginu í einum grænum. Lokað bankakerfi er lykillinn út úr myntbandalaginu. Ef bankarnir eru lokaðir þá er hægt að losna út úr læstu gengisfyrirkomulagi og bjarga landinu. Þá geta hlutirnir ekki orðið verri en þeir þegar eru orðnir.
Menn virðast gleyma því, segir Kurgman, að þó svo að Grikkland losnaði við allar skuldir og vaxtagreiðslur sínar þá er ríkissjóður Grikklands ennþá rekinn með 8,5 prósent rekstrartapi (e. primary deficit). Eina leiðin til að koma ríkissjóði Grikklands virkilega á flot aftur er að fella gengið. Eina leiðin til að lágmarka eyðileggingu mikils niðurskurðar á sjálfu hagkerfinu er að fella gegnið og fá tekjuhjól atvinnulífsins til að snúast hraðar, því þá aukast tekjur ríkisins og hægt er að koma jafnvægi á ríkisfjármálin; Krugman
Krugman bendir einnig á grein Charles Wyplosz frá því í gær. En Wyplosz trúir heldur ekki á grísku björgunaraðgerðirnar. Hann segir að í síðasta enda geti þær orðið byrjunin á mikilli verðbólgu og jafnvel gjaldþroti alls evrusvæðisins í heild. Það er ennþá hægt að afstýra því að þetta ferðalag til sameiginlegs gjaldþrots allra evrulanda sé hafið. Það er ennþá hægt að aflýsa þessu. Það þarf að hætta við að ætla sér að beygja og brjóta sáttmálagrein númer 128; Wyplosz
Þriðjudagur 4. maí 2010
Svört forsíða Handelsblatt
Það er hægt að lýsa sterkri óánægju með ýmsu móti. Eitt stærsta viðskiptadagblað Þýskalands gerði það með því að hafa forsíðu prentuðu útgáfu blaðsins svarta. Hún var höfð svört í tilefni af grísku björgunaraðgerðunum og segir blaðið að miðvikudagurinn í síðustu viku hafi verið svarti miðvikudagurinn, en þá kúventi kanslari Þýskalands í málinu.
Þann 16. september 1992 var Bretland sprengt út úr síðasta gjaldmiðlafyrirkomulagi Efnahagsbandalags Evrópu, EMS, sem þá hrundi til grunna. Sá dagur fékk viðurnefnið svarti miðvikudagurinn (e. black Wednesday); TBP
Seðlabanki Evrópusambandsins fylltur af rusli
Þýska dagblaðið Die Welt sagði að seðlabanki ESB tæki nú á móti ruslpappírum því bankinn ætlar að slaka á kröfum sínum til veðhæfni trygginga fyrir ferskum peningum úr bankanum vegna Grikklands. En ríkisskuldabréf Grikklands voru lækkuð niður í svo nefndan ruslflokk í síðustu viku. Þetta er óheyrður hlutur í 11 ára sögu bankans segir Die Welt. Blaðið hefur eftir heimildum frá seðlabankamönnum að þetta "valdi miklum áhyggjum".
Eitt er alveg öruggt. Seðlabanki Evrópusambandsins er ekki óháður eins og sagt var. Ef hann var það einhvern tíma þá er hann það ekki lengur. Hann er orðin hjáróma leppur miðað við hefð og sögu þýska seðlabankans, Deutsche Bundesbank. En ECB átti að byggja á arfleið þess fræga seðlabanka.
Still, the ECB said yesterday it would accept all Greek government debt as security when lending to banks, reneging on Trichet’s pledge in January that it would not loosen lending requirements “for the sake of any particular country.” BB
"Væntanlega mun þessi seðlabanki evru nú láta Grikkland stýra vaxtaákvörðunum sínum í framtíðinni," sagði aðal hagfræðingur Commerzbank, Joerg Kraemer. Handelsblatt skrifaði um daginn að "koss dauðans" væri sestur að í seðlabanka Evrópusambandsins í Frankfürt: Die Welt
Ríkisstjórn Finnlands biður um aukafjárveitingu vegna vaxandi ófærðar á "finnsku leiðinni"
Það er ekki eftir miklu að bíða fyrir Finna. Finnska ríkisstjórnin hefur beiðið um að þingið samþykki aukafjárveitingu á fjárlögum upp á 1,5 milljarð evrur (255 miljarða krónur) sem senda á til Grikklands. Finnar munu þurfa að taka 13,9 miljarða evrur að láni á árinu; Børsen
Mánudagur 3. maí 2010
29 ár í ESB komu Grikklandi í þrot
Mynd; nettó jöfnuður Grikklands við ESB; Money Go Round
Endurreisn þýska Weimarlýðveldisins í allri Evrópu?
Eins og lesendur hafa eflaust heyrt og séð, er ekki allt vel á myntsvæði seðlabanka Evrópusambandsins, ECB. Nokkur lönd myntsvæðisins eru nefnilega á leið í ríkisgjaldþrot. Eitt land á myntsvæði seðlabankans er í raun þegar orðið de facto gjaldþrota. Það á ekki peninga fyrir næsta gjalddaga afborgana ríkislána eftir tvær vikur.
Landið getur ekki lengur tekið neina peninga að láni því hinn alþjóðlegi fjármálaheimur treystir ekki á að ríkissjóður landsins geti greitt þá til baka. Frá áramótum hefur allt bankakerfi landsins einnig verið lokað frá lánakerfi millibankamarkaða heimsins. Umheimurinn treystir ekki lengur á bankakerfi landsins því sá ríkissjóður sem að hluta til hefur gengist í ábyrgð fyrir skuldbindingum bankanna, er sjálfur á leið í ríkisgjaldþrot. Þetta land er í myntbandalagi Evrópusambandsins og mynt þess heitir evra.
Greek and Portuguese banks cannot borrow in the international money markets, while weaker European banks are also struggling to raise money as fears of counterparty risk have grown sharply.
Þetta land heitir Grikkland. Í gær var ákveðið að reyna að bjarga evrulandinu Grikklandi. Bjarga því frá stjórnlausu ríkisgjaldþroti, hvorki meira né minna. Önnur ríki evrusvæðis og Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn hafa ákveðið að reyna að koma í veg fyrir stjórnlaust ríkisgjaldþrot Grikklands svo greiðslufallið taki ekki stóran hluta af bankakerfi evrusvæðis með sér í fallinu. Þessir aðilar ætla að reyna að skrapa saman peninga hjá skattgreiðendum í ríkjum sínum og senda þá til Grikklands og þá mun landið skulda 140 prósent af landsframleiðslu sinni á eftir. Það á ekki fyrir vöxtunum.
Írland á líka að senda peninga til Grikklands. Ríkissjóður Írlands hefur skrifað upp á aðeins 600% af landsframleiðslu Íra. Þessi uppáskrift reynir að tryggja skuldbindingar bankakerfis Írlands. Tryggja að evrubankakerfi landsins falli ekki.
Even French and German banks have faced problems raising money because of their exposure to Greek sovereign debt. Barclays Capital estimates French and German banks hold almost €40bn in Greek bonds.
Til að byrja með á að skera rekstrarkostnað rúmlega heils heilbrigðiskerfis burt. Það er það sem er á áætlun ESB og AGS í Grikklandi á næstu þremur árum. Margt fleira á einnig að gera og skera. Kanslari Þýskalands segir að þetta sé hvatning til annarra ESB-landa í miklum vandræðum. Hvatning um að koma sér strax upp á skurðarborð ríkisfjármála.
Heilbrigðiskerfi Grikklands kostar árlega það sama í rekstri og hið íslenska, eða um það bil 9,1 prósentustig af landsframleiðslu. Grikkland á að skera útgjöld ríkisins niður um 10-12 prósentustig á næstu þremur árum. Hvað gerðist eiginlega? Af hverju er þetta svona í Grikklandi?
Sagan er svona: Þann fyrsta janúar árið 1981 gekk Grikkland í Efnahagsbandalag Evrópu sem síðan breytti sér sjálft í Evrópusambandið árið 1993. Það eru því liðin heil 29 ár síðan landið gekk í þennan félagsskap sem svo margir hafa sagt að sé svo góður fyrir lönd Evrópu. Á þessu tímabili hafa hin ríkari lönd ESB - og sem nú eru að verða fátækari og fátækari - dælt hvorki meira né minna en 86,4 miljörðum evra í Grikkland. Næstum allir þessir fjármunir hafa komið frá þýskum skattgreiðendum og atvinnulífi.
Greek banks have been shut out of the money markets since the start of the year, but in recent weeks this has spread to Portugal. German, French and Spanish banks have had to pay higher premiums for short-term debt. There is a reluctance to lend to Spanish banks because, like Greece and Portugal, it is a peripheral eurozone economy with high debt; FT
Þetta er aðeins minna en Spánn hefur kostað, þ.e. 90 miljarða evrur. En Spánn glímir einnig við stórkostlegan vanda. Bæði hvað varðar samkeppnishæfni landsins og ríkisfjármál. Þar er atvinnuleysi tæplega 20 prósent núna og 42 prósent hjá ungu fólki.
Ástandið mun einungis verða miklu verra frá og með nú, því þegar 30-40 prósent af evrusvæði er þvingað til mikils niðurskurðar, þá mun það ekki hafa nein góð áhrif á útflutning til þessara landa því þau munu auðvitað kaupa miklu minna af hinum löndunum fyrir vikið. Um það bil 70-78 prósent af útflutningi landa evrusvæðis fer til annarra landa svæðisins.
Mín skoðun er sú að Evrópusambandið hafi eyðilagt Grikkland. Að ganga í Evrópusambandið eyðileggur lönd. Það ætti öllum að vera ljóst nú.
Hluti peninga AGS og ESB eiga að fara í það að byggja "betra land" og betri "stofnanir" í Grikklandi, sögðu talsmenn. Loksins eftir 28 ár í ESB! En hvað fóru þá hinar fyrstu 86 þúsund milljónir evra í? Fóru þær kannski í það að gera Grikkland gjaldþrota? Eins og sum Afríkuríki sem fá gratís rusl frá Evrópu sent til sín í gámum. Innviðir landa eru eyðilagðir. Hver getur keppt við ókeypis vörur frá útlöndum? Vissulega ekki nein innlensk fyrirtæki í neinu landi.
Þetta eru válegir tímar. Brussel aðhafðist ekki neitt og gerir ekki neitt. Það svaf værum svefni á meðan evrusvæðið sigldi lönd þess í kaf. Það er hins vegar markaðurinn sem þvingar fram viðbrögðin. Markaðurinn virkar. ESB vikrar ekki. Myntbandalagið er frá og með nú ennþá gagnslausara en það var. Markaðurinn mun ekki taka mark á evrum aftur. Ástandið á evrusvæði og í ESB á eftir að verða aldeilis voðalegt næstu mörg árin! Mörg ný Weimarlýðveldi verða til í ESB þrátt fyrir seinkun ríkisgjaldþrots Grikklands um 2-3 ár - eins og gerðist í tilfelli Argentínu þegar gengi þess var bundið fast. Svona er að hafa ekkert gengi.
SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA