# 497 - 2010 - vika 7 - til 21. febrúar 2010
VIKA 7 2010
Föstudagur 19. febrúar 2010
PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan
Mynd: Brusseldagar - The Economist 1996
Þá voru 155 hagfræðingar sammála um eitt
Minna en einu ári áður en flaggskipi myntbandalags Evrópusambandsins, evrunni, var ýtt úr vör, skrifuðu 155 þýskumælandi hagfræðingar undir bænaskjal þar sem þeir fóru fram á að evrunni yrði frestað í langan tíma. Ekki var hlustað. Á aðfaranótt sjósetningardagsins voru 55% allra Þjóðverja á móti því að leggja niður þýska markið og að vera þvingaðir til að deila sömu mynt með 10 ólíkum löndum. Ekki var hlustað. Nú deila þeir mynt með 15 löndum.
Rúmum tíu árum seinna hefur spádómur þessara 155 sammála hagfræðinga ræst. Það sem Evrópubúum var sagt að ætti að sameina Evrópu hefur einungis sundrað henni.
Við sæmilega ljósatýru á aðfangadagskvöldi sprengidags myntbandalagsins var mismunurinn á lægstu og hæstu verðbólgu í löndum myntbandalagsins 2 prósentustig. Tíu árum seinna er þessi mismunur 5,9 prósentustig.
Mismunurinn á milli árlegs meðaltals hagvaxtar Írlands og Portúgals á fyrri helming áratugs myntbandalagsins var 4,8 prósentustig. Árið 2009 var þessi mismunur orðinn 6 prósentustig.
Mesti mismunur á milli framleiðnivísitölu landa evrusvæðis óx frá 25 vísitölustigum og í 66,2 stig á 10 árum myntbandalagsins.
Mismunurinn á milli launavísitölu evrulanda (vísitala tímalauna) óx frá 5,4 prósentustigum til 32,8 prósentustiga á tíu árum myntbandalagsins.
Feb. 19th 2010 (Bloomberg) The crisis stalking the euro economy began with a footnote. When the European Union predicted in 1997 that Italy’s budget deficit would exceed the threshold to qualify for the single currency, it buried in the fine print the observation that with “additional measures” the Italians could pass. They did, thanks to a one-time tax and a yen-denominated swap | Bloomberg
Mismunurinn í atvinnuleysi á milli landanna óx frá 10,1 til 15,4 prósentustigum á tíu árum evrunnar.
Engin samhæfing hefur orðið í ríkisfjármálum á milli landa evrusvæðis á 10 árum.
Árið 1999 voru opinberar skuldir Finnlands þær lægstu á evrusvæði (45,5% af VLF). Mismunurinn á milli Finnlands og skuldugasta ríkis evrusvæðis, Ítalíu, var 68,2% árið 1999.
Þessi mismunur er ennþá meiri í dag því skuldir Finnlands hafa lækkað en ekkert hefur gengið með að laga ríkisskuldastöðu Ítalíu á samfleytt tíu árum. Ekkert. Skuldahlutfall opinberra skulda Ítalíu miðað við landsframleiðslu þessa þriðja stærsta hagkerfis evrusvæðis, hefur ekki haggast á 10 árum og er ennþá vel yfir 100% af landsframleiðslu.
Þetta óhagstæða skuldahlutfall Ítalíu er að versna enn meira núna. Ítalía mun líklega aldrei geta borgað skuldir sínar.
Mismunurinn á milli opinberra skulda þess ríkis evrusvæðis sem skuldaði minnst og mest árið 1999 hefur því bara vaxið og var orðinn 73,3% árið 2009.
Staðan á mesta mismun á milli fjárlagahalla ríkjanna hefur einungis versnað enn frekar á 10 árum undir evru.
Myntbandalagið hefur verið og verður í æ ríkara mæli tifandi tímasprengja undir velmegun allra þegna Evrópusambandsins. Það sem meira er, myntbandalagið er nú á leiðinni að verða spillir friðar og farsældar í Evrópu um langa framtíð. Lýðræði í Evrópu hefur líka, eina ferðina enn, verið kippt úr sambandi.
ATHENS, Feb 18th 2010 (Reuters) - Greek opposition lawmakers said on Thursday that Germans should pay reparations for their World War Two occupation of Greece before criticising the country over its yawning fiscal deficits. "How does Germany have the cheek to denounce us over our finances when it has still not paid compensation for Greece's war victims?" Margaritis Tzimas, of the main opposition New Democracy party, told parliament | Reuters
Því miður hefur myntbandalagið að miklu leyti eyðilagt framtíðarhorfur Evrópu til langframa. Engin farsæl útgönguleið er til út úr þeim hrikalegu ógöngum sem Evrópusambands-elítan í Evrópu og Brussel er búin að koma 500 milljón þegnum þessarar heimsálfu í. Nú er bara dauðadansinn eftir. Því miður. It's on!
