# 496 - 2010 - vika 8 - til 1. mars 2010
VIKA 8 2010
Föstudagur 26. febrúar 2010
PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan
Notbremsenresistent
Bara við hefðum aldrei tekið upp evru
Ég man núna hvað það var sem kallaði fram hroll og gerði mig óttasleginn yfir ESB umræðunni á Íslandi vorið 2008. Það var sú snilld einfaldra manna að ekkert mál væri fyrir Ísland að taka upp evru. Ef Íslendingum líkaði ekki myntin, þá væri bara að skila henni aftur og taka krónuna í notkun á ný. Ég varð skelfingu lostinn. Þessi ótti minn fæddi af sér tvær greinar í tímaritinu Þjóðmálum: 1) Þrífst frelsið í faðmi ESB og evru? (hér) - og 2) Seðlabankinn og þjóðfélagið (hér).
Allt þetta mál er svipað því að sjá borgarísjaka í fyrsta sinn á ævinni. Ef það væri ekki búið að sýna manni á teikningu að 11 sinnum meira af jakanum er neðan sjávarborðs en ofan þess, þá myndi maður aldrei trúa því að óreyndu. Að taka upp annarra þjóða mynt er svipað. Á myntinni hangir stór hluti sjálfstæðis landsins, stór hluti lífsafkomu landsins og stór hluti lífsafkomu þjóðarinnar sjálfrar um alla framtíð.
Fari málið illa, sérstaklega ef um örsmáa þjóð er að ræða, þá getur þessi nýja mynt bundið enda á líf fólksins í landinu sem verandi sjálfstæð þjóð í eigin ríki. Í stuttu máli sagt. Fyrir Ísland getur málið í hæsta máta þýtt endalokin fyrir íslensku þjóðina. Við gætum misst landið okkar og hætt að vera þjóð. Þetta hefur gerst annars staðar í heiminum og gerist þar ennþá. Hvað munar heiminum um einn örsmáan ættbálk á eyðieyju í Norður Atlantshafi? Smápeð sem engin önnur lönd myndu sakna nógu mikið.
Þetta mál á Íslandi er þó nokkuð erfiðara viðureignar nú en oft áður, því Ísland hýsir nú í fyrsta sinn í sögu landsins heila kynslóð sem hefur ekki kynnst neinu öðru en velmegun og velferð - og jafnvel ekki þurft að dýfa hendinni í kalt vatn alla æfi. Nú liggur því fyrir sú staða að töluverð hætta er á því að hluti af áhöfninni geti fundið upp á því óvitaverki að selja vélina úr bátnum okkar. Eingöngu til þess að eiga fyrir næsta sjúss.
Notwithstanding the fact that we think the Euro survives intact, it is relatively clear that (in economic terms) the Euro does not work. That is to say, parts of the Euro area would have been better off (economically) if they had never joined.
Nú er þetta að birtast okkur í frekar óþægilegri mynd. Fjögur Miðjarðarhafslönd, eitt Írland og þrjú Eystrasaltslönd eiga mjög um sárt að binda núna. Komið er í ljós að myntbandalag þeirra í Evrópusambandinu virkar ekki. Nákvæmlega eins og efasemdarmennirnir vöruðu við. En málið er miklu verra en þetta. Það er ekki hægt að komast út úr myntbandalaginu aftur. Engin útgönguleið er út úr þessum efnahagslega pyntingarklefa þjóðanna án sjálfsmorðs þeirra sjálfra í leiðinni.
Á leiðina til hagvaxtar fyrir þessi lönd er líka búið að loka fyrir næstu áratugina. Hagvöxtur er það sem alla vantar tilfinnanlega núna. Í góðærinu gerðu sumir grín að hugtakinu "hagvexti" og þóttust vel geta lifað án hans. Annað væri mikilvægara. En ekki lengur. Núna öskra menn á hagvöxt. En hann mun bara ekki birtast í myntbandalagi Evrópusambandsins aftur. Aldrei aftur. Ekki nema að myntbandalaginu verði fórnað. Bandalagið drepur hagvöxt því forsendur myntbandalagsins eru þannig að þær útiloka hagvöxt, atvinnusköpun og framfarir. Þetta er hin dimma hlið myntbandalagsins.
"Indeed, fourteen years ago UBS economists concluded that “a monetary union extending beyond the core six [European] economies would not work properly in economic terms.”
PDF snið vika 8 2010
PDF_utgafa_vika_8_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Það var því ekki seinna vænna en að einn af yfirhagfræðingum svissneska stórbankans UBS kæmi út með 16 síðna skýrslu sem segir að evran virki ekki og passi fáum. Evran er ónýt sem gjaldmiðill og hagstjórnartæki fyrir mörg lönd myntbandalagsins. Passar* ekki vel fyrir neinn nema kjarnalöndin fimm eða sex, segir Paul Donovan hjá UBS. Best hefði verið að mörg lönd bandalagsins hefðu aldrei gengið í það. (*efnahags- fjármála- og stjórnmálalega)
En: Nú munu brátt "sérfróðir menn" koma og segja að það eina sem getur fengið evruna til að virka sé í stuttu máli það að stofna þarf Sambandsríki Evrópu. United States of Europe með sameiginlegum fjárlögum og sameiginlegri skattheimtu. Sameignlegum skuldum og sameiginlegum öxlum sem sameiginlega eiga að bera byrðar og borga brúsann fyrir þá sem hafa ekki efni á honum. Borga þarf líka fyrir stóra elliheimilið. Ungir og duglegir skattgreiðendur verða sérstaklega velkomnir á elliheimilið ESB. Hentu svo sjálfstæði þjóðar þinnar í okkur í leiðinni.
Fiscal transfers are the price that has to be paid for a monetary union of any meaningful size
Þetta er ekkert nýtt. Þetta gátu allir vitað sem hugsa. En það er bara einn rosastór og óyfirstíganlegur hængur hér. Engin af 27 löndum Evrópusambandsins gengu í Sambandsríki Evrópu. Þau gengu öll í tolla- og efnahagsbandalag. Til þess að fá evruna til að virka þarf því fyrst að há eina til tvær borgarastyrjaldir, vopnaðar eða óvopnaðar. Svo þarf nýjar kynslóðir til sem þekkja ekki gömlu og flugbeittu tennur sjálfstæðis þjóðar sinnar. Þekkja ekki virka vöðva frelsisins. Sjálfstæðið og fullveldið er hin sívirka auðlind Íslands, eins og Ragnar heiðursmaður Arnalds segir í bók sinni.
Þetta var númer eitt. Númer tvö er svo að leyfa fólki í öðrum löndum að kjósa sig til auðæfa þinna. Kjósa sig til auðæfa annarra landa. Númer þrjú: það mun Jón Baldvin Hannibalsson og hans líkar væntanlega skaffa okkur, eins og venjulega, alveg gratís; FT Alphaville
Notbremsenresistent
Herra evrumaður númer eitt í Þýskalandi og Brussel, Wolfgang Münchau - og sem áður var einn af ritstjórum Financial Times í Þýskalandi - hefur kastað handklæðinu í hringinn. Oft hefur þessi greindi maður haft rétt fyrir sér, en sjaldan eins mikið og síðasta sumar, þegar hann skrifaði að eina leiðin til að fá evruna til að virka væri að fórna þyrfti sjálfstæði ríkjanna. Þá var hann farinn að efast alvarlega um að leyst yrði úr málunum.
Núna er Wolfgang Münchau sannfærður um að hrun myntbandalagsins sé óstöðvanlegt (notbremsenresistent). Hrun myntbandalagsins sé orðið ónæmt fyrir neyðarbremsunni. Ekkert geti bjargað því nema einskonar ný Sambandsríki Evrópu - og sem eru svo að segja óframkvæmanleg. "Menn héldu að ef pókerspilið um þetta myntbandalag myndi standa yfir í nógu langan tíma, þá myndu menn á endanum standa upp frá spilinu til að gera það sem menn þurfa að gera. Þá myndi allt lagast." En þessu trúir Munchau ekki lengur. Sumar kreppur eru notbremsenresistent og ekkert getur stoppað þær. Myntbandalagið er búið að byggja upp slíkan innri haug af sprengiefni að ekkert mun geta stöðvað eyðilegginguna; FTD
Kirkjugarður ríkisstjórna Evrópu
Portúgalski hagfræðingurinn og blaðamaðurinn Domingos Amaral skrifar í Correio da Manhã að myntbandalagið sé spennitreyja fyrir Portúgal og að hagvöxtur landsins hafi aldrei verið eins lélegur hin síðustu 50 ár og undir evrunni. Allt sé orðið of dýrt. Ef það var velmegun og hagsæld sem myntbandalagið átti að leiða af sér þá höfum við uppskorið akkúrat hið gagnstæða, segir hann. Hrikalegar reglur myntbandalagsins hafa breytt Evrópu í kirkjugarð fyrir ríkisstjórnir. Það er kominn tími til að gera sér grein fyrir því að evran virkar ekki og að það verður að koma breyting. Að yfirgefa myntbandalagið yrði hrikalegt, en það sama gildir ef ekkert er gert. Evran refsar þeim saklausu og lokar á allar útgönguleiðir út úr óförunum, segir Amaral; CM
Fimmtudagur 25. febrúar 2010
Aðvörun um enn frekari lækkun lánshæfnismats ríkissjóðs Grikklands
Standard & Poor’s segir að til standi að lækka lánshæfnismat gríska ríkisins um nokkur þrep (frá BBB+) innan mánaðar ef ljóst verður að viðbrögð almennings muni ekki styðja undir miklar niðurskurðar áætlanir grísku ríkisstjórnarinnar, sem nú situr föst undir hótunum frá skammbyssuhlaupi Brussels. Lækkun matsins mun þá, ef að líkum lætur, loka á aðgang fyrir bankakerfi Grikklands að peningageymslum seðlabanka Evrópusambandsins. Bloomberg | Kathimerini
Óska eftir virðingu og lægri vöxtum
Í tilefni gríska allsherjarverkfallsins í gær skrifar þýska Der Spiegel að Grikkir óttist að hryllingssögur um efnahag Grikklands muni hafa í för með sér ströng viðurlög og hömlur frá hendi Brussel.
Blaðið heldur því fram að opinberir starfsmenn í Grikklandi njóti slíkra forréttinda að verkfall þeirra sé óafsakanlegt. Grikkir séu á hinn bóginn sárir yfir þeirri gagnrýni sem komið hefur frá Þýskalandi, af öllum þjóðum að vera. Það sem Grikkland þarf á að halda sé pólitískur stuðningur til að framkvæma óvinsælar aðgerðir sem bjarga eiga myntbandalaginu frá hruni. Aðeins með pólitískum stuðningi getur landið unnið sér inn virðingu og lægri vexti á fjármálamörkuðum Evrópusambandsins. Til þess að geta innleitt strangar niðurskurðaraðgerðir og gert þær þolanlegar fyrir þjóðina, þarf Grikkland stuðning; Der Spiegel
Verköll í Tékklandi. Evrópu vantar sterkan mann
Verkalýðsfélög Tékklands tilkynntu á þriðjudaginn að samgöngur landsins munu verða lamaðar á mánudaginn vegna verkfalls. Viðskiptablaðið Hospodářské Noviny segir í stuttri grein að Evrópusambandið sé nú að skríða inn í annan hluta kreppunnar. Þessi hluti kreppunnar verður stjórnmálamönnum mun erfiðari en fyrsti hlutinn. Það var auðveldara fyrir stjórnmálamenn og stinga sér á kaf ofan í vasa skattgreiðenda á fyrsta hluta kreppunnar og pumpa svo peningum þeirra ofaní bankana [sem þeir áttu að hafa haft eftirlit með frá byrjun, en höfðu ekki].
En að róa niður kynslóðir af foreldrum, öfum og ömmum er allt annar handleggur. Það er orðið erfiðara fyrir fólkið að finna atvinnu og þeir sem eru svo heppnir að hafa atvinnu eru yfirleitt á lágum launum. Evrópubúar þurfa á sterkum manni að halda, eins og til dæmis Churchill, segir blaðið. Manni sem þorir að mana til jarðar viðteknar skoðanir og sem hugsar ekki samkvæmt skoðanakönnunum. En hvar í ósköpunum ætti að finna svona mann, spyr blaðið? HN
Verðbólgubandalagið?
Der Spiegel var með langa og ágæta grein um myntbandalagið í fyrra dag. Greinin birtist fyrst á þýsku en hefur nú verið þýdd yfir á ensku. Blaðið fer frekar fínt í hlutina. Byrjað er á því hefðbundna; það eru mest vondu (anglo sax, auðvitað) mennirnir í bönkunum og á mörkuðunum sem eru að spá gegn aumingja vesalings evrunni, sem er ekki sérstaklega traustur gjaldmiðill (og flest er Ameríku að kenna, eins og venjulega, ja?).
