Bretland óverðugt í evru?
Post date: Jan 09, 2009 5:18:20 AM
Bretland óverðugt í evru?
Stjórnarmeðlimur seðlabanka evru, Lorenzo Bini Smaghi, segir að Bretland geti ekki gengið sem evruland því breska Sterlingspundið, elsta mynt sem er í notkun í heiminum í dag, sé of óstöðugur gjaldmiðill og að halli á ríkisútgjöldum breska konungsdæmisins sé of mikill.
"Halli á ríkisútgjöldum mun nema 6% af landsframleiðslu Bretlands á þessu ári og verða jafnvel enn hærri árið 2010. Gengi breska pundsins er heldur ekki nógu stöðugt" sagði Lorenzo Bini Smaghi í viðtali við ítalska dagblaðið La Repubblica
Breski fréttaritarinn Ambrose Evans-Pritchard segir að Lorenzo Bini Smaghi sé of vingjarnlegur í garð Bretlands því hallinn á ríkisútgjöldum Bretlands verði jafnvel ennþá meiri samkvæmt mati breska fjármálaráðuneytisins, eða um 8% af VLF og að það séu líkur á að jafnvel sú tala verði of lág því skattatekjur breska ríkisins munu falla mikið og auka samdráttinn í VLF enn frekar. Sumir greinendur spá jafnvel 10% halla á ríkisútgjöldunum.
Lorenzo Bini Smaghi er einnig óhress með að lönd utan evrusvæðis, aðallega þau engilsaxnesku, noti skammstöfunina P.I.G.S yfir þau lönd evrusvæðis sem sem eiga í alvarlegum efnahagsörðugleikum innan í evrusvæðinu. "Þetta er ekki sú skammstöfun sem við notum hér á evrusvæðinu", sagði Lorenzo Bini Smaghi. En P.I.G.S er skammstöfun yfir löndin Portúgal, Ítalíu, Grikkland og Spán. Nýverið hefur þó þessi skammstöfun engilsaxa breytst úr P.I.G.S og í P.I.I.G.S því Írlandi hefur nú verið bætt í hópinn. Því nota þeir núna skammstöfunina P.I.I.G.S yfir þessi lönd.
Það lítur því út fyrir að Bretar séu nokkuð óhultir með sitt gamla pund í bili og að fjórðungur af útflutningstekjum evulanda þurfi að leita sér að nýjum útflutningsmarkaði sem getur borgað meira miðað við hið háa gengi myntar evrulanda - ellegar sætta sig við lægra verð útflutnings til Bretlands.