Slóðir:
a) Á dönsku: Er nedtællingen til euroens endeligt i gang? (sennilega það versta sem hefur verið birt á danskri tungu um myntbandalagið, nokkru sinni. Hefði aldrei fengist birt fyrr en nú | Børsen
b) Á ensku: The Euro’s Final Countdown? Sylvester Eijffinger & Edin Mujagic | Project Syndicate
c) Let the Greeks ruin themselves | The Economist 18. febrúar 2010
d) Takk til: Rolf Englund (CV) fyrir að hafa haldið svona dyggilega utan um heimildir í svo langan tíma og lagt þær út á netið handa okkur. | German economics professors call for delay of EMU
Fimmtudagur 18. febrúar 2010
PDF snið vika 7 2010
PDF_utgafa_vika_7_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
mynd; dr.dk
Fátækt hefur aukist mikið í Þýskalandi - 11, 5 milljón manns fátækir.
Á síðustu 10 árum hefur fátækt aukist mikið í Þýskalandi. Það er efnahagsrannsóknastofnun Þýskalands (Deutschen Institut für Wirtschaftsforschung) sem segir þetta í nýrri skýrslu. Alls eru 14% allra íbúa Þýskalands fátækir. Samkvæmt mælikvarða stofnunarinnar telst fólk fátækt þegar það þarf að lifa af á undir 60% af meðaltekjum allra í landinu. Um 30% fleiri eru fátækir í Þýskalandi í dag en voru þar fyrir 10 árum. Úr hópi ungs fólks á aldrinum 19-25 ára falla 25% þeirra í flokk fátækra. Um 40% einstæðra foreldra með eitt eða fleiri börn eru fátækir. Bandalag þýskra fylkisbanka (Landesbank) aðvarar stjórnvöld um að fátækt meðal gamals fólks í Þýskalandi muni verða vaxandi vandamál; Berliner Zeitung
Mín skoðun: Sumir eru að láta sig dreyma um að hægt sé að laga hrikaleg efnahagsvandamál og ömurlegar framtíðarhorfur ESB og evrusvæðis með því að krefjast "aukinnar eftirspurnar" frá þýska hagkerfinu. Að aukin þýsk eftirspurn muni lækna "innra ójafnvægi" á myntsvæðinu. Þetta er að snúa hlutunum á haus, því léleg eftirspurn þýska hagkerfisins stafar frá öldrun þegna þýska hagkerfisins.
Þýskaland er nú orðið stærsta elliheimili heimsins og fækkaði Þjóðverjum um 300.000 manns á síðasta ári. Fækkun þjóðverja hófst fyrir alvöru árið 2003 og var fækkunin um 400.000 til 500.000 manns frá 2003-2008. Mannfjöldaspá þýsku hagstofunnar gerir ráð fyrir að þýsku þjóðinni geti fækkað úr 80 milljón manns og niður í 60-65 milljón manns árið 2045-2055.
Og nú vilja margir sem stofnuðu til vandamálanna, með sköpun myntbandalagsins, fá lánað AAA kreditkort Þýskalands til að borga brúsann í Suður-Evrópu! Er það furða að Þjóðverjar séu æfir? Þýskur almenningur hafði engan áhuga á stofnun og þátttöku í myntbandalagi. Suður-Evrópa á ekkert erindi í myntbandalag með Þýskalandi. Hún mun aldrei geta keppt við Þjóðverja undir sama myntfót. Aldrei. Þess utan hefur t.d. meðalaldur Ítala hækkað um 10 ár á síðustu 30 árum sökum lélegrar frjósemi áratugum saman, svo ekki mun það hjálpa upp á eftirspurn frá suðri.
Ætla menn virkilega að krefjast þess að fólk yfir fimmtugt í Þýskalandi komi hjólunum í gang í Evrópu á ný? Þetta er súrrealistísk hugsun. Þetta fólk er búið að fjárfesta, búið að neyta, búið að eiga börn og mun ekki eignast nein fleiri börn áður en það deyr. Yfir helmingur kosningabærra manna í Þýskalandi voru um eða yfir sextugt í síðustu þingkosningum.
Þetta er miklu verra en ég hélt.
Á þýska blaðinu Berliner Zeitung skrifuðu menn í gær, að ef lönd evrusvæðis sameinist ekki eins-og-skot þá muni evran verða að engu sem gjaldmiðill. Blaðið telur upp það sem margir menn með viti vöruðu við áður en myntbandalagið var stofnað, en sem Brussel nú í rjúkandi rúst veit greinilega ekki neitt um ennþá.
Stofnun myntbandalagsins var veðmál, segir blaðið. Stjórnmálamenn og embættismenn hafa nú tapað þessu veðmáli. Evran virkaði ekki. Hún hefur orsakað meiri sundrungu en var í Evrópu áður en henni var ýtt úr vör. Norður-Evrópa, segir blaðið, stundaði innvortis gengisfellingar (launa og kostnaðarlækkun) á meðan hún, undir stjórn seðlabanka Evrópusambandsins, fóðraði Suður-Evrópu, Írland og ERM löndin á ódýru fjármangi sem gerði þeim kleift að kaupa vörur frá nyrðri löndum evrusvæðis - og sprengja sig sjálf hátt í loft upp. Þess vegna verða lönd evrusvæðis að sameinast strax!, segir blaðið.
Svo eru menn að agnúast út í aðila markaðarins fyrir að gera það sem þó er þeirra fyrsta og frómasta hlutverk; að stunda spákaupmennsku! Það er nefnilega ekki til nein önnur kaupmennska. Stunda hana eins og gert hefur verið í heiminum frá örófi alda. Það var meira að segja kvartað yfir spákaupmennsku, viðskiptasvindli, fasteignabraski og vörusvikum á skyndibitastöðunum í Jerúsalem á tímum krossferða. En þegar stjórnmálamenn og stjórnlausir embættismenn stunda spákaupmennsku - og leggja þjóðfélögin undir - þá er það kallað "stjórnmál" og Evrópumál!" Fruss hér; Berliner Zeitung
Það sama er skrifað á Spáni.
Spænska viðskiptadagblaðið Cinco Días segir næstum það sama og Berliner Zeitung. "Með ákvörðun ráðherra og embættismanna Evrópusambandsins um að yfirtaka efna- og fjárhagslega yfirstjórn í landinu Grikklandi (hostile take over?), er loksins runninn upp rétti tíminn til að innleiða eina sameiginlega fjár- og efnahaglega yfirstjórn Evrópusambandsins yfir löndum evrusvæðis. Til hins betra eða verra hefur gríski harmleikurinn sýnt að núverandi yfir-stjórnun myntbandalagsins virkar ekki. Það er nú ljóst að lönd evrusvæðis verða að gefa stóran hluta eigin fjármála- og efnahagsstefnu landa sinna upp á bátinn", segir blaðið; Cinco Días
90% Hollendinga vilja fá sína gömlu mynt til baka.
Reuters greinir frá því að hollensk skoðanakönnun sýni að yfirgnæfandi meirihluti hollendinga vilja fá sína eigin mynt til baka. Mynt Hollands frá 17. öld til ársins 2002 var hollenskt gyllini (NLG). En árið 2002 tók Holland upp evru. Gyllini er ennþá gjaldmiðill hollensku Antillaeyja (ANG). Hollenska skoðanakönnunin náði til 5300 manns. 92% aðspurðra vildu að Grikklandi yfirgæfi myntbandalagið. Meira en 90% aðspurðra vildu að Holland og Þýskaland tækju aftur upp gömlu gjaldmiðla sína (mark og gyllini) og yfirgæfu myntbandalagið. Meira en 60% aðspurðra höfðu áhyggjur af að þróunin í Grikklandi myndi valda usla í bankakerfi Hollands; Reuters
Tvær aukalegar enskar slóðir til aflestrar
Boris Johnson um gríska málið:
The Greeks must be rueing the day they whacked the drachma. If Hellenic pride is currently at a low ebb, just wait until the EU steps in
"It was late last night and I was rifling through the sock drawers for euros to fund the annual half-term skiing. There were all sorts of useless coins – Uzbek som, Iraqi dinars, 2d bits – and there it was, like a sudden Proustian blast from our childhood. It was a 50-drachma piece, with Homer on one side and a boat on the other. It was dull and scuffed and technically as worthless as all the other coins in my hoard. But as I turned it over in my hand it seemed to glow like a pirate's doubloon, radioactive with political meaning" (lesa)
Norman Tebbit, líka um gríska málið
Our masters in Brussels will use the Greek crisis to try to impose a single government across Europe
"It is a long time ago that I explained to my old friend and former colleague (he was the Chancellor at that time) Ken Clarke that no currency could have more than one Chancellor of the Exchequer, or chief Finance Minister, to its name; and no Chancellor without a currency to his name was worthy of that title. He demurred a bit, so I asked hime to name a Chief Finance Minister without a currency of his own, or a currency with more than one. Alas, 15 years later I still await his reply" (lesa)
Miðvikudagur 17. febrúar 2010
Fjármálamarkaðir evrusvæðis virka illa. Aðeins ein skóstærð er í boði og hún passar engum.
Þegar smærri, lítil og millistór fyrirtæki með góða rekstrarafkomu - og jafnvel gjafir frá hinu opinbera á kistubotninum - fá ekki venjuleg rekstrarlán og fá heldur ekki framlengt venjulegum rekstrarlánum, þá er víst óhætt að segja að illa sé komið fyrir hagvaxtarhorfum á evrusvæði á næstunni. En það er þannig sem Financial Times lýsir ástandi banka- og lánsfjármála á þessu nú fræga efnahagsvæði þar sem engin skóstærð í boði passar á neinn fót. Hollt er að muna að öll fyrirtæki hafa einu sinni verið lítil.
Lánsfjármagn hefur lengi verið álitið það sama og túnáburður er fyrir bóndanum. Vaxtargefandi vatn og áburður í eyðimörk, er svo oft sagt um fjármagnið.
Svo virðist sem veikur bankageiri evrusvæðis sé hér að verki. Eða réttra sagt, hann er ekki að því verki sem hann ætti að vera. Þetta er sérstaklega slæmt fyrir evrusvæðið því þar verða helst allir að passa ofaní evru-skóstærð peningamarkaða. Ein mynt, einn peningur, ein stýrivaxtaprósenta í 16 hagkerfum með 16 ríkisstjórnum og jafn mörgum bankakerfum. Ekkert annað er í boði.
Verst er ástandið á Spáni og í Suður-Evrópu. Lánsfjártregða er einnig í gangi í Þýskalandi. Um 20% minni og millistórra fyrirtækja á evrusvæði búast við því að aðgangur að lánsfé versni enn frekar á fyrstu 6 mánuðum ársins, en aðeins 14% búast við að ástandið batni.
Samkvæmt tölum samtaka verslunar og iðnaðar í Evrópu, Eurochambers, þá lítur rekstrarlandslag Evrópu svona út:
99,8% af öllum fyrirtækjum í ESB eru lítil, minni og millistór fyrirtæki (SME). Þau standa fyrir 81,6% af allri atvinnusköpun í ESB. Aðeins 8% af þessum fyrirtækjum hafa viðskipti yfir innri landamæri ESB. Aðeins 12% af aðföngum þeirra eru innflutt og aðeins 5% af þessum fyrirtækjum hafa viðskiptasambönd í öðru ESB-landi. Nánar um tölur Eurochambers (PDF-skrár) 2005 | 2007 | 2008 | 2009 | Hverjir búa til atvinnu í ESB
Í umræddri grein Financial Times kemur fram að um 67% allra starfsmanna á meginlandi Evrópu vinna hjá fyrirtækjum sem hafa færri en 250 starfsmenn í vinnu. Í Bandaríkjunum er þetta hlutfall 55%. Því er ákaflega mikilvægt að fjármálamarkaður evrusvæðis virki ef hagvöxtur á að verða. Stærri- og stórfyrirtæki þurfa ekki eins mikið á bankakerfinu að halda og þau litlu þurfa.
Í leiðinni mætti spyrja sig að því hvað Evrópa hafi að gera með einn sameiginlegan gjaldmiðil þegar svo lítill fjöldi fyrirtækja hefur viðskipti á milli landamæra Evrópu. Það hefur ekki háð neytendum heimsins hingað til að þurfa að reikna sig fram til þess hvar hvað er dýrt, og hvar hvað er ódýrt. Það var vegna þessara reiknihæfileika almennings að ferðamannaiðnaður á Íslandi tók stökk eftir gengisfall krónunnar. Fólk er ekki eins heimskt eins og margir í Brussel vilja vera láta.
Það þarf ekki sérstaklega fullkomna reiknivél til að reikna sig fram til þess að maður eigi að kaupa fyrirtæki X í landi Y en ekki í Z. Það þarf enga sameiginlega mynt til þess. Fyrirtækjakaup á milli heimsálfa og landamæra Evrópu hafa alltaf verið stunduð frá örófi alda. Það hefur aldrei þurft sameiginlegan gjaldmiðil til þess. Maður millifærir bara fjármunina með rafmagni eða pappír.
Ef Grikkland felldi gengið núna þá er alveg 100% öruggt að allar reiknivélar Evrópu yrðu fljótar upp úr skúffunum og símalínur til flugfélaga um allan heim myndu hitna hraðar en gríska sólin hitnar núna. Svo er líka búið að finna upp hlut sem heitir veraldarvefur - og sem virkar miklu betur en myntbandalag. Það þarf ekki einu sinni reiknivél til lengur.
Það er ekki svo undarlegt að efnahagur fólksins í Evrópusambandinu sé alltaf að dragast aftur úr efnahag Bandaríkjamanna. Hagvöxtur er lykilinn. Á meðan Brussel situr og stendur í vegi þá mun þetta verða svona áfram. Evran þyrfti að fara því hún drepur hagvöxt, eyðileggur atvinnusköpun og heldur fólki föstu í fátækt, armæðu og atvinnuleysi. Svo bólugrefur hún líka efnahag landa og veldur hruni. Hún er sem betur fer á leiðinni til iðra jarðar núna; FT | FT2 | WSJ
Þriðjudagur 16. febrúar 2010
Ef Bretland væri með evru þá væri atvinnuleysi þar tvöfalt meira
Miðstöð efnahags- og viðskiptarannsókna í Bretlandi (CEBR) segir að Bretar muni minnast Gordon Brown fyrir það afrek að hafa haldið Bretlandi utan við myntbandalag Evrópusambandsins. Gordon Brown var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Tony Blair frá 1997 til 2007, áður en hann tók við núverandi forsætisráðherraembætti árið 2007. Allan tímann undir Tony Blair beitti Gordon Brown sér ákaft gegn evruáhuga Tony Blairs, en ríkisstjórn Tony Blair komst til valda í maí 1997.
Niðurstöður útreikninga úr efnahagslíkani CEBR segja að ef Bretland hefði gengið í myntbandalagið væri atvinnuleysi í Bretlandi um 15% núna. Það væri þá um það bil tvöfalt hærra en það er í reynd í dag.
CEBR segir að hagvöxtur í Bretlandi á tímabilinu 1998-2006 hefði orðið örlítið meiri undir evru. En á sama tíma hefði verðbóga orðið meiri því stýrivextir myntbandalagsins voru lægri en þeir voru undir sjálfstæðri peningastjórn Englandsbanka. En þegar kreppan færðist yfir í byrjun ársins 2007 hefði samdráttur í Bretlandi orðið 7% undir evru í stað 5% undir sjálfstæðri mynt Bretlands.
Í viðtali við Reuters sagði Gordon Brown að hann álíti að sveigjanleiki breska hagkerfisins væri meiri með því að standa utan myntbandalagsins.
Hvað varðar vandamál myntbandalagsins þá segist CEBR alltaf hafa álitið að það muni koma til nokkurs konar ESB-björgunaraðgerða í Suður-Evrópu til að byrja með. En í endanum verður ESB að velja á milli miklu meiri samruna (sameiginleg skattheimta, fjárlög og skuldir) og þess brjóta myntbandalagið upp og leggja það niður. CEBR segir að latínska myntbandalagið á milli Sviss, Frakklands, Ítalíu og Belgíu (fleiri lönd komu þar einnig við sögu) á miðri 19. öld hafi farið í þrot á innan við 30 árum. CEBR segist eiga erfitt með að tímasetja komandi atburðarás. En í ljósi þess að allt gerist miklu hraðar í dag en á 19. öldinni þá er það skoðun CEBR að myntbandalag Evrópusambandsins muni brotna upp áður en árið 2015 rennur upp; CEBR | PDF | Telegraph
Nú er ódýrara að tryggja danskar en þýskar ríkisskuldbindingar
Á mörkuðum fyrir afleiður skuldatrygginga er skuldatryggingaálag á skuldir þýska ríkisins orðið hærra en á skuldum danska ríkisins. Dýrara er því orðið að tryggja sig gegn greiðslufalli þýska ríkisins en þess danska. (mynd; Børsen; skuldahlutfall þýska, franska og danska ríkisins)
Það er þróun skulda hins opinbera í Þýskalandi sem veldur þessum viðsnúningi, segir Christian Tegllund hjá Saxo Bank. Skuldir þýska ríkisins hafa vaxið mikið og eru nú 81% af landsframleiðslu og í Frakklandi er staðan orðin 86%. Markaðurinn hefur skipt 180 gráður um skoðun. Nú eru það ekki fyrst og fremst hagvaxtarhorfur sem valda áhyggjum heldur er það skuldastaða ríkjanna sem er í brennidepli; Børsen
Útúrdúr: Danmörk er ekki með evru, heldur aðeins gagnkvæma bindingu við evru. Danir hafa ennþá virkan "eject" hnapp á krónunni sinni. Gagnkvæm binding þýðir að bæði seðlabanki Danmerkur og seðlabanki Evrópusambandsins munu vinna saman að því að halda dönsku krónunni innan fyrirfram ákveðinna gengismarka gagnvart evru. En loforðið um stuðning er háð því að Danmörk fylgi reglum stöðugleikasáttmála myntbandalagsins. Gagnkvæmum stuðningi lofuðu einnig seðlabankar ESB landa árið 1992. En þá var hausinn blásinn af þeim þegar breska pundið var sprengt út úr álíka gengisbindinu og danska krónan er nú með gagnvart evru. Hvort seðlabanki Evrópusambandsins (ECB) muni standa við gefin loforð gagnvart Danmörku mun líklega velta á stærð upphæðarinnar, þegar og ef til kastanna kemur. Eftir reynsluna árið 1992 trúi ég ekki á að ECB muni láta of mikinn svita drjúpa til aðstoðar dönsku krónunni í slæmum aðstæðum og raunverulegu fárviðri á gjaldeyrismörkuðum. Það er alltaf hægt að skýla sér á bak við "óábyrga hegðun" mótaðilans, þ.e. danska ríkisins, þ.e. skyldi hana vera að finna. Og hvar er hana ekki að finna í dag?
Grikkland er ekki lengur með sjálfsforræði og er skipað enn frekar fyrir verkum
Ráðherrar og embættismenn Evrópusambandsins og seðlabanka ESB hafa skipað Grikklandi að hækka skatta enn meira, lækka laun enn meira, setja nýjar álögur á bifreiðar, setja á nýja orkuskatta og skera niður útgjöld ríkisins mun meira en ríkisstjórn Grikklands hafði hugsað sér. Grikkland hefur einn mánuð til að hlýða. Það er óttinn við að Grikkland sé að grafa undan myntbandalaginu sem fær ESB til að beita Grikklandi mikilli hörku. ESB krefst þess að ríkisstjórn Grikklands minnki fjárlagahalla úr 12,7% og niður í 8,7% á einu ári. Grikkland hefur nú misst sjálfsforræði sem ríki; Kathimerini | AFP | El Pais
Í nýrri skoðanakönnun á vefsetri þýska blaðsins Die Welt, voru lesendur spurðir að því hvort þeim fyndist rétt að ESB kæmi Grikklandi til aðstoðar. Tæplega 7000 höfðu þá kosið. Aðeins 12% gátu svarað spurningunni játandi. 88% sögðu nei; Die WeltEfnahagsráðgjafi þýsku ríkisstjórnarinnar vill láta svipta Grikklandi atkvæðarétti í Evrópusambandinu. Annar þýskur embættismaður, Wolfgang Gerke, vill að Grikklandi sé sparkað út úr ESB; Bloomberg | Bloomberg 2
Mánudagur 15. febrúar 2010
Myntbandalag Evrópusambandsins getur valdið nýrri heimskreppu. Grikkland mun fara í ríkisgjaldþrot.
Bretinn Simon Johnson og Peter Boone voru með ítarlega grein í Wall Steet Journal núna um helgina. En Simon Johnson var áður yfirhagfræðingur AGS og er nú prófessor við MIT og "senior fellow" við Peterson stofnunina og í stjórn fjárlaganefndar bandaríska þingsins. Peter Boone er við London School of Economics.
Þessi grein þeirra félaga í WSJ er skyldulesning fyrir þá sem hafa áhuga á myntbandalagi Evrópusambandsins og því sem er að gerast þar núna. Samkvæmt áliti höfundanna er þetta myntbandalag nú statt á þokulögðum krossgötum þar sem engar götur virðast liggja áfram til framfara né hagsældar. Evrópusambandið hefur verið óábyrgt. Bandaríkin verði að grípa í taumana og krefja ESB um aðgerðir áður en Evrópusambandið kemur efnahag heimsins í stórkostleg vandræði.
The U.S. must stop relying on Europe to be "careful," and instead cooperate assertively to help reduce the risk of further collapse in Europe
Mikið innflæði fjármagns hefur komið P.I.I.G.S. löndunum (Portúgal, Ítalía, Írland, Grikkland, Spánn) í gildru sem þau komast ekki út úr aftur vegna þess að þau hafa ekki sína eigin mynt, neina peningastjórn og ekkert vaxtavopn. Himinn og jörð eru á milli þeirrar peningastefnu sem nú ríkir í löndunum undir umsjá seðlabanka Evrópusambandsins og þeirri stefnu sem löndin raunverulega þurfa á að halda. Í athugasemd við greinina kemur fram að Simon telur að Grikkland fari í ríkisgjaldþrot og verði eins konar ný Argentína Evrópusambandsins. Vandamál Grikklands séu þrefalt verri en vandamál Argentínu voru.
Seðlabanki Evrópusambandsins læddist hljóðlega til að opna lánalínur til P.I.I.G.S. landanna þegar fjármálakreppan skall á. En nú er seðlabankinn búinn að gefast upp á löndunum og vill loka á þau. Þjóðverjar eru búnir að fá nóg af því að styðja og borga undir lönd Suður-Evrópu og er mælirinn nú fullur. Fjárfestar og sparifjáreigendur flýja nú eins hratt og þeir geta úr bankakerfum og pappírum þessara landa.
Þær einu aðgerðir sem geta bjargað löndunum á meðan þau eru inni í myntbandalaginu séu svo harkalegar að síðast þegar svona aðgerðum var beitt þá leiddu þær til kreppunnar miklu 1930. En það var undir gullfætinum sem það gerðist. Stefna seðlabanka Evrópusambandsins er frekar lík gullfótar stefnunni og kemur að mestu leyti frá Þýskalandi.
AGS þyrfti að koma til skjalanna og taka stjórnina af frammámönnum myntbandalagsins. En það mun ekki gerast, segja greinarhöfundar, því sjóðurinn myndi líklega byrja á því að segja að myntbandalagið haldi ekki í núverandi mynd og sé helsta orsök vandamála P.I.I.G.S. landanna. Þar með mun ESB tapa andlitinu.
Svo er það orðrómurinn um að framkvæmdastjóri AGS, Dominique Strauss-Kahn, hyggist bjóða sig fram gegn Nicolas Sarkozy forseta Frakklands í næstu kosningum í Frakklandi, sem flækir málið enn meira. Ef Dominique Strauss-Kahn kemur og bjargar myntbandalaginu í hvaða formi sem er, þá mun hann í augum Frakka verða sá sem reið inn á hvíta hestinum og bjargaði sköpunarverki Frakklands, þ.e. myntbandalaginu.
Fyrir Þjóðverja er aðkoma AGS einnig óásættanleg því sjóðurinn myndi vinna gegn og grafa undan peningastjórnar-hugmyndafræði Þýskalands og þar með undan seðlabanka ESB, en þar hefur Þýskaland stærstu tögl og haldir. Enda er núverandi peningastefna seðlabankans forsendan fyrir því að Þýskaland yfir höfuð samþykkti að taka þátt í myntbandalaginu á sínum tíma. Þjóðverjar höfðu sterkar efasemdir um ágæti myntbandalagsins frá byrjun og enga sérstaka löngun til að taka þátt í því, ótilneyddir.
Greinarhöfundar telja að einu hugsanlegu lausnir mála séu þessar.
Viðurkenna þarf að núverandi myntbandalag sé misheppnað og gefi enga meiningu. Þetta er þó ekki ákvörðun sem tekin verður á næstu vikum, en þessi raunveruleikasýn mun ef til vill nálgast hugarfar margra hröðum skrefum.
Kalla ætti AGS á vettvang, sama hvað hver segir.
Evrusvæðið verður sjálft að koma sér upp EGS (evrópskum gjaldeyrissjóði).
Seðlabanki evrusvæðis verður að breytast og leyfa mun hærri verðbólgu og slakari peningastefnu í öllu myntbandalaginu. Það þarf líka að lækka vexti strax.
Ef meiri verðbólga, slakari og lausari peningastefna er ekki ásættanleg fyrir Þýskaland þá ættu Þjóðverjar að fara í gang með það verk að viðurkenna að myntbandalagið sjálft sé fíaskó.
Það verður að koma á útgönguleiðum úr myntbandalaginu.
Það er alls ekki hægt að útiloka þann möguleika að Þýskaland muni hoppa út úr myntbandalaginu einum í hvelli. Afleiðingarnar yrðu öngþveiti.
Ireland is already cutting hard. Such fiscal austerity leads to double-digit declines in GDP, and risks massive political revolts. Ireland's banks are today probably insolvent. [ ] This is not an example of a "careful" solution—it is a nation in a financial death spiral.
Írland er ekki dæmi um "varkára lausn" á málunum eins og ESB lofaði Tim Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna á síðasta G7 fundi. Írland er dæmi um deyjandi land og þjóð sem komin er inn í kjölsog fjárhagslegs dauðadans; Wall Street Journal.
Kynning Simon Johnson frá haustinu 2008 er vel þess virði að skoða, "The Likely Future of the Eurozone" og er hægt að skoða hana hér: Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) vantar og vantar ekki fleiri peninga
Hnefum barið í borðið í Brussel. Eina málið á dagskrá var Grikkland.
Brussel fréttaritarinn Bruno Waterfield og blaðamaðurinn Edmund Conway á Telegraph segjast hafa heimildir því því að ástæðan fyrir seinkun fundarins í Brussel í síðustu viku hafi ekki verið snjóstormur eins og sagt var, heldur var ástæðan algert ósætti um hvernig ætti að bregðast við vandamálum Grikklands. Háværar raddir Angelu Merkel kanslara og Jean-Claude Trichet seðlabankastjóra hljómuðu og heyrðust þau berja hnefunum í borðið gegn ásækni embættismanna ESB og forseta Frakklands í að brjóta grunnstólpa myntbandalagsins og fara út í það að bjarga Grikklandi með fjármagni og ábyrgðum.
Hver skoðanakönnunin á fætur annarri í Þýskalandi sýnir afgerandi andstöðu almennings við að bjarga öðrum löndum myntbandalagsins út úr ógöngum og vilja Þjóðverjar helst að Grikklandi sé hent út úr myntbandalaginu. Á vefsetrum þýsku dagblaðanna hefur sést 71% til 91% afdráttarlaust nei við spurningunni hvort Þýskir skattgreiðendur eigi að koma Grikklandi til aðstoðar.
Fyrrum stjórnarmeðlimur þýska seðlabankans og hagfræðingur seðlabanka Evrópusambandsins, Otmar Issing, segir að verði farið út í það að bjarga Grikklandi, þá muni það þýða endalok myntbandalagsins. "Ef þessi stífla brestur þá mun flóðið halda áfram endalaust." Otmar Issing er einn af höfundum þeirrar stefnu sem sem seðlabanki ESB byggir á (the two pillar approach). Telegraph | Reuters | Frankfurter Allgemeine
ERM-land myntbandalags Evrópusambandsins setur heimsmet í efnahagshruni.
Miðstöð efnahagsrannsókna (e. CEPR, Center for Economic and Policy Research), hefur sent frá sér skýrslu um efnahagssamdráttinn í Evrópusambandsríkinu Lettlandi. En landið er í hinu svo kallaða ERM-ferli inn í myntbandalag ESB. Gengi myntar Lettlands er þar af leiðandi bundið fast við evru.
Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn (AGS) var kallaður til Lettlands þegar fjármálakreppan skall á 2008. Í sameiningu komu AGS og stjórn Evrópusambandsins sér saman um "hjálparpakka" handa Lettlandi. Stjórn ESB er sögð hafa krafðist þess að gengi myntar Lettlands yrði ekki fellt. En það er oft eitt af því fyrsta sem AGS krefst, ef þörf krefur, þegar sjóðurinn kemur löndum til aðstoðar. AGS virðist ekki hafa viljað ganga gegn vilja ESB í þessu máli og hefur gengis-bindingunni því verið viðhaldið allan tímann. Sænskir bankar eiga mikið í húfi í Lettlandi og myndi gengisfelling koma bönkunum afar illa. Forsætisráðherra Svíþjóðar hélt á formannsembætti Evrópusambandsins seinni helming ársins 2009.
Samkvæmt kenningu og stefnu Evrópusambandsins, sem mörkuð er af grunnleggjandi fæðingargalla myntbandalagsins - þ.e. einn peningur og eitt gengi fyrir alla - þá átti svo kölluð "innvortis gengisfelling" (launalækkun og verðhjöðnun) að koma í stað snöggrar hefðbundinnar gengisfellingar myntar Lettlands. En nú hefur atvinnuleysi í Lettlandi náð þeirri ótrúlegu tölu að vera 22,8% - og á síðustu tveimur árum hefur raungengi (miðað við laun og innra verðlag í landinu) aðeins lækkað um 5,8%.
Í skýrslu CERP kemur fram að ein afleiðing gengisbindingarinnar sé að heimsmet í hruni landsframleiðslu nokkurs ríkis síðan sögur hófust, sé nú verið að setja með 30% hruni landsframleiðslu Lettlands í Evrópusambandinu. Samdrátturinn í landsframleiðslu Lettlands á þremur árum verður nefnilega yfir 30%. Þetta er meira en landsframleiðsla Bandaríkjanna féll í stóru kreppunni frá 1929-1933.
The Latvian recession, which is now more than two years old, has seen a world-historical drop in GDP of more than 25 percent. The IMF projects another 4 percent drop this year, and predicts that the total loss of output from peak to bottom will reach 30 percent. This would make Latvia’s loss more than that of the U.S. Great Depression downturn of 1929-1933.
SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA