# 494 - 2010 - vika 10 - til 14. mars 2010
VIKA 10 2010
Föstudagur 12. mars 2010
PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan
Ábyrgðarlausir stjórnmálamenn = ESB
Simon Johnson og Peter Boone birtu í gær grein sína um Grikkland - og vandamál þess fyrir Grikki og evrusvæðið. Simon Johnson var áður yfirhagfræðingur AGS og er nú prófessor við MIT og "senior fellow" við Peterson stofnunina og í stjórn fjárlaganefndar bandaríska þingsins. Peter Boone er við London School of Economics. Greinin birtist bæði í New York Times og á bloggsíðu höfunda, The Baseline Scenario.
Ef sumum finnst ég vera neikvæður út í þau vandamál sem myntbandalag ESB stendur frammi fyrir, þá eru það smámunir miðað við þær staðreyndir sem Simon ber á borð fyrir lesendur.
Gróf þýðing; Grikkland er eins gjaldþrota og hægt er að verða. Evrópskir stjórnmála- og embættismenn eru jafn ábyrgðarlausir og fjárglæframenn. Þeir stunda fjárhættuspil. Þeir eru að lokka fjárfesta í píramídaspil (Ponzi scheme; að borga fjárfestum með peningum nýrra fjárfesta í stað þess að borga þeim með peningum frá þeim hagnaði sem fjárfestingin skilar). Það væri óafsakanlegt ef fjárfestar á borð við lífeyrissjóði séu að fjárfesta í grískum ríkisskuldabréfum.
Tölurnar: Árið 2011 mun Grikkland skulda 150% af landsframleiðslu sinni. Um 80% af þessu skuldar landið til erlendra fjárfesta og þeir eiga flestir heima í Þýskalandi og Frakklandi. Fyrir hvert 1 prósentustig sem vextir hækka þarf Grikkland að senda 1,2 prósentustigi meira af landsframleiðslunni til útlanda. Ef vextir hækka til dæmis í 10%, sem er ekki ólíklegt og reyndar mjög varfærið mat fyrir land sem getur ekki greitt einn aur niður af höfuðstól skuldanna - rúlla þarf skuldunum endalaust áfram - þá þarf Grikkland að senda 12% af landsframleiðslu sinni til lánadrottna erlendis, á hverju einasta ári. Helming skulda landsins þarf að endurfjármagna á nýjum vaxtakjörum innan þriggja næstu ára.
Þetta er gersamlega óheyrð og óþekkt staða sem Grikkland er í. Stríðsskaðabóta greiðslur Þýskalands voru 2,5% á ári af þjóðartekjum Þýskalands frá 1925-1932. Suður-Ameríku skuldavandamálin frá og með árinu 1982 þýddu 3,5% greiðslur af landsframleiðslu (1/6 af útflutningstekjum) landanna til erlendra kröfuhafa. Hvorugt þessara tilfella var skemmtileg reynsla.
Grikkland er algerlega gjaldþrota án ennþá meiri niðurskurðar en nú þegar hafa verið auglýstir. Svo þarf landið hjálp frá ESB. Reyndar þarf landið á báðu að halda samtímis. Og ennþá eru stjórnmála og embættismenn Evrópusambandsins að hvetja fjárfesta til að stuðla að frekari lánum til Grikklands og að gríska ríkið taki á sig ennþá meiri skuldir. Þetta er að blekkja illa upplýst fólk segir Simon, t.d. lífeyrissjóði, sem eiga peninga á meðan þeir sem eru vel upplýstir flýja öskrandi burt; t.d. stórir bankar sem vita hvað er að gerast.
Þetta er að gerast með aðstoð klappliðs ESB. Komið til okkar og fjárfestið í gjaldþrota ríki. Þetta er sama liðið og er að berja á vondum spekúlöntum með annarri hendinni á meðan hin höndin ginnir saklausa nýja fjárfesta í netið. Hvað er hægt að gera, spyr Simon:
1) Gikkir og ESB verða að ákveða hvort þeir vilji halda evrunni eða ekki.
2) Ef þeir vilja halda evrunni í Grikklandi þá þarf að senda peninga. Ekki bara smá vasapeninga upp á 20 miljarða evrur, eins og stjórnmálamenn eru að gæla við. Nei, það þarf að senda alvöru peninga. Minnst 180 miljarða evrur. ESB þarf að fjármagna skuldasúpu Grikklands 100% í nokkuð mörg ár.
3) Ef þeir vilja ekki halda evrunni, þá þarf að útbúa áætlun fyrir úrsögn úr myntbandalaginu, strax. Þá þurfa Norður Evrópubúar að bjarga eigin bönkum fyrst (bail them out) vegna þess að afskrifa þarf miklar grískar skuldir. Það verður að gefa Grikkjum þennan skuldaafslátt - eða - breyta þeim yfir í nýja drachma mynt Grikklands og samþykkja að Grikkir komi verðbólgu nægilega mikið af stað til að brenna hluta skuldanna af.
Innistæðum og skuldum bankakerfis Grikklands yrði breytt í drachma; endursamið yrði um skuldasamninga. Þetta verður erfitt og sóðalegt, en því lengur sem tíminn líður án aðgerða þá mun þetta verða betri og betri lausn.
Svo þarf að kalla á Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn. Það er eini trúverðugi aðilinn sem eftir er í þessu máli og sem hefur getu til að glíma við vandamálið. En jafnvel AGS er að sumu leyti að klúðra trúverðugleika sínum með laumulegum athugasemdum á meðan gríska skuldablaðran þenst út.
Ef þessi skref verða ekki tekin þá fáum við járnbrautar-stórslys. Búið er að að sannreyna og þrautprófa evrópska stjórnmálamenn í þessu máli. Við þekkjum útkomuna úr því prófi núna: þeir eru ekki varkárir*, þeir eru tillitslausir og kærulausir (reckless). *Þeir höfðu lofað fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Tim Geithner, "varkárri lausn" (a careful solution, sjá Mánudagur 15. febrúar 2010)
Lesendur; hafið þið nokkurn tíma séð risaolíuflutningaskip með 27 skipstjórum í brúnni. Jæja ekki það. En þið sjáið það núna. Það er M/S ESB. Skip sem lagði upp í siglingu en mun aldrei ná hvorki áfangastað né neinni höfn nokkurn tíma. Draugaskip. Og nú er farmurinn farinn að gerjast; The Baseline Scenario
Been there, seen that, done that - veðrið.
PDF snið vika 10 2010
PDF_utgafa_vika_10_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Nú er það veðrið sem er að fella útflutningstölur Þýskalands um 6,3%, segir seðlabanki og talnamenn Þjóðverja. Þetta sagði ég líka við bankann minn þegar ný söluönn skilaði ekki þeim árangri sem búið var að leggja til grundvallar fyrir framlengingu rekstrarlána við upphaf tveggja söluanna hvers árs. Kosturinn við beina markaðsfærslu er sá, að þegar maður hefur stundað hana í nokkur ár þá er vitað að ef sendir hafa verið X margir katalógar út, þá mun Y hlutfall pantana hafa skilað sér inn í söluviku Z. Vandamálið er bara að það tekur nokkur ár að safna þessum tölum (conversion rates by week) í reynslubankann, ásamt kynslóðagreiningu á viðskiptavinum í gagnagrunni (continue rates + repeat ratio).
Þegar salan brást, fékk ég í byrjun á tilfinninguna að það væri veðrinu að kenna. Hver vill kaupa bikini í janúar þegar veðrið er svona hræðilegt? Ísavetur, þoka og gaddur. Ef bankastjórinn var reyndur þá glotti hann að manni. Nýir bankastjórar voru hinsvegar yfirleitt mjög skilningsríkir. Þeir glottu ekki. En þegar salan gekk langt umfram áætlun, þá kom maður sigri hrósandi og sýndi þeim hversu vel snilldar auglýsingar manns höfðu virkað þá önnina. Fólk pantaði bikini í janúar í massavís! Eða, það kom "indíána sumar" þ.e. það var heitt og rautt fram í enda október, en vetrarfatnaðurinn var enn óseldur. Nokkrum árum seinna skildi ég hins vegar vel hvað hafði gerst. Það eina sem þurfti að gera var að skoða leiðréttu hagvaxtartölurnar frá hagstofunni. Þá small stóra myndin yfirleitt saman. Hagvöxtur eða ekki - var fólk að missa vinnuna eða ekki.
Ég efast um að veturinn í Þýskalandi hafi verið svona afgerandi fyrir útflutninginn. Járnbrautir láta ekki frost og snjó stöðva sig svo auðveldlega. Ég held hins vegar að hættan á nýrri (double dip) lægð sé miklu líklegri skýring. Bretar hafa líka tekið þessa skýringu í notkun. Hún er mjög þægileg og kostar ekki neitt.
Þýska hagstofan tilkynti sem sagt að útflutningur hefði fallið um 6.3% á milli mánaða í janúar - "vegna veðurs". Velta í þjónustugeiranum í Þýskalandi féll um 5,1% á síðasta fjórðungi 2009 miðað við sama tíma árið áður. Hagstofan tilkynnti einnig mesta hrun í sögu járnbrautaflutninga frá upphafi mælinga í Þýskalandi. Á milli ára féll magn (tonn) fluttra vara um 15,9% og niður í 312 milljón tonn. Þetta er mun minna magn en flutt var árið 2005. Magn vöruflutninga til og frá útlöndum féll um 23,1%. Gegnumstreymi vara (transit) féll ennþá meira eða um 23,8%. Gámaflutningar á járnbrautarvögnum féllu um 15,7%. Hagstofa Þýskalands
Danir halda áfram að borða eignir og skuldsetja sig í fallandi markaði
Tölur húsnæðislánastofnana í Danmörku segja að Danir séu ennþá að taka meiri húsnæðislán þó svo að húsnæðisverð hafi verið fallandi. Þeir eru að éta upp eign sína í húsnæðinu (d. friværdi). Skuldlaus eign Dana í eigin húnsæði hefur fallið um 552 milljónir DKK á hverjum degi frá því á þriðja ársfjórðungi 2006. Rúmur helmingur (51%) eignaminnkunar er vegna verðlækkunar húsnæðisins. Hinn helmingurinn (49%) er vegna aukinnar skuldasöfnunar. Verð húsnæðis hefur fallið um 13-25% allt eftir því um hvernig húsnæði er að ræða - á sama tímabili. Í heild þýðir þetta að húsnæðismassi Danmerkur er fallinn í verði um 10,3% á tímabilinu. Hrein eign Dana í eigin húsnæði er fallin um 33% eða um 655 miljarða DKK. Fallið er sem sagt vegna verðlækkunar og skuldasöfnunar; Börsen
Fimmtudagur 11. mars 2010
Hertan Maastricht brotavilja þarf til
Einleikur verður í dag. Mikill kjáni gat ég verið. Þetta var of augljóst til að ég tæki eftir því strax. Einhvers staðar og einhvern tíma skrifaði ég um að grófan yfirgang gegn sumum smáríkjum myntbandalagsins væri alltaf hægt að afsaka með röksemdinni um að þau ógni "fjármálalegum stöðugleika" myntbandalagsins. Þá væri hægt að dusta rykið af eins konar efnahagslegum herlögum sem hægt væri skella á ríki þegar þau ógna tilveru myntbandalagsins. Þetta hefur nú þegar verið gert. En það er meira.
Það vakti undrum mína að virt blað eins og Der Spiegel skyldi eyða svona miklu plássi (greinin sem ég benti á í gær) undir útþynntan og ótrúverðugan sálmasöng um vonda spekúlanta. Að það væru þeir sem væru að spá gegn gríska ríkinu og gegn evrunni. Staðreyndin er sú að þeir sem kaupa skuldir gríska ríkisins núna eru í hæsta máta að stunda stórhættulega spákaupmennsku og taka mikla áhættu. Til dæmis væri varla hægt að afsaka það ef peningum lífeyrissjóða væri varið í að kaupa skuldir af gríska ríkinu. Það væri að spila hasar með sparifé sakleysingja.
The 2001 currency-swap deal arranged by Goldman trimmed Greece's deficit by about a 10th of a percentage point of GDP for that year. By comparison, Greece failed to book €1.6 billion ($2.2 billion) of military expenses in 2001—10 times what was saved with the swap, according to Eurostat, the EU's statistics authority
En það er samt það sem gríska ríkið er að reyna að fá fjárfesta til að gera. Gríska ríkið þarf að bjóða þeim svo háa ávöxtun að mjög erfitt verður fyrir ríkið að standa undir greiðslunum. Og enginn hefur ennþá komið og sagt neinum fjárfestum í grískum ríkisskuldabréfum, að framtíðarhorfur gríska ríkisins væru öfundsverðar, eins og Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn sagði stuttu eftir komuna til Íslands.
Þá sagði sjóðurinn að framtíðarhorfur Íslands væru öfundsverðar. Ísland á mikil auðæfi. Ekki bara land og náttúruauðlindir, heldur er þjóðin líka ung, áhugasöm, vinnusöm og nennir að fæða af sér börn framtíðarinnar. Þjóðin trúir á sig sjálfa og á framtíðina í eigin landi. Frjósemi á Íslandi er ein sú hæsta í hinum vestræna heimi og framfærslubyrði íslenska ríkisins er var lauflétt miðað við gömlu Evrópu. Staðan er ekki svona öfundsverð í Grikklandi. Þar er framtíðin þeldökk. Þar verða of fáir til að borga skuldir foreldranna í framtíðinni. Þessi staða er álíka svört í næstum öllu ESB nema hugsanlega í Frakklandi og Írlandi. Öldrunarvandamál þessa myntbandalags verða hrikaleg fyrir skattgreiðendur framtíðarinnar.
Mér fannst líka átakanlegt að horfa á forsætisráðherra Grikklands ferðast um Evrópu og þar á eftir yfir til Bandaríkjanna, haldandi ræður um þessa ofangreindu vondu spekúlanta sem væru að gera tilræði gegn fjármálum Grikklands. Hvað var það sem fékk manninn til að leggjast svona lágt?
Það var ekki kvartað og kveinað yfir neinu þegar þessi sömu vondu spekúlantar lækkuðu vaxtakostnað gríska ríkisins á árunum á undan inngöngu Grikklands í myntbandalagið. Þá var alls ekki öruggt að Grikkland kæmist með í myntbandalagið. En þá trúðu þessir vondu spekúlantar á að sú yrði reyndin og krafa þeirra til ávöxtunar á grískum ríkisskuldabréfum hríðféll. Þeir sem eru að flýja fjárfestingar í Grikklandi og evru núna eru Evrópubúar sjálfir, og svo auðvitað prófessional fjárfestar sem bera ábyrgð á fjármunum launþega. Þeir sjá vandamálin hrannast upp og þeir sjá að logið hefur verið að þeim. Þetta var nú öll vörnin í myntbandalaginu.
Plottið: Það stutta í því langa er að Brussel, sum evruríkin, frammámenn ESB og sumir innan seðlabanka Evrópusambandsins hafa greinilega bundist höndum um að skapa hið rétta andrúmsloft áður en Maastricht sáttmálinn verður þverbrotinn á hinn grófasta hátt. Spunninn er sá lygavefur að á land innan myntbandalagsins hafi verið ráðist og að sú árás ógni tilveru myntbandalagsins. Á myntina sjálfa hefur þannig verið ráðist í sjálfu sér. Þá er hægt að virkja klásúluna um "fjármálalegan stöðugleika" og hamfarir sem ekki var hægt að sjá fyrir eða gera að. Þetta er spuninn um vondu spekúlantana sem eru að ógna tilveru myntbandalagsins.
Are wicked speculators using the CDS market to drive borrowing costs up artificially? Not according to the Bank for International Settlements. Net CDS on Portugal amounted to only 5% of outstanding Portuguese government debt. For other countries, including Greece, the ratio of sovereign CDS contracts to government debt was even lower.; hér
Efnahagsleg herlög verða þá sett í gagnið og peningum skattgreiðenda í einu landi verður varið til að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti. Þetta verður gert svo bankakerfi Þýskalands, Frakklands og fleiri landa muni ekki kikna undan gjaldþroti gríska ríkisins og þeirra sem koma þar á eftir. Eitt afbrigðið gæti heitið "björgunarsjóður", eða EGS. Stranglega bannað samkvæmt Maastricht sáttmálanum.
Ergo: fyrsta skrefið var að reyna að bjarga fjármálageira myntbandalagsins með miklum ríkisábyrgðum haustið 2008, þegar hrun fjármálamarkaða skall á. Við það opinberuðust 64+ brot á Maastricht sáttmálann fyrir umheiminum. Vegna þess að löndin eru læst og múruð inni í myntbandalaginu geta þau ekkert gert sér til sjálfshjálpar - nema farið í gjaldþrot. Engin leið er fær til að leiðrétta nógu hratt fjárlagahalla og ósamkeppnishæfni þeirra ríkja sem um er að ræða; öll PIIGS löndin. Því ekkert hafa þau gengið lengur.
Haustið 2008 fór í það að bjarga einkageiranum (bankakerfið og sparifjáreigendur) með peningum skattgreiðenda. Þetta mátti ekki samkvæmt Maastricht sáttmálanum, en var samt gert. Eina leiðin til að bjarga hlutunum núna er að taka allt þetta og henda því aftur yfir á skattgreiðendur og fyrirtækin. Einkageirinn í ESB mun verða laminn sundur og saman í stórum hluta myntbandalagsins á næstu áratugum. Hver vill þá fjárfesta í einnota bleyjum sem hanga til þerris á snúrum myntbandalagsins: enginn! Hrikalegt atvinnuleysi, stöðvun hagvaxtar, verðhjöðnun og hrikaleg afkoma hins opinbera og einkageirans verður útkoman. Hin efnahagslega eyðni myntbandalagsins mun bara aukast. Evran verður plat gjaldmiðill áfram og myntbandalagið mun leysast upp hraðar en allir héldu. Holskefla lögsókna á hendur yfirvöldum mun skella á í Þýskalandi. Almenningur verður æfur af reiði.
Hvað þarf til þess að spuninn gangi ekki upp og áhætta þeirra með einbeitta brotaviljann verði of mikil? Það kemur í ljós á næstu vikum. Andstaðan í Þýskalandi verður að minnsta kosti mikil. Finnar geta varla glaðst mikið þessa dagana.
Ef þú vilt stunda spákaupmennsku farðu þá og keyptu skuldir af gríska, írska, spænska og portúgalska ríkinu. Það er í hæsta máta hárreisandi spákaupmennska, þ.e. ef plottið hér að ofan gengur ekki upp. En ef plottið gengur upp, þá batnar staða þín sem spekúlant enn meira til langframa, því þá verður líka hægt að bæta þýska ríkinu á þennan lista yfir "feasible objects for speculators, soon". Þvílíkt klandur. Þetta er martröðin sem Þjóðverjar óttuðust alltaf. Að auðæfi Þýskalands myndu enda á kistubotni ríkja Suður-Evrópu.
Ef flóðgáttirnar verða opnaðar eins og Issing skrifaði um í FT, þá verður fossinn án enda. Hér er einn sem hefur líka tekið eftir þessu: AEP
In the meantime, for the sake of the citizens in the peripheral eurozone nations now facing fiscal retrenchment, pray there is life on Mars that exclusively consumes olives, red wine, and Guinness beer
Leyfi mér einnig að benda á ágætis grein um hluta þessa máls: Leading PIIGS to Slaughter
Miðvikudagur 10. mars 2010
Evran: byggð á lyginni
Der Spiegel er með ágætis grein um myntbandalagið undir fyrirsögninni "byggt á lyginni - grunnleggjandi gallar myntbandalagsins". Eftir að hafa lesið greinina, sem er löng, dettur mér í hug að fæðing myntbandalagsins er hin dæmigerða franska lausn á málunum. Í gamla daga var það Kirkjan sem átti að vera rót vandamála Frakka - og náttúrlega helst allrar Evrópu í leiðinni. Kirkjan og völd hennar voru sögð hindra framfarir í Frakklandi. Völd kirkjunnar voru þá að sjálfsögðu brotin niður og hefur hún aldrei beðið þess alveg bætur síðan, a.m.k. ekki í Frakklandi. Napóleonska tók svo við. Ríkið fékk völdin.
Hvað tók við? Jú, RÍKIÐ varð svo öflugt, eyðslusamt, valda- og tekjuþyrst að jafnvel gluggar og hurðir í húsum voru skattlögð eftir fjölda. Fólk brást við með því að múra fyrir gluggana. Myntbandalagið er franskt fyrirbæri. Lausn verkfræðinga Napóleons. Ekkert var hlustað á akademísku hagfræðingana. Til að halda myntbandalaginu gangandi þarf helst að múra þjóðirnar inni í því. Múra fyrir gluggana.
The Delors proposal was "a muddled vision" with "wild ideas," Karl Otto Pöhl, the then-chairman of Germany's central bank, the Bundesbank, later told author David Marsh. Pöhl didn't believe that a monetary union would materialize within the foreseeable future. "I thought that maybe it would happen sometime in the next 100 years," he said.
Þetta er franska verkfræðingalausnin á (external) gengisfellingum og trú þeirra á "vélvirkni" peningamála. Að múra sig inni. Svo er lyklinum kastað burt og þjóðirnar látnar kála hvor annarri með innvortis gengisfellingum í staðinn. Fáum virðist detta í hug að hagvöxtur, velmegun, framleiðni og slíkt geti orðið sjaldgæfur fugl inni í fuglabúrinu. Kannski er kolanáma betra og meira viðeigandi orð hér. Eitt er víst. Þetta mun ekki enda vel. Greinin er á ensku; Der Spiegel
Europe risks building a protectionist wall between itself and the global private equity industry if plans for a sweeping overhaul of regulation in the sector go ahead, some of the world’s biggest institutional investors have warned; FT í dag
(PS; Der Spiegel þyrfti að uppfæra þekkingu sína á CDS, þær eru ekki skuldatryggingar; Repeat after me: CDS are not insurance - heldur afleiður skuldatrygginga)
Fjármálabólur ríkisstjórna?
Erum við stödd í miðri fjármálabólu ríkisstjórna? Hvenær mun raunverulegur hagvöxtur taka við sér? Ekki er ennþá víst að ríkisstjórnir geti yfir höfuð dregið sig út úr bólunni sem þær hafa búið til með allri aðstoðinni við hrunin fjármálakerfi og með örvunarpökkum. Við höfum séð þetta áður. Japan er nú á tuttugasta ári efnahaglegar örvunar (stimulus) og ekkert gagnast það. Hlutabréfamarkaður er þar ennþá 70% lægri. Munu vandræði Toyota skaða Japanska hagkerfið ennþá meira og þrýsta því ennþá dýpra ofaní niðurfallið?
Sama er hægt að segja um Austur-Þýskaland: 20 ár af efnahaglegri örvun og landshlutinn ennþá hálf-bust. Massíft atvinnuleysi ríkir þar ennþá og þessi mikla ríkisaðstoð í 20 ár hefur ekki gagnast eins og til var ætlast. Bara ef menn hefðu farið að ráðum þýska seðlabankans frá byrjun og gengisfellt landshlutann áður en sameining fór fram (sjá; 20 árum og einni billjón seinna; WSJ nóvember 2009; Twenty Years of Stimulus for East Germany)
Seðlabankastjóri Þýskalands segir að þýska hagkerfið sé enn "varðveitt" (intact). En hvar er vöxturinn og hvaðan á hann að koma? Þetta og margt fleira kemur fram í greiningu Edward Hugh á ástandi mála í Þýskalandi; Intact
Nonetheless, the collapse of global trade, even now, remains dramatic by the standards of the Great Depression.
Barry Eichengreen og Kevin H. O’Rourke hafa uppfært línurit sín yfir núverandi kreppuferli í samanburði við stóru kreppuna 1929. Munu neytendur loksins fara að kaupa þær vörur sem örvunarpakkar ríkisstjórna hafa fengið fyrirtækin til að framleiða á lagar. Heimsviðskiptin hafa dregist skuggalega saman og lítinn bata er þar að sjá; A Tale of Two Depressions
Sumir gömlu bjartsýnisrefir Wall Street segjast sjá góða daga í vændum, til styttri tíma litið. Að sá stutti tími muni svo líka laga hlutina til lengri tíma litið. Ég efast, en auðvitað virðir maður langa reynslu manna, en þó ekki of mikið þessa dagana. Svo margt er öðruvísi við þessa kreppu en áður. Það er greinilegt að nýmarkaðslönd heimsins eru þeirra augnayndi. Enginn þeirra minnist á vöxt í Evrópu lengur.
The pound’s drop last week to a 10- month low may help the U.K. economy grow faster than the region sharing the euro, which is hobbled by budget deficits and aging populations, according to Goldman Sachs Group Inc - “One has to be very brave to have a bullish view on the euro.”
Markaðurinn virðist líka farinn að taka alvarlega eftir öldrunarvandamálunum í Evrópu. Að fjárfesta á elliheimilum er ekki sérstaklega aðlaðandi og vöxtur verður þar enginn; Bloomberg
Evran fær aðeins 4,9% kosningafylgi
Meðal stjórnenda fjárfestingasjóða, sem þora að taka áhættu, ríkir ótrú á gjaldmiðlinum evru. Könnun meðal 61 stjórnenda svona sjóða sýnir að 57% þeirra kjósa Bandaríkjadal sem örugga mynt. Aðeins 5,9% kusu myntvafninginn evru sem örugga eða ákjósanlega mynt til starfseminnar. Um 60% þeirra trúa að vandamálin í Grikklandi muni smitast yfir til annarra evrulanda. Heil 15% trúa á að myntbandalagið leysist algerlega upp að fullu, núna.
Því trúi ég ekki, ég trúi að upplausnarferlið muni taka langan tíma. Á meðan á því stendur mun það eyðileggja hagvöxt og loka á fjárfestingar; svipað og að fá efnahaglega eyðni (AIDS). Hægfara kvalarfullt andlát. Ekkert getur bjargað myntbandalaginu, það er enginn efi í mínum huga lengur. Ef það verður reynt þá verður að fórna hagvexti og velmegun í staðinn. Það myndi þýða fátækt og uppreisn í endanum, í versta falli styrjöld á einn eða annan máta; WSJ | BW
Grikkir þurfa að fara fyrr á fætur
Uppeldis fyrirlestrarnir eru byrjaðir. Samkvæmt Berlingske Tidende hefur þýska blaðið Bild birt opið bréf til forsætisráðherra Grikklands þar sem honum er bent á að Grikkir ættu að fara að hætti Þjóðverja; vakna fyrr á morgnana og taka upp þýskan vinnuaga. Mörg ráð eru Grikkjum gefin og taldar eru upp þær byrðar sem Þjóðverjar sjálfir þurfa að bera. Spennan eykst; Berlingske
Þriðjudagur 9. mars 2010
Myndskeið: Brynjólfsson Papandreou Rogers
Vondur. Góður. Vondur
Munu gömlu þjóðir ESB nokkurn tíma skilja Íslendinga? Kynslóðabilið er stórt. Gömlu og ungu ríkin tala ekki sama tungumál og táknmál þeirra eru hvort öðru svo oft óskiljanleg. Kynslóðabil þjóðanna er greinilegt fyrir þeim sem þekkja báða heima. Nýi og gamli heimurinn mætast ekki. Þeir bumpast á. Evrópa er gömul, hrukkótt og þreytt. Kjarkur hennar er lítill. Haldið er í horfinu með nikótín plástrum sem deyfa fráhvarfseinkenni fyrri hæða. Evrópa er nú orðin fyrrverandi fyrrverandi.
Sumir, sem líst ekki vel á þróun mála, segja að Evrópubúar séu orðnir velferðarfíklar. Velferðardópistar á framfæri hins opinbera sem þekkja ekki muninn á velmegun og velferð. Að þeir séu orðnir þannig að flestar athafnir þeirra þurfi embættismenn fyrst að blástimpla, svo athafnir þeirra lykti nú ekki af hinu banvæna orði "einkaneysla". Einkaneysla úr heilabúi þeirra sjálfra. Þeim líður betur með stimpil hins opinbera á athöfnum sínum. Stimpillinn veitir þeim öryggiskennd. Áður fyrr var það aðalinn sem sá um stimpilinn. Nú er það hið opinbera, kúltúrfallbysur og smekksdómarar sem stimpla og veita leyfi.
Því blása ríkin út eins og blaðra. Erfitt er um hagvöxt þegar svona stórum hluta þjóðarframleiðslunnar er ráðstafað af embættismönnum. Það myndast ekki lengur hvirflar í vatninu þegar steini er kastað í það. Dýnamíkin er horfin. Gagnvirknin er frosin. Lítið getur breyst, og heldur ekki fjárlagafrumvörpin, því þá er enginn kosinn. Ógerningur er að losna úr dópsölunni aftur. Þess vegna gildir hér aðeins eitt: ríkið má ekki blása út eins og blaðra. Sænska ríkið er ekki enn að fullu komið út úr bankaíhlutun bankabjörgunarinnar frá 1992. Þá varð hlutur sænska ríkisins 73% af landsframleiðslu Svíþjóðar. Aðeins vantaði 27% upp á fullt Sovét.
Eftir 26 ár í ESB veit ég að framtíð Evrópu er dökk. Síðastliðin 10 ár hef ég unnið við að aðstoða Evrópubúa við að fá ekki taugaáfall þegar þeir vinna með þeim Íslendingum sem ég hef selt landakort yfir markaði, siði og hefðir í Evrópu. Þar áður vann ég í 10 ár við að opna og rækta markaðinn fyrir mig sjálfan. Hann er hrjóstrugur og frekar geldur. Það algengasta sem maður heyrir þegar Íslendingar yfirgefa evrópska markaðinn er: "það er aldrei neitt hægt hér, bless, farinn heim".
Bestu ráðin sem sumir hafa fengið hér í Evrópu, voru þau að snúa sér til Nýja heimsins í vestri. Það myndi aldrei verða neitt úr þeim í gömlu Evrópu. Svona ráð, hef ég heyrt, fékk George Soros. Margir hafa þó örugglega óskað sér að hann hefði þráast við staurinn sem innflytjandi án ættarnafns og klassa í Bretlandi. Þá hefði kannski aldrei orðið neitt úr honum. Norman Lamont er sennilega í þeim hópi.
Þessi hugsun mín tendraðist þegar ég leit upp og sá á skjánum nafn sem minnti mig á Vesturfara. John Brynjólfsson? Hver er maðurinn? Hann talaði fyrir "brynvarðan úlf" í Kaliforníu (Armored Wolf). Málefnið var Grikkland og skollaleikur við spekúlanta. Þeir eru yfirleitt kallaðir spekúlantar þegar ekki gengur lengur að fela vandræðin fyrir þeim í bókhaldi þrotabúa sofandi stjórnmálamanna. Þá koma þeir.
Vondir menn, sagði forsætisráðherra Grikklands í gær, þegar hann talaði frá Brookings stofnuninni í Bandaríkjunum. Svo skrapp hann í kaffi og strásykur yfir til Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins á eftir. Það var átakanlegt að horfa á forsætisráðherrann tala. Illa er málum komið þegar vandamálin eru sögð svo aðkallandi, að gera þurfi eitthvað, næstum hvað sem er, vegna árása svo kallaðra "spákaupmanna". En hvað tíminn flýgur. Nú þarf að fara að gera eitthvað; Myndskeiðin: Brynjólfsson | Papandreou | Rogers (vona að krækjurnar virki)
Hysterísk gleði yfir slæmri hugmynd
Eins og Münchau sagði í gær: slæm og gagnslaus hugmynd. Það er vel hægt að skilja hvers vegna ríkisleiðtogar evrulanda önduðu léttara í gær. Þeir fylltust hysterískri gleði yfir hugmyndinni um björgunarsjóð (EGS) fyrir hálf gjaldþrota evrulönd. Þessi gleði er svipuð þeirri þegar maður uppgötvar að það er bara mús, en ekki skógarbjörn, sem er að athafna sig inni á baðherberginu um miðja nótt. Slíkur var léttirinn. En engin ástæða er þó til gleði. Þetta var nefnilega draumur. Þegar ríkisleiðtogarnir vakna þá munu þeir sjá að sá sem raunverulega er inni á baðherberginu, er þar ennþá - og er, sem sagt - brynvarinn úlfur. Hann fer ekki burt. Bæði músin og björninn eru þegar dauð og étin.
"It would be the beginning of financial redistribution in Europe, which could become very expensive, give the wrong incentives and burden countries with solid public finances," he warned. Rather than change the behavior of countries with lax fiscal policies, it "would undermine public acceptance of the euro and the EU."
Jürgen Stark, einn Þjóðverjanna í framkvæmdastjórn seðlabanka Evrópusambandsins, kom strax og mokaði vandlega yfir dýrin. Hann sagði að allar hugmyndir örvæntingarfullra stjórnmálamanna um björgunarsjóð handa gjaldþrota evrulöndum væru afar slæmar.
Hugmyndin stríðir algerlega gegn viðteknum grunnreglum myntbandalagsins. Hvert ríki fyrir sig ber algerlega ábyrgð á eigin skuldum og taprekstri
Þetta myndi verða byrjunin á yfirfærslu auðæfa þjóða til annarra ríkja. Yrðu eigna- og skuldayfirfærslur á milli ríkja. Þetta yrði mjög dýrt og myndi senda kolröng skilaboð til þeirra sem halda eiga utanum fjármál ríkjanna. Þetta myndi leggja byrðar á þau lönd sem kunna að reka ríki sín vel
Í stað þess að aga til illa rekin ríki myndi þetta grafa undan velvilja almennings í garð evru sem myntar og velvilja þeirra í garð Evrópusambandsins.
Í staðinn kallaði Strak eftir strangari og hertri beitingu stöðugleikasáttmálans og að sett yrði á laggirnar óháð ráð sem hefði á höndum hert eftirlit með löndum sem sýna slappleika í ríkisrekstri. Þetta ráð myndi svo tilkynna agabrot til framkvæmdanefndar Evrópusambandsins og ráðgefa í málinu. Punktur hér og jarðarför þar; MN
Þýskir bíða eftir að geta lögsótt myntbandalagið
Það er sennilega eftirvænting í lofti og glatt á hjalla hjá hópi þýskra akademíumanna, sem bíða eftir að geta lögsótt þýska ríkið og myntbandalagið inn í helvíti. Þeir reyndu á sínum tíma að kæra stofnun myntbandalagsins fyrir stjórnarskrár dómstóli Þýskalands, en sú kæra mistókst. Nú þegar björgunaraðgerðum ríkja myntbandalagsins er veifað, þá brýna þeir vopnin og bíða átekta. Strax og brotið á sáttmálum myntbandalagsins fer fram munu þeir hringja bjöllum og söðla hesta. See you in court; Bloomberg
Mánudagur 8. mars 2010
Myntvafningurinn evra verður veikur gjaldmiðill, sama hvernig litið er á málin
Wolfgang Münchau staðfestir enn frekar neikvæðu sýn sína á langlífi myntbandalagsins í nýrri grein í Financial Times. Margir evrumenn, segir hann, eru að gæla við hugsunina um eins konar Alþjóða Gjaldeyrissjóðs-fyrirbæri handa evrusvæði, sem ætti að koma hálf gjaldþrota evrulöndum til aðstoðar. Aðrir eru að gæla við að búin verði til sameiginleg (ríkis) skuldabréf fyrir evrusvæðið allt. Aðrir nefna ýmis krísuverk önnur sem setja þyrfti á fót.
Öllu þessu geta menn gleymt segir Münchau. Þetta krefðist nýrra sáttmála og nýrrar löggjafar í ESB. Eftir ferðina með vandræðabarn Evrópusambandsins, Lissabon sáttmálann (ESB-stjórnarskránna), þá myndi Brussel frekar leggja í ferðalag fram og til baka til helvítis Heklufjalls, en að leggja í nýja sáttmála af þessu tagi. [Lissabon sáttmálinn var eiginlega staðfestur fimm mínútum áður en það sem hann átti að lækna drapst]. Það er pólitíska hliðin sem er vandamálið, segir Münchau.
Þýskaland hefur nýlega stjórnarskrár-lögfest hámark 0,35% fjárlagahalla frá og með árinu 2016, segir Münchau [þetta er mikið gert vegna öldrunarvandamála Þýsklands, svo allt lendi þar ekki í hausnum á því fáa unga fólki sem verður til þar í framtíðinni]. Allar tilraunir til að fikta við grunngildi Maastricht sáttmálans - sem segir; ekkert evruland má bjarga neinum ríkissjóði annars evrulands (no bail-out klásúla); hámark 3% fjárlagahalli; og enga verðbólgu umfram það sem Þýskaland myndi sjálft hafa undir sinni eigin þýsku mynt (max 2% verðbólgumarkmið), - myndu sjálfkrafa leysa út læðingi "instant" úrsögn Þýskalands úr myntbandalaginu [hætt er við að þolinmæði Þýskalands falli hraðar en evran fellur nú um daga; þvílík steik sem málin eru komin í, eins og hendi væri veifað].
The Greek state – the sum of its public and private sectors – is just as bankrupt today as it was a week ago. This means that, by following the fiscal policy rules, the eurozone would risk a private sector depression, which would almost certainly be concentrated heavily in Europe’s south. This scenario would greatly increase the probability of a eurozone break-up at some point in the future. Investors who believe in this scenario would be very afraid to hold euros
Þrátt fyrir allt það sem gríska ríkisstjórnin auglýsti í síðustu viku, þ.e. massífan niðurskurð ríkisútgjalda, þá flytur það einungis vandamálin yfir á einkageira Grikklands í staðinn (fyrirtækin). Summan á fjárlagahalla ríkis- og einkageirans breytist ekkert við það. Grikkland sem hagkerfi er jafn gjaldþrota eftir sem áður. Þetta þýðir að verði öll Suður-Evrópa, sem og önnur fjárlagahallalönd evrusvæðis, að gera það sama til að uppfylla Maastricht-sáttmálann, þá mun það ýta einkageira myntbandalagsins í gjaldþrot eða "depression", og ástandið yrði verst í Suður-Evrópu.
Hættan á upplausn myntbandalagsins mun aukast stórlega. Þeir fjárfestar sem vita nefi sínu lengra og trúa á þetta, munu ekki vilja eiga neinar eignir í evrum. Annar valkostur er að reyna að lækna málin með gengisfellingu evrunnar sem myndi þó bara auka enn frekar á ójafnvægi í heims-hagkerfinu.
Alveg sama hvað þér mætti finnast um málin, evran er dæmd til þess að verða veikur gjaldmiðill. "Við höfum alltaf vitað að myntbandalag getur ekki lifað án pólitísks samruna, til lengri tíma litið. Fjárfestar vita þetta mjög vel. Það gæti verið orðið miklu styttra í þetta sem við köllum "til lengri tíma litið", en við höldum," skrifaði Wolfgang Münchau í Financial Times.
Tengd lesning: Rebecca Wilder
And what happens when export income does not provide the impetus for aggregate demand growth? Well, there's not much left. Can't devalue the currency (via printing money), and tax revenues will fall faster than a ten-pound weight: rising deficits; rising debt; rising debt service (via surging credit spreads). Sovereign default seems like a near-certainty somewhere in the Eurozone!
Rebecca Wilder; The end game for Europe: wage cutting and the battle for exports og Poul Krugman; Competitive Deflation (Ath: "beggar thy neighbour innvortis gengisfelling" eins og ég hef minnst á áður) -> sjá einnig það sem Martin Wolf skrifaði fyrir skömmu; fimmtudagur 25. janúar hér)
Húsnæðismarkaðsgreining frá Deutsche Bank Research
Leyfi mér að benda á greiningu Deutsche Bank á húsnæðismarkaði ESB og annarra staða. Línuritið yfir verðþróun húsnæðis í Þýskalandi, Spáni og á Írlandi er áhrifamikið. Sama gildir um BNA og Kaliforníu hins vegar. Sjálfur hef ég ekki nærlesið skýrsluna ennþá. Veit bara að ekkert gengur að selja kofann okkar; sex mánuðir á sölu, tveir komið og skoðað, og hef lækkað verðið tvisvar. Við megum sennilega þakka fyrir að koma út á sléttu eftir 10 ára setu. Bara ef dýnamit gæti verið lausnin hvað varðar kofann, það er svo ansi harðvirkt. Hér var 19 gráðu frost í bæ á Jótlandi í fyrri nótt. Já það er líka mars mánuður hér í DK; DBR
Hvað gerist þegar unga fólkið missir vonina?
Norska dagblaðið Dagsavisen var með grein um atvinnuástand hjá ungmennum Evrópusambandsins undir fyrirsögninni "tifandi tímasprengja Evrópu". Eins og er standa 20% af ungmennum Evrópusambandsins án atvinnu og eru heldur ekki í skóla. Þetta er aldurshópurinn frá 15 ára og til 25 ára. Þetta þýðir að einn af hverjum fimm í þessum aldurshóp er hvorki í vinnu né skóla. Samtals er um 5,5 milljón ungmenni að ræða. Þetta er skuggalega há tala því um sögulega litla árganga er að ræða, hlutfallslega séð.
Blaðið bendir á að atvinnuleysi þessa hóps sé að aukast. Þetta er alveg rétt hjá blaðinu en málið er mun verra en þetta því atvinnuleysi evrópskra ungmenna hefur verið mjög hátt síðastliðin 10 ár og jafnvel miklu lengur. Það var aðeins í bóluástandi síðustu fárra ára að atvinnuleysi þessa hóps mjakaðist undir 15% í ca. eitt ár. Frá árinu 2000 hefur það verið mun hærra mestan hluta tímans.
– På 30-tallet opplevde vi at både brunskjortene, svartskjortene, men også rødskjortene marsjere i gatene i Tyskland. Historien viser at slike politiske reaksjoner kan slå begge veier. Høyere kriminalitet er ofte en direkte konsekvens av høy ledighet blant unge, noe de baltiske landene er et eksempel på, sier Aarebrot.
Ástandið er grafalvarlegt í Suður- og Austur-Evrópu. Tölurnar eru hvergi sæmilegar nema í Noregi og Hollandi. Einn af frammámönnum norsku verkalýðshreyfingarinnar, Knut Arne Sanden, bendir á að stór hluti Evrópu hafi misst mikið af sínu unga fólki í styrjöldum á síðastliðnum 100 árum. En í dag er það atvinnuleysið sem kemur í veg fyrir að unga fólkið komist inn á vinnumarkaðinn. Þetta er fólkið sem fær síðast atvinnu í uppsveiflum og það fyrsta sem sagt er upp þegar niðursveiflur koma.
Þetta er einnig pólitískt vandamál, segir Frank Aarebrot prófessor við háskólann í Bergen. "Það afl og þau áhrif sem svona stór hópur fólks getur haft má ekki vanmeta. Brúnstakkar, svartstakkar o.fl. komust til áhrifa í Þýskalandi 1930. Sagan segir okkur að pólitískir vindar geta blásið til beggja átta. Að hafa atvinnu er það sama og að tilheyra samfélaginu". Mynd; kosningafylgi nasista og atvinnuleysi í Þýskalandi 1920-1932, Brad DeLong | Dagsavisen