# 498 - 2010 - vika 6 - til 14. febrúar 2010
VIKA 6 2010
Föstudagur 12. febrúar 2010
PDF útgáfa með virkum slóðum á heimildir og myndir í fullri stærð er viðhengd hér fyrir neðan
Nýr lánveitandi til þrautarvarna óskast
Það var frekar fátt haldbært í tilraunum frammámanna evrusvæðis í gær, nema þá kannski blöffið sem kaupir þeim tíma. En í gær komu þeir saman til að reyna að finna lausn á fjárhagsvandamálum gríska ríkisins. Allir vita í raun að ekki er aðeins um Grikkland að ræða. Hin löndin, næstum öll Suður Evrópa og Írland, munu koma strax á eftir ef gríska hliðið er opnað.
Grikkir hafa þó ekki beiðið um neina sérstaka aðstoð. Það sem þvingar frammámenn evrusvæðis til aðgerða snýr meira að þeim sjálfum og bankakerfum þeirra en að sjálfu Grikklandi. Í raun er það seðlabanki myntbandalagsins (ECB) sem er búinn að gefast upp á Grikklandi og situr nú frekar en stendur í svitabaðinu í Frankfurt á hverjum vinnudegi. Grikklandi vantar nýjan lánveitanda til þrautarvarna, því verið er að ýta landinu út úr seðlabanka evru og þar með út úr millibankamarkði evrusvæðis. Grikkland verður bráðum svo að segja mynt- og seðlabankalaust land og uppá eins konar ölmusu evrulanda komið. Ekki var nú meira hald í þessum fræga seðlabanka og myntinni evru en þetta. Varla er minnst á bankann lengur.
Nú eru það hin evrulöndin sem reyna að kalla Grikkland að landi aftur svo slagsíðuhallandi skúta gríska ríkisins nái ekki að sigla allan flotann í kaf og þar með í fjármálalega þurrkví. Öll sigla löndin í sama polli með litlu plássi og engu kröftugu vélarafli. Ef Grikkland væri ekki í myntbandalaginu væri það sennilega komið í fang AGS og lækning hafin. FT segir að það hafi ekki verið neinn sérstakur árangur af fundinum og fer lítið fyrir hrifningu hjá sumum á blaðinu. Enn minni var hrifningin hjá þeim sem Ambrose Evans-Pritchard talaði við.
"They offered nothing," said Jochen Felsenheimer, a credit expert at Assenagon in Frankfurt. "It was just words without any concrete measures, hoping to buy time."
"Interlocking claims within the eurozone zone are complex. Contagion can spread fast. Marc Touati, of Global Equities in Paris, said the "haemorrhage of Greece" must be stopped to prevent a domino effect. "We have to move fast, above all to keep Greece in the eurozone. If not, Spain, Portugal, and Italy will be next. It could reach France," he said.
Af þessu öllu má sjá að engin vörn var í evrunni sem gjaldmiðli, nema þá helst sú að auðvelt er komast í sjálfheldu með henni. Ekki er hægt að bæta samkeppnishæfni hagkerfisins og ekki er hægt að nota ríkisskuldabréf eigin ríkis sem veð fyrir lánum hjá plat seðlabanka ESB. Ekki er heldur hægt að leita sér hjálpar eftir hefðbundum leiðum. Smá pásu hafa Grikkir þó fram í apríl þegar endurnýja á evrulottómiða ríkisins á fjármálamörkuðum. FT | FT2 | FT3 | Telegraph
Ekki aftur segja Þjóðverjar
Þýskir þegnar eru margir æfir yfir stöðu mála. Ef það er eitthvað hlutverk sem Þjóðverjar óska ekki eftir að þurfa að leika, þá er það að þurfa að leika efnahags- og samfélagslega lögreglu og hallamálaeftirlit inni á gafli í ríkis- félags- og heilbrigðismálageira annarra ríkja. Það hlutverk óska Þjóðverjar sér síst af öllu, því nóg hefur þýska þjóðin þurft að blæða fyrir það sem gerðist í Evrópusamruna númer eitt. En hann fór fram með vopnavaldi frá 1939 til 1945. Þjóðverjar vita manna best að mikil afskipti af heimilismálum annarra ríkja leiða auðveldlega til aðstæðna sem klekja út eggjum illsku og haturs í garð þeirra. Á forsíðu Frankfurter Allgemeine var í gær sett fram ósk ritstjórnar um að fá gamla þýska markið aftur, D-mark; Eurointelligence
What Angela Merkel is up against back home was well capsulated in a front-page editorial by Frankfurter Allgemeine this morning, which effectively says that many Germans want the Deutschmark back
300.000 manns farnir úr þýska hagkerfinu á einu ári
Ekki nóg með það að allir vilji fá lánað AAA kreditkort Þýskalands, þá sagði þýska hagstofan frá því um daginn að Þjóðverjum hefði fækkað um 300.000 manns á árinu 2009. Þjóðverjum byrjaði að fækka árið 2003 og var fækkunin um 400.000 til 500.000 manns frá 2003-2008. Harði fækkunar er að aukast og mun hann aukast ár frá ári næstu áratugi. Mannfjöldaspá þýsku hagstofunnar gerir ráð fyrir að þýsku þjóðinni geti fækkað úr 80 milljón manns og niður í 60-65 milljón manns árið 2045-2055. Vöxtur verður varla mikill í svona hagkerfi í framtíðinni. Hætt er við að kjör ungs fólks verði litið aðlaðandi í þessu erfiða ellisamfélagi; Hagstofa Þýskalands
Danmörk boðar niðurskurð ríkisútgjalda
Svo hratt hefur fjarað undan fjármálum danska ríksins að nú er ríkisstjórnin komin á fullt að leita eftir möguleikum til niðurskurðar. Frá því að hafa haft 3% hagnað á fjárlögum ríkisins árið 2007 er nú kominn 5-7% halli á þau. Það er -3% krafa Brussel sem þvingar Dani út í niðurskurð fjárlaga; Børsen
Fimmtudagur 11. febrúar 2010
"it always takes longer than you think, then happens faster than you can imagine" - Rudiger Dornbusch
PDF snið vika 6 2010
PDF_utgafa_VIKA_6_2010.pdf
Skoða: smella beint á PDF-skrá til að skoða
Vista: hægri smella og segja "save link as" til að hlaða PDF-skránni niður til þín
Svo mikið er, að ég veit ekki hvar byrja ætti né enda
Öllum sem hugsa bara smávegis má nú vera ljóst að myntbandalag Evrópusambandsins liggur í rúst. Eða rétta sagt; efnahagur margra landa myntbandalagsins - sem myntin byggir tilveru sína á - liggur í rúst og ógnar tilveru allrar samsteypunnar. Það sem myntbandalagið átti að lækna er nú að eyðileggja það. Innri áföll í lokaðri gildru myntbandalagslandanna geisa ("asymmetric shocks” within theeurozone). Engin þekkt leið er til út úr ógöngunum. Allir vissu að þetta ætti á hættu að gerast, en það var ekki hlustað á neinar aðvaranir. Því fór sem fór.
Fyrst er hér tilvitnun í Nóbelsverðlaunahagfræðinginn Paul Krugman:
Anatomy of a Euromess: "Hverjum er þetta allt saman að kenna? Engum að sumu leyti. En að öðru leyti þá er þetta stefnumótunarelítu Evrópusambands að kenna. Þessi elíta beitti miklum þrýstingi til að þvinga stofnun myntbandalagsins í gegn. Elítan blés á allar aðvaranir um að einmitt þetta myndi koma fyrir. Jafnvel efasemdarmönnunum (euroskeptics) datt ekki í hug að þetta yrði svona slæmt."
Krugman heldur að Evrópa sitji uppi með þennan örkumlandi gjaldmiðil því kostnaðurinn við að vinda ofan af fyrirbærinu er svo rosafenginn. Krugman tekur sem dæmi spænsku fasteignabóluna. Skólabókardæmi um innri áföll sem ekki er hægt að komast út úr án eigin sjálfstæðs gjaldmiðils og peningastefnu.
Fasteignabóla kom af stað rosafengnu innflæði fjármagns.
Þýskaland skaffaði m.a. fjármagnið og vörurnar og fékk því mikinn hagnað gegn löndum suðursins.
Upp var keyrt verðlag og kostnaður á Spáni
Allt hækkaði þar miklu meira en í Þýskalandi og kjarnalöndum evrusvæðis.
Löndin nota öll sömu myntina og sömu stýrivextina, því var þetta mögulegt.
Svo sprakk bólan og eftirspurn á Spáni stöðvaðist.
Nú er Spánn komið út af landakortinu hvað varðar samkeppnishæfni og 20% atvinnuleysi þurrkar upp tekjulindir ríkisins.
Ef Spánn hefði sinn eignin gjaldmiðil þá myndi landið fella gengið strax og þar með geta tekið þátt í heiminum aftur. NYT
Ef þetta hefði gerst í Bandaríkjunum,
. . sagði Krugman í annarri gein, þá hefði innri hreyfanleiki vinnuafls komið í veg fyrir launa- og verðlagsþrýsting á efnahagssvæðinu frá byrjun. Fjármagn frá sambandsríkisstjórninni í Washington (heilsugæsla og bótagreiðslur) hefði svo komið í veg fyrir að halli ríkisfjárlaga hefði orðið svona mikill eins og nú er að gerast á Spáni og víðar. Þetta hefði ekki verið neitt mál í Bandaríkjunum. En myntbandalagið er bara ekki Bandaríkin. Það sem meira er: engin ríki Evrópusambandsins hefðu gengið í Evrópusambandið ef þeim hefði frá byrjun verið sagt að þau væru að ganga í bandaríki Evrópu. Engin. NYT
En í staðinn fyrir ofur einfalda spænska gengisfellingu, sem hefði ekki þurft að vera neitt sérstaklega stór - því undir eigin sjálfstæðri mynt hefði seðlabanki Spánar að miklu leyti komið í veg fyrir þessa ofþenslu með viðeigandi jákvæðum raunstýrivöxtum á réttum tíma (undir ECB voru þeir lengi vel neikvæðir =fatal error í myntbandalagi án sameiginlegra fjárlaga) - þá mun Spánn fá massífa verðhjöðnun mörg hin næstu ár. Efnahagur og samfélag Spánar mun bíða óbætanlegt tjón, því landið er læst fast inni í gildru myntbandalagsins. Spánn verður eyðimörk. Bætið svo Grikklandi, Portúgal, Írlandi, Ítalíu, Finnlandi, og þremur ERM ríkjum Eystrasalts við í röðina. Hvað þá með hagvöxt í EMU á næstu áratugum? Hann verður enginn. Pistill: Hugleiðing um raun-stýrivexti
En nú er þessum löndum í suðri bara kennt um allt saman. Þau voru nefnilega "óábyrg" segja menn. Þau lifðu "um efni fram" glymur nú í fjölmiðlum allrar (norður) Evrópu.
En hvar er hagnaðurinn?
Jú hann er á kistubotnum Þýskalands og gömlu kjarnalanda myntbandalagsins. Því segir Martin Wolf - hér í grein sinni í Financial Times - að það eina sem geti læknað hið innra ójafnvægi myntbandalagsins sé massíf aukin eftirspurn frá stærsta landi myntbandalagsins, þ.e. frá Þýskalandi. Að Þýskaland verði að borga til baka þá eftirspurn sem það tók frá hinum löndunum vegna krónískt lélegrar eftirspurnar í sínu eigin hagkerfi. En kæru lesendur, sjáið þið stóraukana og massífa eftirspurn koma frá öldruðum og harðþýskum þegnum næst stærsta elliheimilis heimsins? Þeir eru næstum allir aldir upp í prússneskum aga, sparsemi og vinnusemi Marteins Lúters - á móti suðrænni afslöppun! Ekki ég. Þetta sé ég ekki gerast. Ekki bara smá möguleiki; FT
Úr grein minni í Þjómálum sem ég skrifaði sumarið 2008.
Umræðan á Íslandi hefur verið þannig að menn eru farnir á líta á evru sem fyrsta flokks hagstjórnartæki, en ekki sem þá annarsflokks pólitísku lausn sem hún fyrst og fremst er hugsuð á vandamálum meginlands Evrópu. Þegar Helmut Kohl kom með hattinn í hendinni til að biðja bandamenn um leyfi fyrir sameiningu Þýskalands, sá François Mitterrand samstundis að þarna opnuðust sjaldgæfar dyr til svo að segja að þvinga Þjóðverja með í myntsamstarf. Þjóðverjar höfðu aldrei haft mikinn áhuga á sameiginlegu myntsvæði, því þýska markið hafði reynst þeim vel, svo sameiginleg mynt var þeim aldrei ofarlega í huga. Öll undirbúningsvinnan við evru var hastverk og lítið sem ekkert var farið eftir skoðunum akademískra hagfræðinga og sérfræðinga á forsendum og skilyrðum fyrir því að svona myntsamstarf gæti heppnast vel. Werneráætlunin frá 1970 var því tekin fram aftur, eftir að hafa verið kistulögð árum saman, stílfærð og sett í framkvæmd. Aðeins eitt land af ellefu uppfyllti öll upptökuskilyrðin þegar ákveðið var hvaða lönd gætu tekið upp evru, nefnilega Lúxemburg, en Werneráætlunin er verk PierreWerner fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemburgar. Slóð
Nú er komið að greiðsludegi. En hafið engar áhyggjur. Elíta myntbandalagsins mun ekki borga krónu (evru) því nú skeiðar fram á vígvöllinn nýr forseti Evrópusambandsins og krefst aukinnar "efnahaglegrar ríkisstjórnunar" i öllu myntbandalaginu. Hvað sagði ég? Þetta kemur; EurActiv
Þetta minnir mig á eitt eða tvennt í viðbót
Það var ritstjórnargrein í Die Welt núna í vikunni. Höfundurinn vill að Grikkland segi sig úr myntbandalaginu. Það er eina leiðin til að bjarga Grikklandi sem sjálfstæðu ríki og samfélagi. Fyrir Grikkland virkar myntbandalagið eins og fangelsi, segir höfundur. Eina leiðin til frelsis fyrir Grikkland er að taka gömlu Drachma myntina sína í notkun aftur. Allt sem átti að tryggja líf myntbandalagsins er hrunið. Stöðugleikasáttmálinn svo kallaði er orðinn að pappírstígrisdýri. Það sem Evrópusambandið er að krefjast af Grikklandi, Spáni og Portúgal núna er það sama og Heinrich Brüning kanslari Þýskalands reyndi í Weimar lýðveldinu sem stofnað var í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Fyrir Grikki er það því til baka til gömlu myntar landsins með aðstoð AGS; Die Welt
Aðeins "járnagi" getur bjargað evrunni
Í annarri grein á Die Welt er fjallað um sama efni, þ.e. evruna og myntbandalagið. Fyrirsögnin er "aðeins með járnaga getur Berlín bjargað evrunni". Það verður að stíga skuldabremsurnar á evrusvæðinu í botn, ef það á að bjarga evrunni. Sem betur fer er Grikkland loksins komið undir umsjá evrulanda, segir greinin. "Loksins vaknaði Berlín". Að öðrum kosti myndi Þýskaland segja sig úr myntbandalaginu eða það brotna upp. Annar möguleikinn er líka að Grikkland, Spánn eða Portúgal sé hent út úr myntbandalaginu, nema þau kalli á AGS sér til hjálpar strax.
Mynd; Skoðanakönnun Die Welt - 76 prósent vilja fá þýska markið aftur
Á síðunni er lesendum gefinn kostur á að kjósa um hvort þeir vilji taka gamla þýska markið í notkun aftur, eða halda fast í evruna. Tæplega 1000 hafa kosið. Heil 76% vilja fá þýska markið aftur. Aðeins 24% vilja halda evrunni; Die Welt
Miðvikudagur 10. febrúar 2010
Erlendar skuldir 20 ríkja
Þekkir þú þetta, - skuldir og eignir? Sumir skulda mikið en hugga sig oft við að þeir eigi eignir á móti skuldum. Oft miklar eignir á móti miklum skuldum, þegar vel gengur. Vandamálið við eignamat er oft það að virði eigna er yfirleitt háð aðstæðum á þeim mörkuðum þar sem selja á eignirnar. Ef allir ætla að selja svipaðar eignir á sama tíma þá falla eignaverð. En verðmæti skulda fellur hins vegar yfirleitt ekki nema í verðbólgu. Í verðhjöðnun hækkar jafnvel verðmæti skulda.
Það er dálítið ógnvekjandi að skoða myndaseríu CNBC sjónvarpsstöðvarinnar frá því í októberlok 2009. Þar voru erlendar skuldir 75 stærstu hagkerfa heimsins athugaðar og tölur um skuldastöðu 20 þeirra settar fram á vefsíðu stöðvarinnar. Þarna eru allar erlendar skuldir 20 landa settar fram sem a) upphæð í Bandaríkjadölum, sem b) hlutfall af landsframleiðslu og sem c) upphæð á hvern íbúa landanna. Þetta eru a) allar erlendar skuldir hins opinbera plús b) allar erlendar skuldir einkaaðila landanna og þar með eru talin fyrirtæki og bankar. Auðvitað eiga báðir aðilar, hið opinbera og einkageirinn, eitthvað af erlendum eignum upp í skuldirnar, annað væri hrein hrollvekja.
Eftir að hafa lesið tölurnar, þá munu sumir eflaust spyrja sig að því hvernig ganga muni að koma þessum skuldum eitthvað niður á við næstu árin. Hvernig mun hinu opinbera ganga að komast aftur út úr þeim björgunarpökkum sem kastað var til bankakerfa margra landa á 11. stundu síðasta haust? Ætti að selja eignir til að grynnka á skuldunum? Já, mörg lönd munu vilja það, því vaxtaklukkan tifar hjá mörgum þeirra. En verða þá einhverjir kaupendur? Svo eru til dæmis lönd eins og Írland, sem er skuldakóngurinn á listanum, þar sem ríkið hefur yfirtekið eignir bankanna á lágu verði í þeim tilgangi að auka tiltrú aðila markaðarins á því að bankarnir munu ekki að lokum kikna undan skuldabyrði. Írska ríkið tók yfir vafasöm eignasöfn bankanna og setti þau í geymslu. Írska ríkið ætlar að bíða eftir því að hægt sé að setja viðeigandi verðmiða á þessar eignir.
Undanfarin ár hefur ekki verið hægt að setja verðmiða á margar þessar eignir, því í raun veit enginn hvort þær eru yfir höfuð einhvers virði. Líklegt er að sumar ríkisstjórnir ætli að gera það sama, þ.e. bíða. En getum við þá ekki átt von á því, þegar til kastanna kemur, að þá verði margir neyddir til að selja samskonar eignir á sama tíma og að þá muni myndast eins konar brunaútsala? Ætlar ríkisstjórn Íslands þá að mæta þar með eignasafn Landsbankans í Bretlandi? Líkurnar á tvöfaldri kreppu (e. double dip) eru varla að minnka eins og er; Myndasería CNBC
Þjóðverjar munu ekki bjarga Grikklandi
Bandaríski hagfræðingurinn Edward Harrison álítur að Þjóðverjar muni aldrei samþykkja að bjarga Grikklandi frá því að lenda í greiðslufalli. Edward segir að þeir sem séu að gæla við þá hugsun að Þjóðverjar bjargi Grikklandi séu illa upplýstir um innanríkispólitík í þýska sambandsríkinu. Bendir Edward á þá staðreynd að Þjóðverjar voru ekki spurðir um það hvort þeir vildu fá evru sem gjaldmiðil eða ekki. Ef þýska þjóðin hefði verið spurð þá hefði hún með 100% öryggi sagt nei.
Now, it has to be remembered that the Euro was adopted in Germany without any democratic vote by the German electorate. It was imposed by fiat from the Federal Government unlike in Denmark where the Euro was put to vote before the electorate and rejected. In fact, there was a lot of concern in Germany at the time that the Germans would have rejected the Euro had it been voted upon – and this is the very reason a vote was not held.
Það er vel þess virði að lesa bloggfærslu Edwards, hann talar mörg tungumál (m.a. þýsku) og vann áður í utanríkisþjónustu Bandaríkjanna og seinna hjá Deutsche Bank; Credit Writedowns
Svo er það veðrið
Þetta er að verða þreytandi. Hitastigið hefur varla mjakast yfir frostmark frá því um miðjan desember. Sami snjórinn og féll fyrir jól liggur hér enn ásamt því sem bættist við á síðustu vikum. Samt höfum við sloppið létt hér á Djurslandi. Næstu vikur bjóða líklega upp á meira af því sama, 6-10 stiga frost á nótunni og 6-2 stiga frost á daginn. Sjórinn í Eystrasalti austan megin við landið er byrjaður frjósa meira og meira í ís. Vegasaltið er búið hjá mögrum bæjarfélögum og sama er að segja um peningana. Svo nú er það sandur og möl. Slökkt verður götulýsingu sumstaðar til að spara. Eftir frostið og snjóinn gæti jarðvegurinn reynst vélakosti danskra bænda erfiður langt fram á vorið: DMI
Þriðjudagur 9. febrúar 2010
Mesta hrun í dönskum útflutningi frá lokum seinni heimsstyrjaldar
Á árinu 2009 féll danskur útflutningur um 16% eða um tæplega 100 miljarða danskar krónur. Innflutningur dróst ennþá meira saman eða um 21%. Mest féll útflutningur til Svíþjóðar. Þar hurfu 23 miljarðar af útflutningstekjum Danmerkur og svarar það til 27% samdráttar. Næst verstur var þýski markaðurinn sem tók við 17 miljörðum minna af dönskum vörum og þjónustu, sem er 17% uppgufun. ESB löndin tóku við 17% minni útflutningi frá Danmörku á árinu 2009; DST
Húsnæðiskostnaður, hagvöxtur og atvinnuleysi í Finnlandi
Frá 1983 til 2009 hefur húsnæðisverð eldri íbúða í Finnlandi hækkað um 220 prósentustig. Finnski húsnæðismarkaðurinn ofhitnaði frá 1987 til 1989 og þá hækkaði húsnæðisverð um 72%. Á sama tíma hækkuðu laun um 25%. Svo kom stóra finnska kreppan 1990-1993 og þá féll húsæðisverð um 40% á þremur árum.
Í kreppunni miklu var gengi Finnska marksins fellt mikið (sjá mynd til hliðar). Það bjargaði efnahag landsins og kom honum á réttan kjöl á ný. Það athygliverða er að hvorki laun né verðbólga fóru af stað við þessa miklu gengisfellingu. Frá því að Finnland gékk í ESB hafa laun og húsnæðisverð hækkað miklu meira en verðbólga. Mesti kaupmáttur Finna til kaupa eða leigu húsnæðis var á árinu 1995. Frá miðju árinu 1996 hefur raunverð húsnæðis í Helsinki hækkað um 120%; SF
Hagstofa Finnlands heldur áfram að tilkynna um samdrátt í landsframleiðslu
Frá október til nóvember 2009 féll landsframleiðsla Finnlands um 1,2%. Frá nóvember 2008 til nóvember 2009 hefur hagerfi Finnlands minnkað um 7,4%. Ef litið er á vísitölumynd hagstofunnar hér til hliðar, þá sést að samdráttur í landsframleiðslu Finnlands hófst í október 2008. Miðað við þann mánuð er landsframleiðsla fallin um ca 10,5%. Vísitalan á mynd hagstofunnar var stillt á 100 árið 2000. Samkvæmt henni hefur landsframleiðsla Finnlands vaxið um ca 12% á síðustu 10 árum. Þetta er þá ca. 1,2% vöxtur á ári síðustu 10 árin. Fallið í landsframleiðslu Finnlands ætlar að veðra mun meira en spá AGS gerir ráð fyrir; SF
Atvinnuleysi í Finnlandi er núna 8,9%. Atvinnuleysi Finnlands hefur ekki farið niður fyrir 7% frá árinu 2000 til 2009 nema á árunum 2007 og 2008 þegar það fór niður í 6,4% fyrir árið 2008 í heild. Frá árinu 2000 til 2005 var atvinnuleysi alltaf yfir 8% í Finnlandi (sjá mynd og PDF; Héraðsatvinnuleysi í ESB EES 1999 til 2008.pdf)
Meira um Finnland:
Atvinnuleysistölur Evrópusambandsins; desember 2009
Tölur yfir atvinnuleysi í löndum ESB hafa verið uppfærðar hér á þessu vefsetri. Mest mældist atvinnuleysi í desember í Lettlandi (22,8%), Spáni (19,5%) og þar á eftir koma Eistland, Litháen og Slóvakía og Írland með um og yfir 13-15% atvinnuleysi. Öll eru þetta evru- og myntbandalagslönd; Atvinnuleysi í ESB núna
Atvinnuleysi ungmenna undir 25 ára aldri mældist mest á Spáni (44,5%), Lettland (43,8%) og Slóvakíu (32,9%), öll þrjú myntbandalagslönd.
Mánudagur 8. febrúar 2010
Bankakerfi evrusvæðis í húfi?
Simon Johnson fyrrverandi aðalhagfræðingur AGS segir frá því á bloggsíðu sinni, Baseline Scenario, af hverju, að hans mati, AGS sé illa fallinn til þess að koma Grikklandi og jafnvel fleiri löndum evrusvæðis til aðstoðar á næstunni. Hann nefnir 8 ástæður sem gera AGS erfitt um vik í hugsanlegri glímu sjóðsins við vandamál landa evrusvæðis. Simon segir að ESB eigi á hættu að koma af stað nýrri heimskreppu. Hann telur einnig að kerfislega mikilvægustu hlutar bankakerfis myntbandalagsins séu nú í húfi, því skotfærageymslur ríkissjóða evrulanda séu tæmdar eftir fjármálakreppuna sem geisaði haustið 2008.
Another Lehman/AIG-type situation lurks somewhere on the European continent, and again our purported G7 (or even G20) leaders are slow to see the risk. And this time, given that they already used almost all their fiscal bullets, it will be considerably more difficult for governments to respond effectively when they do wake up.
Wyplosz sammála Johnson um bankakerfi evrusvæðis
Álit Simon Johnsons á því hversu bankakerfi evrusvæðis séu í mikilli hættu vegna vandamálanna í Grikklandi og Suður-Evrópu, svara að hluta til þess sem hagfræðingurinn Charles Wyplosz skrifaði í grein sinni "mín stóra feita gríska samsæriskenning" í Financial Times á föstudaginn. Þar segir Wyplosz að það að bjarga Grikklandi með peningainnspýtingu eða fjármagni jafngildi því að bjarga bankakerfi evrusvæðis í gegnum bakdyrnar. Ástæðan sé í raun sú að kerfislega mikilægir bankar evrusvæðis eigi ennþá eftir að afskrifa stóran hluta þeirra undirmálslánaeigna sem keyptar voru af Bandaríkjamönnum á undan förnum árum.
Þessir bankar (Þýskalands og Frakklands) eiga svo mikla gríska pappíra í klemmu að ef Grikkland fer niður með flaggið þá mun landið taka bankakerfi evrusvæðis með sér í fallinu. Frammámenn evrusvæðis hafa haft yfirgnótt af tíma til að leysa vandamálin, en bara ekki gert neitt nema horfa á. Ef farið verður út í grískar björgunaraðgerðir á vegum Evrópusambandsins þá mun Evrópusambandið og stjórnmálamenn þess verða grillaðir yfir eldi.
Simon Johnson segir ennfremur að ef ESB muni taka skrefið og biðja AGS um hjálp, þá mun það ef til vill verða síðasta skrefið í lífi Evrópusambandsins og frammámanna þess; Baseline Scenario | FT
Mín skoðun: hvenær verða gjaldeyrishöft sett í gildi á evrusæðinu? Í næstu viku? Kannski ekki, en allavega innan næstu 10 ára. Hér langar mig í leiðinni að benda á því sem næst skyldulesningu eftir Charles Wyplosz. Þetta er rit um tilurð myntbandalags Evrópusambandsins; European Monetary Union; the dark sides of a major success.pdf
Evrópusambandsherinn sem átti ekki að verða
Að sögn danska ríkisútvarpsins er varnarmálaráðherra Danmerkur, Søren Gade, "óður" vegna óska Þýskalands um vopnaðan her handa embættismönnum Evrópusambandsins. "Ákvörðunarvald um varnar og hermál okkar verður ekki sett í hendur utanríkisráðherra ESB, sem þar með fengi að ráða því hvar, hvenær og hvernig nota ætti herinn. Evrópusambandið mun ekki undir neinum kringumstæðum fá neitt um lif og limi danskra hermanna að segja". Søren segir ennfremur, "það var óttinn við Evrópusambandsherinn sem var orsökin fyrir því að við neyddust til að gera fyrirvara á þáttöku okkar í ESB".
Dönsku fyrirvararnir á þáttöku Danmerkur í Evrópusambandinu urðu til við málamiðlunarsamninga eftir að Danir sögðu nei við Maastricht-sáttmálanum og voru fyrirvarar þessir skjalfestir í Edinborgarsamkomulaginu (1992) og einnig færðir áfram inn í Nicesáttmálann (2003). Danmörk er því ekki þátttakandi í eftirfarandi málaflokkum:
1) Taka ekki þátt í ríkisborgaraskap Evrópusambandsins
2) Taka ekki þátt í þriðja fasa myntbandalagsins (evru)
3) Taka ekki þátt ákvörðunum og aðgerðum í varnarmálum
4) Taka ekki þátt í yfirríkislegu réttarfari né innri málum.
Søren Gade segir að boðskapurinn frá Þýskalandi um Evrópusambandsherinn muni virka eins og eitur í beinum Dana þegar loksins á að fara að ræða um það hvort Danmörk eigi að leggja niður þessa fjóra fyrirvara á þáttöku Danmerkur í Evrópusambandinu eða ekki. En það hefur lengi verið ósk dönsku ríkisstjórnarinnar að þessir fyrirvarar verði afnumdir. Röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar hefur verið sú að það væri ekkert að óttast, engan her og ekkert hitt og þetta væri að óttast, "klokken tolv og alt er vel". En nú er sem sagt ekki allt vel lengur; DR
Mín skoðun: Þetta, ESB-herinn, er eitt af því sem átti ekki að "geta gerst" í ESB, en sem samt er að gerast. Þá verður þeim sem sagt var að þetta gæti ekki gerst, sagt að þetta sé að gerast og ekkert við því hægt að gera lengur. Þetta er hin venjulega yfirdráttarheimild sem alltaf er farið frammúr í stjórnlausum skriffinnaveldum. Svona hefur þetta gengið fyrir sig öll árin hjá Evrópusambandinu. Alltaf er farið fram úr því sem ESB hafi umboð kjósenda til að verða. Nú er ekkert annað hægt að gera en að hækka yfirdráttinn, því annars er ekki hægt að borga neitt og ekki er hægt að vinda ofan af neinu því þá hrynur allt.
Bankamenn kannast vel við þetta. "Ef þú hækkar ekki yfirdrátt minn hjá ykkur þá fer ég bara á hausinn og það er þér að kenna." Best er að nota viðsjárverða tíma til að kýla yfirdráttinn í botn, því þá þora nefnilega svo fáir að segja nei. Í næstu kosningum færðu möguleika á því að segja já við yfirdrættinum sem þegar hefur farið fram. Eins og allir vita þá tekur ESB ekki nei sem gilt svar. Ef það kemur nei, þá er bara kosið aftur.
Að ganga í ESB er allt örðuvísi en að taka stökk eða bara gera "eitthvað í sínum málum". Það er best hægt að líkja því við að panta sér 10 ára tíma hjá tannlækni sem svo dregur úr manni flestar tennurnar á þessum 10 árum. Hægt, en bítandi, eru tennurnar dregnar út þér. Þar sem þú heitir ekki Þýskaland eða Frakkland þá færðu enga deyfingu þar sem svíður mest. En tannlaus verður þú smá saman. Það er ekki hægt að setja gömlu tennurnar í aftur ef þú sérð eftir þeim seinna.
Þegar þú svo ert orðinn tannlaus, þá magnast öll vandamál þjóðarinnar vegna þess að sjálfstæðar litlar þjóðir þola ekki að missa flugbeittar tennur frelsis, sjálfsákvörðunarréttar og fullveldis. ESB mun aldrei geta skaffað þér gömlu tennurnar aftur eða komið í stað þeirra gömlu sem bitu svo vel. Það verður alltaf hálft bit.
En þá munt þú bara biðja Brussel um mjúka fæðu og sleikja þann grautarvelling sem þaðan mun út leka til smábarnanna í norðri sem héldu eitt slæmt andartak að ESB væri lausn vandamála þeirra. Þá verða börnin nú þakklát og kyssa sleifina - tannlaust.
SKJALASAFN STUTTRA OG OFT DAGLEGRA FRÉTTA