Um vefsetrið

Sólarlag við tá Tröllaskaga við Siglufjörð

Fullt nafn mitt er Gunnar Albert Rögnvaldsson. Ég fæddist árið 1956 á Siglufirði og ólst upp í þeim einstaka bæ fram að 12 ára aldri. Foreldar mínir — Rögnvaldur Rögnvaldsson vörubílstjóri (F 73) og síðar vagnstjóri Strætisvagna Kópavogs og Guðrún Albertsdóttir formaður verkakvennafélagsins Vöku og síðar gjaldkeri endurskoðunarskrifstofu N. Mancher & Co — ég og þrjár systur mínar, Anna fiðluleikari, Þórdís myndlistarkona og Þorbjörg síðar skrifstofumaður og landsliðsleikmaður í blaki, fluttum suður til Kópavogs árið 1968, en þá var komið atvinnuleysi því síldin á Siglufirði hvarf og þjóðin missti stóran hluta þjóðartekna sinna.

Ég byrjaði snemma "að fara í sveit" og þá í torfbæ að Syðri-Reykjum í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu og seinna á nýtískulegu stórbýli að Bjarnargili í Fljótum í Skagafirði. Þannig kynntist ég bæði "gamla" og "nýja" tímanum. Ég vann á sumrin í byggingarvinnu frá 14 ára aldri og lærði síðan múrvek í Kópavogi á táningaárum mínum. Seinna, eftir frekari undirbúningsnám, flutti ég ásamt konu minni, Sigrúnu Guttormsóttur Þormar og dóttur okkar, til hagfræðináms við háskólann í Árósum. Ég lauk ekki námi heldur fór út í atvinnurekstur í Danmörku og hef stundað hann síðan. Fyrstu 12 árin á fjarverslunarsviði smásölugeirans og frá og með árinu 2001 hef ég starfrækt eigið ráðgjafafyrirtæki.

Við Sigrún eigum tvö uppkomin börn: Valdísi, þjóðhagfræðing frá Århus Universitet og Sorbonne í París og sem starfar nú hjá Accenture, hinu alþjóðlega ráðgjafafyrirtæki - og Gunnar Freyr, endurskoðanda frá CBS Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar og sem starfaði hjá Price Waterhouse Coopers í sömu borg þar til Ísland tók hann heim. Sigrún kona mín er einnig hagfræðingur og rekur eigið fyrirtæki - svo hægt er ímynda sér hvað rætt er um við kvöldmatarborðið - og ég tek fram að það eru ekki alltaf allir sammála um allt.

Árið 2010 var viðburðaríkt fyrir okkur Sigrúnu. Börnin voru orðin því sem næst fullorðin og uppeldishlutverki okkar var að mestu lokið. En það mun þó vonandi aldrei hætta alveg. Við vorum að verða óþörf og það er einungis gott merki árangurs.

Því gátum við hugsað við okkur til hreyfings aftur, ég og Sigrún, og já, langþráð stefnan var tekin til Íslands með vorskipum árið 2010, með allt okkar hafurtask og fyrirtæki í lestinni. Þetta var mjög kærkomið og lögnu tímabært eftir 25 ára fjarveru.

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "samfélagsvefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á bloggsíðu minni í bloggkerfi Morgunblaðsins (blog.is) og í blöðum og tímaritum.

Einungis fullt sjálfstæði mun ala af sér þá nauðsynlegu sjálfsbjargarviðleitni og sjálfsábyrgð sem er forsenda frelsis, velmegunar og fullveldis. Vöðvar frelsisins verða að vera virkir, þeir þola ekki spennitreyjur, því þá visna þeir. Frelsið þarf því að iðka af fullum krafti - það er vöðvabúnt heilans og okkar dýrmætasta auðlindÞví langar mig að legga mitt af mörkum til að Ísland megi vera fullvalda og sjálfstætt ríki áfram. Ég óttast að verið sé að markaðsfæra ESB á Íslandi á svipaðan hátt og reynt var að markaðsfæra hin nú hrundu Sovétríki á Íslandi fyrr á tímum, eða sem hamingjunnar paradís. Allir vita núna hvernig var á bak við tjöldin þar

Nokkrar greinar

Frá Þjóðmálum

Frá AMX.IS

Nýja Argentína er í ESB og heitir að minnsta kosti Lettland

Nokkrir pistlar

Nokkrir valdir pistlar frá moggabloggi mínu, tengdar málefnum ESB og Íslands

Siglufjörður að kvöldi 27. desember 2009. Vefmyndavél siglo.is