En að mínu mati er sá hluti greinarinnar aðeins deyfingarlyfið sem blaðið gefur lesandanum áður en það stingur borvélunum á kaf ofan í báða endajaxla lesandans samtímis, með því að segja að myntbandalagið sé á leiðinni að verða "evrópska verðbólgu bandalagið". Það getur varla verið til neitt sem fer eins beint í taugkerfi Þjóðverja eins og hugtakið verðbólga - eða að "prenta peninga" - hvað þá að stunda "quantitative easing" á örlagastundum hagkerfa. Der Spiegel
Deutsch-Mark á Google trends => Mest Þýskaland, Austurríki og Sviss og á þýsku. Borgir => mest Vesturþýskar borgir. GT
Bati í hagvexti Þýskalands stöðvast
Of hátt gengi gagnvart 90% af heiminum. Niðurskurður opinberra útgjalda í útflutningslöndum Þýskalands þar sem 50% af landframleiðslunni er ráðstafað af hinu opinbera. Lamað bankakerfi flækt í puttum stjórnmálamanna. Gamlir þegnar. Lítil neysla og Bandaríkin ekki lengur neytandi þeirra til þrautarvarna. Helsta útflutningsvara Þýskalands núna er verðhjöðnun. Gat þetta farið öðruvísi? Telegraph
Atvinnuleysi Finnlands komið í 9,5%.
Hagstofa Finnlands greindi frá því að atvinnuþátttaka í Finnlandi er nú komin niður í 64,9% af vinnuafli landsins og að atvinnuleysi sé að nálgast tíu prósentustig. Hagstofa Finnlands
Falskur orðrómur um áhlaup á gríska banka
Undanfarna daga komst í umferð orðrómur um að grískir bankar væru undir áhlaupi, að verið væri að tæma þá. En þetta reyndist ekki rétt segir Financial Times. Einungis er um að ræða flótta fjármagns frá skattahækkunum, enn sem komið er . . FT Alphaville
Miðvikudagur 24. febrúar 2010
Svart/hvítt: Drive-in útibú Verslunarbanka Íslands 1975
Veðurhorfur fyrir ríkisgjaldþrot í aðsigi
Staðurinn þar sem góða veðrið er oftast, er Aðsig. Þar er oft gott að vera. En ekki núna. Fyrrverandi yfirhagfræðingur AGS, Kenneth Rogoff, segir að í kjölfar fjármála og bankakreppa fylgi oft röð af greiðsluþrotum ríkissjóða. Hann spáir að svo verði einnig raunin nú í kjölfar þeirrar yfirstandandi og hyldjúpu bankakreppu sem ennþá geisar. Margir bankar lifa enn aðeins fyrir tilstilli stuðnings skattgreiðenda sem ríkisstjórnir margra landa veittu þeim aðgang að.
Þetta var eitt af því sem hönnuðum myntbandalags Evrópusambandsins yfirsást að miklu leyti. Að hægt yrði að smygla áhættutöku einkageirans yfir Maastricht sóttvarnargirðingu myntbandalagsins og inn í ríkiskassa evrulanda. Það var stöðugleiki ríkissjóða, með hámarks þrjú prósent hallarekstrar reglunni, sem átti að tryggja grundvöll og stöðugleika myntarinnar evru. Nú er þetta í molum. Það sama gildir um lífshorfur myntbandalagsins í núverandi mynd. Að nokkurntíma verði mögulegt að vera saman í myntbandalagi með löndum sem enn eru að skenkja sér sjálfum launahækkunum í 20% atvinnuleysi og fullu útflutningsstoppi. Svo slæmt er ástandið að hörðustu evrutrúarmenn á meginlandi Evrópu eru að missa trúna.
Svo kom fjármálastormurinn haustið 2008. Banka- og fjármálastofnanir riðuðu til falls. Á evrusvæðinu komst í gang mikil og virk samkeppni um hvaða ríkisstjórnir byðu mestu og bestu ríkisábyrgðina sem bjargað gætu einmitt bönkum þeirra eigin lands.
Hlutabréfaverð sást falla eða stíga eftir því hversu góðar og miklar ríkisábyrgðir voru í boði. Erfitt var fyrir margar ríkisstjórnir að fara varlega, því þá áttu þær á hættu að verða undir í samkeppninni. Það hefði þýtt taumlausan fjármagnsflótta til þeirra evrulanda sem buðu bestu ríkisábyrgðina. "Ein mynt, einn peningur" skaut sig í fótinn.
Fjárfestar seldu hlutabréfaeign sína í bönkum unnvörpum. Eins og gengur og gerist eru alltaf bestu og létt seljanlegustu bréfin seld fyrst, því redda þarf fjármunum og innleysa þarf veðköll í hvelli. Því til þess að sala geti farið fram verður að vera kaupandi á hinum enda línunnar. Stórar - og að menn héldu - traustar fjármálastofnanir riðuðu því til falls hratt. Núna sitja ríkisstjórnirnar með þennan svarta pétur í fórum sínum. Aðeins fáir sáu þetta fárviðri fyrir. Svo verður einnig með næsta fárviðri.
Kenneth Rogoff er ekki einn um að sjá hættu á ríkisgjaldþrotum (gjaldþrot = að þrjóta gjaldið). Hann sér fyrir sér að ríkisfjármál Japans fari úr böndunum. Japanska ríkið skuldar meira en tvöfalda landsframleiðslu landsins. En þó verða menn að hafa í huga að flestir lánadrottnar japanska ríkisins eru japanskur almenningur. Skuldir Japans eru ekki hættulega miklar erlendis. Einnig á Japan miklar eignir erlendis og gjaldeyrisforða sem þýðir að skuldir japanska ríkisins eru ekki það hættulegar eins og er. En það sem er hættulegt í stöðunni er það að nú er japanskur almenningur að verða svo gamall að hann þarf sjálfur að fara að nota sparnaðinn sinn. Of fáir nýir einstaklingar sem geta keypt japönsk ríkisskuldabréf fæðast þar í landi. Hver á þá að fjármagna hallarekstur japanska ríkisins áfram?
Næst á gjaldþrotalista dagsins eru ónafngreindar heimildir, en að sögn áreiðanlegar, sem segja að "hvíslandi" markaðsaðili gerði ráð fyrir ríkisgjaldþrotum 12 Evrópusambandsríkja á næstu árum. Enginn listi ríkja er gefinn upp. En Rogoff setur sjálfur Grikkland og Portúgal efst á sinn eigin lista. Fjársýslufyrirtækinu Bridgewater, sem annast mikið fjármagn, líkar ekki það sem fyrirtækið sér á Spáni. Landið skuldar umheiminum 80% af landsframleiðslu Spánar umfram erlendar eignir. Það sem verra er, Spánn skuldar þetta í mynt sem landið getur ekki prentað eða stýrt sjálft. Þetta á sér fá fordæmi í sögunni segja menn - og er helst hægt að líkja við byrðar Verslasamningsins sem neyddur var upp á Þýskaland eftir fyrri heimsstyrjöldina.
Það er vefsetrið "Naked Capitalism" sem birti 12 ríkja töluna og sel ég hana alls ekki dýrara en ég keypti hana. Best væri ef talan væri núll.
Spænska ríkisstjórnin hefur nú sett leyniþjónustu landsins í að finna út úr því hvaða "engilsaxnesku öfl" séu að skoða og spá í Spán með neikvæðum formerkjum á fjármálamörkuðum. Hafið þið heyrt þetta áður?
Á vefsetri nakta kapítalismans eru einnig tíndar fram tölur yfir að á þessu ári komi til endurnýjunar hálfar biljónar evru-skulda bankakerfis ESB - og annað eins kemur til viðbótar á næsta ári. Á sama tíma, þ.e. á þessu ári, þurfa ríkissjóðir Evrópu að selja skuldir fyrir 1,6 billjón evrur (1,600 miljarða).
Það er varla ólíklegt að kapphlaup verði að fjármagninu úr peningabrunninum. Vextir hljóta því að hækka. Spurningin er hversu mikið og hvernig mun þá venjulegum fyrirtækjum ganga að fá aðgang að láns- og rekstrarfé, ef bankar og ríkisstjórnir ætla að drekka allt vatnið úr brunninum fyrst. Hvaða fyrirtæki eiga þá peninga til að fjármagna kaup á eignum Landsbankans erlendis? Fara þær ekki bara á brunaútsölu? Fæst þá eitthvað fyrir þær? Og vextirnir maður; Naked Capitalism
Innlánsvextir í ERM landinu Danmörku
Daninn Kurt Nøhr Pedersen er viðskiptavinur í Lån & Spar Bank í Danmörku. Hann er þar með "hávaxta bankareikning". Innlánsvextirnir á þessum hávaxtareikningi eru núll komma núll prósent á ári. Í Danmörku hafa sjö bankar skrúfað innlánsvexti niður í núll. Þetta þýðir að þú borgar bankanum peninga fyrir að geyma peningana þína. Ódýrara væri að grafa þá niður úti í garði.
Já en menn verða að muna, segir John Christiansen bankastjóri Lån & Spar bankans, að við bjóðum 0,25% ársvexti ef þú setur 100 þúsund danskar krónur inn og lætur þær standa þar kyrrar. Svona virkar Dansave; Børsen
Það er eins gott að hinn svo kallaði "innri þjónustumarkaður" Evrópusambandsins virki ekki. Þá væri fjármagnið flúið yfir í verðtryggða íslenska krónu. Gengi íslensku krónunnar væri þá komið þangað sem íslenskir ESB-menn vilja hafa það; ein á móti öllum.
Þriðjudagur 23. febrúar 2010
Mynd; Kennslugögn Krugmans í gær
Má bjóða þér írska evru að láni?
Þú getur fengið hana á 10% raunvöxtum á Írlandi í dag. Það er mínus 4 til 5% verðbólga á Írlandi núna. Hagfræðingurinn David McWilliams vill alls ekki þessa írsku evru. Má bjóða þér einn írskan banka? Þeir eru allir liðnir og náfölir sem lík. Líkfylgdin er írska þjóðin sem nú er bundin á skuldaklafa um komandi kynslóðir. Hinir fáu græddu á því fjármálasukki sem seðlabanki Evrópusambandsins jós yfir í aska nokkurra feitra írskra evruvíkinga. Nú er tapinu þurrkað yfir á þjóðina. Þetta er kjarninn í grein David McWilliams á bloggsíðu sinni. Hann vann áður hjá seðlabanka Írlands.
Atvinnuleysi ungra karlmanna á Írlandi er yfir 30%, og eykst hratt, segir David. Fólksflótti er að aukast. Hrikalegur samdráttur er í útlánum úr dauða-bönkum Írlands. Mismunurinn á milli innlána og útlána er 100% af landsframleiðslu. Yfir 300.000 manns eru með neikvæða eign í fasteignum sínum. Landið er gersamlega ósamkeppnishæft. Allt er of dýrt. Smásala fellur, atvinna minnkar, skattatekjur ríkisins falla, vinnuafl flýr landið og þrýstir fasteignaverði ennþá lengra niður. Þetta var á árunum 1980 kallað "misheppnuð tilraun til jafnvægis í ríkisfjármálum". Reynt er að stoppa í tekjugöt ríkissjóðs með niðurskurði, svo er farið út í skattahækkanir. Þegar þær mistakast og skattatekjurnar halda áfram að falla, þá hvolfist þjóðarskútan og ríkisstjórnirnar gefast upp og falla. Þá hættir fjármálamarkaðurinn að sinna liðnu líkinu. Nýjar ríkisstjórnir koma og fara. Fjármagnið flýr svo sköttun og ríkisgjaldþrotaáhættu í senn.
Næst flýr svo fjármagnið það óhjákvæmilega. Allir vita að á endanum verður hið læsta gengisfyrirkomulag landsins að bresta. Fjötrar evru munu þá falla eins gullfóturinn féll. Fyrst var það bara Keynes sem talaði einn í eyðimörkinni gegn frosnu gengisfyrirkomulagi frosinna manna. En í tak með að armæða ríkjanna jókst, vissu þau öll innra með sér að Keynes hafði rétt fyrr sér. Gengisfelling kom. Írland yfirgefur myntbandalagið og rífur af sér evruhandjárnin. Það er ósk Davids McWilliams; Let’s get logical on the euro | Pistill: Sannleikurinn um efnahagsmál Írlands
Vaða beint út í grískt kviksyndi
Lítil er hrifning hagfræðingsins Charles Wyplosz á því hvernig ráðherrar og embættismenn Evrópusambandsins eru að klúðra málum núna. Það er gríska málið sem vekur ergelsi, háðung og spott hjá þessum einum fremsta hag- og sérfræðingi í myntbandalagsmálum Evrópusambandsins. Hálf gjaldþrota rassvasa-svindlbanka ríkisstjórna Þýskalands og Frakklands er nú verið að gera klára til að stunda fjár- og sáttmálalegar sjónhverfingar, svo hægt verði að bjarga eigin bankakerfum og sjálfu myntbandalaginu frá hruni með því að pumpa upp sprungið Grikkland. Sáttmálar verða brotnir og á anda hins svo kallaða Evrópusamstarfs verður blásið stórt.
Þeir þykjast ætla að bjarga eigin skinni með því að bjarga Grikklandi. En hvað næst? Næst eru þeir kannski færir um að troða tannstönglum og vökusperrum undir augnalok portúgalska hagkerfisins. Þar næst verður það kannski Spánn sem er þeim algerlega ofviða - en hvað svo? Ítalía, Frakkland? "Það eina rétta hér er að kalla Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn á vettvang strax", segir Wyplosz; FT.
Leyfi mér enn einu sinni að benda á ágætis rit eftir Charles Wyplosz; European Monetary Union; the dark sides of a major success.pdf
Lítill áhugi fyrir ESB-fátækt í Noregi
Ný skoðanakönnun í Noregi sýnir að aðeins 33% Norðmanna hafa áhuga á því að ganga í ESB. Í næsta mánuði munu skoðanakannanir í Noregi hafa sýnt þvert nei við ESB í samfleytt fimm ár. Það er lítill vafi á því hvað þessi afstaða fólks endurspeglar, segir formaður norsku samtakanna "Nej til EU", Heming Olaussen. Með evrunni hefur ESB komið sér út í öngþveiti. Fólk veit núna að enginn vafi er á því að aðild Noregs myndi fela í sér aukið atvinnuleysi, lægri laun, lægri ellilífeyri, minni réttindi, tapað fullveldi og sjálfsstjórn. Þetta er alveg öndvert við það líf sem fólk óskar sér.
"Óði hattarinn sagði Lísu í Undralandi að orð hafa þá meiningu sem þú vilt að þau hafi. Óði hattarinn hefði verið eins og heima hjá sér í Evrópusambandinu því þar fær orðið “nei” þýðinguna “já” og pólitískum áróðri er básúnað út sem upplýsingum": Pistill: Sannleikurinn um efnahagsmál Írlands
Já-hliðin kennir, eins og venjulega, skorti á "upplýsingum" um ófarirnar. Já, skorti á upplýsingum. Hafið þið heyrt þetta áður? Skortur á upplýsingum!
Nationen | Folkebevægelsen | Morgunblaðið
Mánudagur 22. febrúar 2010
Mynd; Wall Street Journal (WSJ)
Myntbandalagið var spennt fyrir framan hestinn. Mikil evruvandræði í vændum.
George Soros skrifaði grein í Financial Times í gær. Þar segir hann að þó svo að það takist kannski að bjarga Grikklandi frá ríkisgjaldþroti þá sé og verði myntbandalagið og evran áfram í hættu sem gjaldmiðill því fyrirbærið var vitlaust byggt. Vagninn var settur fyrir framan hestinn í stað þess að setja hestinn fyrir framan vagninn sem svo myndi draga hann áfram. Í vagninum situr nú myntbandalagið fast með evruna og hagvöxtur evrusvæðis mun þjást vegna þessara erfðagalla. Það þarf pólitískt kraftaverk til að bjarga evrunni. Það var George Soros sem sá fyrir hrun EMS/ERM gengisbindingu ESB-landa árið 1992 og græddist honum mikið fé á því; FT | Reuters | Soros: Even if You Save Greece, The Euro Is Doomed
George Soros 21. febrúar 2010: - "The construction is patently flawed. A fully fledged currency requires both a central bank and a Treasury. The Treasury need not be used to tax citizens on an everyday basis but it needs to be available in times of crisis. When the financial system is in danger of collapsing, the central bank can provide liquidity, but only a Treasury can deal with problems of solvency. This is a well-known fact that should have been clear to everyone involved in the creation of the euro. Mr Issing admits that he was among those who believed that “starting monetary union without having established a political union was putting the cart before the horse”
EMS/ERM fyrirbæri Evrópusambandsins árið 1992 fékk viðnefnið "hið framlengjandi kreppufyrirkomulag" e. "the Extended Recession Mechanism" meðal Breta
Stóra kreppan, tollar, höft og fast gengi
Kennslugögn dagsins frá Poul Krugman eru athyglisverð. Þau eru um stóru kreppuna 1930. 1) Framleiðsla jókst mikið þegar kreppan (eiginlega neikvæð kryppa) rétti úr sér. En það gerðu heimsviðskipti hinsvegar ekki. 2) Tollamúrar og tollaverndun fór mikið eftir gengisfyrirkomulagi landa og var tollavernd minni hjá gullblokkarlöndunum. 3) En þau lönd sem voru með fast gengi fengu langmesta hrunið í framleiðslu.
Lærdómurinn er kannski sá að tollamúrar og tollvernd hafi alls ekki verið hindrun fyrir hagvexti. Sveigjanlegt gengisfyrirkomulag margra landa hafði meira að segja fyrir vöxt en lágir tollar? Gengisfelling bjargaði miklu? Dýpsta kreppan varð hjá gullblokkarlöndum og löndum með stýrðu gengi; NYT (The interwar trade decline; PDF)
Mun hækkun Bandaríkjadals leiða gott af sér?
Stuttar vangaveltur Dave Kansas á Wall Street Journal um helgina, gengu út á þróun gengis Bandaríkjadals gagnvart evru. Í stuttu máli: evran fellur tæp 20% frá genginu $1,5 pr. evru í nóvember 2009 og niður í $1,24 á árinu 2010. Þetta mun lengja það tímabil sem seðlabanki Bandaríkjanna getur haldið pólitískum peningavöxtum mjög lágum, eða óbreyttum, vegna langvarandi fjarveru verðbólguþrýstings. Hækkun dals mun líka setja til hliðar hækkun á hrávörum.
Þetta gæti skapað góðan jarðveg fyrir bandaríska hlutabréfamarkaði. Wall Street elskar lága vexti samfara lágri verðbólgu og stöðugleika í hrávöruverði. Margir bíða núna á hliðarlínunni eftir svona skilyrðum sem eru ákjósanlegar forsendur fyrir verðbólgulausum vexti og "bull market rally" (einstefnu upp á við) á Wall Street. Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn gæti staðið sig best af öllum mörkuðum iðnvæddra ríkja. Evran er komin með krónískt og geislavirkt blikkandi spurningarmerki fest framan á brjóstvasa evrusvæðis; WSJ
Blikur á lofti peningahimna?
En svo kom eftirfarandi og varpaði þoku fyrir útsýnisglugga WSJ hér að ofan: vísitala neysluverðs + fallandi veltuhraði peningamagns í umferð = vandræði. Rebecca Wilder skrifaði um að veltuhraði peningamagns hafi hægt á sér í desember í Bandaríkjunum. Verðlag haldi ekki og sé fallandi. Ef það er eitthvað sem Wall Street hatar, þá er það verðhjöðnun. Hver vill eiga fallandi eignir og tilheyrandi vaxandi greiðslubyrði á lánum sem tekin voru til að kaupa eignir sem eru að falla að raunvirði? Ekki ég. Er þetta byrjunin á nýrri niðursveiflu eða stöðvun bataferlis? Er átatugur ríkisskuldabréfa framundan á vesturlöndum? Rebecca Wilder
Veðrið á mánudagsmorgni hér á Djurslandi er stórhríð, já stórhríð, eftir stjörnuskin og 14 stiga frost næturinnar. Enn bætist við snjóinn frá því í desember. Þetta er bara "dejligt", eða hitt þó heldur. Minnir svolítið á stórhríðina á Siglufirði á köldu árum sjöunda áratugs síðustu aldar. Þegar maður varð að láta sér nægja að hlusta á fólabátinn Drang sigla inn fjörðinn, því ekkert sást út úr augunum. Skólafrí var þá stundum í vændum :) | Ljósmyndasafn Steingríms - Drangur siglir inn fjörðinn.
SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA